Vi taler dansk í Danmark

Íslensk börn læra dönsku í grunnskóla, þau sem halda áfram í framhaldsskóla eru skyldug til að bæta við þá kunnáttu sína. Það er nokkuð víst að margir líta á þetta nám sem hina mestu kvöl og pínu og algengt er að danska sé á lista yfir óvinsælustu námsgreinarnar.

Dóttir mín (Rán) 16 ára sem í vor lauk grunnskólanámi er ein þessara nema, danska hefur lengst af verið hennar stærsti höfuðverkur og leit hún á þessa námsgrein sem óyfirstíganlega hindrun í sínu námi. Þrátt fyrir það stóð hún sig með mikilli prýði í prófum í vor, sjálfri sér, foreldrum og kennara til mikillar undrunar og gleði.

Um seinustu helgi fór fjölskyldan til Kaupmannahafnar, frábært tækifæri til að nota þessa þekkingu. Við fórum í búðir, tilgangurinn var m.a. að finna gallabuxur. Í dönskukennslubókunum sem notaðar eru í íslenskum grunnskólum eru gallabuxur kallaðar "cowboybukser". Hér kemur samtal dóttur minnar við danska afgreiðslustúlku í Zöru á Strikinu:

Afgreiðslustúlkan: "Kan jeg hjælpe dig?"

Rán: "Ja, har du cowboybukser?"

Afgreiðslustúlkan horfði með miklum spurnarsvip á Rán, hún velti greinilega fyrir sér hvað hún væri að meina, kúrekabuxur voru svo sannarlega ekki hluti af tískuvarningi þessa árs. Svipur afgreiðslustúlkunnar var óborganlegur, "þú ættir frekar að fara í reiðvöruverslun" var svona það sem lesa mátti af svipnum.

"Mener du jeans?" spurði afgreiðslustúlkan eftir langa mæðu.

Framburður á orðinu jeans var verulega danskur meira svona "jens" og Rán gat ómögulega áttað sig á hvað stúlkan var að segja. Ég stóð álengdar og Rán kallaði mig til hjálpar, "hún var að meina "djíns" útskýrði ég.

Þar með var allt orðið ljóst. Þrátt fyrir að íslenskar dönskukennslubækur kenni íslenskur grunnskólanemum að gallabuxur nefnist cowboybukser á dönsku þá er það kunnátta sem gagnast nákvæmlega ekki neitt í tískubúðum á Strikinu.

Gallabuxur á dönsku er JEANS.

Nú vitum við það.


Amma

Kristjana amma mín fæddist 10. nóvember árið 1908. Í tilefni af því að á þessu ári eru 100 ár liðin frá fæðingu hennar munu afkomendurnir koma saman í sumar.

Ég birti hér tvær myndir sem mér áskotnuðust nýlega af ömmu og eina af húsakynnum sem hún ólst upp í.

KristjanaBjarnadttir-vi_laga

Ég veit ekki með vissu hvenær þessi mynd var tekin en ég reikna með að það sé áður en hún hóf búskap með afa. Líklega er amma í kringum 20 ára gömul á þessari mynd. Mér finnst amma mjög lík frænku minni Kristjönu Þorbjargardóttur á þessari mynd.

ammameðbarn

Þessi mynd er mjög falleg mynd af móður með barn. Ég veit því miður ekki hvaða barn þetta er og því veit ég ekki hvenær myndin var tekin. Á þessari mynd finnst mér amma líkjast mjög Siggu frænku minni Friðriksdóttur.

eb-1

Þessi mynd er líklega frá Laxárbakka en þangað flutti amma með foreldrum sínum um 3ja ára aldur og bjuggu þau þar þangað til þau fluttu að Miklaholtsseli þegar amma var um 9 ára aldur. Það er mögulegt að þessi mynd sé frá Miklaholtsseli.


Sagan af litla sæta ísbirninum

Ég ætla að leyfa mér að vera verulega ómálefnaleg og linka inn á ísbjarnarsögu sem mér finnst vera ákveðinn botn á umræðunni.

Einhvern veginn efast ég um að þessi saga sé sögð út frá sjónarhóli heimilisfólksins að Hrauni á Skaga.

Ekki orð um það meir.


Í tengslum við náttúruna

Fyrir um 20 árum heyrði ég eftirfarandi sögu frá Vestmannaeyjum:

Bandarísk kona kom til Eyja sem ferðamaður. Hún fór í skoðunarferð og skoðaði fuglabjargið. Hún undraðist allan fuglafjöldann og varð að orði: "Hvernig farið þið eiginlega að því að gefa öllum þessum fuglum að borða?"

Mér fannst þessi saga óborganlega fyndin og bera vott um hversu Kaninn væri kominn langt frá náttúrulegu umhverfi sínu. Það var nú eitthvað annað með okkur Íslendingana, allir í miklum tengslum við náttúruna.

Af hverju dettur mér þessi saga í hug í dag?


Um ísbjörninn, ég verð að fá að vera með

Ég verð að fá að vera með í ísbjarnarumræðunni, bloggheimar loga og allir hafa skoðun.

Bangsinn sem kom hér um daginn olli miklu fjaðrafoki eins og frægt er orðið og margir beturvitrungar vissu sko alveg hvernig átti að lúlla svona dýri í svefn. Svo átti bara að fá einhverja vélsmiðjuna til að útbúa gám og húrra bangsa svo úr landi, hvert var aukaatriði. Fæstir hugsuðu málið til enda.  Besta innleggið átti samt Bylgja vinkona mín og ég leyfi mér að benda á það hér.

Kostulegt er að mun lægra ris er á þessum sömu beturvitrungum í dag. Dýralæknirinn á Blönduósi sem taldi fyrir nokkrum dögum að vel hefði verið hægt að koma deyfilyfi í björninn með byssu segir í dag að hægt væri að gera það með deyfilyfi gegnum æti en slíkt væri bara tilraunastarfssemi. Ekki getur það samræmst dýravernd að vera með slíkar tilraunir.

Er ekki betra að hugsa áður en við rísum upp og gagnrýnum aðgerðir eins og þær hvernig brugðist var við fyrri ísbirninum?

Getur náttúruvernd snúist um björgunaraðgerðir á einstökum dýrum? Ég held ekki, jafnvel þó dýrin séu tvö með nokkurra daga millibili.

Náttúruvernd hlýtur að snúast um miklu víðtækari atriði. Náttúruvernd snýst miklu frekar um:

  • hvernig við umgöngumst takmarkaðar auðlindir jarðar
  • takmörkun á útblæstri gróðurhúsalofttegunda

Ísbirnir í sínu náttúrulega umhverfi deyja eðlilegum dauðdaga. Það að fara út fyrir búsvæði sitt er feigðarflan fyrir ísbirni og líklegra en ekki að það leiði til dauða. Vafalaust týna margir lífi á sundi í íshafinu, tilviljun ein réði að þessir tveir sem hingað komu þetta árið lifðu af. Ísbjarnarstofninn er í nákvæmlega sömu stöðu þó þeim sé bjargað með miklum tilkostnaði og margir leggi sig í hættu við þá aðgerð.

Talandi um tilkostnað þá er það dæmi um auglýsingamennsku þegar auðmenn bjóðast til að kosta tiltækið. Hvað ætli vegi þyngst hjá viðkomandi auðmönnum, umhyggja fyrir einstökum ísbirni, umhyggja fyrir ísbjarnarstofninum í heild eða tækifæri til að tengja nafn sitt á jákvæðan hátt við málefni sem fólk ber heitar tilfinningar til?

Sjálfsagt er að setja upp viðbragðsáætlun, gleymum hins vegar ekki að eftir skoðun á öllum möguleikum getur sú áætlun hljóðað upp á mjög einfalda aðgerð:

Skjóta strax.


Google reader - kennslustund

Fyrir þá sem hafa gaman af að lesa blogg er nauðsynlegt að hafa aðgang að Google reader. Þetta hefur á íslensku verið kallað "bloggsafnari" en í stuttu máli þá virkar það þannig að maður setur inn slóð þeirra bloggara eða vefsíðna sem maður vill fylgjast með og þá sér maður á þessari síðu strax og nýjar færslur eru birtar.

Margir eru með bloggsíðurnar í "favorites" í tölvunni sinni og þurfa að opna síðurnar til að sjá hvort eitthvað nýtt birtist. Google reader vaktar nýjar færslur og hægt er að lesa sumar þeirra beint af google reader síðunni.

Ég ætla hér að setja inn smá leiðbeiningar um hvernig maður setur upp og notar google reader:

Stofnið ykkar eigin reikning (google account). Það er gert af slóðinni: https://www.google.com/accounts/ManageAccount Í honum er einnig tölvupóstur. Ef þið eruð með gmail tölvupóst getið þið notað þann reikning, veljið bara "reader" frá gmail síðunni (flipi efst uppi).

google1

Til að stofna "google reikning" þarf að fylla inn einhverjar persónuuplýsingar en að því loknu getið þið opnað google reader.

Hér að neðan er síðan mín. Þar er ég búin að setja inn nokkrar slóðir hjá bloggurum sem ég vil gjarnan fylgjast með. Það geri ég með því að klikka á add subscription. Þar set ég inn slóð viðkomandi bloggara.

google2

Hér sést að ég á eftir að lesa eina færslu hjá Andra (sem segir alltaf sannleikann!) og eina færslu á Dreifaranum. Með því að smella á "Andri segir sannleikann" þá birtist færslan hans þar og ég get lesið hana beint úr Google reader. Sum vefsvæði gera manni þetta ekki kleift og þarf maður þá að fara inn á síðuna til að lesa alla færsluna.

Neðst er flipi sem heitir "manage subscription". Þar getur maður föndrað með síðurnar og m.a. gefið þeim nýtt nafn því sum nöfnin tengir maður ekki auðveldlega við bloggarann. Ég hef t.d. breytt nafni bloggsins Rudlarah í "Halli Strympu" þar sem með því veit ég betur hver þar er á ferð.

Annars er bara best að prófa sig áfram með þetta. Moggabloggið er með  bloggvinakerfi og í gegnum það getur maður fylgst með moggabloggvinum sínum. Suma moggabloggara vill maður kannski fylgjast með án þess að stofna til formlegra tengsla og þá er þetta sniðugt, einnig til að fylgjast með þeim sem eru á öðrum vefsvæðum.

Það er ekkert mál að henda út af listanum eða bæta inn á hann, allt eftir áhuga manns hverju sinni. Svo er engin skylda að lesa þetta allt en fínt að fylgjast með hverjir eru með lifandi síðu.

Semsagt ég mæli með þessu fyrir þá sem lesa fleiri en eitt blogg.

Gangi ykkur vel.


"Fláður" ísbjörn

Oft kennir ýmissa ambögugrasa hjá fréttamönnum. Nú í kvöld náðu fréttamenn á Stöð 2 nýjum hæðum, margsinnis var sagt að ísbjörninn margumræddi hefði verið "fláður".

Ojæja.

Gott ef hann var ekki líka fláráður.............


Olíuhreinsunarstöð - smellið til að spila

Kæru lesendur nær og fjær.

Ég bið ykkur um að skoða myndband sem baráttukonan Lára Hanna Einarsdóttir birtir á síðunni sinni.

Gefið ykkur örfáar mínútur í næði og hlustið á textann í laginu.

Hlustið jafnframt á orð þeirra sem ákaft vilja reisa olíuhreinsunarstöð í Arnarfirði.

Veltum fyrir okkur hvaða ábyrgð hvílir á okkur að varðveita landið okkar fyrir afkomendur okkar.

Hugsum einnig um fiskimiðin eða eru þau nú orðin einskis virði?

Lára Hanna á mikinn heiður skilinn fyrir óeigingjarna baráttu sína fyrir náttúru Íslands.


Samræmt próf í náttúrufræði - svör - athugasemdir

Nú nýlega birti ég færslur þar sem ég gagnrýndi samræmt próf í náttúrufræði (hér og hér). Ég hef skoðað svör við spurningum í þessu prófi og hef ég athugasemdir sem snúa að svörum sem ég tel að séu annað hvort röng í útgefnum svörum námsmatsstofnunar eða að spurningin orki það mikils tvímælis að rétt hefði verið að fella hana út. Þessar athugasemdir snúa að 4 af 79 spurningum. Það eru 5% prófsins og jafngildir einkunn upp á 0,5. Það munar um minna í prófi sem þessu.

Hér að neðan birti ég spurningarnar og athugasemdir mínar ásamt "réttum" svörum skv námsmatsstofnun:

natt_32

Ef sett er upp reitatafla miðað við þær upplýsingar sem gefnar eru kemur í ljós að öll börnin verða arfblendin og þar sem lausir sneplar erfast með ríkjandi geni verða öll börnin með lausa snepla.

Þó öll þessi börn eignist maka sem er arfhreinn með víkjandi geni (fastir sneplar) er ekki hægt að fullyrða neitt um það að minnsta kosti helmingur barna þeirra verði með lausa snepla, aðeins er hægt að segja að helmingslíkur séu á að það gerist. Því getur svarmöguleiki I ekki verið réttur, rétt svar hlýtur því að vera H.

Hér er blandað saman líkum á að atburður gerist og vissu fyrir því að hann gerist. Á því er grundvallarmunur.

Námsmatsstofnun gefur upp að svarmöguleiki I sé sá rétti.

natt08_33 

Ég gerði athugasemd við þessa spurningu í bréfi sem ég sendi námsmatsstofnun. Á myndunum kemur ekkert fram sem gerist í jafnskiptingu en ekki í rýriskiptingu.

Myndirnar í prófspurningunni sýna það sem kallað er metafasi, anafasi og telofasi, þessir fasar eru bæði til í jafnskiptingu og rýriskiptingu, í rýriskiptingu koma þessir fasar fyrir tvisvar sinnum, seinna skiptið eru þeir eins og í jafnskiptingu. Kynfrumur myndast við rýriskiptingu og því eru K, L og M allt réttir svarmöguleikar.

Námsmatsstofnun gefur upp að K sé rétti svarmöguleikinn

natt_61

Skv svörum námsmatsstofnunar er fyrsti svarmöguleikinn réttur. Hann er að vísu auðkenndur með V í svörunum. Þetta er nær örugglega villa í svörunum og augljóslega er rétti svarmöguleikinn D. Það er hins vegar ótrúlega mikil handvömm að námsmatsstofnun birti svör með "klaufavillu".

natt08_69-70

Í bréfi mínu til námsmatsstofnunar gerði ég athugasemd við þessa spurningu.

Eftir mikla yfirlegu komst ég að því að til að spurningin gengi upp þyrftu efnin í upphafi að hafa verið tvö, bæði í föstu formi. Við 10°C færi annað efnið að bráðna og við 35°C gufar þetta sama efni upp. Eftir væri hitt efnið í föstu formi. Þetta er hins vegar mjög langsótt skýring og líklegast er að spurningin hafi ekki verið hugsuð til enda. (Sjá nánari pælingar varðandi þessa spurningu hér).

Námsmatsstofnun fellir út spurningu nr 70 en lætur spurningu nr 69 standa. Réttast hefði verið að fella báðar þessar spurningar út.

Námsmatsstofnun gefur upp að P sé réttur svarmöguleiki í spurningu 69.

Ég mun á næstu dögum skrifa námsmatsstofnun bréf með þessum athugasemdum. Umsóknarfrestur um skólavist í framhaldsskólum næsta vetur rennur út nú rétt eftir næstu helgi. Einkunnum verður því tæplega breytt en námsmatsstofnun hefur afrekað að gera lítið úr vinnu fjölda unglinga.


Gallar í samræmdu prófi í náttúrufræði

Nú nýlega birti ég færslur (hér og hér) þar sem ég gagnrýni samræmt próf í náttúrufræði sem lagt var fyrir 10. bekk grunnskóla nú í vor. Í prófinu voru nokkrar meingallaðar spurningar, sumar beinlínis rangt hugsaðar og einnig margar spurningar sem voru alls ekki úr því efni sem var kennt. Ég álít þetta próf vanvirðingu við bæði nemendur og kennara sem hafa undanfarin ár lagt á sig mikla vinnu með það að markmiði að búa nemendur undir framhaldsskólanám.

Svör við prófspurningunum birtust á vef Námsmatsstofnunar í dag. Ég er að skoða þau og í stuttu máli þá hef ég athugasemdir við þau sem ég mun birta nú næstu daga.

Prófið sem lagt var fyrir í ár var að hluta til úr efni sem ekki var að finna í þeim kennslubókum sem notaðar voru í flestum skólum. Ég bendi á að þær kennslubækur sem notaðar voru í skólanum þar sem ég þekki best til voru samtals 7 og blaðsíðufjöldi þeirra var á bilinu 77-173 bls. Þætti mörgum nóg um slíkt námsefni í menntaskóla og jafnvel háskóla, hér erum við að tala um 15 ára grunnskólabörn.

Ég veit dæmi um börn sem alla tíð hafa staðið sig vel í náttúrufræði en komu illa út úr þessu prófi.

Til að komast inn á náttúrufræðibraut í framhaldsskólum er viðmiðið að nemandi hafi náð 5.0 í náttúrufræði. Í þessu prófi náðu 32% þeirra sem þreyttu prófið ekki þeirri einkunn. Þess ber að geta að aðeins 49% nemenda í öllum árganginum þreyttu þetta próf og má gera ráð fyrir að þar hafi verið um að ræða nemendur sem hafi haft það markmið að komast inn á náttúrufræðibraut og treystu sér til að ná tilskilinni einkunn.

Það er eðlileg krafa nemenda og foreldra að framhaldsskólar taki mið af því hversu prófið var illa samið og breyti þessari viðmiðun í ár. Að öðrum kosti eigum við það á hættu að margir úr þessum árgangi hætti við að læra raungreinar í framhaldsskóla og það væri mikill skaði.

Námsmatsstofnun ber mikla ábyrgð á því hvernig þessum börnum reiðir af. Það er óásættanlegt ef mörg börn upplifa sig vanmáttug gagnvart þessu fagi og hætta við frekara nám í raunvísindum.

Námsmatsstofnun skuldar nemendum, kennurum og foreldrum skýringar á því hvaða hugsun var lögð til grundvallar þessu prófi.

Er það markmið þessarar stofnunar að fækka þeim nemendum sem fara á náttúrufræðibrautir í framhaldsskóla?

Er það markmið þessarar stofnunar að brjóta niður sjálfsmynd nemenda?


mbl.is Nemendur á suðvesturhorni stóðu sig best
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband