Á milli ættarmóta

Um seinustu helgi hittust afkomendur Laufeyjar Valgeirsdóttur og Bjarna Jónssonar sem lengi bjuggu í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Þau eru afi minn og amma í móðurætt.

Á svona ættarmótum er dýrmætt að hitta ættingjana og endurnýja kynni við frændfólkið. Það er nú einu sinni þannig að ættin hittist ekki í barnaafmælum eða sunnudagskaffiboðum, til þess erum við alltof mörg.

Laufey og Bjarni í Asparvík

Það sem er ekki síður mikilvægt á svona ættarmótum er að heyra frásagnir frá lífinu sem forfeður okkar lifðu. Að reyna að skilja hversu hörð lífsbaráttan var. Systkinin brugðu upp afar áhrifamikilli mynd af ömmu með lestri upp úr sendibréfum sem hún hafði skrifað. Sú mynd verður ekki endursögð hér en brugðið var ljósi á æðrulausa dugnaðarkonu sem vann hörðum höndum allt sitt líf með það að leiðarljósi að koma börnum sínum áfram í lífinu. Það er í raun stórmerkilegt að þrátt fyrir mikil veikindi afa og vafalaust lítil fjárráð hafi 5 af 10 systkinum tekið stúdentspróf og lokið háskólanámi.

Sendibréfin sem voru lesin voru mjög vel skrifuð, höfum í huga að amma var algerlega ómenntuð og líklega hafa sendibréf verið einu skiptin sem hún stakk niður penna.

Á ættarmótinu voru sýndar gamlar myndir sem skannaðar höfðu verið inn og þeim var einnig dreift. Þetta var frábært framtak. Ég ætla að nota mér þetta og birta hér gamla mynd af afa og ömmu.

Um næstu helgi mun ég hitta afkomendur Kristjönu Bjarnadóttur og Alexander Guðbjartssonar sem lengi bjuggu að Stakkhamri á Snæfellsnesi en þau eru hins vegar afi minn og amma í föðurætt.


Fossaganga

Mér hefur tekist í sumar að aftengja mig umheiminum. Ég hef farið í þrjár gönguferðir sem hafa verið 3ja - 6 daga langar. Líkamlega tekur þetta stundum á en andlega er þetta alger endurnæring.

Um verslunarmannahelgina fórum við Darri ásamt Rán dóttur okkar og vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í göngu upp með Djúpá í Fljótshverfi. Markmiðið var að skoða fossa sem leynast efst í Djúpárdal.

Ég læt myndirnar tala sínu máli.

IMG_7256

Fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgi getur litið svona út ef áhugi er fyrir hendi. Það skal tekið fram að við gengum samtals ca 30-35km með allan útbúnað á bakinu.

IMG_7322

Þetta er "Fossinn í Djúpá" af sumum nefndur Bassi. Nokkuð tignarlegur, flúðirnar þarna fyrir neðan eru einnig kraftmiklar og heillandi.

IMG_7324

Og enn fleiri fossar. Áin sem þessir fossar eru í, rennur í Djúpá rétt neðan við Bassa. Upp með þessari á er ævintýraland fossa. Hraunið er ógreiðfært en vel þess virði að fikra sig upp með ánni til að skoða nokkra fossa.

IMG_7339

Eins og kannski sumar myndirnar bera með sér þá hrepptum við þoku og súld. Á sunnudaginn voru greidd atkvæði um að taka struns í bílana eða eiga styttri dagleið og tjalda aftur blautum tjöldum í suddanum. Niðurstaðan var að dvelja eina nótt í viðbót og þá fundum við enn fleiri fossa. Þessi var með góðum hyl sem unglingarnir nýttu sér þar til tennurnar glömruðu. Það er engin lygi að þeim kólnaði nokkuð. Heitt kakó og hlýr svefnpoki var því vel þeginn eftir baðið. Það sá enginn eftir því að halda fossaleitinni áfram því við fundum nokkra fallega til viðbótar.

Fyrir þá sem vilja skoða fleiri fossamyndir þá má sjá þær hér.


Labbað kringum Langasjó

Ég er núna nýkomin úr göngu í kringum Langasjó. Það verður ekki sagt að veður og útsýni hafi leikið við okkur. Áætlunin hljóðaði upp á að arka á Sveinstind í upphafi eða enda göngu. Við fórum inn eftir á miðvikudagsmorgun og þegar að Sveinstindi kom var tindurinn auður og skyggni þokkalegt. Það var því ekki um annað að ræða en byrja á honum. Þetta eru rétt um 2km og 300-400m hækkun, það stóð á endum að þegar tindinum var náð steyptist yfir þoka. Við dokuðum örlítið við en þokan var ekkert á förum. Við vorum hins vegar ekki komin nema hálfa leið niður þegar birti og reyndust þetta vera einu 15 mín dagsins sem tindurinn var hulinn. Alltaf heppin!

Þá var að arka af stað, við reyndum að fylgja leiðarlýsingu sem kemur fram í bókinni "Bíll og bakpoki". Þegar fyrirhuguðu tjaldstæði var náð var freistandi að halda áfram þar sem ljóst var að næsti dagur yrði langur og strangur. Við höfðum þegar þarna kom við sögu arkað um algera eyðisanda og var þetta fyrsta gróðurvinin. Það var því úr vöndu að ráða, freista þess að önnur vin reyndist við næsta horn eða slá upp tjöldum. Við ákváðum að freista þess að ganga lengra og reyndist ekki síðri staður vera nokkrum kílómetrum lengra. Við slógum upp tjöldum hvíldinni fegin eftir samtals um 20km þramm þar af ca 15 með bakpokana.

Langisjór liggur í um 650m hæð y. sjó og því er hitastig mun lægra en á láglendi, það er samt alveg merkilegt hvað maður finnur lítið fyrir því í svona ferðum, ef maður passar upp á að hreyfa sig aðeins fyrir svefninn og fer heitur í pokann þá sefur maður alveg dæmalaust vel.

Næsti dagur heilsaði heldur þungbúnari en skyggni hélst þokkalegt fram yfir hádegi, þá mætti þokan. Við máttum af engu missa og eftir að hafa fundið Grasver sem reyndist vera orðin eyðisandur þá hófst leitin að Fagrafirði. Það þýddi að við þurftum að fara aðeins til baka og klöngrast yfir fjallgarðinn aftur. Um það leyti sem Fagrifjörður átti að blasa við steyptist þokan yfir og við sáum varla út úr augum. Þar sem við vissum ekki vel hvar væri fært meðfram vatninu var afráðið að henda sér upp á efstu toppa og ganga eftir þeim, miðað við kort átti það að vera heillavænlegast. Í þokunni tókst okkur svo að finna rana sem var þokkalegur til niðurgöngu. Þetta var ágæt æfing í notkun korts og GPS og gekk bara þokkalega.

Þá hófst ægilegt ark í þokunni og leit að tjaldstæði sem Páll Ásgeir lýsir í bókinni sem sandeyri milli tveggja vatna. Fyrra vatnið var ægilangt og við enda þess töldum við nauðsynlegt að fara hátt upp í hlíð til að komast fyrir það. Þá var ekki mikill afgangur eftir af mér og var með naumindum að ég harkaði af mér til að komast það, orðin æði lúin enda munum við hafa arkað um 28km þennan dag. GPS tækið mældi reyndar 33km. Því trúðu ferðafélagarnir ekki, sögðu að þá myndu þau vera miklu þreyttari, mitt svar var einfaldlega að ég væri svo þreytt að ég tryði því bara alveg.

Tjaldstæðið reyndist vera í möl en það var bara ekki um neitt annað að ræða í rokinu og rigningunni. Er virkilega til fólk sem eyðir sumarfríinu sínu sjálfviljugt svona? Greinilega.

Við slógum upp tjöldum og það kom sér vel að vera með sandhæla og ofan á þá sóttum við björg til að festa betur. Að þessu sinni var engin afgangsorka eftir fyrir kvöldgöngu og eftir kakóið og strohið var lagst beint í pokann. Botninn á mér var kaldur og það fór mikil orka í að hita pokann og ég lá lengi og bylti mér áður en ég sofnaði. Svefninn var líka æði skrykkjóttur þarna í rokinu og rigningunni og fannst okkur í sumum hviðunum að nú myndi bara allt fjúka. Ég geri mér enga grein fyrir hversu mikið ég svaf, en mér fannst ég vakna á korters fresti.

Milli klukkan fimm og hálfsex um morguninn voru allir vaknaðir og ákveðið að taka sig saman. Það tók að venju einn og hálfan klukkutíma og um sjö leytið í morgun var lagt af stað í töluverðum vindi og það ringdi þétt. Það tók okkur um 3klst að þramma þá 12 km sem við áttum í bílinn. Þá var ég gegnblaut og 3ja laga goritex útivistarúlpunni minni var sagt upp störfum enda komin til ára sinna, henni verður ekki boðið með í aðra ferð.

Þegar ég kom heim í dag var ég algerlega búin á því og lagði mig. Ég velti því mikið fyrir mér hvað mér gengi eiginlega til með því að velja mér maraþonhlaupara sem ferðafélaga en þeir voru: Darri (eiginmaður og maraþonhlaupari), Þóra (vinkona okkar og maraþonhlaupari) og Palli (vinur okkar og mikill fjallagarpur). Ég held reyndar að ég hafi svona að mestu haft við þeim, dróst reyndar aðeins aftur úr í mestu brekkunum. Ég verð seint talin íþróttamannslega vaxin en í flokki stuttfættra með plattfót held ég að ég standi mig bara þokkalega, enda ætla ég að keppa í þeim flokki.

Svo lengi sem ég með einhverju móti held í við þessa ferðafélaga mína, ætla ég að halda því áfram, það hins vegar tekur á en er svo sannarlega þess virði. Þó útsýni hafi verið minna seinni hluta göngunnar en við hefðum kosið, þá var þetta mjög gaman. Ánægjan felst ekki síst í því að reyna á þolrifin og lifa þessum "minimalisma" sem fylgir gönguferðum þegar allur útbúnaður er skorin við nögl en verður jafnframt að duga við erfiðar aðstæður.

Myndirnar mínar úr þessari göngu eru ekki eins litríkar og upplifunin var og því er þetta myndalaust blogg. Ætla að hlaða einhverjum myndum inn í Picasa en er ekki búin að því enn. Þegar þar að kemur má skoða myndir hér.


Gerpisganga - myndir

Ég er alltaf að verða meira netvædd. Nú er ég búin að uppgötva Picasa Web Album. Ég hef sett myndirnar mínar frá Gerpisgöngunni þar inn og ef einhver hefur áhuga þá er hægt að skoða þær þar. Ég biðst forláts en þær eru frekar margar en það má auðveldlega spóla hratt í gegnum þær ef áhuginn minnkar.

Myndirnar má skoða hér.


Gengið um Gerpissvæðið

Á hverju sumri fer ég í nokkra daga gönguferð (oftast 6 daga) með félögum mínum í Trimmklúbbi Seltjarnarness. Nú er ég nýkomin úr einni slíkri sem var um Gerpissvæðið milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar. Að þessu sinni var þetta trússferð en áður höfum við ferðast um eins og snigillinn með allt á bakinu.

Ferðaþjónustan á Mjóeyri við Eskifjörð sá að mestu um skipulagningu, leiðsögn og trúss. Gönguleiðin var eftirfarandi:

Dagur 1: Úr Norðfirði um Hellisfjörð í Viðfjörð
Dagur 2: Úr Viðfirði út á Barðsnes. Þeir sprækustu fóru upp í Kerlingarskarð og gengið var á Sandfell.
Dagur 3: Jarðmyndanir og steingervingar á Barðsnesi skoðað.
Dagur 4: Frá Barðsnesi í Vöðlavík. Nokkrar leiðir voru mögulegar. Ég fór um Sandvíkurskarð yfir í Sandvík, gekk í leiðinni á Gerpiskoll og síðan um Gerpisskarð yfir í Vöðlavík.
Dagur 5: Frjáls dagur í Vöðlavík. Ég
gekk ásamt 8 öðrum á fjallið Snæfugl.
Dagur 6: Gengið út fyrir Krossanesskriður yfir að Karlsskála yst í Reyðarfirði.

Hér að neðan verður ferðasagan sögð með nokkrum myndum.

031

Í Kerlingarskarði sem er milli Viðfjarðar og Sandvíkur. Þar þurfti að gæta varúðar vegna lauss grjóts sem hrundi úr sporum okkar. Mátti litlu muna að einn steinninn færi í höfuð einnar konunnar. Í staðinn lenti hann í fæti annarrar og skrámaði hana. Sú fékk litla samúð því við vorum svo ánægð með stefnubreytinguna sem þetta slys olli á steininum!

042

Kerlingin í Kerlingaskarði skoðuð.

069

Það er hefð fyrir því að taka börn með í ferðina. Þau hafa aldrei verið til trafala á göngu og á kvöldin eru þau mjög dugleg að leika sér saman algerlega þvert á aldur.

093

Á Barðsnesi er mikil litadýrð.

096

Á Barðsnesi eru steingerð eða koluð tré sem hafa verið mjög sver og margar mannhæðir að hæð. Þau bera þess vitni að loftslag hafi verið með allt öðrum hætti hér fyrir mörgum milljónum ára.

214

Hér sést yfir í Vöðlavík úr Gerpisskarði, frá vinstri: Sauðatindur, Snæfugl, Svartafjall og Hesthaus. Snæfuglinn freistaði okkar sem verkefni næsta dags.......

229

Snæfugl freistaði okkar og gengum við 9 á hann. Leiðin var víða hrikaleg, háir hamrar og við fikruðum okkur meðfram klettunum, verst var hversu grjótið var víða laust. En upp komumst við og þá fær göngumaður ríkulega útborgað.

241

Þetta er nú bara svona smá montmynd af toppnum.

263

Þegar upp var komið hugsaði ég með mér: "Úff hvernig verður að komast niður", það gekk bara vonum framar, en klöngur var þetta.

268

Ganga þurfti nokkurn spöl á milli klettabelta. Milli klettabeltanna var snarbratt og við fikruðum okkur eftir riminni þar á milli.

305

Útsýni af Karlsstöðum í Vöðlavík. Svartafjall, Snæfugl, Hesthaus.

347

Leiðsögumaðurinn Sævar og hundurinn Týra. Sævar er einnig leiðsögumaður fyrir hreindýraveiðimenn á svæðinu. Sævar er flinkur leiðsögumaður, les hópinn vel, leiðbeinir fólki vel með mismunandi gönguleiðir en það er nauðsynlegt þegar um 55 manna hóp er að ræða. Einnig segir hann vel frá og hafsjór af alls kyns sögum af svæðinu.

Mest áhrif hafði hann þó á hópinn þegar hann sagði frá strandi rækuskipsins Bergvíkur í Vöðlavík á Þorláksmessu 1993 og síðan í framhaldi af því þegar björgunarskipið Goðinn fórst við tilraunir til að ná Bergvíkinni af strandstað í janúar 1994. Þá var Sævar 23 ára og var vettvangsstjóri á strandstað.

Ég hvet fólk eindregið til að skoða þetta svæði og fá Sævar til að sjá um ferðina, hann og konan hans Berglind leggja sálina í það sem þau gera og ég óska þeim alls hins besta í því.


Fossasund

Sund í bergvatnsám er íþrótt sem fjölskyldan (að mér undanskilinni) stundar grimmt, hylir undir fossum eru bestir. Flestar bílferðir og gönguferðir um landið ganga út á að finna fossa og taka sundprett í hyljunum.

Mitt hlutverk er að standa á bakkanum og munda myndavélina. Á ég ótal myndir af restinni af fjölskyldunni við þessa iðju. Um liðna helgi dvöldum við með dóttur okkar í sumarbústað hjá tengdaforeldrum mínum. Þar var einnig Saga frænka.

Við fórum í langan göngutúr og fundum fallegan foss. Myndirnar tala sínu máli.

c_users_notandi_pictures_2008-07-06_017_594371.jpg

Fyrst var að venjast vatninu.

c_users_notandi_pictures_2008-07-06_018.jpg

Þessi mynd af Sögu finnst mér bara nokkuð góð.

043bf

Þarna unir skottan mín sér best, ýmist ofaní hylnum, undir bununni eða bak við fossinn.

c_users_notandi_pictures_2008-07-06_028.jpg

Eiginmanninum veitti ekki af svolítilli sturtu.

040

Saga var byrjandi í íþróttinni og tók leiðsögn Ránar vel.


Hvernig metum við líf

Mál nokkurra lífvera á flótta hefur verið mjög í fréttum nú í vor og sumar.

Tvo Grænlendinga rak á land í Skagafirði í júnímánuði og fór þjóðin algerlega af límingunum þegar sá fyrri fékk ekki landvistarleyfi. Stjórnvöld sáu sitt óvænna og gripu til umfangsmikilla kostnaðarsamra aðgerða til að reyna að tæla þann seinni til að bjarga lífi sínu með afleiðingum sem öllum eru kunn.

Þá kemur að villtum Kenyabúa. Sá hafði komið hér áður, verið hér sem skiptinemi, gat haft samskipti við innfædda, hafði aðstoðað Íslendinga við þróunaraðstoð í heimalandi sínu en komist þar upp á kant við þarlend stjórnvöld og taldi sér ekki vært í sínu landi. Fannst honum nærtækast að leita á náðir lands þar sem hann þekkti eitthvað til.

Nei, okkur Íslendingum þótti ekki einu sinni taka því að taka málið til efnislegrar umfjöllunar þrátt fyrir að maðurinn væri búinn að vera hér mánuðum saman.

Það tók ekki nema nokkra klukkutíma að ákveða að senda hingað danskan dýralækni og sérhannað búr fyrir hælisleitandann í Skagafirði.

Í hverju felst munurinn?

Hvítur vs svartur
Ísbjörn vs maður
Skagafjörður vs Reykjavík
Umhverfisráðuneyti vs dómsmálaráðuneyti
Grænland vs Kenya

Já hvað er það sem skiptir máli þegar við berum þessi mál saman. Ég bara skil ekki í hverju munurinn liggur.


Ég er hugsi

Að mínu mati hafa fjölmiðlar fjallað ótrúlega lítið um meint innherjaviðskipti Landsbankans með íbúðabréf áður en tilkynnt var um aðgerðir stjórnvalda þann 19. júní sl. Sjónvarpið var með stutta frétt um þetta á föstudagskvöld en Stöð 2 fannst þetta ekki fréttnæmt þann daginn. Jú bæði fréttablaðið og 24 stundir minntust á þetta í laugardagsblaðinu, rétt er það.

Ég lít hins vegar á að þetta sé stórmál. Nú er einhver rannsókn í gangi og á meðan þá gleymum við alveg um hvað málið snerist.

Var nauðsynlegt að forsætisráðherra kallaði bankastjóra Landsbankans til sín á sérstakan fund til að upplýsa hann um þetta áður en fjölmiðlar fengu þessar upplýsingar, hvaða nauðsyn kallaði á það? Ég er bara forvitin.

Hvaða nauðsyn var á því að viðkomandi bankastjóri sendi öðrum aðilum í fjármálaheiminum þessar upplýsingar fyrir lokun markaða þennan dag? Mér finnst að það þurfi að upplýsa okkur sauðsvartan almenning um þetta. 

Fullyrt hefur verið að viðskipti Landsbankans með íbúðabréf seinasta klukkutíma fyrir lokun markaða hafi verið margföld miðað við hina bankana. Tilviljun? Ekki veit ég hvort svona gríðarlegar sveiflur geti verið í þessum viðskiptum, ef það er ekki venjan finnst mér ekki hægt annað en fyllast grunsemdum. 

Nei, bankarnir hafa glatað trausti almennings og ég krefst þess að þessu máli sé haldið gangandi.

Ofurlaun í fjármálakerfinu hafa einmitt verið skýrð með því að þessu fylgi mikil ábyrgð og áhætta, menn verða þá að gangast við bæði ábyrgðinni og áhættunni og taka því ef þeim verði fótaskortur á svellinu.

Var samkomulag í ríkisstjórninni um að gefa þessar upplýsingar til ofangreindra aðila? Ef svo þá vil ég vita hvaða nauðsyn bar til að gefa þær út. Ef ekki þá skuldar forsætisráðherra okkur skýringar, einhvers staðar hefði einhver þurft að segja af sér.

Ég hef fengið mig fullsadda af sjálftökuliðinu og misnotkun valds. Fjölmiðlar standa sig illa í að veita nauðsynlegt aðhald. Við almenningur verðum að halda vöku okkar og krefjast skýringa.


Blessuð sértu sveitin mín

Í dag var kvaddur hinstu kveðju Páll Pálsson frá Borg í Miklaholtshreppi. Það var einkennileg tilfinning að sitja í Grafarvogskirkju ásamt fólkinu sem fyllti Fáskrúðarbakkakirkju jafnt á hátíðarstundum sem á sorgarstundum fyrir 30 árum.

Meðan á athöfninni stóð fannst mér ég heyra sömu ræskingarnar, hljóðin sem myduðust þegar fólkið rak fæturna í ofnana undir sætunum, brakið í loftinu þar sem kórinn stóð og brakið í stiganum þegar pabbi fór upp á loft til að hringja. Já, mér fannst ég líka heyra klukknahringinguna í Fáskrúðarbakkakirkju.

Það er svo einkar viðeigandi að kveðja bónda eins og Pál með ljóðinu "Yndislega ættarjörð", öll sveitin lifnaði í huga mér þegar þetta ljóð var sungið í dag. Sveitin öll græn, nýslegin tún á öllum bæjum og verið að snúa í og allir vonuðu að þurrkurinn entist nógu lengi til að hægt væri að hirða þurra töðuna.

Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín
- yndislega sveitin mín!-
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.

Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína,
þakkarklökkva kveðjugjörð,
kveð ég líf þitt, móðir jörð.
Móðir bæði mild og hörð
mig þú tak í arma þína.
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína.

Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda' í hendur.
Foldin geymi fjötur sinn.
Faðir lífsins, Drottinn minn,
hjálpi mér í himin þinn
helgur máttur, veikum sendur.
Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda' í hendur.


Að skera sig úr fjöldanum - má það?

Það er staðreynd að í mörgum skólum, bæði grunnskólum og leikskólum, á sér stað trúarinnræting. Er þar ýmist um að ræða beina aðkomu presta í heimsóknum í skóla og leikskóla, einnig eru kirkjuferðir á vegum skólans og bænastundir sem kennarar standa fyrir.

Sterk hefð er meðal þjóðarinnar fyrir því að sjálfsagt þyki að allir fylgi þjóðkirkjunni. Það er hins vegar svo að henni tilheyra í dag ekki nema um 80% þjóðarinnar skv tölum hagstofunnar fyrir árið 2007. Kristnum trúfélögum tilheyra hins vegar um 90% þjóðarinnar. Munum að þessar tölur segja ekki nema hálfa söguna um trúariðkun eða trú þjóðarinnar, þetta er einungis trúfélagaskráning.

Það sem þessar tölur segja okkur er að 10% þjóðarinnar eru ekki skráð í kristið trúfélag. Í 20 barna bekk má gera ráð fyrir að a.m.k. 2 börn séu ekki alin upp við kristna trú.

Er eðlilegt að farið sé með bænir í kennslustundum og kennarinn líti yfir bekkinn og fylgist með hvort allir lúti höfði og biðji af heilum hug?

Er eðlilegt að prestur komi inn í bekk fermingarárgangs og úthluti tímum í viðtal með foreldrum til undirbúnings fermingarfræðslu? Komi síðan með athugasemdir fyrir framan öll börnin til þeirra sem ekki vilja þiggja, spyrji hvort barnið vilji nú ekki ræða þetta við foreldrana.

Er eðlilegt að kennari fullyrði við börnin að það trúi allir á guð?

Er eðlilegt að kirkjuferðir á vegum skóla séu ekki valfrjálsar?

Er eðlilegt að þjóðkirkjuprestur segi að "þeir sem skeri sig úr fjöldanum hljóti einhvern tíma að mæta því"?

Hvað er maðurinn að segja? Er kirkjunni leyfilegt að vanvirða þá lífsskoðun fólks utan trúfélaga að trú sé ekki nauðsynlegur hluti lífsins?

Hvernig getum við ætlast til að börnin virði rétt hvers annars til að vera öðruvísi en fjöldinn (klæðaburður, kynþáttur, getustig) þegar þjóðkirkjuprestar geta ekki virt þennan rétt?

Sjálfsagður er réttur allra til að stunda sína trú, það er líka sjálfsagður réttur þeirra sem ekki hafa trú að vera ekki þröngvað til að taka þátt í trúarathöfnum. Þetta á einnig að gilda um börn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband