Niðurstöður samræmdra prófa

Flest börn í 10. bekk grunnskóla fengu útkomu sína úr samræmdum prófum afhenta í dag. Sjálfsagt hafa viðbrögðin verið eins mismunandi og börnin eru mörg, allt frá ofsagleði til mikils áfalls.

Sannleikurinn er sá að þessi próf skipta börnin miklu máli. Um skólavist í mörgum framhaldsskólunum er samkeppni milli barnanna, vinningshafar í þeirri samkeppni eru þau börn sem fengu bestar einkunnir. Mér hefur lengi fundist það vafasamt fyrirkomulag, einkunnir gefa ekki allar upplýsingar um getu nemandans.

Ég hef áður gagnrýnt prófið sem lagt var fyrir í náttúrufræði í ár (hér og hér). Ég hef ekki staðfestar upplýsingar um hvernig það kom út á landsvísu en mínar heimildir herma að einkunn upp á 8,5 hafi dugað til að vera meðal 1% þeirra sem fengu besta útkomu og einkunn upp á 7,5 hafi dugað til að vera meðal þeirra 8% sem fengu bestu útkomuna. Því getur einkunnin 6,5 og jafnvel 6.0 verið fín einkunn. Ef satt er þá segir þetta mikið um hversu erfitt prófið var.

Það sem er alvarlegt er að þessar upplýsingar fylgdu ekki einkunnum barnanna í öllum tilvikum (a.m.k. ekki í skóla dóttur minnar). Því upplifðu nemendurnir lágar einkunnir og eru margir miður sín vegna þess, jafnvel þó þau hafi staðið sig vel miðað við hópinn í heild. Margir krakkarnir eru um þessa helgi að taka ákvörðun um hvaða framhaldsskóla þeir eigi að sækja um og einnig hvaða brautir.

Lágar einkunnir í náttúrufræði geta orðið til þess að krakkar hætti við að sækja um náttúrufræðibraut í framhaldsskóla. Sérstaklega ef enginn hefur útskýrt fyrir barninu að einkunnin sé kannski alls ekki svo slæm.

Oft hafa heyrst áhyggjuraddir vegna minnkandi ásókn nemenda í raungreinar, þetta er ekki til að bæta það.

Ég bíð eftir réttum svörum í náttúrufræðiprófinu, þau eiga að birtast á vef námsmatsstofnunar fljótlega. Það verður fróðlegt að sjá með hliðsjón af athugasemdum mínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús V. Skúlason

En hvaða mælikvarða vilt þú að sé lagður á það hvernig námsmati nemenda er metið á samræmdum prófum? Það segir sig sjálft að ef lunginn af þeim sem taka prófið séu að fá svipaða einkunn þá geta framhaldsskólarnir ekki hundsað það þegar umsóknir berast inn til þeirra.

Magnús V. Skúlason, 30.5.2008 kl. 21:26

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég tel ekki að samræmd próf séu slæm sem slík, ég hef hins vegar gagnrýnt prófið í náttúrufræði sem lagt var fyrir í ár. Það var að miklu leyti úr efni sem ekki var í þeim kennslubókum sem notaðar voru. Börnin eru á engan hátt að fá svipaða einkunn, einkunnir þeirra í náttúrufræðinni eru hins vegar lágar og gefa ekki upplýsingar um kunnáttu í efninu.

Ég minnist einnig á það í færslunni að ég hafi efasemdir um núverandi fyrirkomulag við val á nemendum í framhaldsskóla. Það miðast eingöngu við einkunnir þar sem niðurstaða úr samræmdu prófi ræður oft mestu. Með þessu verða framhaldsskólarnir afar lagskiptir og ég er ekki viss um að það sé endilega gott.  Þetta kerfi gerir það líka að verkum að krakkarnir verða að sækja "taktískt" um skóla. Ef þau hafa efasemdir um að komast inn í draumaskólann getur verið að það borgi sig ekki fyrir þau að sækja um hann því Þeim verður hafnað þá komast þau heldur ekki inn í skóla nr. 2 þar sem sá skóli fylltist af þeim sem völdu hann nr 1. Þetta gerir það mjög flókið að velja þann skóla sem líklegast er að þau komist inn í miðað við þær einkunnir sem þau hafa.

Kristjana Bjarnadóttir, 30.5.2008 kl. 21:44

3 identicon

Ég hef verið í samskiptum við námsráðgjafa í framhaldsskóla sem segist hafa heyrt að mikið sé um fall í náttúrufræði á samræmdu prófunum í ár.

Mundi (IP-tala skráð) 2.6.2008 kl. 14:13

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæll Mundi

Ég bíð enn spennt eftir að sjá meðaltöl og dreifingu einkunna í þessu prófi.

Ég er ekki alveg viss en ég held að nemendur þurfi að ná 5 í náttúrufræði til að komast inn á náttúrufræðibraut í framhaldsskóla. Óstaðfestar heimildir mínar herma að meðaltalið í náttúrufræðiprófinu hafi verið undir þessari einkunn.

Hvaða skilaboð er námsmatsstofnun að senda nemendum?

Ég skil þessi skilaboð aðeins á einn veg: "Þið skulið ekki reyna að læra náttúrufræði og raungreinar, þetta er svo flókið".

Svo skulum við furða okkur á minnkandi ásókn í raungreinar............grrrrrrrrrrrr

meira síðar

Kristjana Bjarnadóttir, 2.6.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband