Færsluflokkur: Bloggar
14.4.2008 | 20:17
Selveiðar
Á hverju vori veiddi pabbi sel. Lítill árabátur var notaður við veiðina og net voru lögð. Netin héngu þess á milli hátt uppi á krók í skemmunni. Það þurfti að tryggja að þau væru með réttri möskvastærð og gera við göt sem höfðu myndast árið áður. Þau voru lögð út á grasflötina við íbúðarhúsið. Ég lærði snemma að hnýta netahnúta og að hjálpa til við viðgerðina.
Korkhringir sem ráku á fjörurnar voru sagaðir niður, gerð göt í þá og bútarnir festir á netin með reglulegu millibili. Svo var farið upp í holt og leitað að heppilegum steinum til að setja í neðri hluta netanna. Steinarnir þurftu að vera aflangir, þannig að hægt væri að bregða bandi um þá svo það héldi.
Ekki var hægt að fara á litlum árabát í skerin í hvað veðri sem var, brimið í sunnanáttinni var of mikið til að á það væri hættandi, ef norðanáttin var of hvöss gat undiraldan verið kröpp.
Vandlega var fylgst með veðurfréttum. Um leið og veðurspáín gaf vonir um hagstætt veður var lagt af stað. Báturinn settur á heykló aftan á dráttarvél. Önnur dráttarvél var með vagn aftan í með netin, steinana og hlunna. Keyrt var fram nesið eins langt og hægt var að komast, bátnum bakkað í flæðarmálið, netum og steinum hlaðið í hann og ýtt á flot.
Oftast réri Gunnar í Borgarholti með pabba. Nokkrum sinnum fengum við Erna að fara með að leggja netin, það var yfirleitt gert að degi til en vitjað um að nóttu.
Skerin eru þrjú, Staðasker, Bullusker og Stakkhamarssker. Það var mér kappsmál að geta róið með körlunum. Líklega voru áratökin ekki eins öflug og mér finnst í minningunni. Ég man ekki hversu mörg netin voru, líklega á bilinu 5-7. Það var vandi að halda bátnum kyrrum meðan netin voru lögð því aldan var töluverð upp við skerin. Hlutverk liðléttinganna var að finna steina og festa á netin jafnóðum og þau voru lögð. Pabbi lagði netin og Gunnar var á árunum.
Áður en netin voru lögð var reynt að ná einhverjum kópum í skerinu. Þá var hægt að blóðga þá og þannig mögulegt að nýta kjötið. Selkjötið var soðið og yfirleitt bara borðað með kartöflum og uppstúf. Ég man það var dökkrautt og bragðaðist ágætlega.
Á hverju ári voru veiddir svona 20-40 kópar. Skinnin voru verðmæt og þetta voru töluverð hlunnindi. Pabbi fláði selinn og skóf skinnin. Mamma þvoði skinnin svo í gömlu þvottavélinni og síðan voru þau spítt upp á timburþil í fjárhúsunum. Eftir nokkrar vikur voru þau tilbúin og lögð inn í Kaupfélagið, nema hvað.
Svo kom Brigitte Bardot. Líklega taldi hún fatnað úr gerviefnum umhverfisvænni en selskinn. A.m.k. var hún ekki hrifinn af selskinnsfatnaði og var í herferð gegn þessum veiðum. Skinnin lækkuðu í verði og selveiðin lagðist af.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.4.2008 | 19:31
Úr myndaalbúminu
Seinustu færslur mínar hafa verið frekar niðurdrepandi. Ég held að það vanti meiri liti í lífið þessa dagana og ég fann fallega mynd til að létta þetta örlítið.
Á hverju sumri fer ég í gönguferð með Trimmklúbbi Seltjarnarness (TKS). Þetta hafa yfirleitt verið 5-6 daga ferðir með tjald og allar vistir. Það hefur skapast hefð fyrir því að taka börn með í þessar ferðir og hefur það gengið mjög vel.Sumarið 2005 gengum við frá Bjallavaði á Tungná, í Landmannahelli, að Landmannalaugum, í Hattver, þaðan í Strútslaug, að Álftavatni og enduðum í Hólaskjóli.
Þarna skartar íslensk náttúra því allra mesta litskrúði sem völ er á. Myndin er tekin í jaðri Torfajökuls og Hattver er í baksýn. Hattver er að mínu mati með fegurstu stöðum sem ég hef komið á. Þetta er fáfarinn staður og þangað kemst maður ekki nema gangandi. Þetta er ein af perlum íslenskrar náttúru sem almenningur þekkir ekki vel. Þær eru margar og þó ég hafi víða farið eru enn margt sem ég á eftir að skoða.
Þessa mynd tók einn göngufélagi minn og er hún í miklu uppáhaldi hjá mér. Bæði vegna náttúrunnar sem mér finnst njóta sín vel og svo ekki síður vegna afkvæmanna sem ég er auðvitað gríðarlega stolt af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.4.2008 | 20:47
Haftastefna og fjármálalæsi
Hér á árum áður ríkti haftastefna á Íslandi, innflutningur var takmarkaður, gjaldeyrir til að taka með til útlanda var takmarkaður, allt til að hamla því að við eyddum of miklu af dýrmætum gjaldeyri.
Á þessum tíma og enn lengur voru útlán banka takmörkuð og þurfti því að sannfæra misvitra bankastjóra um nauðsyn og skynsemi þeirra fjárfestinga sem fólk hugði á.
Það jaðrar við að ég vilji þessa tíma aftur, eða hluta af þessu. Undanfarin ár virðast ekki hafa verið nokkur takmörk hafa verið á vilja lánastofnana til að lána fólki fyrir óskynsamlegum fjárfestingum. Já, ég sagði óskynsamlega, set mig svo sannarlega í dómarasæti.
Í dag heyrði ég af ungum manni sem nýlega keypti 3 milljón króna bíl á 100% lánum. Nú er bíllinn klesstur. Ónýtur. Ekki veit ég hvernig tryggingar fara með svona tjón, ég veit að umferðarreglur voru brotnar. Vafalaust var sjálfsábyrgðin einhver.
Hvaða vit er í svona lánum? Það er ekki ólöglegt að vera fífl, það er heldur ekki ólöglegt að hafa fólk að fíflum, en mér finnst siðlaust hvernig bankar hafa ausið út neyslulánum.
Þetta heitir frelsi til að velja. Ef við notum það frelsi til að vera fífl þá er okkur það heimilt.
Ég óska eftir meiri kennslu í fjármálalæsi í íslenskum grunnskólum. Ég tel það muni reynast heilladrýgra veganesti út í lífið en vitneskjan um að DNA sé umritað í mRNA í kjarna frumunnar og sú uppskrift notuð til að búa til prótein í ríbósómum í umfrymi frumunnar. Ófáar svona langlokur læra blessuð börnin til samræmds próf í náttúrufræði en sömu börn hafa litla tilfinningu fyrir hvernig fara á með peninga.
Þegar aðgengi að lánsfé er eins og verið hefur undanfarin ár er ekki nema von að einhverjir misstígi sig. Raunhæf verkefni í fjármálum ætti að vera hluti af skyldunámi barnanna okkar, það er nefnilega ekki gefið að foreldrar séu færir um að veita þessa kennslu í öllum tilvikum. Það er heldur ekki víst að afkvæmin vilji láta foreldrana kenna sér þetta.
Hin leiðin er að taka upp skömmtunar og haftastefnu aftur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.4.2008 | 23:26
Hægri menn, frjálshyggja og samfélagsleg ábyrgð
Kannski er ég bara vitlaus og hef ekkert vit á stjórnmálum. EN........ég hef skilið pólitík þannig að frjálshyggja sé til hægri og félagshyggja meira til vinstri.
Frjálshyggja samkvæmt mínum skilningi snýst í stuttu máli um það að skattar séu lægri og hver einstaklingur leggi minna í sameiginlega sjóði. Hver sé sjálfum sér næstur, einstaklingurinn njóti þess meir ef vel gengur en jafnframt verður meira á brattann að sækja. Frjálshyggjan snýst því um að skara eld að sinni köku, mögulega láta þeir sem allt gengur í haginn mola renna til góðgerðamálefna að eigin vali. Eingöngu ef þeim sýnist svo. Frjálshyggjan er því í eðli sínu "egocentrisk", þar er lítið pláss fyrir samfélaglega ábyrgð, nema bara svona þegar það hentar hverjum og einum.
Félagshyggja samkvæmt mínum skilningi snýst hins vegar í stuttu máli um að skattar séu hærri og meira svigrúm sé til að mæta áföllum einstaklinganna með sameiginlegum sjóðum. Í þessu kerfi er erfitt að verða mjög ríkur því sameiginlegu sjóðirnir hirða það til að þeir sem minna bera úr býtum nái að skrimta. Félagshyggjan er því í eðli sínu "samfélagsleg", snýst um að taka sameiginlega ábyrgð á umhverfinu og einstaklingunum, nær sem fjær.
Ekkert kerfi er fullkomið og það er ljóst að báðum þessum stefnum fylgja bæði kostir og gallar. Hins vegar finnst mér alltaf hlálegt þegar hægri menn kvarta undan skorti á "samfélagslegri ábyrgð" og einnig þegar vinstri menn kvarta undan skattpíningu og því að fá ekki að njóta ávaxta velgengni sinnar.
"You can´t have them both". Þú verður að vita í hvoru liðinu þú ert.
Kveikjan að þessum hugleiðingum mínum var viðtal við Ármann Kr. Ólafsson þingmann Sjálfstæðisflokksins, í kvöldfréttum sjónvarpsins í gærkvöld. Kvartaði hann undan skorti fjármálastofnana á samfélagslegri ábyrgð og vildi að þær skýri út fyrir okkur almúganum áhættu af því að taka erlend lán þegar gengi krónunnar er lágt hátt (leiðrétt 09.04.08).
Er hægt að ætlast til að peningastofnanir sem hafa það að markmiði sínu að græða (á okkur sauðsvörtum almúganum) sýni "samfélagslega ábyrgð"?
Er maðurinn ekki að biðja um að bankar séu ríkisreknir? Þá getum við gert þessa kröfu.
Ég held að annað hvort sé ég að misskilja illilega út á hvað stjórnmálastefnur snúast eða þingmaðurinn sé ekki í réttum stjórnmálaflokki.
Bloggar | Breytt 9.4.2008 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2008 | 20:48
"Dauðans óvissi tími"
Ég brá mér bæjarleið nú í seinustu viku, skrapp yfir hafið og heimsótti Frakkaland. Slíkum ferðum fylgir mikil seta á flugvöllum og auðvitað í flugvélum. Þennan tíma er alveg upplagt að nota til bókalesturs.
Bókin sem fylgdi mér í þessa ferð var "Dauðans óvissi tími" eftir Þráinn Bertelsson. Ég hef ekki lokið lestrinum en mikið finnst mér þetta viðeigandi lesefni þessa dagana, nú þegar við virðumst vera að súpa seyðið af ótrúlegri óráðssíu og furðulegri peningastefnu undanfarinna ára........................að ekki sé minnst á mjög svo sérkennilegri einkavæðingu ríkisbankanna. Ég leyfi mér að birta hér kafla úr bókinni:
Haraldur stóð í afgreiðslusal bankans og virti fyrir sér listaverkin á veggjunum. Þessi listaverk voru þjóðargersemar sem einkavæðingarnefnd hafði láðst að undanskilja í æðibunuganginum við að ganga frá kaupunum eftir að Jökull Pétursson forsætisráðherra hafði fyrir sitt leyti samþykkt að gengið skyldi til samninga við Harald Rúriksson. Í hita leiksins hafði gleymst að Þjóðbankinn átti listaverkasafn sem var mun stærra en Listasafn ríkisins, enda höfðu samningarnir snúist um peninga en ekki tittlingaskít eins og menningu og listir.
Kannast einhver við þetta úr íslenskum raunveruleika?
Þessi bók Þráins er skáldsaga. Þó er ljóst að margar persónurnar eiga sér fyrirmynd í íslenskum raunveruleika. Söguþráðurinn er oft mjög fjarstæðukenndur. Það einkennilega er að sum fjarstæðukenndustu atvikin eiga sér stoð í íslenskum raunveruleika.
Í hvaða raunveruleika höfum við lifað nú seinustu ár? Er þetta draumur eða martröð sem við virðumst vera að vakna upp af?
Eða er þetta bara dauðans óvissi tími?
PS: Ég er ekki eins þunglynd þessa dagana og þessi færsla gefur til kynna. Mér finnst bara frekar skrýtið hvernig við höfum látið auðmenn stela af okkur ríkiseignum undanfarin ár beint fyrir framan nefið á okkur. Og nú er helst rætt um að íslenskur almúgi (ríkið) eigi að koma bönkunum til bjargar. Er ég ein um að vera skilningssljó?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.3.2008 | 23:46
Hlandsíur og dælur
Matseðill mötuneytis Laugagerðisskóla hefur áður verið umfjöllunarefni mitt. Fastheldni matráðskonunnar á matseðilinn var með eindæmum. Við vissum alltaf hvað var í matinn.
Ég minnist þess að hafa á fimmtudögum verið í tvöföldum líffræðitíma í seinustu kennslustund fyrir hádegismat. Í líffræði lærðum við um starfsemi ýmissa líffæra, hjarta, lungna, lifur og nýra.
Að kennslustund lokinni sagði líffræðikennarinn: "Nú skulum við drífa okkur í mat og fá okkur hlandsíur og dælur".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2008 | 19:12
Myndasyrpa frá skíðagöngu á pálmasunnudag
Á pálmasunnudag fór ég í skíðagöngu með Ferðafélagi Íslands. Ég var heldur sein með að hlaða myndunum inn í tölvu og því er það fyrst núna sem ég kem mér til að sýna þær hér.
Gengið var frá Þingvöllum (rétt ofan Skógarhóla), yfir gagnheiði, norðan við Botnssúlur, niður að Hvalvatni, yfir Hvalvatn og niður í Botnsdal vestan Botnsár.
Séð yfir Þingvallavatn ofan af Gagnheiði.
Botnssúlur, séð af Gagnheiði.
Hér sést Hvalfell og niður að rennisléttu Hvalvatni.
Gengið í halarófu á ís yfir Hvalvatn. Frábært færi.
Glymur sjálfur sést ekki. Þetta er fossspræna í klakaböndum rétt hjá Glym.
Ganga þurfti án skíða niður hlíðina frá Glym og niður í Botnsdal.
Kerlingin bara spræk að göngu lokinni. Líklega voru þetta hátt í 25km í frábæru veðri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2008 | 18:33
Íslenskur smáborgaraháttur
Í dag birtist bæði á mbl.is og visir.is frétt um viðtal við Richard Portes í bandarísku CNBS sjónvarpsstöðinni í gær. Einnig er umræða um þetta á eyjan.is í dag. Portes ku vera prófessor við London Business School.
Einhvern veginn finnst mér fréttaflutningur af þessu viðtali einkennast af íslenskum smáborgarahætti. "Sko, þarna er útlenskur prófessor sem segir að það sé allt í lagi hjá okkur".
Hvorugur fréttamiðillinn hefur fyrir því að geta þess að þessi maður er ekki bara einhver útlenskur prófessor. Visir.is getur þess að vísu að hann hafi unnið skýrslu fyrir Viðskiptaráð:
Portes þekkir vel til íslensk viðskiptalífs. Í nóvember í fyrra kynnti Portes skýrslu um alþjóðavæðingu íslenska fjármálakerfisins sem unnin var fyrir Viðskiptaráð sem viðskiptabankarnir eiga aðild að.
Það sem mér finnst þessir miðlar gleyma að geta er að Portes var með íslensku sendinefndinni sem reyndi að telja Dönum nú nýlega trú um að íslenskt viðskiptalíf væri með miklum blóma (sjá hér og hér). Danir stukku nú ekki alveg á þá skýringu.
Getur maður sem hefur farið í sendiferð á vegum íslensks viðskiptalífs og stjórnvalda til að kynna ágæti þess (á tímum þegar jafnvel íslenskur almenningur er ekki sannfærður um slíkt) verið marktækur sem álitsgjafi um stöðu þess?
Af hverju var þessa ekki getið í þessum fréttamiðlum?
Er það hlutverk háskólaprófessora að kynna sérstaklega viðskiptalíf annarra landa? Hvernig er slíkt kynningarstarf borgað?
Hver var fréttin? Í mínum huga er það ekki frétt þó prófessor sem hefur farið í sendiferð á vegum Íslendinga til að segja Dönum að hér sé allt í blóma segi það sama í sjónvarpi í Bandaríkjunum. Ekki frekar en Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings segi slíkt hið sama í sama sjónvarpi.
Viðbrögð okkar Íslendinga eru dæmigerð: "Sko útlenski maðurinn sagði að við værum frábær!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.3.2008 | 22:07
Safnanir til góðgerðamála
Vangavelta kvöldsins snýst um góðgerðarmál: Hvernig á verkaskipting milli ríkis og félagasamtaka að vera varðandi góðgerðarmál?
Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör.
Ég hef ekkert eitt svar við þessari spurningu. Tel mig í gegnum mína skatta gjalda ríkinu sitt og fá heilbrigðisþjónustu, menntun barnanna minna og eitthvert lágmarks félagslegt öryggisnet. Ef eitthvað er þá vildi ég frekar hækka þessa skattprósentu til að auka jöfnuð í þjóðfélaginu þó ég telji nú einnig að það megi kannski verja þessum aurum eitthvað betur.
Ýmis félagasamtök vinna þarft verk, ýmis sjúklingasamtök, lions og kiwanisfélög, Rauði krossinn og fleira og fleira. Sum þessara samtaka sinna þjónustu sem skarast á við það sem ætti að vera hlutverk opinberra aðila, kannski er það betra og skapar meiri nálægð við starfssemina, en á móti fríar það hið opinbera ábyrgð á málinu.
Í stuttu máli þá vil ég meiri opinbera ábyrgð og aðkomu og að fjármagn til þess sé tryggt í gegnum okkar skatta. Fjármögnun félagasamtaka á tækjakaupum ýmis konar getur reyndar verið af hinu góða.
Í símaskránni er ég með kross fyrir framan númerið mitt. Samt sem áður fékk ég símhringingu í kvöld, í símanum var Brynja en mér láðist að leggja á minnið fyrir hvern hún hringdi. Brynja vildi selja mér söngtexta sem Kiwanisfélagið Elliði hafði tekið saman. Þetta átti að kosta 2900 kr komið heim til mín og ég átti að borga með gíróseðli.
Hvað skyldi ég hafa átt að styrkja með þessu? Jú, legudeild BUGL, Barna og unglingageðdeild Landspítalans. Athugið þarna er verið að tala um rekstur legudeildar á LANDSPÍTALA HÁSKÓLASJÚKRAHÚSI.
Hvað er að gerast hér á þessu landi, þarf að hringja sníkjusímtöl í borgarana til að við tímum að reka geðdeild fyrir börn? Málið er brýnt, geðsjúkdóma þarf að meðhöndla eins og hverja aðra sjúkdóma ekki síst hjá börnum. En hver hefur fengi símtal þar sem beðið var um styrk til að reka krabbameinsdeild Landspítalans?
Ég er starfsmaður þessarar stofnunar, á ég líka að styrkja hana með beinum fjárframlögum?
Á ég kannski að hefja fjársöfnun tilhanda minni deild?
Hvenær hefst fjársöfnun tilhanda fjársveltum lögregluembættum?
Nei, gerum skýran greinarmun á því hvað við teljum eðlilegt að sé borgað úr okkur sameiginlegu sjóðum og gerum réttláta kröfu til ráðamanna að vel sé staðið að geðheilbrigðismálum, rétt eins og meðhöndlun annarra sjúkdóma. Rekstur ríkisstofnanna getur ekki flokkast undir góðgerðarmál sem þarf sníkjusímtöl til að fjármagna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.3.2008 | 14:48
Pálmasunnudagur 1964
Það var sunnudagskvöld með Svavari Gests í útvarpinu. Húsfreyjan að Stakkhamri ákvað að nota tímann vel og skúra gólfin. Hún átti von á barni en þó gerði talning ekki ráð fyrir að fæðing ætti sér alveg strax stað. Einhverjir verkir gerðu vart við sig og hún reyndi að leggja sig. Það dugði ekkert og verkirnir ágerðust. Það fór ekki á milli mála, það var fæðing í aðsigi.
Á heimilinu var aðeins til Willys jeppi og þótti það ekki heppilegt farartæki til að flytja fæðandi konu. Því var hringt í Leifa í Hrísdal og hann beðinn um að koma til að keyra konuna og eiginmanninn yfir Kerlingarskarð á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Þetta gerði Leifi fúslega. Þegar hersingin nálgaðist fjallið leist honum hins vegar ekki á blikuna, hann hafði litla löngun til að breyta bílnum í fæðingarstofu uppi á miðju fjalli.
Leifi krafðist þess að keyra heim að Hjarðarfelli og koma konunni í hús. Það varð úr þrátt fyrir mótmæli Stakkhamarshjónanna sem fannst það ekki góð hugmynd að banka upp á bæjum og biðja um að fá að fæða barn heima hjá öðru fólki.
Kvöldið áður hafði verið skemmtun í sveitinni og því var Hjarðarfellsfólkið gengið snemma til náða. Gunnar og Ásta risu úr rekkju og tóku vel á móti gestum. Fæðandi konan var drifin upp í hjónarúmið og áhorfendaskarinn viðbúinn.
Ásta hafði sjálf átt 6 börn, hún var nokkuð hress þegar seinasta barnið fæddist og hafði forvitnast um hvernig skilið væri á milli. Þessi forvitni hennar kom sér vel og þarna í öllu patinu og látunum hafði hún hugsun á að sjóða bendla til að hnýta fyrir naflastrenginn.
Fæðingin gekk fljótt fyrir sig, örlítið fjólublá stúlka fæddist með naflastrenginn vafinn um hálsinn. Ásta skildi á milli, líklega með skjálfandi höndum en það kom ekki að sök, ég er lifandi sönnun þess.
Í hamaganginum hafði enginn fyrir því að fylgjast með tímanum. Því var fæðingarstundin eitthvað á reiki, meira að segja hvoru megin við miðnættið þetta var. Einhver kvað þó upp úr með að klukkuna hefði vantað tíu mínútur í tólf þegar barnið fæddist.
Það hefur örugglega verið sérstakt að vakna upp við það á pálmasunnudegi að fæðandi kona stæði á dyraþrepinu. Ég fann alltaf fyrir sérstökum tengslum við Ástu og Gunnar vegna þessa. Á sex ára afmælinu mínu gáfu þau mér áletraða skeið með fæðingarstundinni. Mér þykir mjög vænt um þessa skeið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)