Viðskiptafélagar í veiðiferð - Trimmklúbbur í fjallgöngu

Í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 var forsætisráðherra í viðtali hjá Svanhildi Hólm. Svanhildur má eiga það að hún stóð sig bara vel, þjarmaði ákveðið en kurteislega að herranum sem átti satt best að segja ekki mörg svör við sumum spurningunum.

Svanhildur spurði í lokin meðal annars um laxveiði heilbrigðisráðherra en það er mál sem mér finnst fjölmiðlar hafa forðast eins og heita kartöflu. Geir svaraði því til að Guðlaugur hefði borgað sjálfur og þó við fengjum enga staðfestingu á því þá yrðum við bara að ráða hverju við trúum.

Ég hef alveg ákveðið það fyrir mína parta. Setjum upp smá dæmisögu. Segjum svo að þeir kumpánar hefðu farið í ferðina með mér og félögum mínum í TKS á Hrútfjallstinda í fyrravor. Segjum að þeir félagar séu félagar í Trimmklúbbnum og Haukur hefði meira að segja af alkunnum rausnarskap boðið okkur hinum líka enda vinskapur með öllum félögunum í klúbbnum sérdeilis mikill. Haukur gamall hlaupafélagi og vildi gera vel við vini sína. Þarna voru semsagt Guðlaugur, Vilhjálmur, Björn Ingi, Haukur, og svo fjármálastjóri Baugs Stefán Hilmar Stefánsson sem reyndar er ekki félagi í TKS en kom með vegna mikils vinskaps við Hauk. Já og svo við hin.

Semsagt nú snýr dæmið þannig að aðalleikararnir í REI málinu fóru í gönguferð á Hrútfjallstinda ásamt vinum sínum í TKS. Haukur borgaði brúsann. Finnst einhverjum þetta siðlaust?

Nei mér finnst þetta dæmi ekki siðlaust en afar fjarstæðukennt. Munurinn á þessu dæmi og veiðiferðinni er ekki hver borgaði hverjum eða hvað ferðin kostaði. Munurinn felst í að þarna var fleira fólk með. Fólk sem hvergi kom við sögu í REI málinu. Þá trúir almenningur að hópur vina sé á ferð.

Þegar vinahópurinn samanstendur af aðalleikurum í viðskiptum sem ekki allir eru sammála um að eðlilega hafi verið staðið að, þá fyllumst við grunsemdum.

Í mínum huga skiptir þessi kvittun sem Guðlaugur vill ekki framvísa ekki máli, aðalleikararnir fóru saman að veiða, þarna voru engir utanaðkomandi og það er nógu óeðlilegt til að ég fyllist grunsemdum.


Leyndardómar Snæfellsness

Á okkar fallega landi leynast fjölmargir undurfallegir staðir sem ferðamenn almennt vita ekki af. Jafnvel fólk sem alist hefur upp í næsta nágrenni veit ekki af þessum stöðum. Perlurnar okkar leynast víða og það finnst mér afskaplega heillandi. Ein af þessum perlum er Kothraunsgil á Snæfellsnesi. Þangað fór ég með nokkrum frændum og frænkum í sumar.

047

Gilið lætur ekki mikið yfir sér en ef maður fylgir farveginum þá skiptist hann fljótlega í 2 greinar. Við skoðuðum báðar greinarnar en annar farvegurinn var alveg þurr.

032

Þessi þurri farvegur myndaði eins konar göngu eða hlaupastíg í hörðu móberginu. Hægt var að fylgja þessum "stíg" nokkuð hátt upp.

033

Lækur rann í hinum farveginum og var hann sleipur og því mun erfiðara að fóta sig í honum.

Við eigum fjölmargar perlur sem þessar og í hvert skipti sem ég kannar eina slíka þá átta ég mig á hversu mikið af landinu ég á eftir að skoða.


Ég hef bloggað í eitt ár og er ekki hætt

Þann 30. ágúst 2007 var fimmtudagur. Ég var heimavið vegna minniháttar slæmsku í hálsi. Mér leiddist. Ég skoðaði stundum nokkrar bloggsíður, mest hjá Gillí frænku sem á þessum tíma barðist hetjulega við krabbamein og skrifaði hún um baráttu sína og annað sem á daga hennar dreif. Einnig skoðaði ég oft síðuna hennar Önnu og örfáar aðrar.

Eftir áskorun Gillíar um að lesendur hennar sem þekktu hana frá gamalli tíð létu vita af sér með tölvubréfum átti ég í email samskiptum við hana. Ég vildi með þessum tölvubréfum aðeins gefa henni til baka lítilræði af því sem hún hafði með skrifum sínum gefið mér. Þar sagði ég henni sögur af sjálfri mér og einnig rakti ég ýmsar hugrenningar mínar og sagði henni að ég væri of feimin til að blogga.

Eftir þessa yfirlýsingu velti ég því fyrir mér hvort þetta væri satt, þ.e. að ég væri svona feimin. Þennan veikindadag minn þann 30. ágúst 2007 stofnaði ég bloggsíðu og birti ég mínar fyrstu færslur. Gillí var fljót að finna mig og þá fór boltinn að rúlla. Margir skoðuðu hennar síðu og fóru þannig inn á mína. Það var skrítin tilfinning að sjá að það voru einhverjir að lesa það sem ég skrifaði.

Feimnin fór fljótt af mér. Því þakka ég ekki síst að Gillí hvatti mig óspart áfram í athugasemdum og var hún ófeimin að lýsa sig sammála þegar ég fór geyst í að tjá mig um málefni líðandi stundar, sagðist kannast við æsinginn og kom fyrir að hún vísaði lesendum sínum á mig þegar mér var hvað mest niðri fyrir.

Nú er liðið ár, Gillí kvaddi þennan heim þann 8. nóvember 2008 og er mér mikils virði þau samskipti sem við áttum hér í bloggheimum seinustu vikurnar sem hún lifði.

Feimnin er alveg farin af mér. Ég setti mér þó strax í upphafi ákveðna "ritstjórnarstefnu". Henni hef ég fylgt að mestu en þó má geta þess að engar reglur eru án undantekninga. Hér koma þessar meginreglur mínar:

  1. Birta aldrei meira en eina færslu á dag
  2. Tengja aldrei við fréttir
  3. Blogga aldrei í vinnunni

Ég hef brotið allar þessar reglur, þá seinustu bara einu sinni, fyrstu líklega 2var og reglu 2 líklega 3var.

Ég hef mikla ánægju af því að blogga, einkum ef ég verð þess vör að það sem ég segi höfði til fólks þegar ég fæ athugasemdir, ég er hégómleg og finnst gaman af því að vita af lesendum mínum. Mér finnst samt alveg skiljanlegt að fólk vilji ekki gera alþjóð vart við að það sé að lesa þetta en ég tek fram að ég lít ekki á það sem hnýsni þó fólk lesi reglulega þessa bloggsíðu, þetta er opinber miðill og ef ég vildi ekki að þetta væri lesið þá myndi ég ekki skrifa. Þeim sem vilja láta vita af sér en gera það óopinberlega þá hef ég netfangið: bubot.kristjana@gmail.com og hef ég nú þegar fengið nokkur tölvubréf frá lesendum og finnst mér vænt um það.

Ég viðurkenni að ég hef enst lengur en ég bjóst við og þakka þeim sem nenna að lesa þetta þolinmæðina. Ég er ekki hætt.


Fréttir vikunnar (og það er bara fimmtudagur)

14,5% verðbólga 
Mannekla á frístundaheimilum 
Ljósmæður fá ekki menntun sína metna  
Hópuppsagnir hjá Ístak og Pósthúsinu 

Já það er þröngt í búi hjá smáfuglunum þessa dagana. Við skyldum ætla að stjórnvöld gæfu okkur gott fordæmi. En nei á þessum sama tíma gefa stjórnvöld okkur eftirfarandi skilaboð:

Samgöngunefnd Alþingis gistir á Hóteli á höfuðborgarsvæðinu
Menntamálaráðherra, maki og ráðuneytisstjóri ferðast eins og jójó til Kína

Forgangsröðunin greinilega á hreinu. 

Og við gleymum okkur í tilfinningahitanum við að horfa á sjónvarpið þar sem hægt er að sjá beina útsendingu af flugvél fljúga yfir Reykjavík. Bara af því að handboltalandslið er innanborðs þá er þetta sjónvarpsefni. Myndavélin staðsett ýmist á húsi héraðsdóms (eða var það hæstiréttur?) eða Hallgrímskirkju.

Æi, hvert stefnum við.

Mér finnst eins og fjölmiðlar og stjórnvöld geri lítið úr almenningi, daglega.


Stórar skólatöskur með lítil börn á leið í skólann

Þessa dagana er fjöldi 6 ára barna að hefja sína skólagöngu. Það er ætíð ákveðin athöfn að velja fyrstu skólatöskuna. Má þá stundum vart á milli sjá hver er spenntari, barnið eða foreldrarnir sem eru fullir stolts.

Ég hef hins vegar lengi furðað mig á stærð þeirra skólataska sem eru á markaðnum. Þær eru alltof stórar fyrir líkama 6 ára barna. Hvaða nauðsyn er á því að 6 ára börn (já 7, 8 og jafnvel 9 ára) noti bækur af stærðinni A4? Minni bækur hæfa þessu smáfólki mun betur, það að bjóða þeim upp á þessa stærð er rétt eins og pappír okkar fullorðna fólksins væri af stærðinni 2xA4 (er það ekki A3? er ekki viss).

Einnig furða ég mig á því að börnin þurfi yfirhöfuð töskur. Mögulega undir nesti en í flestum skólum er farið að bjóða upp á heitan mat. Heimavinna barna á þessum aldri ætti að vera liðin tíð þar sem skóladagurinn er það langur að hann ætti að teljast fullur vinnudagur fyrir þau.

Hvað er það sem börnin þurfa að burðast með fram og til baka milli heimilis og skóla í þessum stóru töskum?

Er ekki tímabært að útrýma skólatöskum fyrir börn undir 10 ára aldri?


Veiðimennirnir í Miðfjarðará ánægðir með handboltalandsliðið!

Íslenska handboltalandsliðið toppaði á hárréttum tíma............. í fleiri en einum skilningi. Árangur þess þarf ég ekki að mæra, það er margbúið að gera það í ræðu og riti.

Alveg er ég þess fullviss að veiðimennirnir Haukur Leósson, Björn Ingi Hrafnsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Guðlaugur Þór Þórðarson séu hæstánægðir með frammistöðu íslenska handboltalandsliðsins í fleiri en einum skilningi. Hver nennir að velta fyrir sér veiðiskap þeirra á seinasta ári dagana þegar íslendingar vinna silfur á ólympíuleikunum?

ENGINN

Fjölmiðlar eru stútfullir af fréttum af þessum viðburði og meira að segja nöldurskjóðan ég, nenni ekki að fylgjast með neinum öðrum fréttum, vil bara sjá handboltatröllin í tilfinningarússíbananum sem fylgir svona frammistöðu.

Aðeins eyjan.is hefur reynt að halda okkur við efnið, sjá hér og hér.

Hvað sem því líður þá sakna ég meiri umfjöllunar um þetta mál, mögulega á það eftir að koma.

Guðlaugur heilbrigðisráðherra fullyrti strax í upphafi að hann hafi greitt Hauk Leóssyni veiðileyfið eftir ferðina. Alveg er eftir að krefja hann skýringa á því á hvaða kjörum Haukur lét hann fá leyfið. Skv frétt á visir.is nú fyrir helgi þá greiddi Haukur Baug fyrir heildarpakkann aðeins brot af því sem veiðileyfið kostaði eða 480 þús. Samkvæmt visir.is kostuðu þessir 3 dagar 600 þús fyrir ein hjón eða um 1.8 millj. alls þannig að afsláttur Baugs til Hauks var verulegur.

Spurningin sem ég vil fá svar við er þessi: Greiddi Guðlaugur Hauki listaverð fyrir sinn hluta eða einungis sinn hluta af þessum 480 þús.?

Ef Guðlaugur greiddi listaverð (600 þús fyrir þau hjónin) þá var ferðin í boði Guðlaugs. Þá meina ég Guðlaugur borgaði fyrir alla hina og gott betur, Haukur fékk hærri upphæð en hann greiddi Baug.

Ef hann greiddi bara sinn hluta af 480 þúsundunum þá var Guðlaugur að veiða í Miðfjarðará í boði Baugs.

Ef Guðlaugur greiddi bara sinn hluta (rúmlega 100 þús) mátti hann vita að hann væri að greiða þetta á undirverði.

Vissi Guðlaugur að ferðin var niðurgreidd?
Svar: Ef maðurinn hefur minnsta verðskyn þá mátti hann a.m.k. vita það.

Hvort er betra að heilbrigðisráðherra hafi vitað þetta en samt þegið ferðina, eða að hann hefði mátt vita það en ekki haft vit til að velta þessu fyrir sér?

Hvar eru fjölmiðlar okkar?

Við erum að tala um ráðherra í ríkisstjórn, mann sem talað er um sem mögulegan arftaka formanns Sjálfstæðisflokksins.

Finnst okkur þetta í lagi?
Bara af því að við erum svo glöð yfir því að við unnum silfur í handbolta á ólympíuleikunum?
Já og líka vegna þess að einn veiðimaðurinn vinnur á Fréttablaðinu, góður vinur hans er fréttastjóri Stöðvar 2 og morgunblaðið og RUV vernda sína menn.

Æi, ljótt er ef satt er.


Í þá gömlu góðu daga.

Mér áskotnuðust nokkrar gamlar myndir í tengslum við ættarmótin 2 sem ég fór á nú í ágúst. Gamlar myndir eru fjársjóður liðins tíma og vekja hjá manni hlýjar endurminningar. Myndin hér að neða er af mér sjálfri og er líklega tekin 1968.

Scan10029laga


Laxasalat

Í dag birtist á visir.is frétt um laxveiðiferð nokkurra lykilmanna í OR seinasta sumar. Einnig var þar á ferð heilbrigðisráðherra sem nota bene var nýhættur sem stjórnarformaður OR. Stangirnar allar skráðar á Baug en einhvern veginn er látið líta svo út sem Haukur Leósson þáverandi stjórnarformaður OR hafi borgað þetta, bara svona prívat og persónulega.

Já og svo hafi heilbrigðisráðherra gert upp við Hauk, svona prívat og persónulega, eftir á, án þess að hafa hugmynd um að stangirnar hafi verið skráðar á Baug.

Er virkilega ætlast til að við séum svo græn að við trúum svona löguðu? Hvernig er það, þegar félagar fara saman í frí, er það venjulega þannig að einn leggur persónulega út fyrir ferðinni og svo er gert upp við hann? Tja það fer nú allt eftir upphæðinni, við í saumaklúbbnum leigjum stundum bústað yfir helgi, ein borgar og svo allt gert upp eftir á jafnvel. Við erum að tala um nokkra þúsundkalla á mann. Þarna er verið að tala um 3 daga hver dagur á ca 150 þús og Guðlaugur gerði persónulega upp við Hauk sem hafði lagt út fyrir herlegheitunum.

Nei drengir þið verðið að gera betur ef við eigum að trúa þessu.

Þessi frétt fannst mér vera frétt dagsins, alveg þar til ég fylgdist með kvöldfréttum í ríkisútvarpinu, Stöð 2 og sjónvarpinu. Einungis sjónvarpið birti eitthvað um þetta og mogginn rétt minnist lauslega á þetta þar sem Vilhjálmur segir þetta hafa verið vinargreiða hjá Hauk.

Nei frétt dagsins er að fjölmiðlar virðast ekki hafa mikinn áhuga á þessu spillingarmáli. Hér er verk að vinna og hér þarf að grafa upp. Ef fjölmiðlum finnst þetta í lagi þá eru þeir dýpra sokknir en ég hafði gert mér grein fyrir.


Dagbókarfærslur Matthíasar og bloggfærslur almúgans

Í umræðu manna á meðal heyrist stundum að bloggið sé ómerkilegur miðill, kjaftasögur nútímans. Vissulega er margt ritað og birt sem betur hefði verið ósagt látið, ýmislegt sem ekki á við rök að styðjast. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að blogg er þess eðlis og ber að lesa með slíkum fyrirvara.

Bloggið gerir okkur kleyft að birta samdægurs skoðanir okkar á mönnum og málefnum og erfiðara er fyrir t.d. stjórnmálamenn að þagga niður óæskilegar sögur. Miðillinn er algerlega óritskoðaður með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir.

Nú seinustu daga hafa verið birtar á netinu dagbókarfærslur fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Ekki ætla ég að leggja mat á sannleiksgildi þessara frásagna af tveggja manna tali, þær eru þó að mínu viti í besta falli upplifun annars aðilans. Það er þó ljóst að fyrir ekki meira en 10 árum höfðu ritstjórar þessa blaðs ótrúlegt vald yfir því um hvað umræðan í þjóðfélaginu snerist og bjuggu yfir upplýsingum langt umfram það sem eðlilegt var.

Ég held að með tilkomu netmiðla og bloggs sé slíkt óhugsandi í dag og er það vel. Bloggið gerir okkur sauðsvörtum almúganum kleyft að segja álit okkar á málefnum dagsins samdægurs, við þurfum engan að spyrja hvort skoðanir okkar séu einhverjum þóknanlegar. Mun erfiðara er að þagga niður umræðu sem almenningur vill halda á lofti og er það vel. Ritstjórar Morgunblaðsins hafa ekki lengur þau völd sem þeir virðast hafa haft og er það vel.

Getur verið að mest agnúist út í hugrenningar almúgans á blogginu, þeir sem gjarnan vildu sjá þá gömlu tíma aftur þegar Morgunblaðsritstjórarnir höfðu töglin og hagldirnar stjórnmálaumræðu samtímans?


Minning um Ömmu

Um liðna helgi minntust fjölskylda Kristjönu Bjarnadóttur og Alexanders Guðbjartssonar frá Stakkhamri þess að í ár eru 100 ár frá fæðingu Kristjönu. Fjölskyldan kom saman og við þetta tækifæri fluttum við Kristjönurnar minningu um ömmu. Ég birti hér minn þátt í þessum minningum:

Þegar ég minnist ömmu man ég fyrst og fremst eftir glaðlegu andliti hennar. Mér fannst hún alltaf glöð og í góðu skapi og bera umhyggju fyrir öllum sem umgengust hana. Fyrst og fremst beindist sú umhyggja að nánustu fjölskyldu en hlýtt hjarta hennar rúmaði mun meira en þá sem næst henni stóðu.

scan0035cropAmma ólst upp við kröpp kjör en það hafði ekki áhrif á glaðlyndi hennar, vafalaust hefur léttlyndi hennar hrifið afa og efast ég ekki um að á milli þeirra hafi ástin blómstrað. Myndir sem hanga uppi á Breiðabliki í dag, teknar í Hvammi um 1937 sýna ástfangin hjón sem þá þegar áttu 4 heilbrigð börn.

Amma átti ekki kost á mikilli skólagöngu. Hún var þó á húsmæðranámskeiði í Skógarnesi haustið 1925 sem haldið var að tilhlutan búnaðarsambandsins. Þar lærði hún ýmislegt sem nauðsynlegt var að húsmæður í sveitum á þeim tíma kynnu.

Á þessum árum hefur þekking kvenna á eigin líkama líklega ekki verið mikil. Ég minnist þess að amma sagði  mér að í kringum 1940 hafi hún komist yfir bækling sem Katrín Thoroddsen læknir lét gera. Þessi bæklingur var fræðsla fyrir konur um starfssemi kvenlíkamans þar á meðal tíðahringinn og upplýsingar um hvenær konan væri frjó. Amma sagði mér að ef hún hefði vitað þetta fyrr hefðu börnin ekki þurft að verða svona mörg fyrstu búskaparárin.

Ömmu þótti gaman að fara á hestbak. Einhverju sinni eftir að nokkur elstu börnin voru fædd var ákveðið um kvöld að fara í reiðtúr. Líklega var það Bjargey sem tók að sér að gæta barnanna en a.m.k. afi og amma fóru á hestum upp á fjall. Veðrið var gott og útsýni gott. Amma hafði aldrei farið svona langt og hana langaði alltaf að sjá meira. Skilst mér að þau hafi farið inn á Tröllaháls en þar sést niður í Grundarfjörð. Þetta var fyrir ömmu mikið ferðalag og mikið ævintýri og vafalaust verið komið fram undir morgun þegar þau komu heim.

Ég man að amma fór nokkrum sinnum á hestbak með okkur Ernu. Hún fór á Perlu, meri sem Erna átti. Amma sat Perlu vel og Perla tölti fallega undir henni.

Afi féll snögglega frá vorið 1968, þá var amma rétt ekki orðin 60 ára. Amma sagði mér að þegar afi fór á aðalfund kaupfélagsins í mars þetta ár, hafi hann keypt armbandsúr og gefið henni með þeim orðum að óvíst væri að hann lifði 60 ára afmælið hennar sem var 10. nóvember sama ár. Hann reyndist sannspár og ég veit að ömmu þótti mjög vænt um þetta úr.

Það hefur örugglega verið tómlegt fyrir ömmu að vera ein í gamla húsinu eftir að afi dó. Því var ákveðið að við Erna skiptumst á að sofa hjá ömmu. Ég svaf því aðra hverja nótt hjá ömmu frá því um vorið 1968 til haustsins 1972 þegar amma flutti í Stykkishólm. Undanskilið er þegar amma dvaldi hjá hinum systkinunum eða þegar gestir voru hjá henni. Mér þótti gott að sofa hjá ömmu, það fylgdi henni ákveðin rósemi meðfram glaðlyndinu og þar leyfðist mér meira en heima. Ekki spillti fyrir að í morgunmat hjá ömmu fékk ég stundum kornfleks og jafnvel kókópuffs sem mér þótti mikið sælgæti.

Haustið 1971 brunnu fjárhúsin og hlöðurnar á Stakkhamri. Ég held það hafi fyllt ömmu ákveðnu öryggisleysi og í kjölfarið ákvað hún að flytja inn í Stykkishólm. Ég man eftir flutningunum og hvað mér fannst þetta skrýtið, fram að því hafði hún verið svo fastur punktur í tilveru minni. Ég man þegar við kvöddum hana á tröppunum á íbúðinni við Skólastíginn að það voru tár á kinninni. Mér fannst það skrýtið því á þeim árum var ég sannfærð um að fullorðnir grétu ekki. Þarna varð mér ljóst að fullorðnir hafa líka sínar tilfinningar.

Eins og þið öll vitið ber ég nafn ömmu. Mér hefur alla tíð þótt það mikill heiður þó mér á ákveðnu aldursskeiði hafi ekki þótt nafnið fallegt. Amma vildi alls ekki gera upp á milli barnabarnanna og allra síst vegna nafna okkar. Engu að síður fann ég ákveðna tengingu og er mjög stolt af því. Ég man að sem unglingur á mótunarskeiði velti ég því fyrir mér hvernig manneskja ég vildi verða og svarið kom fljótt: „Ég vil verða eins og amma“. Amma hefur því alla tíð verið mér fyrirmynd, léttlyndi hennar, dugnaður og hjartahlýja eru eiginleikar sem við öll ættum að hafa í heiðri og reyna að tileinka okkur.

PS. Þau atvik sem ég tel upp í þessum pistli hef ég að mestu eftir eigin minni. Mér hefur verið bent á að afi hafi verið orðinn það veikur rétt fyrir andlátið að líklega hafi hann ekki sótt kaupfélagsfund árið sem hann dó. Það breytir þó ekki því ég minnist þess að amma sagði mér að hann hafi fært sér gjöf einhverju fyrir andlátið með þeim orðum að hann efaðist um að lifa 60 ára afmælið hennar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband