7.5.2008 | 22:10
Samræmt próf í náttúrufræði 2. maí 2008 - athugasemdir
Á föstudaginn var þann 2. maí var samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk. Ég hef undanfarið gagnrýnt námsefni fyrir þessi próf og einnig þau próf sem lögð hafa verið fyrir undanfarin ár. Nú er röðin komin að því að kryfja samræmt próf í náttúrufræði árið 2008.
Til að gera langa sögu stutta þá eru mörg atriði í prófinu sem orka tvímælis og margar spurningar sem fjalla um atriði sem hvergi eða lauslega er minnst á í kennslubókum sem notaðar eru.
Spurning nr. 33.
Fyrst skulum við athuga hvað börnin læra um frumuskiptingar. Þau læra að í jafnskiptingu myndist tvær dótturfrumur með jafnmikið erfðaefni og móðurfruman, í rýriskiptingu myndist dótturfrumur með helmingi minna erfðaefni en móðurfruman. Í kennslubókunum eru engar skýringamyndir sem sýna muninn á þessum frumuskiptingum.
Í náttúrufræðiprófi árið 2004 eru í einni spurningunni þessar sömu myndir og í prófinu en í annarri röð og tekið fram að þetta sé jafnskipting, spurningin það árið fólst í að raða myndunum rétt.
Ég hef skoðað kennslubók mína í erfðafræði frá því í Háskóla. Ég fæ ekki betur séð en að myndirnar í prófspurningunni sýni það sem kallað er metafasi, anafasi og telofasi. Þetta vita börn í 10. bekk ekki. Það sem þeir sem sömdu prófið greinilega vita ekki heldur er að þessir fasar eru bæði til í jafnskiptingu og rýriskiptingu, í rýriskiptingu koma þeir fyrir tvisvar sinnum, seinna skiptið eru þeir eins og í jafnskiptingu. Kynfrumur myndast við rýriskiptingu og því fæ ég ekki betur séð en að K, L og M séu allt réttir svarmöguleikar.
Spurning nr 43:
Athugum fyrst hvað segir í kennslubókinni Sól, tungl og stjörnur: "Flestar gamlar stjörnur í Vetrarbrautinni hafa fundist nálægt kjarna hennar eða miðju....................Sólin okkar er ein af yngri stjörnunum í þyrilörmunum". Ég gat ekki fundið neitt meira í bókinni sem benti klárlega til hver staðsetning okkar sólkerfis væri í vetrarbrautinni.
Hver ofangreindra valmöguleika er líklegastur miðað við þessar upplýsingar? Er það N af því að það er yst? Er það L af því að það er klárlega í þyrilarmi? Eða er það M af því að það er líka í þyrilarmi. Ég er ekki viss.
Ég hef leitað á vefnum að myndum af vetrarbrautinni okkar og skoðað þær, ég get engan veginn séð af þeim hver rétta staðsetningin er.
Spurning nr 65.
Við fyrsta yfirlestur datt mér ekki í hug annað en svar Æ væri rétt. Við nánari skoðun get ég ekki séð mun á því svari og svari V. Börnin fengu formúlublað, ég hef mikið reynt að reikna mig í gegnum það en er engu nær. Líklega eiga börnin að átta sig á þessu út frá lögmáli Newton en þrátt fyrir að vera búin að lúslesa kennslubókina er ég engu nær.
Ég væri þakklát lesendum ef einhver getur skýrt út fyrir mér muninn og bent mér á rétta svarið.
Ég hef reyndar eftir eftirgrennslan fengið vísbendingar um rétta svarið en hef ekki náð að skilja hvernig maður finnur það út.
Spurning nr 69 og 70
Hvað er að gerast á myndinni? Skoðum hana vel. Hitinn í upphafi er -15°C og hækkar síðan í +10°C og stendur þar í stað í nokkrar mínútur. Fast efni er að bráðna er líklegasta ágiskunin um hvað sé að gerast. Hitinn hækkar síðan enn frekar upp í 35°C og stendur þar í stað í nokkrar mínútur. Þá má giska á að vökvinn sé að gufa upp. Eða hvað?
Hitinn hækkar enn frekar, lesum textann. Hitamælirinn stóð ofan í pottinum allan tímann og í lok tilraunarinnar var rúmmál efnisins helmingi minna en í upphafi. Það þýðir að hitinn gat ekki hækkað meira þar sem ekki var allt efnið gufað upp. Hiti efnis getur ekki hækkað meira fyrr en hamskiptum er lokið.
OK líklega voru þá tvö efni í pottinum í upphafi, annað með bræðslumarkið 10°C og hitt með bræðslumarkið 35°C. En af hverju minnkaði rúmmál efnisins?
Og ef þetta er málið, hvað er þá rétt svar við spurningu 70?
Ef þetta var eitt efni og prófhöfundum yfirsást að hitinn gat ekki hækkað í pottinum þar sem ekki var allt efnið gufað upp, er þá ekki svar T rétti svarmöguleikinn? Þá vek ég athygli á að í spurningunni stendur "Grafið sýnir að", svarmöguleika T er ekki hægt að lesa af grafinu, heldur úr textanum.
Eftir mikla yfirlegu áttaði ég mig loksins á einu mögulegu lausninni. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að prófhöfundar hafi haft hana í huga, mig grunar að hitinn hafi ekki átt að hækka eftir 23. mín, það hafi verið mistök að láta línuna halda áfram upp.
Þessi eina mögulega lausn er þraut dagsins, "ertu skarpari en skólakrakki"? er spurning dagsins. Getur einhver séð lausnina?
Það þarf kannski ekki að taka það fram en í námsefninu er ekkert fjallað um það að hitastig efnis haldist stöðugt á meðan hamskipti eiga sér stað, hvað þá hvernig þetta líti út þegar um fleiri en eitt efni er að ræða. Engin línurit áþekk því sem er á myndinni er í kennslubókinni.
Spurning nr 71-73
Spurningarnar taka heila blaðsíðu og ég ákvað að þreyta ekki lesendur með því að líma hana inn í þessa færslu. Spurningin fjallar um pendúl og sveiflutíma. Í námsefninu er hvergi minnst á pendúl eða sveiflutíma. Það er hins vegar hægt með rökhugsun að leysa verkefnið en aftur kem ég að því að þetta námsefni er alveg nógu mikið og flókið, það er óþarfi að vera með spurningar sem eru út fyrir efnið.
Spurning nr 74.
Þessi spurning olli mér svolitlum heilabrotum. Tengingar í 1,3, og 5 ganga ekki upp og ekki kviknar því á perunni. Ekkert er athugavert við tengingar í nr 4. Börnin læra um hliðtengdar rafrásir eins og er í nr 2. Hins vegar skilst mér að rafmagn sé eins og vatn, flæði alltaf auðveldustu leiðina, þar sem peran er ákv. viðnám og því flæðir ekki nægur straumur um rafrásina í nr 2 til að ljós kvikni á perunni. Þessi spurning reynir á skilning og bestu nemendurnir átta sig á þessu. Það er hins vegar ekki fjallað um þetta í námsefninu.
Það er alvarlegt mál að misræmi milli kennsluefnis og prófa skuli vera eins mikið og ég hef rakið hérna, einnig er alvarlegt ef villur eru í prófinu.
Það er virðingarleysi við bæði nemendur og kennara að svona mikið af prófinu sé úr efni sem ekkert er fjallað um. Bæði nemendur og kennarar hafa mörg lagt mikið á sig fyrir þetta próf og eiga betra skilið.
Fyrir utan þau atriði sem ég geri athugasemdir við hér að ofan er prófið þungt og oft verið að gera spurningarnar óþarflega flóknar með því að bæta inn stærðum og upplýsingum sem engu máli skipta við úrlausn verkefnanna.
Það sem veldur mér ekki síður áhyggjum er að miðað við allar þær villur sem ég tel að séu í prófinu þá treysti ég prófhöfundum ekki til að velja rétta svarmöguleika sem rétt svar.
Ég hef nú þegar skrifað Námsmatsstofnun bréf og gert athugasemdir við prófið. Ég hvet aðra foreldra að kynna sér prófið og námsefnið og gera einnig athugasemdir.
Svör verða birt á vef námsmatsstofnunar þegar einkunnir hafa verið birtar. Ég hef áhuga á að fylgjast með hver þau verða.
Bloggar | Breytt 25.5.2008 kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.5.2008 | 22:44
Þverártindsegg
Hvítasunnan er um næstu helgi. Þá ráðgerir hópur úr TKS (trimmklúbbi Seltjarnarness) að ganga á Þverártindsegg. Þessi ganga var ákveðin um miðjan vetur og mörg okkar hafa notað þetta takmark til að halda sér við æfingar. Ég verð að viðurkenna að ég hefði mátt vera duglegri. Líkamsræktin var ekki heimsótt eins oft og ég hefði viljað hafa.
Hvað um það, ég hef náð að hlaupa nokkrum sinnum tæpa 10 km, varð að vísu aum í löppunum í aprílbyrjun og hvíldi hlaupaskóna aðeins. Fór á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta og nú þrjár ferðir á Esjuna á einni viku. Seinast nú í kvöld og var ca 50 mín upp að steini. Það var takmarkið til að telja mig færa um að fara svo nú er ég útskrifuð og klár í slaginn.
Verst að veðurspáin fyrir helgina er ekki alveg að gera sig. Annars getur það nú breyst og okkar reynsla er sú að það þýðir ekkert að láta veðrið slá sig út af laginu. Hér að neðan er stolin mynd af netinu af Þverártindseggjum, ég veit ekkert hvar okkar gönguleið mun liggja, tek fram að þetta á ekki að vera klifur þannig að bláa línan upp þverhníptan hamarinn er klárlega ekki okkar leið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.5.2008 | 13:19
Námsefni til samræmds prófs í náttúrufræði
Yfirskrift seinustu færslu var "Er magn ávísun á gæði?". Þessi pistill kallast á við þessa yfirskrift þar sem þessi spurning á við um námsefni sem er til samræmds prófs í náttúrufræði í 10. bekk. Ég hef skoðað þetta námsefni þar sem ég hef aðstoðað dóttur mína við undirbúning undir þetta próf. Það er skemmst frá því að segja að þetta námsefni er mjög mikið og kröfur sem gerðar eru til barnanna eru miklar.
Ég ætla hér í stuttu máli að fara yfir það sem börnin þurfa að kunna skil á. Sá listi getur í stuttri upptalningu ekki verið tæmandi en gefur til kynna hversu yfirgripsmikið það efni er sem þau fara yfir og lesa fyrir þessi próf. Þar sem ég veit að margir hafa ekki þolinmæði fyrir langar færslur þá bið ég þá að bara renna lauslega yfir þennan lista, rétt til að fá hugmynd um hversu vítt svið þetta námsefni spannar.
Lífvísindi:
Einkenni lífvera (119 bls)
- efnaskipti, ýmsar gerðir flæðis, byggingarefni lífvera
- Frumur, frumulíffæri og starfssemi
- Vefir, líffæri, líffærakerfi
- Samskipti lífvera, vistkerfi, fæðukeðjan og fæðupíramídi
Lifandi veröld (173 bls)
- Veirur og dreifkjörnungar, einkenni og bygging
- Frumverur, helstu hópar og einkenni þeirra
- Sveppir, helstu hópar og einkenni þeirra
- Þörungar, byrkingar og mosar, einkenni
- Fræplöntur, dulfrævingar og berfrævingar, helstu einkenni og æxlunarfæri
- Hryggdýr, helstu flokkar og einkenni
Erfðir og þróun (87 bls)
- Víkjandi, ríkjandi erfðir
- arfhreinn, arfblendinn, svipgerð, arfgerð
- Lögmálið um aðskilnað litninga
- Lögmálið um óháða samröðun
- Reitatöflur og líkur á arfgerð afkvæma reiknað út frá arfgerð foreldra
- stökkbreytingar í kynfrumum, líkamsfrumum
- Fjölgenaerfðir, kyntengdar erfðir
- erfðir blóðflokka
- erfðir og umhverfi
- erfðatækni, splæst DNA
- þróun, breytileiki, náttúruval
- þróunarsaga mannsins
Jarðvísindi
Sól tungl og stjörnur (139 bls)
- Vetrarbrautir, mismunandi gerðir og einkenni þeirra
- Rauðvik, blávik, dopplerhrif, dulstirni
- stjörnur, gerðir, stærð og einkenni
- HR-línuritið
- sólir, gerð
- þróun stjarna, frumstjarna, hvítir dvergar, nifteindastjörnur, svarthol
- Sólkerfi, þróun og myndun okkar sólkerfis
- Reikistjörnurnar - nöfn, röð og helstu einkenni hverrar
- halastjörnur, geimgrýti
- möndulhalli, árstíðir, kvartilaskipti tunglsins, sjávarföll
Eðlisvísindi
Kraftur og hreyfing (79 bls)
- munurinn á þyngd og massa, þyngdarkraftur jarðar
- kraftur = massi x hröðun
- núningur, ýmsar gerðir
- Þrýstingur = kraftur / flatarmál
- Flotkraftur
- eðlismassi
- vökvaknúin tæki
- vinna = kraftur x vegalengd
- afl = vinna / tími
- Vélar - vogarstöng, trissa, hjól og ás, skáborð, fleygur, skrúfa
- kraftahlutfall
- Þrjú lögmál Newtons
- skriðþungi = massi x hraði
Efnisheimurinn (77 bls)
- Frumefni, efnasambönd, efnablöndur, efnaformúlur
- hamskipti efna, bræðslumark og suðumark, áhrif loftþrýstings
- Efnaleysing, mettun lausna
- Efnahvörf
- rafeindir, róteindir, nifteindir
- jónir og sölt
- Lotukerfið, sætistala, massatala, lotur, flokkar, efnaeiginleikar efna eftir stöðu í lotukerfinu, hvarfgirni, hvaða efni geta hvarfast saman og í hvaða hlutföllum.
- náttúruleg frumefni
- rafgreining vatns
- efnajöfnur, geta stillt efnajöfnur
- útvermin, innvermin efnahvörf
- sýrur og basar, hlutleysing
Orka (155 bls)
- Varmi, hreyfing sameinda, hreyfiorka
- varmaleiðing, varmaburður, varmageislun
- tvímálmur
- hiti og varmi, mælingar og einingar
- eðlisvarmi
- efnaorka, stöðuorka
- Rafmagn, rafhleðslur, rafkraftar, rafsvið, stöðurafmagn, eldingar, eldingavari, rafspenna, rafstraumur, viðnám
- Lögmál Ohms: straumur = spenna / viðnám
- rafhlöður, rafgeymar, jafnstraumur, riðstraumur
- rafafl = spenna x straumur
- straumrásir, rofar, raðtenging, hliðtenging, öryggi
- Segulmagn, segulkraftur, segulmagn úr rafmagni, rafmagn úr segulmagni
- Hljóðbylgjur, langbylgjur, hreyfing sameindanna, bylgjulengd, sveifluvídd, tíðni
- áhrif bylgjulögunar á tónhæð og hljóðstyrk
- dopplerhrif, dýptarmælar
- víxlverkun bylgna
- ljós - ljósorka, ljóseindir
- rafsegulbylgjur, þverbylgjur, rafsegulrófið, sýnilega og ósýnilega rófið
- tvíeðli ljóss
- glóðarljós, flúorljós, neonljós
- speglun, kúptur spegill holspegill, brennipunktur, ljósbrot
- Linsur, safnlinsur, dreifilinsu
- öreindir
- sterk víxlverkun
- samsætur
- frumefnabreytingar og geislavirkni, alfasundrun, betasundrun, gammasundrun
- örvuð kjarnahvörf, kjarnorka, nýting, kjarnaofnar, helmilefni, stýristengur.
Það eru mun fleiri atriði sem börnin þurfa að kunna skil á, þetta eru þau helstu.
Eins og sést á upptalningunni er þetta yfirgripsmikið efni, þetta er námsefni 8. 9. og 10 bekkjar, samtals 7 kennslubækur. Eins og sést í upptalningunni eru þarna ýmsar eðlisfræðiformúlur og í prófinu er mikið af dæmum þar sem börnin þurfa að beita þeim. Í bókunum eru fá slík dæmi og í kennslunni er lítil áhersla á æfingu í að reikna svona dæmi.
Þegar farið er yfir svona yfirgripsmikið efni er hætta á að alla dýpt í umfjöllunina vanti og fyrir vikið öðlast börnin ekki skilning á námsefninu. Afleiðingin er sú að námsefnið læra þau eins og páfagaukar án skilnings á því hvað það þýðir.
Fæstir kennarar hafa djúpa þekkingu í eðlisfræði eða líffræði. Því er ekki hægt að ætlast til að þeir geti útskýrt þetta efni umfram það sem gert er í bókunum, afleiðingin verður að skilning vantar.
Þar sem efnið er umfangsmikið og oft mjög flókið, treysta mörg börnin sér ekki í þetta próf. Börn sem höfðu hugsað sér að taka það og höfðu hug á að fara á náttúrufræðibraut í menntaskóla. Það er því ekki að undra að mörg þeirra skrái sig úr prófinu seinustu vikur fyrir próf. Ef þau taka þetta próf ekki komast þau ekki á náttúrufræðibraut í menntaskóla.
Ég tel að stærðfræði sé mikilvæg undirstaða undir flest háskólanám. Nám á háskólastigi byggist m.a. á rannsóknavinnu, þar er tölfræði nauðsynleg og til að skilja tölfræði er stærðfræðikunnátta skilyrði. Því tel ég stórvarasamt að aukinn fjöldi nemenda fari á málabrautir eða á samfélagsbrautir með minni undirstöðu í stærðfræði en ella.
Þetta gæti verið afleiðing af alltof þungu og yfirgripsmiklu námsefni til samræmds prófs í náttúrufræði.
Niðurstöður svonefndra PISA kannana í náttúrufræði benda til að íslensk ungmenni séu ver að sér í náttúrufræðum en jafnaldrar þeirra í mörgum af þeim löndum sem einnig taka þátt í þessum könnunum. Getur verið að hluti skýringarinnar liggi í því að námsefnið sé það yfirgripsmikið að meginþorri nemendanna skilji það ekki og því sitji lítið af þekkingunni eftir til lengri tíma?
Ég er ekki viss um að magn námsefnis feli í sér gæði. Ég tel mun heillavænlegra að kenna þetta efni til skilnings og skera það frekar niður þannig að einhver von sé til að meira sitji eftir.
Eins og ég hef áður nefnt hér á síðunni hef ég athugasemdir við samræmd próf í náttúrufræði. Þau eru oft illa samin og þrátt fyrir að námsefnið sé flókið og yfirgripsmikið eru margar spurningar sem fara út fyrir það efni sem kennt er í bókunum, spurningar sem krefjast þekkingar sem nær út fyrir námsefnið. Stundum á slíkt rétt á sér, en þegar námsefnið er eins yfirgripsmikið og talið er upp hér að ofan finnst mér það orka tvímælis.
Ég er með stúdentspróf af náttúrufræðibraut, BSc í Líffræði, MSc í heilbrigðisvísindum. Ég hef lesið allar þessar kennslubækur sem eru til prófs í 10. bekk og ég á í vandræðum með sumar spurningarnar í þessum prófum.
Er það eðlilegt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.4.2008 | 20:54
Er magn ávísun á gæði?
Ég bjó sem barn við það sem í dag væri kallað skert skólaganga. Skólaganga mín var þannig:
- 7 ára fór ég í skólann fyrst 10 daga að hausti og síðan 5 daga að vori.
- 8 ára fór ég í skólann 4 sinnum, ýmist í viku eða hálfan mánuð í senn.
- 9-12 ára var ég í skólanum aðra hverja viku, 5 daga í senn.
- 13-15 ára var ég í skólanum hverja viku, 5 daga í senn en fór heim um helgar.
Venjulega hófst skóli seinast í september og honum lauk um miðjan maí.
Við bekkjarsystkinin vorum eins misjafnir námsmenn og við vorum mörg en árangur okkar í lokaprófum (samræmdum) í 9. bekk var yfir landsmeðaltali í öllum greinum, einnig í öllum prófþáttunum var okkur sagt.
Jafnaldrar okkar sem tóku þessi sömu próf höfðu langflest mun meiri skólagöngu á bak við sig. Einhverjir sveitamenn voru svipað staddir og við, en það var eingöngu brot af árganginum.
Ég hef oft spurt mig hvort árangur okkar hafi verið svona góður af því að við vorum ekki meira í skólanum eða þrátt fyrir skerta skólagöngu.
Er magn alltaf ávísun á gæði?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.4.2008 | 14:22
Samræmd próf í náttúrufræði
Þessa færslu birti ég nú á laugardaginn en sé hér ágætt tækifæri til að koma þessu fyrir augu fleiri lesenda með því að tengja við þessa frétt. Tel það vera þess virði að vekja athygli á gerð þessara prófa.
Ég hef undanfarna daga aðstoðað dóttur mína við undirbúning undir samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk og hef ég því skoðað próf sem lögð hafa verið fyrir nú undanfarin ár. Þar kemur margt undarlegt fram. Mig langar að tína fram nokkrar einkennilegar prófspurningar:
Árið 2004:
Blóðflokkur einstaklings ræðst af:
a) Genum á Y-litningi eingöngu
b) Margföldum genasamsætum
c) Stökkbreytingu tveggja gena
d) Þremur hliðstæðum litningum
Rétt svar er b. Ég lagði þessa spurningu fyrir nokkra vinnufélaga mína (í Blóðbankanum) en þeir ýmist stóðu á gati eða gátu svarað rétt með því að nota útilokunaraðferðina. Margfaldar genasamsætur er orðskrípi sem ég hef ekki heyrt notað í þessu samhengi nema í kennslubók grunnskóla í erfðafræði. Hvar er tengingin við raunveruleikann? Hver er tilgangurinn með að prófa börn úr hugtökum sem hvergi eru notuð?
Árið 2004:
Í hvaða eftirfarandi ferli á sér stað efnahvarf:
a) Gos á vökvaformi frýs og myndar klaka
b) Ísmolar í gosi bráðna og mynda vatn
c) Salt leysist upp í hreinu vatni
d) Vatnsgufa þéttist í vatnsdropa utan á glasi
Skv svörum er rétt svar c. Vandamálið er að þetta er ekki efnahvarf. Þetta er leysing. Ekkert af möguleikunum sem gefnir eru upp eru efnahvörf, ekki einu sinni skv kennslubókinni.
Árið 2005 sjúkrapróf:
Hvað af eftirfarandi er hluti litnings:
a) Litningur
b) Gen
c) DNA
d) Okfruma
e) Líkamsfruma
Rétt skv svörum er b. Ég er líffræðingur með framhaldsmenntun í erfðafræði. Ég veit ekki betur en DNA sé staðsett í litningum. Kannski hef ég misskilið eitthvað!
Árið 2006:
Það sem einkennir frumefni er að það
a) er ekki hægt að kljúfa í önnur efni
b) finnst úti í náttúrunni
c) getur myndað efnasambönd
d) hefur breytilegan róteindafjölda
Rétt svar er a. Gott ef ég lærði þetta ekki svona á sínum tíma. Vandamálið er að í námsefninu er börnunum kennt um geislavirkni og kjarnahvörf. Þar eru frumefnum breytt í önnur efni. Hvar er samræmi milli þess námsefnis sem prófað úr og prófsspurninganna?
Árið 2006 sjúkrapróf:
Þegar tilraunaglas er hitað er mikilvægast að
a) hafa glasið yfir mesta hitanum
b) halda um mitt glasið með töng
c) loka glasinu með korktappa
d) vísa opinu frá fólkinu í kring
Rétt svar er d. Þetta er það sem ég kalla alger bullspurning. Þarna er verið að skerpa á öryggisatriðum en það hlýtur líka að vera mikilvægt að halda glasinu yfir hitanum og nota töng. Við gætum eins vel spurt: Hvað er mikilvægast þegar þú ætlar að elda mat: a) setja matinn í pott, b) setja pottinn á eldavélina, c) kveikja undir eldavélinni, d) kveikja á útvarpinu.
Árið 2007 sjúkrapróf:
Við rýriskiptingu verða til
a) fjórar frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman.
b) fjórar frumur með jafn marga litninga og móðurfruman
c) tvær frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman
d) tvær frumur með jafn marga litninga og móðurfruman
Rétt svar er a. Í svörunum sem gefin eru út er rétt svar c. Hvort um er að ræða prentvillu eða það að sá sem samdi prófið veit ekki betur, veit ég ekki. Engu að síður ekki gott að námsmatsstofnun gefi út röng svör.
Árið 2007 sjúkrapróf:
Bíll ekur eftir beinum vegi á jöfnum hraða. Þá er:
a) enginn núningskraftur sem verkar á hann
b) krafturinn frá vélinni jafnstór heildarnúningskraftinum
c) lítil loftmótstaða á hann því hraðinn er jafn
d) núningskraftur frá veginum jafn loftmótstöðunni
Rétt svar er b. Börnin læra um ýmsa gerðir krafta. Þar á meðal er fjallað um loftmótstöðu. Ég bara spyr, vegur hún ekkert?
Ég læt þetta duga af prófspurningum í náttúrufræði. Þær eru fleiri sem ég hef athugasemdir við, tók bara þær sem mér fannst bera af í vitleysu.
Ég hef margar athugasemdir við námsefni í Náttúrufræði til samræmds prófs í grunnskóla. Það er efni í annan pistil. Prófspurningar sem þessar bera þess vitni að ekki sé nógu vel vandað til prófagerðar. Slíkt er alvarlegt mál því mörg börnin eru metnaðarfull og eiga fullan rétt á vönduðum vinnubrögðum.
Samræmdu prófin hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.4.2008 | 10:54
Samræmd próf í náttúrufræði
Ég hef undanfarna daga aðstoðað dóttur mína við undirbúning undir samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk og hef ég því skoðað próf sem lögð hafa verið fyrir nú undanfarin ár. Þar kemur margt undarlegt fram. Mig langar að tína fram nokkrar einkennilegar prófspurningar:
Árið 2004:
Blóðflokkur einstaklings ræðst af:
a) Genum á Y-litningi eingöngu
b) Margföldum genasamsætum
c) Stökkbreytingu tveggja gena
d) Þremur hliðstæðum litningum
Rétt svar er b. Ég lagði þessa spurningu fyrir nokkra vinnufélaga mína (í Blóðbankanum) en þeir ýmist stóðu á gati eða gátu svarað rétt með því að nota útilokunaraðferðina. Margfaldar genasamsætur er orðskrípi sem ég hef ekki heyrt notað í þessu samhengi nema í kennslubók grunnskóla í erfðafræði. Hvar er tengingin við raunveruleikann? Hver er tilgangurinn með að prófa börn úr hugtökum sem hvergi eru notuð?
Árið 2004:
Í hvaða eftirfarandi ferli á sér stað efnahvarf:
a) Gos á vökvaformi frýs og myndar klaka
b) Ísmolar í gosi bráðna og mynda vatn
c) Salt leysist upp í hreinu vatni
d) Vatnsgufa þéttist í vatnsdropa utan á glasi
Skv svörum er rétt svar c. Vandamálið er að þetta er ekki efnahvarf. Þetta er leysing. Ekkert af möguleikunum sem gefnir eru upp eru efnahvörf, ekki einu sinni skv kennslubókinni.
Árið 2005 sjúkrapróf:
Hvað af eftirfarandi er hluti litnings:
a) Litningur
b) Gen
c) DNA
d) Okfruma
e) Líkamsfruma
Rétt skv svörum er b. Ég er líffræðingur með framhaldsmenntun í erfðafræði. Ég veit ekki betur en DNA sé staðsett í litningum. Kannski hef ég misskilið eitthvað!
Árið 2006:
Það sem einkennir frumefni er að það
a) er ekki hægt að kljúfa í önnur efni
b) finnst úti í náttúrunni
c) getur myndað efnasambönd
d) hefur breytilegan róteindafjölda
Rétt svar er a. Gott ef ég lærði þetta ekki svona á sínum tíma. Vandamálið er að í námsefninu er börnunum kennt um geislavirkni og kjarnahvörf. Þar eru frumefnum breytt í önnur efni. Hvar er samræmi milli þess námsefnis sem prófað úr og prófsspurninganna?
Árið 2006 sjúkrapróf:
Þegar tilraunaglas er hitað er mikilvægast að
a) hafa glasið yfir mesta hitanum
b) halda um mitt glasið með töng
c) loka glasinu með korktappa
d) vísa opinu frá fólkinu í kring
Rétt svar er d. Þetta er það sem ég kalla alger bullspurning. Þarna er verið að skerpa á öryggisatriðum en það hlýtur líka að vera mikilvægt að halda glasinu yfir hitanum og nota töng. Við gætum eins vel spurt: Hvað er mikilvægast þegar þú ætlar að elda mat: a) setja matinn í pott, b) setja pottinn á eldavélina, c) kveikja undir eldavélinni, d) kveikja á útvarpinu.
Árið 2007 sjúkrapróf:
Við rýriskiptingu verða til
a) fjórar frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman.
b) fjórar frumur með jafn marga litninga og móðurfruman
c) tvær frumur með helmingi færri litninga en móðurfruman
d) tvær frumur með jafn marga litninga og móðurfruman
Rétt svar er a. Í svörunum sem gefin eru út er rétt svar c. Hvort um er að ræða prentvillu eða það að sá sem samdi prófið veit ekki betur, veit ég ekki. Engu að síður ekki gott að námsmatsstofnun gefi út röng svör.
Árið 2007 sjúkrapróf:
Bíll ekur eftir beinum vegi á jöfnum hraða. Þá er:
a) enginn núningskraftur sem verkar á hann
b) krafturinn frá vélinni jafnstór heildarnúningskraftinum
c) lítil loftmótstaða á hann því hraðinn er jafn
d) núningskraftur frá veginum jafn loftmótstöðunni
Rétt svar er b. Börnin læra um ýmsa gerðir krafta. Þar á meðal er fjallað um loftmótstöðu. Ég bara spyr, vegur hún ekkert?
Ég læt þetta duga af prófspurningum í náttúrufræði. Þær eru fleiri sem ég hef athugasemdir við, tók bara þær sem mér fannst bera af í vitleysu.
Ég hef margar athugasemdir við námsefni í Náttúrufræði til samræmds prófs í grunnskóla. Það er efni í annan pistil. Prófspurningar sem þessar bera þess vitni að ekki sé nógu vel vandað til prófagerðar. Slíkt er alvarlegt mál því mörg börnin eru metnaðarfull og eiga fullan rétt á vönduðum vinnubrögðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.4.2008 | 22:15
Skessuhorn
Nú nýlega fékk ég í tölvupósti tilkynningu frá íslenskum fjallaleiðsögumönnum um ferð á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta. Ég áframsendi á Ásdísi vinkonu mína með orðunum "eigum við ekki að skella okkur".
Í dag var semsagt sumardagurinn fyrsti og ferð með íslenskum fjallaleiðsögumönnum á Skessuhorn, við Ásdís mættar ásamt ektamökum. Frábær ferð og allir glaðir. Ferðasagan kemur hér í myndaformi.
Skessuhorn er ekki árennlilegt á að líta frá bænum Horni í Andakíl. Andið rólega, þetta er mun þægilegri ganga en lítur út fyrir frá þessu sjónarhorni.
Við vorum fullar eftirvæntingar í ferðarbyrjun, skyldum við "meikaða"?
Við nálguðumst Skessuna óðum.
Hún breytti stöðugt um svip eftir því sem nær dró.
Leiðin liggur sunnan við Skessuna og upp skál þeim megin.
Seinustu sporin upp á hrygginn.
Þegar upp var komið fengu göngumenn útborgað.......
...............og bónus.
Skessan er ekki eina hornið á svæðinu, Skarðshorn og Heiðarhorn eru þarna líka og víst er að nokkrum sinnum var rætt um að skella sér þangað upp.
Hin fjögur fræknu voru bara ánægð með sig á toppnum, en munið...........það er kalt á toppnum.
En þá var eftir að ganga niður.
Þetta var hin ágætasta ganga og alls ekki erfið. Við getum hæglega mælt með göngu á Skessuhorn og fullyrðum að þetta er ekkert klettaklifur.
Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs sumars og þakka skemmtileg samskipti í vetur. Bloggskrifin hafa svo sannarlega stytt mér stundir í vetur. Hvort ég verð eins iðinn við kolann í sumar verður tíminn að leiða í ljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.4.2008 | 18:07
Velferðarríkið Ísland
Það er okkur hollt að velta fyrir okkur að þau lífsgæði sem við búum við í dag eru svo langt í frá að vera sjálfsagður hlutur. Við þurfum að staldra við og gera okkur grein fyrir hvernig það velferðarkerfi sem við búum við varð til, hvaða fórnir voru færðar til að koma því á fót. Einnig hvaða hugsun lá þar að baki.
Ég rakst áðan á bloggfærslu sem mér fannst athygli verð í þessu samhengi. Leyfi mér að birta valin kafla úr henni:
Árni (Tryggvason) er tveimur árum yngri en hún mamma mín og ég er hálfsextugur í ár. Má þá reikna út hverrar kynslóðar Íslendinga hann er. Hans jafnaldrar plús mínus 10 ár byggðu upp þetta samfélag eins og við þekkjum það. Menn og konur af hans kynslóð bjuggu til verkalýðsfélögin, tryggðu okkur endanlega samningsrétt og verkfallsrétt. Þau gáfu okkur almannatryggingar og félagslegt heilbrigðiskerfi. Þau fórnuðu skammtímahagsmunum í launabaráttu fyrir burðuga lífseyrissjóði sem aðrar og reisulegri þjóðir skilja ekkert í að þær hafi ekki fundið upp. Þau bjuggu til samfélag þar sem okkur þykir öllum sjálfsagt að ungt fólk geti menntað sig í æðri skólum óðháð efnahag foreldranna.
Munum að það fólk sem kom þessu kerfi á fórnaði jafnvel tímabundnum launahækkunum til að koma þessu kerfi á.
Það sem mér finnst vera kjarninn í þessum orðum á svo sannarlega erindi til okkar í dag. Þegar því velferðarkerfi sem við búum við í dag var komið á var sú grundvallarhugsun höfð að leiðarljósi að jafna aðstöðumun fólks, óháð efnahag.
Lífeyrissjóðakerfið okkar, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, allt ber það þessari hugsun vitni. Nú hafa heyrst hugmyndir um skólagjöld í Háskóla Íslands, Landspítalinn ohf, svona mætti áfram telja. Sífellt oftar heyrir maður því hvíslað að þeir sem geti borgað fyrir sig eigi að njóta þess.
Erum við tilbúin til að varpa fyrir róða þeirri hugsun sem liggur til grundvallar íslenska velferðarkerfinu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.4.2008 | 17:54
Landspítalinn ohf
Enn og aftur finnst mér vera læðst aftan að mér mér einkavæðingartilburði. Nýjast eru hugmyndir um að setja ohf aftan við nafn Landspítalans, tilgangurinn, jú að "auka sveigjanleika í rekstri".
Alveg er þetta í takt við aðra einkavæðingu sem komið hefur verið í kring. "Sveigjanleiki í rekstri", hvað skyldi það nú þýða á mannamáli? Kannski er ég bara vitlaus og tortryggin, en mér dettur bara í hug útboð til einkaaðila. Skoðum aðeins nánar hvað það þýðir.
Þetta er ekkert annað en einkavæðing í krafti einokunar en ekki samkeppni. Ég hef sagt það áður hér á þessari bloggsíðu og segi það enn og aftur: Einkavæðing á sviðum sem ekki getur staðið í raunverulegri samkeppni á ekki rétt á sér. Öll starfssemi sem í eðli sínu er einokun á að mínu mati að vera í höndum opinberra aðila.
Hátækniheilbrigðisþjónusta eins og rekin er á Landspítalanum er þar gott dæmi. Slík þjónusta verður aldrei rekin á samkeppnisgrundvelli, um er að ræða ákveðna tegund einokunar og í krafti eðlis þjónustunnar er hætta á að með tíð og tíma sé hægt að krefjast hárra fjárhæða fyrir að veita hana.
Hvernig í veröldinni ætlum við að komast hjá slíku eftir að einkaaðilar hafa komist yfir þessa starfssemi? Ef ég væri hörð "bisness" gella myndi ég reyna að komast inn í svona starfssemi, þarna liggja peningar og með kverkataki á stjórnvöldum er þetta uppspretta gríðarlega fjármuna.
Af hverju ættu einkaaðilar að sjá sér hag í að reka Landspítalann á ódýrari hátt en gert er í dag? Ég kem ekki auga á neina augljósa ástæðu meðan ríkið borgar brúsann.
Nú er bara spurningin hvort það sé einungis einn stjórnmálaflokkur við völd og hvort flokkurinn sem kennir sig við jafnaðarstefnu horfi í hina áttina eða hvort umræddur jafnaðarmannaflokkur hefur þrek og þor til að standa gegn þessari vitleysu.
Einn daginn verður þjóðvegur nr. 1 orðinn ohf.
Mér er ekki skemmt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2008 | 19:16
Sundlaugin
Enn og aftur erum við í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi, rétt fyrir 1980.
Sundlaugin var fyrir okkur eins konar félagsmiðstöð. Það var mjög vinsælt að fá kennarann sem var á vakt til að opna sundlaugina og leyfa okkur að eyða kvöldinu í lauginni. Sérstaklega var þetta vinsælt á vorin og man ég að við fórum stundum í sund mörgum sinnum sama daginn.
Við ærsluðumst oft í djúpu lauginni. Einhverju sinni var símastaur komið fyrir á tunnum sitt hvoru megin við laugina og farið í koddaslag á honum á sumardaginn fyrsta. Lengi á eftir var staurinn þarna og það var mikið sport að leika sér að ganga þvert yfir laugina eftir staurnum, jafnvel að stinga sér ofaní laugina af honum.
Sundlaugin var 25m löng, það hefur verið mikill stórhugur í fólki þegar ákveðið var að byggja hana, mörgum árum áður en skólinn var byggður. Mínar heimildir segja að hún hafi verið byggð árið 1948.
Stundum var laugin köld og yfir háveturinn var hún lokuð. Það þótti hins vegar oft mikið fjör og hetjuskapur að velta sér upp úr snjónum og stökkva út í ef svo bar undir.
Búningsaðstaðan var hins vegar ákaflega döpur og hélt hvorki vatni né vindum. Ég man hve kalt það var oft að skipta um föt.
Drengirnir notfærðu sér pjáturslegt byggingalagið. Þeir fundu leið til að skríða upp á loftið og boruðu gat í einangrunina. Það gat var auðvitað ekki staðsett af tilviljun heldur beint yfir búningsklefa stelpnanna. Það var annars merkilegt hvað það tók okkur stelpurnar langan tíma að átta okkur á þessari götun drengjanna. Eftir að við vissum af gatinu var ákveðið svæði í klefanum sem enginn okkar vildi nota. Ég minnist hins vegar ekki að það hafi verið gert við gatið, líklega verið skortur á verkfærum og spýtum í sveitinni.
Laugin var ekki útbúin með sjálfhreinsibúnaði, stundum varð hún alveg skelfilega slímug. Þá var smalað saman sjálfboðaliðum úr hópi nemenda, þeir klæddust druslufötum og voru vopnaðir kústum. Einhver hetjan kafaði niður á botn djúpu laugarinnar og tók tappann úr. Síðan var hafist handa við skrúbbið. Það var mikil vinna en gríðarlegt fjör. Það hvarflaði ekki að okkur að hætta í miðju verki, vera með hálfkák eða krefjast launa. Þetta var einfaldlega verk sem þurfti að vinna. Þannig var hugsun okkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)