Færsluflokkur: Bloggar

3 stúlkur á 3 dögum á 3 bæjum

Í dag 21. mars á hún Anna afmæli. Þessir 3 dagar sem nú fara í hönd hafa mér alltaf fundist gríðarlega merkilegir.

Það er stórmerkilegt að 3 stúlkur hafi fæðst 3 daga í röð á nánast 3 bæjum í röð.

Hvað var að gerast í þessari sveit 9 mánuðum áður?

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ ANNA


Hvert var gengi krónunnar þegar varan var keypt inn?

Fjölmiðlar hafa verið óþreytandi við að flytja okkur véfregnir af efnahagsmálum undanfarna daga. Ekki ætla ég að gera lítið úr alvarleika falls krónunnar, áhrif á verðbólgu eru óumflýjanleg að ónefndum áhrifum á greiðslubyrði erlendra lána.

Það sem vekur furðu mína er hversu snögglega verðlag hefur hækkað. Fréttablaðið birtir frétt í dag um hækkun á tölvuleikjum um eittþúsund krónur. Hvenær voru þessir tölvuleikir keyptir inn? Hvert var gengi krónunnar þá?

Það er algerlega óþolandi að verslanir nýti sér þetta upplausnarástand til að hækka vöruverð. Eðlilegt er að vöruverð hækki nú á næstu vikum og mánuðum þegar vörur keyptar inn á þessu nýja gengi koma í sölu. Það bara hvarflar ekki að mér að það gildi um vörurnar sem eru í hillum verslana í dag.

Staða okkar sem neytenda er afskaplega slöpp, við eigum fárra kosta völ, a.m.k. þegar um nauðsynjavöru er að ræða. Er einhver samkeppni á matvörumarkaði? Forstjóri Haga segir matvöruverð í sínum verslunum þegar hafa hækkað (sjá hér). Skyldi það gilda einnig um Krónuverslanirnar?

Getur verið að Íslenskir neytendur séu fangar á fákeppnismarkaði, banka, matvöru, eldsneytis...............................?


Páskar í Ungverjalandi

Veturinn 1984-1985 dvaldi ég sem au-pair í Munchen í Þýskalandi. Þegar ég fór út haustið 1984 hafði ég aldrei farið til útlanda áður, aldrei ferðast með flugvél, þetta var því mikil lífsreynsla. Ég minnist þess að áður en ég fór út tók þáverandi yfirmaður minn mig á eintal. Þetta var Jóhanna Leópoldsdóttir sem þá var útibússtjóri á Vegamótum. Jóhanna var ung og hafði ferðast mikið. Hún gaf mér ráð: "Það er ekki hættulegt að ferðast ef þú ferð eftir ákveðnum reglum. Ein þeirra er að halda þig í fjölmenni, ekki fara í fáfarnar götur eða útaf alfaraleiðum".

Það var nefnilega það. Hve mikið er til í þessu.

Konan sem ég dvaldi hjá í Þýskalandi heitir Emzy og var frá Ungverjalandi. Fjölskyldan átti gamalt hús við Balatonvatn í Ungverjalandi. Þangað bauð fjölskyldan mér að koma með sér um páskana árið 1985. Þetta boð þáði ég með þökkum.

Emzy átti erindi til Budapest og hún bauð mér að koma með sér þangað. Við komum þangað seinni hluta dags og gistum hjá systur Emzy. Daginn eftir sinnti Emzy erindum sínum, hún keyrði mig fyrst um, sýndi mér borgina og sagði mér ýmislegt. Uppi á hæð nokkurri voru miklar og glæsilegar byggingar. Þar benti Emzy mér að skoða mig um, skildi mig síðan eftir og við mæltum okkur mót aftur.

Ég hóf göngu mína um þetta svæði, þarna voru margir túristar að skoða sig um rétt eins og ég. Ég fylgdi götu sem sífellt varð fáfarnari, áttaði mig skyndilega á að mér var veitt eftirför, þarna voru engir aðrir á ferð en ég og maðurinn sem elti mig. Ég hægði ferðina, maðurinn gerði slíkt hið sama. Ég herti aðeins á mér og maðurinn gerði slíkt hið sama.

Gatan lá í eins konar hlíð og þarna voru engin hús. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds, ég þorði ekki að snúa við, þá hefði ég gengið beint í flasið á manninum, vonaði að þessi vegur lægi eitthvert þar sem fleira fólk væri. Það reyndist ekki vera, vegurinn lá að bílastæði, þar voru að vísu margir bílar en enginn manneskja sjáanleg.

Ég reyndi hvað ég gat að vera ákveðin og yfirveguð í fasi, alltaf fylgdi maðurinn í humátt á eftir mér. Ég var óviss hvernig ég átti að snúa mér á bílastæðinu, gekk einhvern hring og hugðist ganga götuna til baka. Maðurinn náði að króa mig af. Þegar ég sneri mér að honum var hann í u.þ.b. 5 metra fjarlægð og með flett niður um sig, það allra heilagasta var í fullri stærð tilbúið til atlögu. Ég fann krampa þrýstast um magann, taldi möguleika mína til að sleppa enga og ég fann hvernig máttleysi læsti sig um mig alla. Ég var ófær um að hlaupa burt enda hefði það ekkert þýtt, maðurinn hefði verið fljótur að hlaupa mig uppi hefði það verið einbeittur vilji hans.

Ég leit flóttalega til mannsins, hristi höfuðið eins og ég væri að afþakka eitthvað sem hann hefði boðið mér. Ég hraðaði mér burt eins ákveðnum skrefum og mér var unnt. Ég vildi ekki fara of hratt, með því væri ég að gefa hræðslu í skyn, það vildi ég ekki.

Maðurinn fylgdi mér ekki eftir.

Ég gekk götuna til baka og fann fljótt staðinn þar sem ég ætlaði að hitta Emzy. Þar settist ég og beið, ég var miður mín og hafði engan áhuga á að skoða meira. Drjúg stund leið þar til Emzy kom, ég lét sem ekkert hefði í skorist og að ég hefði haft ánægju af að skoða mig þarna um.

Ég sagði Emzy aldrei frá þessu, fannst ég væri að móðga hana með því þar sem þetta gerðist í hennar landi. Mér leið líka eins og ég hefði boðið upp á þetta, velti mikið fyrir mér klæðnaði mínum sem var ekki ögrandi, en samt. Hvernig gat ég vitað hvað karlmönnum þarna fannst ögrandi? Ég var vestræn í útliti og frjálsleg í fasi, það gat boðið hættunni heim að mínu mati. Mér fannst að sökin væri að einhverju leiti mín.

Ég átti margar vinkonur í Þýskalandi frá ýmsum löndum, kannski ekki djúp vinátta en a.m.k. voru þetta stelpur sem ég skrafaði við um ýmislegt. Það liðu nokkrir mánuðir áður en ég loksins sagði einni frá þessu. Ég man að ég átti erfitt með að tjá mig og að það fór hrollur um mig þegar ég gerði það.

Síðar hef ég stundum sagt frá þessu, ég kemst iðulega úr jafnvægi, röddin titrar og ég hálfskelf. Lengi fannst mér ég sjálf bera ábyrgð á þessu einnig að ég ætti ekki að segja frá þessu þar sem þessu fylgdi skömm.

Þarna varð ég ekki fyrir neinu líkamlegu áreiti, samt hafði þessi atburður svona mikil áhrif á mig. Það leið langur tími þar til ég treysti mér til að nefna þetta, ég kenndi sjálfri mér um og enn kemst ég í uppnám þegar ég hugsa um þetta eða segi frá þessu.

Ég skil þögn og sektarkennd þeirra sem verða fyrir raunverulegu kynferðislegu áreiti.


Frjáls

Ég var að ljúka við bókina "Frjáls" sem er í senn sjálfsævisaga Ayaan Hirsi Ali og ádeila á Islam. Þetta er saga merkilegrar og sterkrar konu, hún elst upp í Sómalíu, Saudi-Arabíu, Eþíopíu en að mestum hluta í Kenya. Hún flýr síðan til Hollands, aflar sér menntunar þar og er kosin á hollenska þingið árið 2003.

Ayaan er alin upp í Islam, móðir hennar er mjög trúuð og sjálf gengur hún í gegnum tímabil þar sem hún les Kóraninn stíft og er í félagsskap með bókstafstrúuðum. Í bókinni kemur einnig sterkt fram hversu gríðarlega sterk tök ættarsamfélagið hefur á hverjum einstaklingi og takmarkar frelsi hans til ákvarðana á eigin lífi. Mest á þetta við um konur en einnig eru karlar bundnir höftum þessa samfélags. Trúin gengur út á að fylgja því sem hinn alvitri guð, Allah, vill og vegvísir þess er í Kóraninum. Ef einstaklingurinn brýtur gegn vilja Allah er voðinn vís, ekkert framhaldslíf og það sem verra er, helvíti bíður.

Í Kóraninum er margt fjandsamlegt konum. Ayaan er mjög hugleikið að vekja athygli á því. Ef kona þýðist ekki eiginmann sinn er honum leyfilegt að beita hana ofbeldi. Kona í þessu samfélagi getur ekki risið gegn þessu, þá er hún að rísa gegn sínum Guði, einnig sinni fjölskyldu og öllu samfélaginu. Hennar bíður aðeins útskúfun. Kynmök fyrir hjónaband eru óhugsandi. Af líffræðilegum ástæðum er mun auðveldara að sanna kynmök upp á konur, sérstaklega ef hún verður barnshafandi. Slíkarar konu bíður aðeins útskúfun. Konur eru einnig taldar bera ábyrgð á að tæla karlmenn og því er ábyrgðin fyrst og fremst þeirra, jafnvel þó þeim sé nauðgað. Í Kóraninum er einnig lagt fyrir að konur skuli hylja sig að öllu leiti nema hendur og andlit.

Þessi atriði, ofbeldi eiginmanns, ábyrgð kvenna á kynferðislegu ofbeldi karla og það að þær þyrftu að hylja sig, var kveikjan að stuttmynd sem Ayaan gerði með kvikmyndagerðarmanninum Theo van Gough. Mynd þessi vakti mikla andspyrnu meðal bókstafstrúarmanna og var Theo drepinn.

Í bókinni varpar Ayaan fram hvassri gagnrýni á að umburðarlyndi vesturlanda gagnvart Islam hafi gengið alltof langt. Samfélög muslima víða á vesturlöndum viðhaldi kúgun kvenna, stúlkubörn séu unnvörpum umskorin á eldhúsborðum í Hollandi og heimilisofbeldi í þessum samfélögum sé látið óáreitt. Trúarskólar kenni ekki vestræn gildi og menningu og fáfræði þriðja heimsins viðhaldist í þessum samfélögum þó fólkið sé flutt til vesturlanda.

Ayaan segir að Islam skipti fólki í tvo flokka: Þá sem aðhyllast trúna og hina. "Hinir" séu allir slæmir og allt að því réttdræpir. Það að fremja heiðursmorð er Allah þóknanlegt, morðinginn bjargar heiðri fjölskyldunnar og hlýtur náð Allah. Slíkt er það eftirsóknarvert að refsing vestræns samfélags skiptir engu.

Ayaan er hvöss í gagnrýni sinni. Ef ég segði það sem hún segir væri ég vænd um kynþáttahyggju. Gagnrýnin á hins vegar rétt á sér, hvernig geta vestræn samfélög setið hjá og leyft kúgun kvenna í sínum samfélögum, bara vegna þess að trúarbrögð viðkomandi leyfa það?

Gallinn við svona hvassa gagnrýni er að hún getur hleypt upp miklu hatri á múslimskum innflytjendum. Það er þessum samfélögum heldur ekki til góðs.

Hvað sem því líður þá hvet ég alla til að lesa bókina Frjáls eftir Ayaan Hirsi Ali. Hún er auðlesin, hrífandi og áhugaverð.


Úti er ævintýri

Litlu munaði að vefjaflokkanir á Íslandi legðust af nú á mánudaginn. Við erum tvær sem sinnum þessari starfssemi og fórum saman á gönguskíði. Það hefur nú verið haft í flimtingum að það ætti að banna okkur að ferðast saman en við ákváðum að örlítil útivist saman væri innan marka.

Mánudagurinn var sólríkur framanaf og fjöllin heilluðu. Við höfum ágætis útsýni á Esjuna og Móskarðshnjúka og birtan togaði í okkur. Við ákváðum að hætta snemma og drífa okkur upp í Bláfjöll. Þegar við hins vegar litum í suðurátt voru þar þungir skýjabakkar. 

Élin mættu í Bláfjöll á svipuðum tíma og við. Það er ekki okkar stíll að gefast upp og út örkuðum við. Fylgdum ljósastaurum svo langt sem þeir náðu. Töldum að við gæðum fylgt brautinni lengra þrátt fyrir lítið skyggni. Það endaði auðvitað með því að við týndum brautinni. Þá voru góð ráð dýr.

"Ef við verðum úti þá leggjast vefjaflokkanir á Íslandi af" kallaði ég til samstarfskonu minnar. Ennþá gátum við hlegið að þessu.

Við töldum okkur hafa einhverjar áttir á hreinu en það fór svo að sannfæring okkar dvínaði. Skyggnið var í mesta lagi þrír metrar. Við tókum þá það ráð að snúa við og fylgja förum okkar til baka, vorum líklega komnar hátt í 4km. Við fundum fljótlega brautina aftur og gátum fylgt henni að ljósastaurunum. Þá töldum við okkur hólpnar.

Út úr élinu kemur þá vélsleði á fleygiferð. Þar var á ferð vörður sem vissi af tveim konum að asnast þarna á gönguskíðum. Við gátum alveg hugsað okkur að ganga til baka en það var alveg greinilegt að manninum dauðlangaði til að bjarga okkur. Við leyfðum það, tókum af okkur skíðin, settumst fyrir aftan þennan myndarlega mann, ég fyrir framan þannig að ég náði að hanga í honum með þéttum fangbrögðum. Hann keyrði sleðann stíft til baka og datt mér í hug djákninn á Myrká, slík voru tilþrifin við aksturinn. Skíðin okkar stóðu þvert útaf og þar sem sleðinn nánast strauk ljósastaurana og máttum við hafa okkur allar við að kippa skíðunum til svo þau rækjust ekki í staurana.

Báðar komumst við aftur heim, en óvíst er hvort okkur verður hleypt aftur saman út að leika okkur í bráð.


Kennsla í líffræði fyrir sveitabörn

Við vorum í líffræði hjá Sveini. Sveinn var ekki minni sveitamaður en við, einn af þessum orginölum, alinn upp langt norður á Ströndum í sterkum tengslum við náttúruna.

Námsefni dagsins var þroskun lífvera, innlag, miðlag og útlag. Við áttum að læra að líffærin væru inni í holi líkamans. Okkur fannst þetta eitthvað skrýtið og flókið með þroskun lífveranna og hvernig myndun eins konar holrúms inni í okkur gæti átt sér stað.

Sveinn stundi yfir skilningsleysi okkar.

"Þegar þið eruð að hjálpa til við sláturstörf, það er verið að taka innanúr, hvað er svo sagt við ykkur?"

Við horfðum tómum augum á kennarann.

"Jú, réttið mér hnífinn, það er sagt við ykkur þegar þarf að skera þindina".

Það sem Sveinn hafði ekki reiknað með var að vegna mikilla niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum á þessum tíma var lítið um heimaslátrun, þetta var því reynsluheimur sem sveitabörn á þessum tíma fóru að einhverju leyti á mis við. Okkur skorti þann grunn sem Sveinn gerði ráð fyrir að við hefðum til að skilja fræðin sem hann var að kenna. 


Að axla ábyrgð

"Að axla ábyrgð". Ég hef verið að velta fyrir mér þessu hugtaki. Hvað þýðir það að segjast axla ábyrgð? Er nóg að segja "þetta er mér að kenna" og málið síðan dautt?

Mikið hefur verið talað um hver ber ábyrgð á REI málinu, einhvern veginn hefur það mál týnst. Vilhjálmur telur sig hafa axla sína ábyrgð með því að hafa misst meirihlutann í haust og þar með borgarstjórastólinn. Hm, er það að axla ábyrgð?

Nýjast er umfjöllun um kostnað umfram áætlanir við byggingu stúku í Laugardal. Þar hefur stigið fram á sjónarsviðið Geir Þorsteinsson formaður KSÍ og segist hann axla ábyrgð (sjá hér). Gott mál, ábyrgur maður.

En hvað svo? Ætlar hann að borga? Ætlar hann að stíga úr sínu formannssæti?

Geir var ekki einu sinni formaður KSÍ á þessum tíma, það var Eggert Magnússon.

Spurningin er: Hvað þýðir það "að axla ábyrgð", hvaða þýðingu hefur það í raun á Íslandi í dag?


Gagnkvæmar myndir

Nýlega birti ég myndir úr göngu sem ég fór sl. vor á Hrútfellstinda. Í þessari ferð hittum við Þorvald Þórsson sem vann það frækilega afrek á seinasta ári að ganga á íslenska tinda yfir 1400m. Þegar ég var að fletta þessum myndum hjá mér mundi ég að ég hafði alltaf ætlað að grafa upp netfang Þorvaldar og senda honum mynd sem ég tók af honum og félaga hans. Þetta gerði ég loksins nú nýlega. Þorvaldur var svo vinalegur að hann sendi mér til baka frábærar myndir af okkur í sömu ferð. Það sem gerir þessar myndir einstaklega skemmtilegar er að þær eru teknar á sama augnabliki.

Þessa mynd tók Þorvaldur af félaga sínum þegar hann er rétt að komast upp á einn Hrútfjallstindinn. Þessi tindur er líklega næsthæstur Hrútfjallstinda en minn gönguhópur sleppti því að ganga á hann. Ef vel er að gáð sést gönguhópur í halarófu klifra hnjúk bak við manninn, aðeins til vinstri. Það er hópurinn minn.

Þessa mynd tók ég á sama augnabliki og Þorvaldur tók sína mynd. Það er ég viss um þar sem það sést á þessari mynd hvar seinni maðurinn er við það að komast upp brúnina.

 

Þessa mynd tók Þorvaldur og hér sést hópurinn minn betur en á fyrstu myndinni.

 


Nýtt Háskólasjúkrahús - Allir á hjóli

Í liðinni viku var kynnt fyrir starfsmönnum Landspítala áform um byggingu nýs Háskólasjúkrahúss. Ég ætla ekki að þreyta lesendur með endursögn af þeim fundi, aðeins að tiltaka það sem mér þótti sérkennilegast.

Farið var yfir staðarval sjúkrahússins í mörgum orðum. Hófst sú kynning með þeim orðum að staðsetningin milli Gömlu Hringbrautar og þeirrar nýju væri ekki bara "staðurinn" heldur "besti staðurinn". Lítum aðeins nánar á rökin fyrir þessu.

Nálægðin við Háskóla Íslands og einnig Háskóla Reykjavíkur þegar hann rís í Öskjuhlíðinni, er sögð skipta miklu máli. Hvað þýðir þetta samgöngulega séð? Jú, þetta eru þrír gríðarlega fjölmennir vinnustaðir. Höfuðborgarsvæðið er nokkurn veginn í laginu eins og trekt, þar sem Vesturbærinn og Seltjarnarnesið eru opið á trektinni. Rétt þar sem trektin byrjar að þrengjast þykir snjallt að byggja upp þessa gríðarstóru vinnustaði. Samgöngulega skil ég þetta ekki.

Lausn nefndarinnar um nýtt Háskólasjúkrahús liggur fyrir. Jú, gera aðgengi reiðjólafólks gott, góðar reiðhjólageymslur þar sem innangengt væri úr þeim inn í spítalann. Það skiptir auðvitað öllum máli fyrir reiðhjólafólk að geta gengið innandyra frá hjólageymslunni inn í spítalann! 

Þetta var kynnt á degi þegar töluverður snjór var á götum borgarinnar og meira að segja þeir vinnufélagar mínir sem eru harðastir í að hjóla í vinnuna skildu fáka sína eftir heima.

Þessi staðsetning spítalans gerir það að verkum að fjarlægð flestra starfsmanna frá heimili verður það mikil að það verður erfitt að fá þá til að hjóla í vinnuna.

Í kvöld sá ég útundan mér konu bisa við að koma reiðhjóli í bílinn sinn og þá áttaði ég mig á hvað nefndin átti raunverulega við. Það var auðvitað að  setja hjólið í skottið á bílnum og leggja bílnum í nágrenninu þar sem bílastæði fæst og hjóla þaðan beint inn í spítalann. Örugglega geta slíkir reiðhjólakappar mætt hreinir og stroknir í vinnuna eftir þennan hjólatúr í öllum veðrum.

(Leturgerð breytt  03.03.08)


Þýsk nákvæmni

Ég var í nokkur sumur leiðsögumaður með þýska túrista. Í Varmahlið í Skagafirði var í einhverri ferðinni áð og ég sagði sköruglega í míkrófóninn: "Hér stoppum við í 15-20 mínútur".

Til mín kom einn Þjóðverjinn og spurði ósköp kurteislega: "Hvort meintirðu 15 eða 20 mínútur?"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband