Blessuð sértu sveitin mín

Í dag var kvaddur hinstu kveðju Páll Pálsson frá Borg í Miklaholtshreppi. Það var einkennileg tilfinning að sitja í Grafarvogskirkju ásamt fólkinu sem fyllti Fáskrúðarbakkakirkju jafnt á hátíðarstundum sem á sorgarstundum fyrir 30 árum.

Meðan á athöfninni stóð fannst mér ég heyra sömu ræskingarnar, hljóðin sem myduðust þegar fólkið rak fæturna í ofnana undir sætunum, brakið í loftinu þar sem kórinn stóð og brakið í stiganum þegar pabbi fór upp á loft til að hringja. Já, mér fannst ég líka heyra klukknahringinguna í Fáskrúðarbakkakirkju.

Það er svo einkar viðeigandi að kveðja bónda eins og Pál með ljóðinu "Yndislega ættarjörð", öll sveitin lifnaði í huga mér þegar þetta ljóð var sungið í dag. Sveitin öll græn, nýslegin tún á öllum bæjum og verið að snúa í og allir vonuðu að þurrkurinn entist nógu lengi til að hægt væri að hirða þurra töðuna.

Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín
- yndislega sveitin mín!-
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.

Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína,
þakkarklökkva kveðjugjörð,
kveð ég líf þitt, móðir jörð.
Móðir bæði mild og hörð
mig þú tak í arma þína.
Yndislega ættarjörð,
ástarkveðju heyr þú mína.

Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda' í hendur.
Foldin geymi fjötur sinn.
Faðir lífsins, Drottinn minn,
hjálpi mér í himin þinn
helgur máttur, veikum sendur.
Faðir lífsins, faðir minn,
fel ég þér minn anda' í hendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband