Menntun stjórnmálamanna

Það er einkennilegt að Staksteinar Morgunblaðsins skuli helst finna það Samfylkingunni til hnjóðs að henni stjórni menntað fólk. Er þetta það versta sem Staksteinar gátu sagt um Samfylkinguna í grein sem lýsir af hræðslu Sjálfstæðisflokksins við að verða ekki alltaf stærstir?

Tap fyrir menntuðu fólki.

Er það kostur ef stjórnmálamenn eru ómenntaðir? Munum að menntun og prófgráður fara ekki alltaf saman.

Það skyldi þó ekki vera að þjóðin sé orðin of menntuð fyrir sjálfstæðisflokkinn, farin að sjá í gegnum bláu slykjuna og hugsa sjálfstætt.


Niðurstöður samræmdra prófa

Flest börn í 10. bekk grunnskóla fengu útkomu sína úr samræmdum prófum afhenta í dag. Sjálfsagt hafa viðbrögðin verið eins mismunandi og börnin eru mörg, allt frá ofsagleði til mikils áfalls.

Sannleikurinn er sá að þessi próf skipta börnin miklu máli. Um skólavist í mörgum framhaldsskólunum er samkeppni milli barnanna, vinningshafar í þeirri samkeppni eru þau börn sem fengu bestar einkunnir. Mér hefur lengi fundist það vafasamt fyrirkomulag, einkunnir gefa ekki allar upplýsingar um getu nemandans.

Ég hef áður gagnrýnt prófið sem lagt var fyrir í náttúrufræði í ár (hér og hér). Ég hef ekki staðfestar upplýsingar um hvernig það kom út á landsvísu en mínar heimildir herma að einkunn upp á 8,5 hafi dugað til að vera meðal 1% þeirra sem fengu besta útkomu og einkunn upp á 7,5 hafi dugað til að vera meðal þeirra 8% sem fengu bestu útkomuna. Því getur einkunnin 6,5 og jafnvel 6.0 verið fín einkunn. Ef satt er þá segir þetta mikið um hversu erfitt prófið var.

Það sem er alvarlegt er að þessar upplýsingar fylgdu ekki einkunnum barnanna í öllum tilvikum (a.m.k. ekki í skóla dóttur minnar). Því upplifðu nemendurnir lágar einkunnir og eru margir miður sín vegna þess, jafnvel þó þau hafi staðið sig vel miðað við hópinn í heild. Margir krakkarnir eru um þessa helgi að taka ákvörðun um hvaða framhaldsskóla þeir eigi að sækja um og einnig hvaða brautir.

Lágar einkunnir í náttúrufræði geta orðið til þess að krakkar hætti við að sækja um náttúrufræðibraut í framhaldsskóla. Sérstaklega ef enginn hefur útskýrt fyrir barninu að einkunnin sé kannski alls ekki svo slæm.

Oft hafa heyrst áhyggjuraddir vegna minnkandi ásókn nemenda í raungreinar, þetta er ekki til að bæta það.

Ég bíð eftir réttum svörum í náttúrufræðiprófinu, þau eiga að birtast á vef námsmatsstofnunar fljótlega. Það verður fróðlegt að sjá með hliðsjón af athugasemdum mínum.


SPRON fékk gula spjaldið

Það er varhugavert að treysta bönkum. Það fékk ég að reyna nýverið. Við hjónakornin erum bæði með okkar bankaviðskipti í SPRON, fluttum okkur þangað fyrir nokkrum árum, fengum okkur debetkort, kreditkort og einhverja sparireikninga svona eins og gengur.

Ég skal viðurkenna að ég fer ekki nákvæmlega yfir bankayfirlitin sem ég fæ send ca 2var á ári. Enn hirði ég þó kortanótur og visareikningana fer ég alltaf yfir þó stundum dragist það nokkra mánuði, ég geri það á endanum. Þar sem debetkortið er minna notað þá skoða ég það ekki eins nákvæmlega.

Hvað um það. Nýlega fékk ég yfirlit. Á því var mánaðarleg færsla, færð 21. hvers mánaðar alveg frá því í janúar (reyndar líka á fyrra yfirliti sem mér hafði láðst að skoða). Þessi færsla heitir "heimildargjald" og var upp á 1500kr og bankinn hirti þetta, bara sisona.

Mér var ekki skemmt þar sem mér var ekki kunnugt um hvaða "heimild" bankinn hefði. Hringdi í morgun í bankann. 

Talaði við þjónustufulltrúa sem fannst líklegast að þetta tengdist yfirdráttarheimild, ég varð tortryggin þar sem ég nota slíkt aldrei, finnst það okurlán.

Fulltrúinn lofaði að athuga málið og hringdi seinni partinn.

Jú, ég hafði í upphafi verið með yfirdráttarheimild upp á einhver hundruð þúsund og það hafði ekki kostað neitt á sínum tíma. Það skal tekið fram að þessa heimild nota ég ALDREI. Nýlega hefði bankinn ákveðið að lækka "ókeypis" heimildina um helming en rukka fólk sem áfram væri með svona háa heimild um 1500kr á mánuði. Líklega fékk ég sent fyrir nokkrum mánuðum bréf frá bankanum með þessari tilkynningu, ég hef lesið framhjá þessu, talið mig vera með kort með ákveðnum skilmálum sem samið hefði verið um í upphafi og lét því ekki lækka heimildina.

Þjónustufulltrúinn var búinn að bakfæra þennan pening þegar hún hringdi í mig, 15.000kr, eða 10 mánuði aftur í tímann.

Það var eins gott fyrir SPRON því svo mikið er víst að annars hefði bankinn fengið rauða spjaldið og töluvert bölv hefði fylgt þessari færslu.

Hvað sem því líður þá er það siðlaust að selja manni ákveðin kjör í upphafi og lauma svo inn bakdyramegin einhverju allt öðru og rukka mann um stórfé fyrir.

Þegar við fluttum okkur til SPRON fylgdu einnig viðskiptunum líftrygging. Slíkt finnst mér reyndar bull, en hvað um það, við töldum okkur hafa þessa tryggingu. Í símtalinu í dag kom einnig fram að það væri búið að fella þessa tryggingu niður.

Já, maður skyldi lesa vel bankapóstinn sinn, líka smáaletrið.


Júróvisjónrím og textar

Ég játa það á mig að hafa gaman af Júróvisjón. Að í sömu söngvakeppninni sé pláss fyrir finnskt þungarokk, balkanskar ballöður, spænskt grín og austurevrópskan súludans, það er bara fyndið.

Þetta er bara dásamlegt. Dásamlegast af öllu er þó textagerðin, þegar þjóðir sem státa af mismikilli enskukunnáttu byrja að ríma á engilsaxnesku, útkomn getur verið ansi skemmtileg.

Hér koma nokkur dásamleg dæmi:

Grikkir árið 2005 (vinningslagið það árið):

You´re my lover
under cover
I´ve no other

Þetta kalla ég dýrt kveðið.

Hvíta Rússland nú í ár (komust ekki upp úr forkeppninni):

Baby,
goodbye,
I´ll miss you
maybe

Ég þori ekki alveg að lofa að þetta sé kórrétt, en þetta var mjög nálægt þessu. Dásamlegur kveðskapur. Það var karlmaður sem söng og mikið held ég að elskan hans sé ánægð með hann sakni hennar................kannski.

Grikkir voru nálægt sigri í ár. Ég treysti mér ekki til að fara rétt með textann en uppistaðan í ríminu var:

Destination
Combination
Imagination

Dýrara verður þetta tæplega.

Það væri svo hægt að taka aðra umferð á sviðsetningum.

Hverjar eru líkurnar á því að verða Ólympíumeistari á skautum og vinna Evróvision? Hm, vinningslagið var ágætt en hvað skautadansarinn var að gera á þessum plastdúk, því náði ég ekki.


Afi og amma

afiogamma

Rætur okkar liggja hjá forfeðrunum, það er okkur hollt að minnast þeirra með reglubundnum hætti, minnast kjara þeirra og aðbúnaðar sem var slíkur að okkur er ómögulegt að skilja eða skynja með hvaða hætti þau náðu að koma fjölda barna upp. Lífið var daglegt amstur og frítími var hugtak sem þeim var ókunnugt.

Ég man að amma minntist þess að hafa farið frá Hjarðarfelli þar sem hún þá bjó, í reiðtúr inn á fjall, þannig að hún sá yfir á láglendið að norðanverðu Snæfellsnesi. Það var í hennar huga mikið ferðalag, mikil tilbreyting í lífi þess tíma.

Myndin hér að ofan er af afa mínum Alexander Guðbjartssyni og ömmu minni Kristjönu Bjarnadóttur. Þessi mynd er líklega tekin árið 1938 eða 1939. Þau áttu þá þegar 4 börn, 5 voru ófædd.

Í sumar munu afkomendur þeirra hittast og minnast þeirra. Þau og þeirra kynslóð lagði grunninn að því velferðarkerfi sem við lifum við í dag. Þau skildu nauðsyn þess að leggja fyrir þegar vel áraði til að lifa af þegar harðnaði á dalnum. Þau skildu líka nauðsyn samfélagslegrar samhjálpar.

Það er langt síðan það var hart í ári hjá okkur, einhvers staðar á leiðinni höfum við glatað þessum skilningi.


Evrópa og við

Stundum geta stjórnmálamenn verið óskaplega sjálfhverfir, halda að stjórnmál snúist um þá, þeirra völd og stærð stjórnmálaflokkanna. Björn Bjarnason nær að mínu mati ákveðnu hástigi í Fréttablaðinu í dag.

"Hvers vegna skyldum við efna til átaka ef við höfum ekki beina hagsmuni af því - þjóðarhagsmuni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei mælt með stórum skrefum í utanríkismálum nema  forystumönnum hans hafi tekist að sannfæra flokksmenn um að það sé nauðsynlegt með þjóðarhag í huga."

Á mannamáli: "Það er forystan sem ákveður hvaða mál má ræða innan flokksins, forystan veit betur en almenningur hvað þjóðinni er fyrir bestu. Það gæti skaðað flokkinn ef málin eru rædd. Ef flokkurinn skaðast (missir fylgi) eru völd hans í hættu. Því borgar sig engan veginn fyrir flokkinn að taka óþægileg mál á dagskrá".

frett_19mai

Þetta er ekki í fyrsta skiptið í vetur sem kjósendum og almennum flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins er sýnd óvirðing í vetur.

Af hverju má ekki ræða Evrópusambandið?

Getur verið að það sé vegna þess að Flokkurinn óttist um vald sitt?

Hvort er mikilvægara, hagsmunir þjóðarinnar í heild eða vald þessa stjórnmálaflokks?

Það skal tekið fram að ég er ekki endanlega sannfærð um að hagsmunum okkar sé best borgið í Evrópusambandinu, það hefur vantað vitræna umræðu til að ég geti tekið endanlega afstöðu.

Það verður að mega tala um þetta svo fólk viti um hvað málið snýst.


Spilaði og söng

Í heimavistaskólanum Laugargerði á Snæfellsnesi vissum við stundum ekki alveg hvað við ættum að gera af okkur á kvöldin, rétt eins og algengt er með unglinga allra tíma. Við söfnuðumst saman á einhverju herberginu, stelpurnar oftast á herbergi 314. Hrúguðumst þar, setið þétt í hverri koju, líka í þeim efri. Það kom fyrir að svo margir væru þarna saman komnir að einnig væri setið í glugganum.

Ólína tók gítarinn og byrjaði að spila, "Um sólsetur í fjörunni", "Híf op æpti karlinn", "Þýtur í laufi" og mörg fleiri lög. Það varð vinsælt að skrifa textana upp í stílabækur og læra þá utanað.

Svona gátum við setið og sungið heilu kvöldin, allir textar á hreinu, flottast var þegar einhverjar gátu raddað lögin, stundum var dundað sér við það.

Það er farið að fenna í minniskubbin þar sem textarnir eru geymdir. Það var sannreynt um helgina, Ólína með gítarinn, Erna og Elín með hringlur, hristur og trommur. Textarnir runnu ekki eins ljúflega upp úr okkur og áður, stundum þurftum við að humma laglínuna. Frekar pínlegt, eins og við kunnum þetta einu sinni vel.

Það er ljóst að það þarf að hressa upp á textakunnáttuna hjá okkur.


Meira af samræmdu prófi í náttúrufræði

Ég birti nýlega færslu þar sem ég gagnrýndi samræmt próf í náttúrufræði sem lagt var fyrir 10. bekk grunnskóla nú nýlega. Þar tók ég eingöngu fyrir þær spurningar sem að mínu viti voru beinlínis rangar eða úr efni sem ekki var í þeim kennslubókum sem lagðar voru til grundvallar.

Nú ætla ég að bæta um betur og benda á atriði sem hafa mun minna vægi en eigi að síður eru sérkennileg í þessu prófi.

natt08_17

Í lífefnafræði er gerður greinarmunur á "sykrum" og "sykri" þar sem "sykrur" er samheiti yfir efnasambönd sem einnig eru kölluð kolvetni. Matarsykur eða það sem við köllum sykur (einnig reyrsykur) í daglegu tali, er tvísykra og er samsett úr einsykrunum glúkósa og frúktósa.

Ég geri ekki ráð fyrir að nemendur 10. bekkjar þekki þennan mun og þessi villa í spurningunni ætti því ekki að hafa áhrif á hvernig þau svara þessari spurningu, það er hins vegar eðlileg krafa til prófhöfunda að notuð séu rétt hugtök.

natt08_23

Einungis lítillega er farið í stökkbreytingar í námsefninu, ekkert um það að til að stökkbreyting valdi krabbameini þurfi breytingu í fleiri en einu geni nema einstaklingurinn hafi erft eitthvað af þessum breytingum. Þessi spurning er því til hliðar við námsefnið.

Ég aðstoðaði nokkrar stúlkur fyrir prófið. Við þá aðstoð gleymdi ég mér og fór að útskýra fyrir þeim ýmislegt varðandi krabbamein og stökkbreytingar, bara af því mér fannst þetta skemmtilegt og áhugavert, ekki af því að þetta væri hluti námsefnisins. Nú hef ég heyrt frá einni stúlkunni að hún hafi getað þessa spurningu eingöngu vegna þessa "skemmtifyrirlestur" míns.

natt08_38

Í þessari spurningu er svar L rétt. Ég gat hins vegar ekki fundið neitt um þetta í kennslubókunum. Eftir leit á google fann ég á vísindavefnum að tunglið hefði "bundinn möndulsnúning" sem þýðir að það hefur jafnlangan snúningstíma og umferðartíma. Þetta fann ég ekki í kennslubókinni.

natt08_41

Ég hef verið að velta fyrir mér hvað þetta "yfirleitt" í þessari spurningu þýðir. Veit einhver dæmi þess að flóð og fjara verði ekki tvisvar á sólarhring? Í prófi þar sem stöðugt er verið að leggja gildrur fyrir nemendur þá skiptir máli að orðalag spurninganna veki ekki upp vafa hjá nemendum.

natt08_48

Spurningar sem fjalla um fjölda rafeinda á hvolfum frumefna hafa verið fastur liður í prófum undanfarinna ára. Það er líka betra að kunna skil á þessu til að skilja lotukerfið en lotukerfið er hluti námsefnisins. Hins vegar er ekki fjallað um rafeindahvolf í þeirri kennslubók sem lögð er til grundvallar námsefninu. Ekkert er farið í það hvernig fjöldi rafeinda á ysta hvolfi hafi áhrif á röðun frumefnanna í lotukerfinu.

natt08_62

Þar sem þessi spurning er í eðlifræðihluta prófsins er eðlilegt að ætla að verið sé að fjalla um áhrif saltmagns á frostmark. Ég get hins vegar ekki fallist á að svarið í H lið sé rangt.

natt08_63

Hvaða máli skiptir orðið "hendi" í lið L? Hefði ekki verið nóg að segja: "Málmur leiðir betur varma en plast"?

natt08_78

Þessi mynd sýnir ekki rafgreiningu vatns. Til að rafgreina vatn er ekki nóg að stinga tveim vírum í vatnsglas og hleypa straum á. Myndin hér að neðansýnir rafgreiningu vatns. Ég veit dæmi þess að nemandi lét þetta atriði trufla sig og velti því fyrir sér í hvort málið væri að það væri ekki hægt að rafgreina vatn með þessum hætti og efnið sem myndaðist væri því bara vatn, sbr svar M.

natt_06

Athugasemdir mínar við prófið sem birtast í þessari færslu hef ég ekki sent Námsmatsstofnun, mér þótti þær léttvægari en þær sem ég birti hér áður. Engu að síður er hér um atriði að ræða sem eiga ekki að koma upp í prófi sem þessu.

Það er eðlileg krafa nemenda, kennara og foreldra að svona próf séu yfirlesin af fólki með þekkingu á þeim sviðum sem verið er að prófa úr. Viðkomandi verður einnig að hafa þekkingu á því námsefni sem lagt er til grundvallar prófi sem þessu. Þetta hefur ekki verið gert.


Eggjarnar - Eggin

Ég er enn ekki komin niður á jörðina eftir göngu helgarinnar á Þverártindsegg(jar). Á kortum og í mörgum bókum er helst talað um Þverártindsegg. Við gistum að Hala í Suðursveit, konan sem rekur gististaðinn sagði okkur að heimamenn töluðu um Þverártindseggjar, það hlýtur því að vera rétt.

Þvílík orkuinnspýting sem svona ferð er. Eftir að heim kom hef ég helst dundað mér við að lesa í tindabókum um hvaða tinda er helst að stefna á næst. Einnig hef ég "googlað" myndir af þeim stöðum sem heilla. Það er af nógu að taka.

Á Hala er Þórbergssetur, safn tileinkað Þórbergi Þórðarsyni. Þetta er verulega vel upp sett safn sem jafnframt segir sögu sveitarinnar og lífshætti þar á fyrri hluta seinustu aldar.

Staðarhaldarar hafa einnig sett saman myndir af ferð heimamanna í Veðurárdali árið 1985. Bændur fóru þarna að leita kinda, ekki var vit að æða þangað að erindisleysu. Veðurárdalir eru dalir inn á milli Breiðamerkurjökuls og Þverártindseggja, milli hárra fjalla og þangað er illfært gangandi mönnum. Fyrir 1985 var aðeins vitað um eina eða tvær ferðir þangað. Veðurárdalir eru eitt af þessum svæðum sem mér finnst spennandi að stefna á.

Ég var búin að segjast ætla að sýna leiðina sem við fórum. Hér kemur það:

kb3

 Þessi mynd er stolin af síðunni oraefi.is. Þar er frásögn ísklifrara sem fóru upp þar sem bláa línan er. Ég teiknaði inn okkar leið, það er sú rauða. Skriðjökullinn fyrir miðri mynd heitir Skrekkur, sprungan góða er þar sem rauða örin er.

Enn og aftur frábær ferð og við hlökkum mikið til næstu ferðar.

Eggjandi geggjað á Þverártindseggjum

Frá því í janúar hef ég stefnt að göngu á Þverártindseggjar. Þverártindseggjar ganga suðaustan úr Vatnajökli ofan við Kálfafellsdal í Suðursveit.

Það er mér nauðsynlegt að hafa eitthvað svona til að stefna að til að halda mér við efnið í líkamsræktinni, annars er hætta á að ég leggist í sófann.

Við lögðum af stað úr Reykjavík á föstudag strax eftir vinnu. Veðurspáin var ekki spennandi en ef aðeins væri lagt af stað þegar veðurstofan spáir heiðríkju er ég hrædd um að lítið væri um gönguferðir. Á leiðinni austur var rigning og oft þungt yfir. Fyrir austan Skaftafell skall á með hávaðaroki og það tók í bílinn. Á Breiðamerkursandi var slydda. Það er ekki hægt að segja að okkur hafi fundist tilhugsinin um fjallgöngu spennandi í þessu veðri.

Við lögðum að stað klukkan 7 á laugardagsmorgun og heldur var þungt yfir öllum fjöllum en veðrið var milt og nánast logn.

Ferðasagan verður sögð hér að neðan, að miklu leyti í myndmáli.

IMG_5441 

Við fengum íslenska fjallaleiðsögumenn til að leiða okkur upp og hjá þeim er hægt að leigja allan búnað, ísaxir, brodda, belti og línur.

IMG_5444

Gamla settið með soninn í upphafi göngu. Þetta er fjórða árið í röð sem við förum í svona vorgöngu. Hvannadalshnjúkur, Eyjafjallajökull, Hrútfjallstindar og nú Þverártindseggjar. Sindri er það illa smitaður að hann er kominn í sitt eigið ferðafélag og hyggur á Hvannadalshnjúk um næstu helgi.

IMG_5454

Það er ekki ofsögum sagt að uppgangan hafi verið brött.

IMG_5461

Eftir töluvert pjakk var komið að hádegi og tími til að nesta sig. Bara blíða en lítið skyggni.

IMG_5464

Það sést kannski ekki vel á þessari mynd en við fórum þarna um mjög bratta hlíð, einn missti fótfestu og tók að renna. Fyrir neðan var snarbrattur snjóskafl og þar fyrir neðan urð og klettar. Tekið skal fram að viðkomandi náði að stoppa sig.

IMG_5467

Kerlingin vígaleg með ísexina. Ekkert að veðri, skyggni lítið.

IMG_5468

Snjórinn var æði þungur og oft sukkum við í hné. Stundum gáfu sporin sig og við sukkum í klof. Það tók stundum á að losa sig.

IMG_5482

Svo komum við að breiðri sprungu og þrítugur hamarinn við endann. Leiðsögumaðurinn, Leifur, arkaði óhikað að sprungunni, rétt eins og ekkert væri sjálfsagðara.

IMG_5483

En Friðrika er þriggja barna móðir, hún stoppaði við, leit upp og sagði: "Hvað svo?"

Í sprungunni var snjóbrú sem við fórum yfir. Leifur sagði að það væri tímarofi á henni, það væri bara spurning hvort við yrðum nógu snögg upp og niður aftur áður en hún færi.

Þegar yfir kom var Leifur spurður hvort það væri ekki miklu betra þarna fyrir ofan.

"Þetta er allt krosssprungið" var svarið.

 

IMG_5497

Á toppnum. Ég vek athygli á hitabrúsanum lengst til hægri. Við rákum okkur í hann eftir myndatökuna og hann rann niður snarbratta hlíðina, beint í sprungu. Við munum ekki sjá hann aftur.

IMG_5512

Þegar við komum upp var ekkert útsýni, en það birti aðeins. Við sáum inn á Vatnajökul og þarna eru Esjufjöll. Þangað langar mig gríðarlega mikið, annað hvort á gönguskíðum að vori eða gangandi um haust því gróðurfar er þar mjög sérstakt inni á jöklinum.

IMG_5509

Þegar við lögðum af stað niður birti enn meir og hér sést að við svindluðum aðeins, þarna eru hinar raunverulegu eggjar og ef við hefðum séð aðeins betur þegar við vorum á leiðinni upp þá hefðum við farið upp í skarðið sem sést á þessari mynd. Við eigum semsagt fullt erindi þarna aftur.

IMG_5527

Skyggnið hélst þokkalegt um stund.

IMG_5528

Og þá var ekki leiðinlegt að horfa niður á tindana sem virtust ógnarháir neðan frá séð.

IMG_5529

Svo var bara að pjakka niður í átt að sprungunni aftur og vona að snjóbrúin héldi.

IMG_5533

Það sést kannski ekki á þessari mynd, en þetta er bara snjóbrú á sprungunni. Leifur var spurður eftir á:

"Hvað hefðum við gert við ef brúin hefði farið áður en allir voru komnir yfir?"

Svarið var: "Það var önnur brú þarna, hún var bar miklu verri". Hvar sú brú var veit ég ekki.

IMG_5537

Svo dimmdi aðeins aftur.

IMG_5542

En það rofaði líka í gegn og við sáum niður.

IMG_5547

Eggjandi geggjað.

IMG_5548

Á þessari mynd sést gönguleiðin, læt það vera gestaþraut að giska hvar, sýni það betur seinna því ég þarf að föndra við myndina til þess.

IMG_5550

Þessi mynd sýnir líka förin, þarna fór ég. Skýring bíður betri tíma.

IMG_5558

Þetta eru leiðsögumennirnir okkar, Guðjón, Dagný, Hjörleifur og Leifur. Hjörleifur og Leifur stofnuðu fyrirtækið Íslenskir fjallaleiðsögumenn og þetta lið er landslið fjallaleiðsögumanna. Fagmenn fram í fingurgóma og maður treystir þeim fullkomlega.

Leiðin sem við fórum er ekki hefðbundin leið hjá þeim. Held að þeim hafi þótt gaman af því að fara eitthvað annað en það allra venjubundnasta.

Ég mæli með þessari leið, en ekki nema í fylgd með þeim sem þekkja til og kunna á aðstæður sem þessar.

Næsta ár stefnum við á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband