Græða og grilla / Tapa og tárast

Mér varð það á í vikunni að nota góða hugmynd að bloggi í athugasemd á aðra færslu, það var nú kannski af því að færslan var kveikjan að hugmyndinni. Þannig var að Anna skólasystir mín skrifaði um sjálfstæðismennina sem áður vildu bara græða á daginn og grilla á kvöldin (sjá færslu Láru Hönnu frá því í janúar sl og einnig færslu mína frá sama tíma). Anna óttast að þeir séu bara núna að tapa á daginn og eldi inni á kvöldin. Ég held svei mér þá að þeir hafi ekki þrek í að elda, þeir eru bara að reikna tapið og svekkja sig á því.

tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu gegn íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt

tapa á daginn og tárast á kvöldin
taka skal stöðu með íslenskri mynt
saman þeir verja og halda um völdin
verðbólgubálið mikla skal kynt

Ég get hins vegar ómögulega ákveðið mig hvort passi betur að þessir menn taki stöðu gegn krónunni, þar vísa ég auðvitað til þess að orðrómur er um að bankarnir geri þetta. Hitt er að vísan passi betur með því að segja að þeir taki stöðu með krónunni, þar vísa ég auðvitað til seðlabankastjóra DO sem má ekki heyra á minnst á annað en að hún sé fullgildur gjalmiðill.


Ferð um gömlu Sovét - 2. Kafli

Þetta er framhald af fyrri færslu, 1. kafli er hér.

Ég bölvaði vinstrifótaskónum í hljóði, tók gömlu skóna og stillti þeim upp, tilbúnum í ferðina. Vissi að þeir væru óþægilegir í túristaráp, einnig að það væri ólíklegt að ég gæti keypt góða skó í Sovét. Ég gretti mig í hljóði.

Morguninn eftir átti ég bókað flug til Kaupmannahafnar, það var mæting í flugið kl 7.00, brottför kl 8.00. Þetta var fyrir þann tíma að almennir borgarar voru álitnir stórhættulegir í áætlunarflugi.

Ég var nýlega byrjuð að sofa hjá núverandi eiginmanni mínum. Nóttina fyrir ferðina gisti ég hjá honum enda var ég svo til húsnæðislaus á þessum tíma. Þessi elska ætlaði svo að keyra mig til Keflavíkur tímanlega í flugið. Tvær vekjaraklukkur voru stilltar, svona til öryggis.

Á mínútunni 7.00 vöknuðum við upp með andfælum.........í Breiðholti. Það tekur 45 mínútur að keyra til Keflavíkur........að lágmarki. Við hringdum í Flugleiðir, það var mögulegt að fluginu hefði seinkað. Nei, ekki aldeilis, vélin var á tíma.

Við drifum okkur í bílinn sem var gömul Ford Fiesta. Vélin var þanin til hins ýtrasta á Keflavíkurveginum. Darri vann á þessum tíma hjá Flugleiðum og kunni flugáætlunina utanað. Á leiðinni til Keflavíkur þuldi hann áætlunina, kl 9.00 væri vél á leið til London, ég gæti þó alltaf tekið hana.

"Ég er á leiðinni til Kaupmannahafnar, ekki til London", urraði ég.

"Það er alltaf hægt að komast frá London til Kaupmannahafnar" sagði Darri hinn rólegasti.

Fyrir mig sem þá var bara fátækur námsmaður hafði þessi ferð kostað hvítuna úr augunum á mér. Farseðill frá Íslandi til London og þaðan til Kaupmannahafnar var bara umfram það sem ég gat hugsað mér að punga út fyrir. Þar fyrir utan átti ég ekki greiðslukort og sá engan möguleika á að fjármagna þessi flugmiðakaup. Það sem mér fannst alverst var að ég var með öll ferðagögn Sigrúnar vinkonu minnar, vegna Sovétferðarinnar. Ég var í djúpum........

Klukkan var 7.50 þegar við lögðum fyrir utan flugstöðina. Darri þaut inn til að kanna hvort hægt væri að væla mig inn í flugið. Ég tók töskurnar og læsti bílnum.

Eins og áður sagði þá var þetta áður en flugfarþegar almennt voru álitnir skaðræðislið. Ég slapp í gegn, farangurinn tékkaður inn og ég hljóp í gegnum vegabréfaskoðun og eftir ganginum í flugstöðinni í átt að réttum rana.

Þegar ég nálgaðist rétt hlið áttaði ég mig á hvað ég var með í hendinni.

BÍLLYKILLINN!

Framhald síðar, hér er 3. kafli.


Nú er krónan ógæfuleg og óskiljanleg

Þegar fréttir eru skrifaðar í flýti geta dásamlegar ambögur orðið til. Í kvöld birtist á visir.is frétt eftirfarandi frétt:

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segir að atlaga sé gerð að krónunni, sem sé afskaplega ógæfuleg og óskiljanleg

Tja, ja, detta mér nú allar dauðar lýs úr höfði, er Davíð nú farinn að halda því fram að blessuð krónan sé ógæfuleg og óskiljanleg?

Ég hlustaði á viðtalið og einhvernveginn fannst mér akkúrat þetta ekki vera það sem hann átti við.

Ætli skýringin sé ekki sú að blaðamaður hafi aðeins misstigið sig í notkun á tilvísunarfornanfninu "sem". Svona misstök lífga aðeins upp á tilveruna á svona annars gráum degi.


Hver leyfði íslensku hagkerfi að éta fíl?

Það er svo margt sem ég ekki skil................

Ég hef skilið mitt hlutverk sem foreldri þannig að ég eigi að setja börnum mínum reglur og gæta þess að eftir þeim sé farið. Einnig að passa að þau fari sér ekki að voða og geri ekki óskynsamlega hluti.

Ég tel að hlutverk stjórnvalda í samfélögum gagnvart þegnunum sé áþekkt foreldrahlutverkinu. Setja reglur í samfélaginu, gæta þess að eftir þeim sé farið og gæta þess að samfélagið skaði ekki sjálft sig með óskynsamlegum ákvörðunum.

Hvernig gátu stjórnvöld undanfarinna ára leyft íslensku hagkerfi að éta fíl?

Þessi samlíking er komin úr viðtali við Tryggva Herbertsson sérlegan fjármálaráðgjafa forsætisráðherra í Kastljósinu í gærkvöld. Í sömu setningu sagði Tryggvi að íslenska hagkerfið hefði verið byggt fyrir mun minni bita.

Á sama tíma var bindiskylda bankanna hjá Seðlabankanum lækkuð, fyrirtækjum og húseigendum gert kleyft að veðsetja sig meira en áður, vextir hér hærri en í löndunum í kringum okkur þannig að áhættusæknir erlendir fjárfestar hömstruðu svokölluð jöklabréf. Á sama tíma voru miklar virkjana og álversframkvæmdir.

Þetta kallar Tryggvi að við höfum étið fíl án þess að ráða við það.

En ég bara spyr: Hvað voru stjórnvöld á þessum tíma að hugsa? Þeirra aðgerðir voru allar í þá átt að hvetja til þessa fílsáts.

Sauðsvartur almenningur veit ekki einu sinni hvað þessi orð þýða: Bindiskylda, áhættustuðull, jöklabréf............

Ég hef hins vegar velt því fyrir mér hvaða áhrif þetta muni hafa á pólitískt landslag í framtíðinni. Frjálshyggjan hefur boðað sem minnst afskipti af markaði. Það þýðir að öllum á að vera frjálst að taka þá áhættu sem viðkomandi vill á hverjum tíma, á því skulu vera sem minnstar hömlur og afskipti ríkisins að vera sem minnst. Er mögulegt að afleiðing þessa fílsáts okkar verði að almenningur kalli eftir meiri hömlum og afskiptum stjórnvalda? Já og einnig meira eftirliti?

Ég tel að ekki veiti af, ekki hef ég löngun til að borga fyrir fílaát gróðafíkla.

Annars hef ég verið að reyna að bæta orðaforða minn eins og sést hér að ofan, þ.e. bindiskylda, áhættustuðull, jöklabréf o.fl. Ég rakst nefnilega á bloggfærslur frá því í vor þar sem þetta er útskýrt á mannamáli. Ég hvet áhugasama til að skoða þetta hér og hér.


Ferð um gömlu Sovét - 1. Kafli

Sumarið 1988 fór ég ásamt Sigrúnu Völu vinkonu minni í ferð um Sovétríkin fyrrverandi. Ferðina fórum við með erlendri ferðaskrifstofu í gegnum ferðaskrifstofu stúdenta. Við heimsóttum 4 borgir, Leningrad, Kiev, Odessa og Moskvu. Til að komast inn í landið þurftum við með nokkurra vikna fyrirvara að sækja um visa hjá sovéska sendiráðinu og passa upp á það eins og lög gera ráð fyrir. Ferðin hófst á Kastrupflugvelli í Kaupmannahöfn þar sem við hittum fararstjórann sem var hollenskur að mig minnir og ferðafélagana sem voru frá mörgum löndum, margir bandarískir.

Sigrún var í vinnu í Noregi þetta sumar en ég átti bókaðan miða til Kaupmannahafnar degi fyrir Rússlandsferðina og ætlaði Sigrún að taka á móti mér á Kastrup. Ég ætlaði að vera með alla hennar pappíra, farseðil og visa.

Daginn fyrir ferðina fór ég í bæinn og keypti mér þægilega skó til að vera í á ferðalaginu. Þegar ég svo var að pakka niður um kvöldið tók ég skóna upp úr kassanum og skoðaði. Þeir reyndust vera báðir á vinstri fót.

Síðan hef ég sagt: "Ef þið kaupið skópar þar sem báðir skórnir reynast vera á vinstri fót þá..........VARÚÐ!"

Framhald síðar, hér er 2. kafli.


Rússarnir koma

Þegar stjórnvöld eiga í vandræðum heima fyrir hefur stundum verið sagt að nauðvörn þeirra sé að efna til ófriðar, herja á önnur lönd. Svona svo sauðsvartur almúginn hætti að hugsa um þrengingarnar heima fyrir.

Bush stjórnin sagði hryðjuverkamönnum stríð á hendur, stríð sem vonlaust er að taki endi.

Geir Haarde veifar Rússagrýlu.

Ekki hafði ég hugmyndaflug í að ráðaleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart efnahagsástandinu væri svona alvarlegt að það þyrfti að hræða okkur með yfirvofandi árásum frá Rússum.


Íslenski þjóðbúningurinn og þjóðsöngurinn

Seinustu daga hafa pilsklæddir karlmenn prýtt miðbæ Reykjavíkur. Flestir eru auk þess berleggjaðir og ég segi nú bara ekki meir. Ég átti leið um bæinn í gær og fannst þetta lífga verulega upp á tilveruna.

Þegar landsleikurinn hófst í gær var ég með sjónvarpið opið. Fyrst var íslenski þjóðsöngurinn sunginn, hljómfögur söngrödd ómaði, enginn fjöldasöngur. Svo kom sá skoski, aftur hljómaði falleg söngrödd en berleggjuðu skotarnir í köflóttu pilsunum stálu senunni og yfirgnæfðu söngkonuna.

Mikið öfundaði ég þá. Þjóðbúningurinn okkar eru þvílík spariföt að það klæðist þeim varla nokkur maður. Þjóðsöngurinn okkar er ekki óður til lands og þjóðar sem fyllir okkur stolti og hvetur okkur til dáða. Þjóðsöngurinn er óður til Guðs og hefur ekkert með land og þjóð að gera, textinn er tyrfinn og lagið getur enginn sungið.

Þjóðsöngur á að æra upp í manni þjóðerniskenndina og fylla mann stolti yfir því að tilheyra þessari þjóð og minna mann á hversu vænt okkur þykir um landið okkar. Hvaða línur í þessum texta gera það?

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:/: Íslands þúsund ár, :/:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Það vill svo til að við eigum texta sem uppfyllir það að æsa upp í manni þjog lagið við textann er grípandi og auðvelt að syngja:

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

Það er verra með þjóðbúninginn, sé ekki alveg hvernig við eigum að breyta honum þannig að hann henti fyrir klæðnað fyrir áhorfendur á íþróttaleikjum.


Fjárheimta

Um helgina tók ég þátt í fjárheimtuaðgerðum. Eggert skólabróðir minn á Hofstöðum er fjárhaldsmaður og þurfti að heimta sitt fé af fjalli. Sér til aðstoðar fær hann nokkra núverandi og fyrrverandi sveitunga og vini.

Þetta er fyrir mér orðin árlegur viðburður og skemmti ég mér alltaf konunglega. Hvernig er annað hægt, ég hef gaman af gönguferðum og ratleikjum og smalamennskur er ekkert nema risastór ratleikur. Í þessum ratleik má nota síma og eru sum símtölin æði skondin. "Hæ, farðu aðeins til baka, það er rolla á bak við holtið sem er á milli okkar". Ég er með í símanum mínum símanúmer hjá fólki sem ég hitti bara þennan eina dag á ári. Þetta eru samt mjög nytsamleg símanúmer.

Fjárheimtusvæðið er fallegt. Leyfi ykkur að njóta nokkurra mynda sem ég tók:

002

Vatnafell, liggur á milli Hraunsfjarðarvatns og Baulárvallavatns. Það er syðri endi Hraunsfjarðarvatns sem sést hér.

004

Hraunsfjarðarvatn. Horn fyrir miðri mynd, Vatnafell til hægri.

007

 Baulárvallavatn. Vatnafellið fyrir miðri mynd. Bjarnarhafnarfjall á bakvið það.


Sarah Palin

Ég hef verið að velta fyrir mér vali Republikana á varaforsetaefni, henni Söruh Palin. Vissulega skelegg og velútlítandi kona, þar að auki góður árgangur þar sem hún er víst jafnaldra mín.

En hjálp, gildin sem hún stendur fyrir.

  • Algert bann við fóstureyðingum.
  • Ævilangur félagi í félagsskap byssueigenda (við erum ekki að tala um að leyfa rifflaeign fyrir gæsaskytterí, það er heldur annar tilgangur með byssueign sem þessi félagsskapur miðar að).
  • Gegn réttindum samkynhneigðra.
  • Vill láta kenna "sköpunarfræði" í grunnskólum.

Það er ekki síst þetta með sköpunarfræðin sem mig sundlar yfir því með því tel ég markvisst unnið að fáfræði almennings og gegn vísindalegum framförum, sérstaklega í læknisfræði. Á hvaða þekkingarstigi er fólk sem vill að þetta sé kennt sem "vísindi"?

Ég vaknaði snemma í morgun og villtist í netráfi mínu inn á ræðuna hennar á flokksþingi Republikana í gærkvöld. Jú vissulega vel flutt ræða. En er nóg að vera góður ræðumaður til að verðskulda það að verða varaforseti Bandaríkjanna?

Ég held það þurfi heldur betur að skoða innihaldið og fyrir hvað blessuð konan stendur.

Því miður höfum við hér á klakanum ekki kosningarétt þarna úti og verðum að treysta á dómgreind kanans, hm..............


Net fyrir atvinnulausa

Í fréttablaðinu í dag bls 16 er frásögn sem ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á.

Á Alþingi í fyrradag var fjallað um aðsteðjandi efnahagsþrengingar og vandamál vinnumarkaðarins sem birtist meðal annars í auknu atvinnuleysi. Geir Haarde sagði: "Þeir sem missa vinnuna geta treyst á netið sem sterkt velferðarkerfi býður upp á."

Eitthvað hefur Guðni Ágústsson verið utanvið sig því hann steig í pontu heldur þungur á brún og fannst Geir ekki sýna vandanum tilhlýðilega alvöru: "Og forsætisráðherra segir fólki bara að treysta á netið!"

Nú er það spurningin hvort okkar "sterka" velferðarkerfi býður atvinnulausum upp á fría nettengingu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband