Mannlíf á biðstofu tannlæknis

Ég sat á biðstofu tannlæknis í gær. Þar gluggaði ég í gamalt Mannlífsblað frá apríl 2008. Í blaðinu var umfjöllun um íslenskt efnahagslíf og hversu tæpt bankarnir stæðu. Rætt var við Eddu Rós Karlsdóttur, Þorvald Gylfason og Vilhjálm Egilsson, mögulega fleiri.

Það sem vakti athygli mína var að niðurstaða umfjöllunarinnar var á þá leið að bankastjórar Seðlabankans ættu allir að segja af sér. Þeir hefðu ekki brugðist við vexti bankanna með þeim ráðum sem þeir hefðu. Bindiskyldan vó þar hæst. Hlutverk seðlabanka væri að vera lánveitandi til þrautavara. Ef bankarnir stækkuðu seðlabankanum yfir höfuð bæri honum að hefta vöxt þeirra. Bindiskyldan væri tæki til þess. Bankastjórarnir hefðu því ekki skilið hlutverk sitt.

Ég kíkti nokkrum sinnum á forsíðu blaðsins, ég hlaut að hafa lesið vitlaust, þetta hlaut að vera blað frá því eftir bankahrunið því umræðan um seðlabankann í blaðinu var á nákvæmlega sömu nótum og nú eftir áramótin. Nei, aftur og aftur sá ég "apríl 2008" framan á blaðinu.

Hvernig var hægt að sigla svona steinsofandi fram af hengifluginu eins og þáverandi stjórnvöld og bankastjórn seðlabankans gerði?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki umfjöllunin sem Sigurjón Egilsson fékk blaðamannaverðlaunin fyrir? Gott ef ekki.

Las þetta aldrei almennilega, skautaði yfir þetta í einhverju flýti fljótlega eftir að þetta kom út. Kannski þetta hefði mátt vekja meiri athygli í apríl þegar þetta birtist upphaflega!

Andri Valur (IP-tala skráð) 4.3.2009 kl. 23:04

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Í dag barst þetta í tal meðal vinnufélaganna. Ég var þráspurð að því hver skrifaði þetta en varð að viðurkenna að hafa ekki tékkað á því. Verð að viðurkenna að ég tók ekki eftir fyrir hvað Sigurjón fékk verðlaun.

Ætlaði að ná þessu blaði á bókasafninu áðan en það var ekki inni. Get lofað að þetta er áhugavert, sérstaklega með það í huga hvenær þetta var skrifað.

Ef ég næ í blaðið mun ég ljósrita greinina.

Kristjana Bjarnadóttir, 5.3.2009 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband