Færsluflokkur: Bloggar
25.2.2008 | 20:31
Norðanrok
Ég er í hlaupahóp sem kallar sig TKS (Trimmklúbbur Seltjarnarness). Þetta er mislitur hópur fólks sem hefur gaman af hlaupum, göngum og útiveru. Í hópnum eru maraþonhlauparar, miðlungsbrattir hlauparar og svo bara svona kerlingar eins og ég sem dingla sér með. Allt leyfilegt, líka að vera byrjandi og komast rétt svo á milli ljósastaura. Eins og einn félagi minn sagði: "Það er svo dásamlega ruglað fólk í þessum klúbbi að manni finnst maður vera normal þegar maður er með ykkur".
Við héldum árshátíð um helgina. Okkar samkomur eru yndislega sveitalegar enda líður mér afskaplega vel í þessum hópi. Við leigjum sal og svo koma bara allir með einhvern rétt á sameiginlegt borð. Svo er dansað út í eitt.
Ég er núna nýkominn inn úr rokinu og hálkunni. Oft förum við út á nesið, út fyrir Bakkatjörn og út að Gróttu köllum það að fara út fyrir steina. Í dag var það hins vegar Skólavörðuholtið, köllum það gullveginn, framhjá öllum gullverslununum í Bankastrætinu.
Textinn hér að neðan er reyndar um leiðina út fyrir nesið, þá blasa við heimaslóðir mínar. Þetta er svona árshátíðartexti:
NorðanrokLag: Þýtur í laufi
Norðan er rokið, brimið gnauðar,
vindur kallar hlauptu hratt.
Skokkum með kinnar okkar rauðar,
rokið það hressir, ekki satt?
Út fyrir steina hlaupum saman
blasir þar við Snæfellsnes.
Lífið er hlaupin, göngur, gaman,
gleðin hún býr í TKS.
vertu til að taka englahopp.
Komdu út því að félagarnir lokka,
armbeygjur og önnur asnaskopp.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2008 | 21:35
Aðbúnaður barna á heimavistakólum
Nú hefur verið gerð skýrsla um Breiðavíkurheimilið og í ljós hefur komið að þarna var víða pottur brotinn. Í framhaldi af því hefur vaknað umræða um aðbúnað á öðrum heimilum fyrir börn á þessum tíma. Sjálfsagt er að kanna með hvaða hætti það hefur verið.
Upp hefur einnig komið spurningin hvernig aðbúnaður barna á heimavistaskólum var á þessum tíma. Þar sem ég hef birt minningarbrot frá dvöl minni í einum slíkum skóla langar mig að leggja orð í belg.
Ég vil taka það fram að ég minnist þess ekki að skólastjóri, kennarar eða annað starfsfólk hafi vísvitandi með einum eða öðrum hætti komið illa fram við nemendur. Auðvitað fannst okkur margar reglur einkennilegar og við fengum stundum refsingar eða tiltal þegar þær voru brotnar, það er eðlilegur hluti starfssemi svona staða.
Hitt er svo annað mál að tilhögun starfsseminnar var barn síns tíma og endurspeglaði viðhorf sem heyra sögunni til. Hér nefni ég nokkur dæmi:
Fyrstu árin sem skólinn starfaði voru börn allt niður í 7 ára gömul höfð á heimavist 2 vikur í einu, kennt á laugardögum en frí á sunnudögum. Börnin voru eigi að síður í skólanum. Vegir og samgöngur voru með allt öðrum hætti en nú er, en ég hefði samt haldið að hægt hefði verið að stytta þennan tíma niður í viku mun fyrr en gert var. Þegar það var gert voru börnin sótt á sunnudögum heim og keyrð í skólann til að skólastarf gæti hafist snemma á mánudagsmorgnum. Þetta fyrirkomulag var í nokkur ár, þar til farið var að sækja börnin á mánudagsmorgnum. Í dag finnst mér mjög sérkennilegt að ástæða þótti til að keyra börnin í skólann rétt eftir miðjan dag á sunnudögum til að skóli gæti hafist kl 8 á mánudögum. Líklega tók það 2 klst að keyra þau börn sem áttu um lengstan veg að fara.
Ég man ekki eftir að starfsfólk skólans hefði mikil afskipti af yngstu börnunum. Þau sáu um að búa um rúmin sín (setja lakið á rúmið þegar þau komu í skólann) og allar sínar helstu daglegu athafnir. Ef einhver skældi af heimþrá þá var það bara þannig og ekkert mikið verið að velta sér upp úr því. Enda ekkert við því að gera. Ef einhver var veikur þá var hann bara veikur á sínu herbergi og herbergisfélagarnir sáu oftast um að sækja mat. Ég man ekki til að boðið hafi verið upp á aðra umönnun.
Börn í þessum skóla voru ekki frábrugðin öðrum með það að einelti þreifst ágætlega. Ég minnist ekki neinna aðgerða af skólans hálfu til að bregðast við því eða sporna við því. Líklega er þar tíðarandanum um að kenna, það var ekki búið að finna upp þetta hugtak á þessum tíma.
Mötuneytið var sérstakur kapítuli. Gikksháttur var ekki liðinn, sá sem ekki borðaði matinn sinn var einfaldlega svangur. Ekki flókið. Fjölbreytni var í lágmarki og engu hnikað á matseðli þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra og barna. Lapþunni og brimsalti hafragrauturinn er mér þar ofarlega í huga.
Á þessum tíma var ekki í sama mæli litið til þarfa, langana og tilfinninga barna eins og gert er í dag. Mötuneytismaturinn endurspeglaði mikla sparsemi og skipulag komutíma barna skapaðist af erfiðum samgöngum en sömuleiðis litlu hugmyndaflugi í að breyta því eftir hvort það var haust og vor eða snjóþungur vetur. Líklega þótti það ekki skipta öllu máli hvort börnin sváfu 4 eða 5 nætur í skólanum. Fyrir lítið barn sem leið illa í skólanum gat þetta hins vegar skipt máli. Umhyggja og andlegt atlæti starfsfólks endurspeglaði tíðarandann, það var ekki venjan að sýna of mikla tilfinningasemi og umhyggju.
Sjálfri leið mér mjög vel þarna, leiddist aldrei og hlakkaði alltaf til að fara. Það segir hins vegar ekkert um líðan hinna. Margir áttu erfitt með að sofna á kvöldin og stundum var skælt. Þeir sem áttu fáa vini eða urðu fyrir aðkasti áttu ekki sjö dagana sæla.
Mér er ekki kunnugt um neitt sem flokka mætti sem slæma meðferð á börnum eða að starfsfólk hafi á nokkurn hátt misboðið börnunum. Fyrirkomulag starfsseminnar endurspeglaði hins vegar tíðaranda sem hefur sem betur fer breyst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2008 | 19:13
Úr myndaalbúminu - Hrútfjallstindar
Hrútfjallstindar eru í sunnanverðum Vatnajökli, rétt ofan við Svínafell. Þetta eru 3 megin tindar og er sá hæsti tæpir 1900 m. Í apríllok á seinasta ári fór ég með nokkrum félögum mínum úr Trimmklúbbi Seltjarnarness í göngu á þessa tinda. Í svona ferðum rennir maður nokkuð blint í sjóinn með veður og skyggni. Þegar við lögðum af stað þennan morgun var þoka langt niður í miðjar hlíðar en síðan birti heldur betur upp og uppskárum við að þessu sinni ríkulega laun erfiðisins. Mig langar að deila uppskerunni með ykkur.
Þessi mynd er tekin úr Skaftafelli daginn eftir en þarna sjást tindarnir nokkuð vel. Fyrir miðri mynd aðeins til hægri sjást 2 gil en á milli þeirra er uppgönguleið á hrygginn sem tekur við þar fyrir ofan.
Þarna erum við komin upp á hrygginn, sólin farin að skína og lífið tóm hamingja. Nú tekur við erfiður partur af göngunni en það er að við þurftum að lækka okkur aftur töluvert og hækka síðan aftur. Það þýðir að heildarhækkun í göngunni varð mun meiri en þessir 1900m sem hæsti tindurinn er. Þess vegna er þessi ganga jafnvel erfiðari en Hvannadalshnjúkur.
Þetta er einn af tindunum, líklega sá næsthæsti. Ef vel er að gáð þá sjáið þið menn á toppnum. Það er Þorvaldur Þórsson sem vann það frækilega afrek á seinasta ári að ganga á alla íslenska tinda yfir 1400m, þeir reyndust vera í kringum 100. Þorvaldur var þarna á ferð sama dag og við. Til vinstri við tindinn sést sjálfur Hvannadalshnjúkur.
Hér sjást þeir kappar betur. Þorvaldur var þarna með 2 öðrum göngumönnum því í svona göngu á jökli er óðs manns æði að vera einn á ferð, menn verða að vera í línu því þarna eru sprungur. Við vorum að sjálfsögðu í línu og einn fór í tvígang ofan í sprungu.
Hér er kerlingin með frumburðinn á toppnum.
Nú erum við farin að huga að næstu ferð. Að þessu sinni stefnum við á Þverártindsegg í Kálfafellsdal í Suðursveit.
Til að komast það verð ég að stunda ræktina, enga leti. Ég skal alveg viðurkenna að ef ég hefði ekki eitthvað svona til að stefna að myndi ég ekki halda mér eins vel við efnið. Þetta er liður í peppinu, skoða myndir og láta sig langa aftur, nógu mikið til að puða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2008 | 18:40
Mötuneytisfiskur
Mötuneyti Laugagerðisskóla á áttunda áratug seinustu aldar:
Það var fiskur a.m.k. 2var í viku. Fiskur með hamsatólg og kartöflum. Kartöflurnar voru alltaf afhýddar fyrst og síðan soðnar. Þær voru teknar úr pottinum og bornar á borðið, löngu áður en okkur var hleypt í matsalinn. Líka hamsatólgin. Fiskurinn var borinn inn seinast, bara rétt áður en það var opnað fyrir okkur. Það var ekki búið að finna upp grænmeti á þessum árum.
Við streymdum inn í eins ólögulegri röð og við komumst upp með. Settumst og fengum okkur á diskana. Kartöflur og fisk. Hamsatólgin var aðeins farin að hvítna. Við fengum okkur engu að síður af henni og hvít skán myndaðist yfir allan fiskinn.
Þetta fór nú samt upp í okkur, hamsatólgin klesstist við góminn. Við hörkuðum af okkur því ofan í sum okkar hafði farið lítið af morgunmat. Eitthvað af fiskinum komst alla leið. Sjaldan mikið. Skrítið hvað þessi sveitabörn voru lítið fyrir fisk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2008 | 21:27
Hífa, slaka, gera eitthvað
Ég er haldin miklum tvískinnungi varðandi virkjanir, umhverfismál og stóriðju. Tvískinnungurinn er eftirfarandi:
- Ég vil ekki að fleiri náttúruperlur verði virkjunum að bráð að sinni. Á seinustu árum hefur verið farið alltof geyst í þessum efnum og framkvæmt af miklu kappi en minni forsjá. Ég held að þegar við gerum okkur grein fyrir mikilvægi ósnortinnar náttúru Íslands verði það of seint, hún verði ekki lengur ósnortin þegar ráðamenn og stór hluti almennings, hefur áttað sig á því.
- Ég tel að bygging fleiri álvera á Íslandi sé áhættusamt því með því erum við "að leggja öll eggin í sömu körfu". Við erum um of háð verði á einni tegund hráefnis.
- Stóriðja hverskonar með mörgum störfum á stað þar sem áður bjuggu til að gera fáir, er klárlega mikil lyftistöng fyrir viðkomandi svæði. En hvað með alla hina staðina sem eiga undir högg að sækja?
EN:
- Hvað er til ráða þegar skerðing á fiskveiðiheimildum er staðreynd? Staðreynd sem líklega er komin til með að vera um lengri tíma.
- Ef við höfnum alfarið virkjanaáformum og stóriðju, hvaða aðrar lausnir höfum við?
- Oft hefur verið talað um að lausnin felist í ferðamannaþjónustu, staðreyndin er að þar er um mjög árstíðabundinn rekstur og oft á tíðum eru þetta illa launuð störf.
Nú er álversumræðan hafin enn á ný, Helguvík og/eða Bakki við Húsavík. Ég tel hvoru tveggja vera slæma kosti.
Helguvík vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Hingað hefur flust gríðarlegur fjöldi fólks af landsbyggðinni á seinustu árum. Það er alveg óþarfi að auka það enn frekar.
Bakka við Húsavík tel ég slæman kost því svo stór vinnustaður sem álver er kallar á mikinn fólksfjölda til viðbótar þeim íbúum sem þarna búa í dag. Gerum við ráð fyrir að mikill fjöldi Íslendinga flytji til Húsavíkur og vinni í álverinu þar? Hvað segir reynslan frá Reyðarfirði okkur?
Getum við verið þess fullviss að svona gríðarleg fjárfesting skili sér í atvinnuuppbyggingu fyrir innlent vinnuafl?
Þó svo við séum fullviss um þetta þá fylgja því miklir búferlaflutningar, er það markmiðið?
Slíkir búferlaflutningar væru þá væntanlega á kostnað annarra svæða.
Er ekki betra að hugsa aðeins smærra þegar kemur að atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, þannig að það sem gert er nýtist á fleiri svæðum?
Aftur kem ég þá að tvískinnunginum mínum, ég er sannarlega á móti hvers kyns stóriðju og virkjunum þeim tengdar. Landsbyggðin hrópar hins vegar á aðgerðir og fátt er um góðar hugmyndir.
Spurningin snýst einnig um hvort hlutverk stjórnvalda sé að skapa störfin eða að skapa umhverfi fyrir heilbrigt atvinnulíf. Hátt gengi krónunnar og hátt vaxtastig hefur klárlega ekki hjálpað útflutningsgreinunum undanfarin ár. Gildir þar einu hvort um er að ræða fiskvinnslu eða hátækniiðnað.
Hífa, slaka, gera eitthvað, eru stórvirkjanir og stóriðja réttlætanleg á þeim forsendum?
Ég segi nei.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2008 | 17:20
Íþróttir
Húsnæði Laugagerðisskóla gerði ekki ráð fyrir að kenndar væru íþróttir. Kompa í kjallaranum var samt kölluð "íþróttasalurinn". Þessi kompa var við hliðina á smíðastofunni og seinni hluta vikunnar var smíðastofan stækkuð og "íþróttasalurinn" notaður til að stækka smíðastofuna. Fyrri hluta vikunnar voru kenndar "íþróttir". Í byrjun hverrar viku var svo sagið dustað af íþróttadýnunum, þeim rúllað út og kennslan gat hafist.
Þessi salur var nægilega stór til að yngri börnin gætu farið þar í kollhnís. Stærri slánar náðu því tæplega fyrir þrengslum. Ekki var það nú mikið meira sem við lærðum í íþróttum í þessum sal.
Ekki man ég eftir að íþróttir hafi verið kenndar utanhúss. Ekki einu sinni að liðinu hafi verið stuggað út á fótboltavöll en þann vettvang forðaðist ég eins og heitan eldinn, myndi muna ef ég hefði verið skikkuð til að spila fótbolta. Finnst það reyndar eftir á einkennilegt að útisvæðið hafi ekkert verið notað til íþróttakennslu.
Við fórum reyndar mikið í sund, en sú aðstaða var ágæt.
Seinna var ákveðið að keyra eldri börnin í samkomuhúsið að Breiðabliki og nota það til íþróttakennslu. Þá var hægt að láta liðið hlaupa og hita upp. Allir þurftu að eignast íþróttafatnað og íþróttagallar úr gerviefni, eldrauðir með hvítum röndum á hliðinni, voru keyptir á allt liðið. Allir í stíl. Svo var skríllinn látinn svitna.
Eftir íþróttirnar var reynt að fara í sturtu. Sjaldnast var það hægt því krafturinn á vatninu var sjaldnast nógu mikill til að sturturnar á stelpnavistinni virkuðu. Ég man að við vorum eitthvað að fjargviðrast yfir þessu en þetta þótti ekki skipta neitt miklu máli. Sveitafólk hafði nú svitnað áður án þess að þurfa að baða sig strax á eftir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2008 | 17:52
Snúast stjórnmál um menn eða málefni?
Nú er mesti hitinn rokinn úr REI skýrslunni, oddvitavandi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins er heldur ekki lengur frétt númer eitt hjá fjölmiðlunum.
Leifar umræðunnar eru þó á þá leið að Vinstri Grænir hamast við að benda á ágæti Svandísar og sköruglegrar framgöngu hennar. Einnig eru fjölmiðlar enn að pína fram stuðning eða ekki stuðning hinna ýmsu Sjálfstæðismanna við Vilhjálm. Vissulega á þetta hvort tveggja rétt á sér. Hinu megum við samt ekki gleyma að stjórnmál snúast ekki bara um persónur. Ég er nefnilega ekki frá því að búið sé að persónugera þetta mál um of.
Málið allt snýst nefnilega um eignarhald á orkuauðlindum. Teljum við að virkjunarréttur eigi að vera í eigu ríkisins, eða erum við að einhverju leiti, eða öllu leiti tilbúin til að selja það til einkaaðlila?
Þessari spurningu verða stjórnmálaflokkar að svara með skýrum hætti. Við skulum muna það að hlutur í Hitaveitu Suðurnesja hefur verið seldur til Geysir Green Energy. Orkuveita Reykjavíkur keypti einnig hlut í HS og einhverra hluta vegna var það skráð á REI. Skyndilega átti að sameina REI og GGE, eða jafnvel selja.
Gerðist þetta allt bara svona óvart, eða er þetta skv. stefnu Sjálfstæðisflokksins eða einhvers annars stjórnmálaflokks? Eigum við ekki rétt á að vita hver stefna stjórnmálaflokka er í þessu máli?
Ég vildi gjarnan að fjölmiðlar beindu aðeins kastljósi sínu að þessu og við fengjum að heyra afstöðu stjórnmálaflokkanna til þessa, ég vil ekki heyra neitt moð, ég vil heyra skýra afstöðu.
Í haust þegar REI málið kom upp varð umræða um þetta á alþingi. Þá sagði Geir Haarde eftirfarandi: "..................ég get tekið undir það sjónarmið, að orkulindirnar sjálfar eiga ekki endilega að vera andlag einkavæðingar". (ég fjallaði lítillega um það hér)
Getur verið að stjórnmálamenn reyni með þessu að tala óskýrt þannig að almenningur telji að þeir ætli að láta orkuauðlindirnar áfram vera í okkar eigu en laumast svo bakdyramegin til að selja það til einkaaðila "svona bara alveg óvart".
Getur verið að stefna sjálfstæðisflokksins um eignarhald á orkuauðlindum þoli illa dagsljósið og samræmist ekki vilja margra kjósenda hans?
Það geta verið rök fyrir að láta einkaaðila og áhættufjárfesta sjá um ákveðna þætti í þjóðlífinu. Ég vil þá heyra þau rök svo ég geti tekið afstöðu til þess og jafnframt að stjórnmálamenn og flokkar tali skýrt og standi og falli með þeirri afstöðu sem þeir kynna kjósendum sínum.
Við erum öll mannleg og viljum gjarnan kjamsa vandræðaganginum sem er í borgarstjórn Sjálfstæðisflokksins. Það er líka gaman að dásama dugnað og kraftinn í Svandísi.
Þetta eru hins vegar ekki stjórnmál, þau snúast um málefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.2.2008 | 20:28
Blogg um blogg
Það hlýtur að vera gúrkutíð þegar maður er farin að blogga um blogg. Svona eins og þegar fjölmiðlamenn taka viðtöl hver við annan.
Kveikjan að þessu hjá mér er spurningin sem ég hef haft á bak við eyrað í nokkra mánuði: "Af hverju er ég að þessu?"
Við því er ekkert einhlýtt svar. Nokkur atriði eru þó ofarlega:
- Ég hef frá því ég var í Háskólanum verið frekar pólitískt þenkjandi. Þá lenti ég í umræðum við tvo Vökudrengi sem leiddu til þess að ég áttaði mig á því um hvað pólitík snýst. Ég sagði frá þessu fyrr í vetur. Málefni líðandi stundar hafa æ síðan verið mér hugleikin og hef ég hrellt vinnufélaga mína með skoðunum mínum með mismiklum vinsældum. Bloggið gefur mér tækifæri á einræðum sem einungis þeir lesa sem vilja og hafa áhuga á. Ég hef kallað þetta yfirfall á skoðunum mínum. Meðan ég hef gaman af þessu, þá held ég áfram. Ég tel að það sé mikilvægt að mynda sér skoðanir og rökstyðja þær en samtímis að vera tilbúinn til að hlusta á gagnrök og endurskoða afstöðu sína í ljósi þeirra. Tjáningarfrelsið er dýrmætt og einnig tel ég mikilvægt að vera ekki hræddur við að hafa skoðanir og viðra þær.
- Ég fór snemma að hripa niður minningar úr æsku hér á blogginu. Ég hef áttað mig á því að frá þeim tíma hefur þjóðfélagið breyst gríðarlega. Ég ólst upp i sveit, fæddist áður en rafmagnið kom, sveitasíminn þjónaði fólkinu, börnin voru í heimavistaskóla og svona mætti lengi telja. Þessar minningar eru partur af þjóðfélagsgerð sem er liðin. Það er mikilvægt að þær týnist ekki, heldur lifi. Það er miklu skemmtilegra að birta þetta jafnóðum og ég hripa þetta niður og bloggið er kjörinn vettvangur fyrir það. Ég á ekki endalausar minningar en ég er alls ekki búin.
- Til að blanda þessum minningarbrotum hef ég jafnframt birt hrakfallasögur af sjálfri mér. Annað hvort er ég hinn mesti hrakfallabálkur eða bara minnug á svona atvik. Hvað um það, ég hef aldrei verið viðkvæm fyrir að gera grín að sjálfri mér. Ég er ekki búin með þessar sögur heldur.
- Það sem klárlega hefur haldið mér við efnið eru viðbrögð lesenda. Ég hélt í upphafi að mér væri alveg sama hvort einhver læsi þetta en mjög snemma fann ég að athugasemdirnar héldu mér við efnið. Hér kemur inn fólk sem ég hef aldrei hitt og kommenterar reglulega. Það er mjög skemmtilegt og suma finnst mér ég orðið þekkja. Vinir og ættingjar sem ég er í samskiptum við utan bloggheima láta einnig vita af sér og verða samskipti við þetta fólk lifandi og óneitanlega finnst mér þeir nær mér en þeir væru án bloggsins. Í seinasta hópnum er fólk sem ég þekkti sem barn fyrir vestan og hef lítil samskipti átt við síðan. Mér hlýnar alltaf sérstaklega um hjartaræturnar þegar þessi hópur gerir vart við sig.
Bloggið er að mínu viti skemmtilegur miðill. Moggabloggið er opið, auðveldar skoðanaskipti og rekjanleiki milli bloggara er mikill. Það er auðvelt að finna skrif um þau mál sem maður hefur áhuga fyrir.
Ég er engan vegin hætt, meðan ég hef gaman af þessu held ég áfram. Ég þakka þeim sem nenna að lesa fyrir þolinmæðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.2.2008 | 20:50
Miðaldra með skaðað skott
Ég verð 44 ára eftir rúman mánuð, það er ekkert leyndarmál. Meðallífsslíkur íslenskra kvenna eru einhver rúm 80 ár. Flokkast þessi aldur minn því ekki undir að vera miðaldra?
Ég vil leggja mjög svo jákvæða túlkun í þetta. Þetta hlýtur að þýða að ég sé á miðjum aldri, jafnframt að ég sé á eins konar hátindi, geti nánast allt .
Því var það í skíðaferð fjölskyldunnar nú um jól og áramót að ég fékk þá hugmynd að ég gæti rennt mér á bretti. Þarna sigldi kerlingin um barnabrekkuna á eldrauðu Billabong bretti, með einkakennara. Það var að sjálfsögðu einkasonurinn sem hafði fulla trú á að ég gæti þetta en sýndi mér heldur enga miskunn þar sem ég kútveltist með þetta drasl bundið um lappirnar.
Svo jókst mér kjarkur og ég fór hraðar ........ og datt........ á afturendann. Þvílíkur sársauki læddist um afturendann. Sonurinn var hughreystandi: "Stattu bara strax upp og haltu áfram, annars gætirðu bara orðið hrædd". Það gat ég náttúrulega ekki hugsað mér. Upp stóð ég og hélt náminu samviskusamlega áfram. Hugsaði ekkert um afturendann, hafði um mikilvægari verkefni að hugsa.
Svo bara gleymdi ég þessu. Þangað til á leiðinni heim. Fimm klukkutíma seta í flugvél (eftir 4 klst rútuferð) var meira en botninn þoldi. Líklega hef ég skaddað á mér rófubeinið.
Nú er einn og hálfur mánuður liðinn, ég þoli enn illa setur á óbólstruðum stólum.
Ég er enn að að drepast í skottinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
11.2.2008 | 22:15
Lítilsvirðing við kjósendur
Samúð mín undanfarna daga hefur verið með kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að þeir eigi betra skilið en þá framkomu sem þeirra fulltrúar hafa boðið þeim upp á. Fréttablaðið í dag skýrir frá því að "Forystumenn flokksins hafi ráðlagt Vilhjálmi að taka ekki ákvörðun fyrr en orrahríðin vegna REI málsins sé gengin yfir, þar sem almenningsálitið breytist hratt".
Þar höfum við það. Á mannamáli heitir þetta: "Forysta Sjálfstæðisflokksins telur að kjósendur sínir hafi ekkert pólitískt minni og muni gleyma þessu fljótt". Eða með mínum orðum: "Forysta Sjálfstæðisflokksins telur að fólk sé fífl".
Hvar er virðingin fyrir kjósendum?
Ég hef oft haft áhyggjur að stuttu pólitísku minni almennings. Kannski hefur forysta Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir sér. Ég hef í þessu tilfelli meiri trú á kjósendum hans en það.
Tíminn mun leiða þetta í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)