Færsluflokkur: Bloggar

Hinir raunverulegu glæpónar

Fjármálaeftirlitið hefur loks áttað sig á hverjir eru glæpamenn Íslands. Það eru auðvitað blaðamennirnir Agnes Bragadóttir og Þorbjörn Þórðarson, ritstjóri Eyjunnar Guðmundur Magnússon og sjónvarpsmaðurinn Kristinn Hrafnsson.

Þessir aðilar hafa að mati FME brotið bankaleynd og það geti varðað sektum eða fangelsi.

Vissulega ber að taka á brotum hvers eðlis sem þau kunna að vera. En skýtur það ekki skökku við að þetta sé það helsta sem við heyrum um ábendingar frá FME um brot í fjármálaheiminum? Talað hefur verið um tregðu FME til að veita sérstökum saksóknara upplýsingar.

Einhvern veginn finnst mér þetta ekki verstu glæpirnir þessa dagana.


Ó, kæra króna

Við búum við gjaldmiðil sem við viljum ekki einu sinni sjálf eiga. Ekki einu sinni landsfundur Sjálfstæðisflokksins reynir að andmæla því:

Peningamálastefnuna verður að endurskoða. ................. Ákvarðanir um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála verður hins vegar að taka af mikilli yfirvegun eftir gaumgæfilega skoðun á öllum möguleikum. Lagt er til að vinna við endurskoðun á gjaldmiðli landsins hefjist strax og ljúki á árinu.

Það er algerlega brilljant nú 6 mánuðum eftir bankahrun að halda landsfund og stinga upp á endurskoðun á gjaldmiðilsmálum......og semja ályktun um að byrja strax og ljúka endurskoðun á þessu ári.

Á sama landsfundi kom fram að endurskoðað hagsmunamat skilaði niðurstöðu um að innganga í Evrópusambandið þjónaði ekki íslenskum hagsmunum.

Gleymdu Sjálfstæðismenn að taka tillit til gjaldmiðilskreppunnar við þetta endurskoðaða hagsmunamat?

Samkvæmt ályktuninni hér að ofan eiga þeir alveg eftir að marka sér peningamálastefnu.

Athyglisvert.


Að búa til peninga

Á tímum bankaútrásarinnar trúðum við flest að bankarnir okkar væru að græða peninga. Já, að með einum eða öðrum hætti yrðu miklir fjármunir til með einhverjum undarlegum hætti í meðferð þessara galdramanna sem unnu þarna.

Peningarnir urðu til í bönkunum. Það bara hlaut að vera.

Við trúðum að peningarnir yrðu til úr engu.

Svo hrundi spilaborgin. Þetta reyndist loftbóla og peningarnir sem við héldum að væru til breyttust í skuldir. Skuldir sem við sauðsvartur almenningurinn berum einhvern veginn ábyrgð á.

Okkar prívat skuldir vaxa í verðbólgunni með verðtryggingunni eða í formi gengistryggðra lána. Þar til viðbótar hefur ríkið tekið yfir gríðarlegar skuldbindingar (Icesave), já og svo er það lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum. Svona mætti lengi telja.

Nú á að plata okkur aftur. Láta lánin okkar hverfa.

Framsóknarflokkurinn býður upp á 20% niðurfellingu lána. Tryggvi Þór Herbertsson talar af miklum fjálgleik einnig um þessa leið. Lilja Mósesdóttir býður betur, 4 milljóna króna niðurfelling til allra heimila.

Höfum við ekkert lært? Á aftur að láta okkur trúa því að peningar verði til úr engu?

Ég vil að okkur sé sagt satt, að við séum í svo djúpum að það séu ekki til töfralausnir.

Ég hafna alfarið stjórnmálamönnum sem taka þátt í svona yfirboðum og frábið mér slíkt lýðskrum.


Og salurinn klappaði og hló

"Þú veist hver" hélt ræðu.

Enn hefur hann dáleiðsluvald yfir hjörðinni. 

Hæddist að andstæðingum og einnig samherjum í stjórnmálum.

Upphóf sjálfan sig, hagræddi sannleikanum.

Ég varaði við, ég vildi dreifða eignaraðild..........

Mér er alveg sama hvað hann varaði oft við, mér er líka sama hvort hann á einhverjum tíma vildi dreifða eignaraðild. Mér er líka sama hvort Ásta Ragnheiður sagði að hún teldi það erfitt í framkvæmd.

Það sem skiptir máli er hvað "þú veist hver" gerði eða réttara sagt gerði EKKI.

Við vitum það.

Ræðan sjálf kom í sjálfu sér ekki á óvart, hún var í takt við veruleikafirringu flytjandans. Það sem kom á óvart voru viðbrögð viðstaddra. 

Salurinn dáir enn "þú veist hver" og hlær taugaveikluðum hlátri og klappar eftir pöntun.

Þetta er verðugt  rannsóknarefni í sálfræði.

Hægt er að sjá ræðuna á síðu Láru Hönnu.

PS. Þessi færsla fjölgar ekki þeim síðum sem koma upp á Google ef raunverulegu nafni "þú veist hver" er slegið upp.


Fjórar millur í minn vasa er sóun á almannafé

Í kastljósi kvöldsins var fjallað um hugmyndir Lilju Mósesdóttur frambjóðanda VG um niðurfærslu skulda um 4 milljónir á hvert heimili. Lilja mætti og reyndi að útskýra þetta fyrir okkur.

Ég sat og reyndi að meðtaka boðskapinn og gapti af undrun.

Undrun mín var tilkomin vegna þess að ég hafði hingað til talið vinstri stjórnmál snúast um að jafna aðstöðu fólks, þannig að gæðum þjóðfélagsins væri jafnar skipt.

Ég keypti mitt núverandi húsnæði í febrúar 1998. Þá var fasteignaverð í algeru lágmarki. Við hjónin höfðum verið aðhaldssöm og greitt niður lán á fyrra húsnæði og áttum því fína innborgun og vorum því ekki mjög skuldsett á þeim tíma miðað við hvað tíðkast í dag. Síðan höfum við greitt enn meira niður af lánunum. Þetta þýðir að skuldir okkar eru ekki miklar í dag. Tekjur okkar eru einnig þokkalegar og ekki fyrirsjáanlegt að bankahrunið hafi áhrif á innkomu þó kaupmáttur rýrni á sama hátt og almennt gerist.

Hvað á það að þýða að afhenda okkur sem ekkert höfum með það að gera, 4 milljónir af almannafé?

Hvernig getur slík sóun á almannafé fallið undir þá hugsun vinstri manna að nota sameiginlega sjóði okkar til að jafna aðstöðu fólks?

Stóra spurningin er svo náttúrulega hvaðan þessir fjármunir eiga að koma, því hef ég ekki náð.

Ég var algerlega gáttuð yfir hugmyndum Framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda til allra og taldi mig lítið þurfa á slíkri aðgerð að halda. Þessi leið Lilju gefur mér hærri upphæð í minn vasa og er því enn fráleitari.


Stakkhamarsstelpurnar

Við systurnar á Stakkhamri höfum verið kallaðar Stakkhamarsstelpurnar. Svona litu Stakkhamarstelpurnar út fyrir örfáum árum:

Scan10024 

En heimurinn breytist og mennirnir með. Nú eru komnar nýjar Stakkhamarsstelpur. Með trega afhendi ég viðurnefnið til þeirra Alexöndru Ástu og Bjarndísar Erlu.

Dömurnar eru komnar heim að Stakkhamri eftir nokkurra daga viðdvöl hjá gamalli móðursystur að Barðaströndinni.

Svona líta Stakkhamarsstelpurnar út í dag:

IMG_7700

Þetta er frábær áfangi í þeirra stutta lífi og við skulum muna að það er alls ekki sjálfgefið hversu vel þetta hefur þó gengið.

Þó ég með trega afhendi viðurnefnið þá unni ég þessum litlu gullmolum þess og hlakka til að sjá þær sulla í læknum, drullumalla í búinu og ríða út um fjörurnar.

Ég óska þessum frænkum mínum og foreldrunum gæfu og góðs gengis í framtíðinni.


Nýjasta dellan

Ég hef áður játað á mig að vera dellukelling.

Nýjasta dellan eru gönguskíði. Ég keypti mér vegleg utanbrautaskíði fyrir ári og er himinlifandi yfir fjárfestingunni. Það er algerlega frábært að taka rúnt á þessum græjum.

Nú í vikunni skráði ég mig í ferð um páskana. Ferðin er með Útivist og heitir Sóleyjarhöfði - Kerlingarfjöll. Farið er yfir Þjórsá, um Þjórsárver og yfir í Kerlingarfjöll, tveggja daga ferð.

Bera þarf með sér svefnpoka og mat en gist í skála.

Ég hef hafið æfingar og þegar farið nokkrar ferðir á gönguskíðin. Tilhlökkun mín er mikil. Ég er enn ein í ferðafélaginu en mér er alveg sama, þetta er svo skemmtilegt að ég þarf ekki félagsskap. Tek þó fram að ég tek öllum ferðafélögum fagnandi.

Myndin hér að neðan er úr nýlegri æfingaferð um Bláfjallasvæðið. Ég fer gjarnan töluvert út fyrir brautirnar enda eru þær ávallt um sömu slóðir og hægt að fá nóg af þeim rúnti.

IMG_7644


Langefst í huga

Yfirskrift þessarar síðu er "Efst í huga". Ég játa hér með að ég hef seinustu mánuði ekki verið sjálfri mér samkvæm og ekki skrifað það sem mér hefur verið langefst í huga.

Langefst í huga mér hefur verið grunur minn um stórfellt uppvask á erlendum peningum í íslenskum bönkum. Ég hef gengið ansi langt í að búa til samsæriskenningar í huganum og dottið í hug að misferlið gangi lengra inn í stjórnkerfið og embættismannakerfið en við viljum vita af. Ég hef verið svo heltekin af þessum hugleiðingum mínum að fjölskylda, vinir og vinnufélagar hafa miskunnarlaust flissað að mér, bæði leynt og ljóst. Ég hef látið það mér í léttu rúmi liggja og hugsað með mér: "vonandi hef ég rangt fyrir mér, en sjáum samt til".

Þeim fjölgar stöðugt sem viðurkenna að vera hættir að hlægja að mér.

Ég ítreka að alls óvíst er um sannleiksgildi þessa. Því hef ég ekki viljað gaspra mikið um þetta opinberlega.

Það voru mikil tíðindi og gleðileg að Eva Joly taki vel í að leggja okkur lið í rannsókn á efnahagsbrotum tengdum íslensku viðskiptalífi. Í fyrsta skiptið frá bankahruninu fékk ég trú á að mögulega náist í skottið á einhverjum sem bera ábyrgð á vafasömum viðskiptaháttum.

Ég horfði aftur á viðtalið við hana í Silfri Egils og það er algert skylduáhorf. Ég mæli með að áhorfendur hlusti ekki aðeins heldur lesi líka í svip hennar. Hún segir margt í viðtalinu en þar er líka margt ósagt. Veitið einnig athygli orðum hennar um að stjórnvöld í Þýskalandi og Bretlandi hafi stöðvað rannsóknir þrátt fyrir ótvíræð sönnunargögn um ólöglega gjörninga í viðskiptum. Stjórnkerfið og viðskiptalífið er samtvinnað og það er passað upp á að ekki sé gengið of nærri viðskiptajöfrunum. 

Það voru einnig mikil tíðindi að þriggja manna rannsóknanefnd um orsakir bankahrunsins óski eftir gögnum innan úr bönkunum um möguleg óeðlilega fyrirgreiðslu fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna.

Kannski er von.

Það er tómt mál að tala um ró meðal íslensks almennings fyrr en þessi mál komast á hreint. Það má hins vegar búast við að þetta taki tíma og að gríðarlegir fjármunir hafi glatast.


Rússneskt uppvask

Eins og ég hef áður upplýst hér á þessari síðu varð ég strax í haust tortryggin á allt tal um stórlán frá Rússum. Mér fannst einnig einkennilegar yfirlýsingar þáverandi forsætisráðherra að þannig væri komið fyrir okkur að við þyrftum að leita nýrra vina ("one has to look for new friends"). Að Rússar væru líklegastir til að verða nýju vinirnir fannst mér ekki lofa góðu. Fannst það minna meira á varnaðarorð forvarnarspekúlantanna sem benda á að þegar unglingurinn er hættur að vera með gömlu góðu vinunum og farinn að leita eftir félagsskap annarra með vafasama fortíð þá bendi það til að eitthvað grunsamlegt sé í gangi.

Nokkur atriði kveiktu öðrum frekar á grunsemdum mínum:

  • Norðurlandaþjóðirnar virtust eftir bankahrunið mjög tregar í lánsloforðayfirlýsingum. Í þessum löndum furðuðu menn sig á vexti og kaupgetu íslensku útrásarvíkinganna. Við höfðum látið þetta sem vind um eyru þjóta og afgreitt sem öfund.
  • Þegar öll sund virtust lokuð og öll ríki vesturlanda virtust hafa snúið við okkur baki þá tóku Rússar því líklega að lána okkur, hvernig mátti það vera? Hverjir voru hagsmunir þeirra?
  • Þar sem ég velti fyrir mér rússneskum hagsmunum þá rifjaðist upp fyrir mér sagan um hvernig kaupendur Landsbankans urðu ríkir í Rússlandi. Pútín var víst borgarstjóri í Pétursborg á þeim tíma. Yfirlýsing Geirs Haarde um að honum fyndist gott að fá sér kaffibolla með þessum sömu eigendum þegar þeir væru á landinu fannst mér ekki lofa góðu.
  • Fregnir um lífverði helstu ráðamanna í kringum bankahrunið fannst mér grunsamlegar. Ég var ekki sannfærð um að ótti þeirra væri einvörðungu gagnvart íslenskum almenningi.
  • Í haust bárust fréttir af rússneskum auðkýfingum í tugatali í "skemmtiferð" hér á landi. Heilt hótel og Bláa lónið tóku þeir á leigu. Skemmtiferð já, einmitt, hugsaði ég.
Þessi atriði ásamt fleirum gerðu mig tortryggna. Ég lagðist í netgrúsk og setti einfaldlega inn orð eins og "russian mafia" ásamt einhverjum orðum eða nöfnum úr íslensku viðskiptalífi inn á leitarvefinn google.com. Einnig prófaði ég "money laundering" ásamt sömu nöfnum eða orðum úr viðskiptalífinu. Niðurstaðan var vægast sagt áhugaverð.

Ég hef einnig slegið inn danskri útgáfu af þessari leit og orðið margs vísari. Ef ég set inn sömu leitarorð á íslensku fæ ég hins vegar afar litlar upplýsingar. 

Eftir þessa rannsóknavinnu á netinu hef ég orðið sífellt meira undrandi á hversu litla athygli þessi orðrómur um mögulegan þvott á fjármagni hefur fengið undanfarin ár í íslenskum fjölmiðlum. Fjölmiðlar virtust einnig skauta eins hratt og þeir gátu framhjá þessum orðrómi í haust fyrst eftir bankahrunið.

Nú seinustu vikur hafa þó birst fyrirferðarlitlar fréttir í íslenskum fjölmiðlum um þennan orðróm.

Þess ber að geta að engar beinar sannanir hafa mér vitanlega komið fram varðandi þetta mál og því ber að skoða allt sem að þessu lýtur með gagnrýnu hugarfari. Hins vegar er of margt sem bendir til að eitthvað skrýtið hafi verið hér á seyði til að hægt sé að leiða þetta algerlega hjá sér.

Því vekur það sérstaka furðu mína að eftir viðtalið við Boris Berezovsky á Sky í febrúar sl, vísaði utanríkisráðherra Íslands þessum orðrómi algerlega á bug. Miklu nær hefði verið að taka fram að það sé full ástæða til að rannsaka þetta niður í kjölinn og fá sannleikann upp á yfirborðið. Öðruvísi öðlumst við ekki traust á erlendum vettvangi.

Rannsóknadómarinn Eva Joly kom í þáttinn Silfur Egils í dag. Þar lagði hún áherslu á mikilvægi þess að rannsóknaraðilar hefðu þekkingu á fjármálakerfi og þrek og þor til réttra aðgerða. Hér dygðu engar kurteisisspurningar. Húsleitir og harka væri það eina sem dygði. Vonandi verður hlustað á þessi ráð hennar.


Mannlíf á biðstofu tannlæknis

Ég sat á biðstofu tannlæknis í gær. Þar gluggaði ég í gamalt Mannlífsblað frá apríl 2008. Í blaðinu var umfjöllun um íslenskt efnahagslíf og hversu tæpt bankarnir stæðu. Rætt var við Eddu Rós Karlsdóttur, Þorvald Gylfason og Vilhjálm Egilsson, mögulega fleiri.

Það sem vakti athygli mína var að niðurstaða umfjöllunarinnar var á þá leið að bankastjórar Seðlabankans ættu allir að segja af sér. Þeir hefðu ekki brugðist við vexti bankanna með þeim ráðum sem þeir hefðu. Bindiskyldan vó þar hæst. Hlutverk seðlabanka væri að vera lánveitandi til þrautavara. Ef bankarnir stækkuðu seðlabankanum yfir höfuð bæri honum að hefta vöxt þeirra. Bindiskyldan væri tæki til þess. Bankastjórarnir hefðu því ekki skilið hlutverk sitt.

Ég kíkti nokkrum sinnum á forsíðu blaðsins, ég hlaut að hafa lesið vitlaust, þetta hlaut að vera blað frá því eftir bankahrunið því umræðan um seðlabankann í blaðinu var á nákvæmlega sömu nótum og nú eftir áramótin. Nei, aftur og aftur sá ég "apríl 2008" framan á blaðinu.

Hvernig var hægt að sigla svona steinsofandi fram af hengifluginu eins og þáverandi stjórnvöld og bankastjórn seðlabankans gerði?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband