Að skera sig úr fjöldanum - má það?

Það er staðreynd að í mörgum skólum, bæði grunnskólum og leikskólum, á sér stað trúarinnræting. Er þar ýmist um að ræða beina aðkomu presta í heimsóknum í skóla og leikskóla, einnig eru kirkjuferðir á vegum skólans og bænastundir sem kennarar standa fyrir.

Sterk hefð er meðal þjóðarinnar fyrir því að sjálfsagt þyki að allir fylgi þjóðkirkjunni. Það er hins vegar svo að henni tilheyra í dag ekki nema um 80% þjóðarinnar skv tölum hagstofunnar fyrir árið 2007. Kristnum trúfélögum tilheyra hins vegar um 90% þjóðarinnar. Munum að þessar tölur segja ekki nema hálfa söguna um trúariðkun eða trú þjóðarinnar, þetta er einungis trúfélagaskráning.

Það sem þessar tölur segja okkur er að 10% þjóðarinnar eru ekki skráð í kristið trúfélag. Í 20 barna bekk má gera ráð fyrir að a.m.k. 2 börn séu ekki alin upp við kristna trú.

Er eðlilegt að farið sé með bænir í kennslustundum og kennarinn líti yfir bekkinn og fylgist með hvort allir lúti höfði og biðji af heilum hug?

Er eðlilegt að prestur komi inn í bekk fermingarárgangs og úthluti tímum í viðtal með foreldrum til undirbúnings fermingarfræðslu? Komi síðan með athugasemdir fyrir framan öll börnin til þeirra sem ekki vilja þiggja, spyrji hvort barnið vilji nú ekki ræða þetta við foreldrana.

Er eðlilegt að kennari fullyrði við börnin að það trúi allir á guð?

Er eðlilegt að kirkjuferðir á vegum skóla séu ekki valfrjálsar?

Er eðlilegt að þjóðkirkjuprestur segi að "þeir sem skeri sig úr fjöldanum hljóti einhvern tíma að mæta því"?

Hvað er maðurinn að segja? Er kirkjunni leyfilegt að vanvirða þá lífsskoðun fólks utan trúfélaga að trú sé ekki nauðsynlegur hluti lífsins?

Hvernig getum við ætlast til að börnin virði rétt hvers annars til að vera öðruvísi en fjöldinn (klæðaburður, kynþáttur, getustig) þegar þjóðkirkjuprestar geta ekki virt þennan rétt?

Sjálfsagður er réttur allra til að stunda sína trú, það er líka sjálfsagður réttur þeirra sem ekki hafa trú að vera ekki þröngvað til að taka þátt í trúarathöfnum. Þetta á einnig að gilda um börn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Góður pistill Kristjana, alveg sammála þér.

Mofi, 27.6.2008 kl. 00:23

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég bergmála eiginlega bara Mofa - frábær pistill, takk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 27.6.2008 kl. 00:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband