Norðanrok

Ég er í hlaupahóp sem kallar sig TKS (Trimmklúbbur Seltjarnarness). Þetta er mislitur hópur fólks sem hefur gaman af hlaupum, göngum og útiveru. Í hópnum eru maraþonhlauparar, miðlungsbrattir hlauparar og svo bara svona kerlingar eins og ég sem dingla sér með. Allt leyfilegt, líka að vera byrjandi og komast rétt svo á milli ljósastaura. Eins og einn félagi minn sagði: "Það er svo dásamlega ruglað fólk í þessum klúbbi að manni finnst maður vera normal þegar maður er með ykkur".

Við héldum árshátíð um helgina. Okkar samkomur eru yndislega sveitalegar enda líður mér afskaplega vel í þessum hópi. Við leigjum sal og svo koma bara allir með einhvern rétt á sameiginlegt borð. Svo er dansað út í eitt.

Ég er núna nýkominn inn úr rokinu og hálkunni. Oft förum við út á nesið, út fyrir Bakkatjörn og út að Gróttu köllum það að fara út fyrir steina. Í dag var það hins vegar Skólavörðuholtið, köllum það gullveginn, framhjá öllum gullverslununum í Bankastrætinu.

Textinn hér að neðan er reyndar um leiðina út fyrir nesið, þá blasa við heimaslóðir mínar. Þetta er svona árshátíðartexti:

Norðanrok

Lag: Þýtur í laufi

Norðan er rokið, brimið gnauðar,
vindur kallar hlauptu hratt.
Skokkum með kinnar okkar rauðar,
rokið það hressir, ekki satt?
Út fyrir steina hlaupum saman
blasir þar við Snæfellsnes.
Lífið er hlaupin, göngur, gaman,
gleðin hún býr í TKS.

Vertu til og komdu út að skokka,
vertu til að taka englahopp.
Komdu út því að félagarnir lokka,
armbeygjur og önnur asnaskopp.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband