Færsluflokkur: Bloggar
3.3.2009 | 22:39
Frænku og handavinnusýning - taka tvö
Frænkur mínar tvær hafa vaxið og dafnað vel síðan ég flutti seinast fréttir af þeim fyrir þremur vikum. Þær hafa báðar náð u.þ.b. 2500g og braggast vel.
Áætlaður fæðingardagur þeirra var 6. apríl miðað við fulla meðgöngu. Upphaflega var gert ráð fyrir að þær færu ekki heim fyrr en um áætlaðan fæðingardag en þar sem allt gengur vel getur vel farið svo að heimferð verði fyrr.
Ég hef nýtt þessar vikur til að ljúka því sem ég setti mér fyrir í prjónaskap. Peysur og sokkar voru tilbúin seinast en nú hafa bæst við húfur, buxur og vettlingar.
Í tilefni þessa fór ég í gær í dúkkuleik og fékk að klæða dömurnar í múnderinguna.
Alexandra Ásta er til vinstri en Bjarndís Erla til hægri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.3.2009 | 22:00
Íþyngjandi eftirlit
Birt hafa verið drög endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins um hvað flokkurinn hefði getað gert betur á undanförnum árum. Við lauslega yfirferð sýnist mér að nefndin hafi verið mjög sjálfsgagnrýnin og fátt í þessum drögum sem samræmist stefnu eða gerðum flokksins á undanförnum árum.
Eitt augnablik óttaðist ég að með þessu myndi flokkurinn ná sér í fylgi út á gagnrýni á eigin verk og þetta myndi ná því að vera e.k. uppgjör við fortíðina.
Það varð mér því mikið gleðiefni að heyra í formanninum í kvöldfréttum RUV í kvöld:
"Þetta eru aðeins drög frá litlum hópi manna.........þeir bera sjálfir ábyrgð á sínum skrifum......tala ekki í nafni flokksins...........endurreisnarnefndinni er ætlað að líta til framtíðar............aðrir eru að glíma við það að finna hvað fór úrskeiðis á undanförnum mánuðum og árum.......flokkurinn muni gera upp við fortíðina......það sé ekki verkefni endurreisnarnefndarinnar....stefna flokksins um að lögbundið eftirlit mætti ekki íþyngja fyrirtækjum var ekki brotalöm......það var auðvitað eðlilegt að íþyngja ekki atvinnulífinu með kostnaði í tengslum við eftirlit.........það var ekki frelsisvæðingin sem fór með okkur.........heldur hvernig menn fóru með frelsið........."
Æi, elsku kallinn minn.
Skv skilningi Geirs var það hvernig menn fóru með frelsið vandinn, ekki frelsið sjálft. Samt mátti alls ekki hafa eftirlit með því hvernig með frelsið var farið.
Ef hægt er að fara með frelsið þannig að annar eða þriðji aðili beri skaða af, þá er full ástæða til að hafa eftirlitskerfi.
Þannig er það bara kæri Geir, við verðum bara að horfast í augu við það að við höfum ekki þroska fyrir frelsi, við erum bara of gráðug.
Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á landsfundi árið 2007 eftirfarandi:
Hið opinbera þarf stöðugt að huga að því að lögbundið eftirlitskerfi verði ekki of íþyngjandi fyrir atvinnulífið og þarf að gæta þess að gera ekki óþarfar kröfur til atvinnulífsins og taka ekki upp meira regluverk en nauðsyn krefur.
Ef flokkurinn gerir sér ekki grein fyrir að í þessu er fólgin uppskrift af misnotkun á frelsinu þá hefur hann ekkert lært.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 18:34
Á morgun er nýr dagur............dagur án "þú veist hvern ég meina"
Við höfum flest fengið nóg af umræðunni um "þú veist hvern".
Á morgun er nýr dagur.............dagur án hans.
Dagur án þess að umræðan snúist um hvað hann sagði...........sagði ekki, gerði......gerði ekki.
Morgundagurinn er einnig fyrsti dagurinn síðan 1982 án þess að hann hafi viðamikil völd í okkar samfélagi.
Ég hlakka til morgundagsins og daganna sem á eftir koma. Ég er að verða bjartsýn. Ég hef mikla trú á samstarfi vinstri flokkanna. Ég hlakka til nýrra tíma með þessa flokka í forystu í okkar þjóðfélagi.
Þjóðfélagi án "þú veist hvern ég meina".
Þjóðfélagi með nýjum gildum þar sem græðgi verður úti en félagshyggja og samhjálp inni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2009 | 17:24
Nýi Framsóknarflokkurinn
Sigmundur Davíð nýkrýndur formaður Framsóknarflokksins kvartar undan skipulagðri áróðursherferð á hendur sér.
Eiginkona Sigmundar á eignir sem eru tilkomnar sem hennar hlutur í gömlu fjölskyldufyrirtæki. Ekki ætla ég að hafa það á móti þeim. Að sögn Sigmundar er þetta uppistaðan í eignum þeirra hjóna. Gott og vel.
Það sem Sigmundur á hins vegar alveg eftir að gera okkur grein fyrir, er afstaða hans til sölu ríkisins á eignum þess til útvalinna einstaklinga tengdum bæði Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki. Því miður fyrir Sigmund kemur nafn föður hans þar upp.
Vissulega á Sigmundur ekki sjálfkrafa að gjalda föður síns en það er sjálfsögð krafa kjósenda þessa lands að afstaða hans og flokksins í heild til þessara eignatilfærslna sé ljós.
Treysti Sigmundur og "Nýi Framsóknarflokkurinn" sér ekki til að fordæma þessa gjörninga er tómt mál að tala um breytingar á þeim bænum.
Sjálf er ég alin upp við samvinnuhugsjónina og er enn þann dag í dag veik fyrir henni. Eftir að hafa horft upp á þann stjórnmálaflokk sem helst hefur kennt sig við þessa hugsjón, stela eignum sem safnast hafa saman eins og "fé án hirðis" og koma í hendur valinna einstaklinga, þá þarf meira til en að flokkurinn komi fram með nýtt andlit rétt fyrir kosningar til að ég trúi að eitthvað hafi breyst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2009 | 21:37
Tryggingafélög
Kastljós sjónvarpsins fjallaði í kvöld um ranglátt kerfi tryggingabóta frá tryggingafélögum í kjölfar hörmulegs slyss þegar ungur drengur lamaðist neðan mittis og systir hans lést.
Vegna ákvæðis í skaðabótalögum dregst frá tryggingabótum tryggingafélagsins þær greiðslur sem áætlað er að drengurinn fái eftir 18. ára aldur frá Tryggingastofnun ríkisins. Allar greiðslur eru miðaðar við lágmarkslaun. Já takið eftir lágmarkslaun, ekki meðallaun verkamanna og ekki meðallaun í landinu. Það er ákveðið með lögum að einstaklingar sem örkumlast með þessum hætti eigi ekki kost á meiru en því allra lægsta sem gerist í okkar samfélagi.
Þessir einstaklingar eru dæmdir til fátæktar.
Rökin eru þau að fólk á ekki að græða á því að lenda í slysum.
Faðir barnanna lýsti jafnframt því að bætur sem hann taldi sig eiga rétt á skv tryggingu vegna fráfalls stúlkunnar fékk hann ekki þar sem undanskilið var í tryggingaskilmálum að þær ættu ekki við ef um væri að ræða dauðsfall af völdum vélknúins ökutækis.
Vegir trygginganna eru órannsakanlegir. Þú ert tryggður fyrir öllu nema tjóni var eitt sinn sagt á mínu heimili. Ein af mínum fyrstu bloggfærslum fjallaði einmitt um þetta atriði.
Upphafleg hugsun tryggingakerfisins er sá að við erum með iðgjöldum okkar að leggja fyrir fjármuni sem munu nýtast okkur eða öðrum sem lenda í áföllum. Tryggingafélög sem slík ættu því ekki að vera gróðafyrirtæki, heldur tæki til samhjálpar.
Því miður hafa tryggingafélög orðið "gróðavæðingunni" að bráð og markmið þeirra er að skila hagnaði til eigenda fremur en að bæta tjónþolum sitt tjón.
Höfum það í huga þegar verið er að selja okkur nýjar tryggingar, lesum smáa letrið.
Ég skora jafnframt á löggjafann að endurskoða skaðabótalöggjöfina þannig að viðmiðunarupphæð í tilvikum eins og fjallað var um í kvöld sé nær eðlilegum tekjum, ekki lágmarkslaun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.2.2009 | 19:51
Að kaupa sér syndaaflausn
Ótrúlegir fjármunir hafa safnast á fárra manna hendur nú seinustu ár. Dæmi eru um að þessa menn nagi samviskan.
Einn mætti í Kastljós sjónvarpsins á dögunum og var ekki laust við að mætti greina samviskubit.
Annar hefur stofnað velgjörðasjóð. Í stjórn þess sjóðs er svo þriðji maðurinn sem rakað hefur að sér ótrúlegum upphæðum.
Það er hins vegar ekki hægt að kaupa sér syndaaflausn. Allra síst með því að standa í auglýsingum á því samhliða.
Ég vil hins vegar benda þessum mönnum á að það er hægt að gerast sjálfboðaliði hjá t.d. Rauða Krossinum hér á Íslandi. Það er meira að segja hægt að gera það án þess að láta taka mynd af sér í blöðunum. Þannig geta þeir kynnst Íslendingum á Íslandi í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2009 | 18:26
Frænku- og handavinnusýning
Talandi um föt. Ég hef setið við eins og gamalli móðursystur sæmir og prjónað. Peysur, húfur, sokka hef ég lokið við en áætlunin hljóðar upp á vettlinga og buxur til viðbótar.
Þar sem dömurnar geta farið í föt þá brá ég mér í dúkkuleik í dag og módelin mátuðu handavinnuna.
Alexandra er til vinstri en Bjarndís til hægri. Nú er Alexandra ca 1700g (hún fæddist 1260g) en Bjarndís ca 1500g (hún fæddist 1190g).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
9.2.2009 | 20:57
Svarið fæst í kosningum í vor
Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hrökklaðist frá völdum fyrir viku síðan óttaðist ég mjög að þeir næðu vopnum sínum og myndu slá ryki í augu kjósenda á komandi vikum. Pólitískt minni kjósenda er svo ótrúlega stutt og það var strax ljóst að ekki átti að slá slöku við í áróðrinum.
Eftir lestur á ritsnilld Davíðs Oddsonar sem birt er á heimasíðu Seðlabanka Íslands og ber yfirskriftina "Bréf formanns bankastjórnar til forsætisráðherra", er ég ekki alveg viss um að við þurfum að óttast þennan stjórnmálaflokk sem kennir sig við sjálfstæði, eins og ég áður taldi.
Það sem kallað er bréf til forsætisráðherra minnir meira á bloggfærslu en formlegt bréf frá einum æðsta embættismanns þjóðarinnar. Stíllinn minnir á skólakrakka í fýlu.
Það er spennandi svo ekki sé meira sagt að fylgjast með hverjir, hvernig og hversu ákaft menn treysta sér til að verja formann bankaráðs Seðlabankans.
Enn áhugaverðara verður að fylgjast með viðbrögðum almennings. Hversu auðtrúa er fólk á þann áróður sem Sjálfstæðisflokkurinn mun beita í þessu máli?
Svarið fæst í kosningunum í vor.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2009 | 17:18
Morgunblaðið á sunnudegi
Í dag sunnudaginn 8. febrúar fer Morgunblaðið á kostum. Gæti ég tekið fyrir nokkrar fréttir og greinar þar sem ýmist greinarhöfundar eða viðmælendur hemja sig ekki af gremju yfir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi hrökklast frá völdum.
Staksteinar fjalla um ljósmyndara Morgunblaðsins sem skv. Fréttablaðinu nýlega selur lögreglu ljósmyndir sínar. Morgunblaðið segir þetta sérlega duglegan starfsmann sem yfirleitt sér fyrstur á vettvang og nái því mikilvægum myndum. Þetta geti ljósmyndarinn þar sem hann hafi komið sér upp mikilvægum samböndum. Orðrétt segir Mogginn: "Hann er ekki ræstur út til að mynda á meðan öðrum fjölmiðlum eru ekki veittar upplýsingar, eins og ritstjóri Fréttablaðsins segir í blaði sínu í gær. En hann hefur betri sambönd en aðrir".
Jahá, hann er ekki ræstur út, hefur einfaldlega góð sambönd. Hver er munurinn?
Agnes Bragadóttir fjallar á bls 10 um "Heilaga Jóhönnu í ham". Geðvonska Agnesar skín skemmtilega í gegn í þessum pistli að það er unun að lesa.
Agnes gerir einnig úttekt á umsvifum Lúðvíks Bergvinssonar. Ekki ætla ég að leggja mat á viðskipti þingmannsins, en mér virðist Agnes helst hafa það á hann að skuldir fasteignafélags sem Lúðvík á hlut í séu hærri en eignir. Það má vel vera að eitthvað megi finna meira á Lúðvík en ekki kemur það fram í greininni en ansi er ég hrædd um að þetta eigi við um mörg fyrirtæki í landinu.
Annars á Agnes heiður skilinn fyrir að hefja umfjöllun um fjármálaumsvif þingmanna. Ég bíð spennt eftir að sjá umfjöllun hennar um Árna Matthíssen, Þorgerði Katrínu (og eiginmanns hennar) og svo erfðaprinsinn Bjarna Benediktsson.
Það er af nógu að taka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.2.2009 | 00:25
Íþyngjandi eftirlitskerfi
Áróður stuttbuxnaliðsins er byrjaður. Nú halda þeir því fram að það hafi ekki verið skortur á regluverki sem kom okkur á kaldan klakann. Auglýsingar um það eru birtar í fjölmiðlum í dag.
Eigum við að trúa því að við hefðum verið betur stödd með enn minna regluverk?
Ég vil minna á samþykkt seinasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins:
Hið opinbera þarf stöðugt að huga að því að lögbundið eftirlitskerfi verði ekki of íþyngjandi fyrir atvinnulífið og þarf að gæta þess að gera ekki óþarfar kröfur til atvinnulífsins og taka ekki upp meira regluverk en nauðsyn krefur. Þá skal lögð áhersla á að eftirlit verði eftir því sem kostur er í höndum einkaaðila, meðal annars með því að fyrirtæki njóti innra eftirlits. Það að ákvörðunarvald um hvaða kröfur skuli gerðar liggi hjá hinu opinbera, þarf ekki að þýða að ríkið þurfi sjálft að hafa allt eftirlitið með höndum.
Skyldu þeir hjá Andríki kannast við þessa ályktun og trúa því ennþá að eftirlitskerfi okkar hafi verið "of íþyngjandi"?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)