Færsluflokkur: Menntun og skóli
4.2.2009 | 21:38
Samningslausir iðnnemar
Kreppan hefur mörg andlit. Okkur er tíðrætt um atvinnuleysi, tekjumissi og gjaldþrot heimila og fyrirtækja.
Þessu til viðbótar er vandi iðnnema. Þeim er skylt að vera á samning hjá meistara í sínu fagi í ákveðinn tíma til að geta lokið sínu námi. Ákveðin bókleg og verkleg fög geta þessir nemar ekki tekið í skólanum fyrr en að loknum samningstíma.
Þessir nemar eru meðal þeirra sem misst hafa vinnuna nú seinustu vikur og mánuði. Atvinnumissir fyrir þessa einstaklinga er því ekki einungis tekjumissir, heldur einnig stöðvun á námsframvindu og algerlega ómögulegt er að reikna út hvenær hægt verður að halda náminu áfram.
Rof á námi getur í mörgum tilvikum þýtt að nemar gefist upp og hrökklist frá námi.
Við megum síst af öllu við þessu þar sem hlutfall þeirra sem ekki hafa lokið neinu prófi eftir grunnskólapróf er nú þegar alltof hátt hérlendis og með því hæsta sem gerist meðal ríkja OECD.
Það að þjóðin sé vel menntuð er mýta sem við þurfum að horfast í augu við að stenst ekki skoðun.
26.8.2008 | 21:37
Stórar skólatöskur með lítil börn á leið í skólann
Þessa dagana er fjöldi 6 ára barna að hefja sína skólagöngu. Það er ætíð ákveðin athöfn að velja fyrstu skólatöskuna. Má þá stundum vart á milli sjá hver er spenntari, barnið eða foreldrarnir sem eru fullir stolts.
Ég hef hins vegar lengi furðað mig á stærð þeirra skólataska sem eru á markaðnum. Þær eru alltof stórar fyrir líkama 6 ára barna. Hvaða nauðsyn er á því að 6 ára börn (já 7, 8 og jafnvel 9 ára) noti bækur af stærðinni A4? Minni bækur hæfa þessu smáfólki mun betur, það að bjóða þeim upp á þessa stærð er rétt eins og pappír okkar fullorðna fólksins væri af stærðinni 2xA4 (er það ekki A3? er ekki viss).
Einnig furða ég mig á því að börnin þurfi yfirhöfuð töskur. Mögulega undir nesti en í flestum skólum er farið að bjóða upp á heitan mat. Heimavinna barna á þessum aldri ætti að vera liðin tíð þar sem skóladagurinn er það langur að hann ætti að teljast fullur vinnudagur fyrir þau.
Hvað er það sem börnin þurfa að burðast með fram og til baka milli heimilis og skóla í þessum stóru töskum?
Er ekki tímabært að útrýma skólatöskum fyrir börn undir 10 ára aldri?
26.6.2008 | 23:24
Að skera sig úr fjöldanum - má það?
Það er staðreynd að í mörgum skólum, bæði grunnskólum og leikskólum, á sér stað trúarinnræting. Er þar ýmist um að ræða beina aðkomu presta í heimsóknum í skóla og leikskóla, einnig eru kirkjuferðir á vegum skólans og bænastundir sem kennarar standa fyrir.
Sterk hefð er meðal þjóðarinnar fyrir því að sjálfsagt þyki að allir fylgi þjóðkirkjunni. Það er hins vegar svo að henni tilheyra í dag ekki nema um 80% þjóðarinnar skv tölum hagstofunnar fyrir árið 2007. Kristnum trúfélögum tilheyra hins vegar um 90% þjóðarinnar. Munum að þessar tölur segja ekki nema hálfa söguna um trúariðkun eða trú þjóðarinnar, þetta er einungis trúfélagaskráning.
Það sem þessar tölur segja okkur er að 10% þjóðarinnar eru ekki skráð í kristið trúfélag. Í 20 barna bekk má gera ráð fyrir að a.m.k. 2 börn séu ekki alin upp við kristna trú.
Er eðlilegt að farið sé með bænir í kennslustundum og kennarinn líti yfir bekkinn og fylgist með hvort allir lúti höfði og biðji af heilum hug?
Er eðlilegt að prestur komi inn í bekk fermingarárgangs og úthluti tímum í viðtal með foreldrum til undirbúnings fermingarfræðslu? Komi síðan með athugasemdir fyrir framan öll börnin til þeirra sem ekki vilja þiggja, spyrji hvort barnið vilji nú ekki ræða þetta við foreldrana.
Er eðlilegt að kennari fullyrði við börnin að það trúi allir á guð?
Er eðlilegt að kirkjuferðir á vegum skóla séu ekki valfrjálsar?
Er eðlilegt að þjóðkirkjuprestur segi að "þeir sem skeri sig úr fjöldanum hljóti einhvern tíma að mæta því"?
Hvað er maðurinn að segja? Er kirkjunni leyfilegt að vanvirða þá lífsskoðun fólks utan trúfélaga að trú sé ekki nauðsynlegur hluti lífsins?
Hvernig getum við ætlast til að börnin virði rétt hvers annars til að vera öðruvísi en fjöldinn (klæðaburður, kynþáttur, getustig) þegar þjóðkirkjuprestar geta ekki virt þennan rétt?
Sjálfsagður er réttur allra til að stunda sína trú, það er líka sjálfsagður réttur þeirra sem ekki hafa trú að vera ekki þröngvað til að taka þátt í trúarathöfnum. Þetta á einnig að gilda um börn.
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2008 | 22:43
Vi taler dansk í Danmark
Íslensk börn læra dönsku í grunnskóla, þau sem halda áfram í framhaldsskóla eru skyldug til að bæta við þá kunnáttu sína. Það er nokkuð víst að margir líta á þetta nám sem hina mestu kvöl og pínu og algengt er að danska sé á lista yfir óvinsælustu námsgreinarnar.
Dóttir mín (Rán) 16 ára sem í vor lauk grunnskólanámi er ein þessara nema, danska hefur lengst af verið hennar stærsti höfuðverkur og leit hún á þessa námsgrein sem óyfirstíganlega hindrun í sínu námi. Þrátt fyrir það stóð hún sig með mikilli prýði í prófum í vor, sjálfri sér, foreldrum og kennara til mikillar undrunar og gleði.
Um seinustu helgi fór fjölskyldan til Kaupmannahafnar, frábært tækifæri til að nota þessa þekkingu. Við fórum í búðir, tilgangurinn var m.a. að finna gallabuxur. Í dönskukennslubókunum sem notaðar eru í íslenskum grunnskólum eru gallabuxur kallaðar "cowboybukser". Hér kemur samtal dóttur minnar við danska afgreiðslustúlku í Zöru á Strikinu:
Afgreiðslustúlkan: "Kan jeg hjælpe dig?"
Rán: "Ja, har du cowboybukser?"
Afgreiðslustúlkan horfði með miklum spurnarsvip á Rán, hún velti greinilega fyrir sér hvað hún væri að meina, kúrekabuxur voru svo sannarlega ekki hluti af tískuvarningi þessa árs. Svipur afgreiðslustúlkunnar var óborganlegur, "þú ættir frekar að fara í reiðvöruverslun" var svona það sem lesa mátti af svipnum.
"Mener du jeans?" spurði afgreiðslustúlkan eftir langa mæðu.
Framburður á orðinu jeans var verulega danskur meira svona "jens" og Rán gat ómögulega áttað sig á hvað stúlkan var að segja. Ég stóð álengdar og Rán kallaði mig til hjálpar, "hún var að meina "djíns" útskýrði ég.
Þar með var allt orðið ljóst. Þrátt fyrir að íslenskar dönskukennslubækur kenni íslenskur grunnskólanemum að gallabuxur nefnist cowboybukser á dönsku þá er það kunnátta sem gagnast nákvæmlega ekki neitt í tískubúðum á Strikinu.
Gallabuxur á dönsku er JEANS.
Nú vitum við það.
5.6.2008 | 19:49
Samræmt próf í náttúrufræði - svör - athugasemdir
Hér að neðan birti ég spurningarnar og athugasemdir mínar ásamt "réttum" svörum skv námsmatsstofnun:
Ef sett er upp reitatafla miðað við þær upplýsingar sem gefnar eru kemur í ljós að öll börnin verða arfblendin og þar sem lausir sneplar erfast með ríkjandi geni verða öll börnin með lausa snepla.
Þó öll þessi börn eignist maka sem er arfhreinn með víkjandi geni (fastir sneplar) er ekki hægt að fullyrða neitt um það að minnsta kosti helmingur barna þeirra verði með lausa snepla, aðeins er hægt að segja að helmingslíkur séu á að það gerist. Því getur svarmöguleiki I ekki verið réttur, rétt svar hlýtur því að vera H.
Hér er blandað saman líkum á að atburður gerist og vissu fyrir því að hann gerist. Á því er grundvallarmunur.
Námsmatsstofnun gefur upp að svarmöguleiki I sé sá rétti.
Ég gerði athugasemd við þessa spurningu í bréfi sem ég sendi námsmatsstofnun. Á myndunum kemur ekkert fram sem gerist í jafnskiptingu en ekki í rýriskiptingu.
Myndirnar í prófspurningunni sýna það sem kallað er metafasi, anafasi og telofasi, þessir fasar eru bæði til í jafnskiptingu og rýriskiptingu, í rýriskiptingu koma þessir fasar fyrir tvisvar sinnum, seinna skiptið eru þeir eins og í jafnskiptingu. Kynfrumur myndast við rýriskiptingu og því eru K, L og M allt réttir svarmöguleikar.
Námsmatsstofnun gefur upp að K sé rétti svarmöguleikinn
Skv svörum námsmatsstofnunar er fyrsti svarmöguleikinn réttur. Hann er að vísu auðkenndur með V í svörunum. Þetta er nær örugglega villa í svörunum og augljóslega er rétti svarmöguleikinn D. Það er hins vegar ótrúlega mikil handvömm að námsmatsstofnun birti svör með "klaufavillu".
Í bréfi mínu til námsmatsstofnunar gerði ég athugasemd við þessa spurningu.
Eftir mikla yfirlegu komst ég að því að til að spurningin gengi upp þyrftu efnin í upphafi að hafa verið tvö, bæði í föstu formi. Við 10°C færi annað efnið að bráðna og við 35°C gufar þetta sama efni upp. Eftir væri hitt efnið í föstu formi. Þetta er hins vegar mjög langsótt skýring og líklegast er að spurningin hafi ekki verið hugsuð til enda. (Sjá nánari pælingar varðandi þessa spurningu hér).
Námsmatsstofnun fellir út spurningu nr 70 en lætur spurningu nr 69 standa. Réttast hefði verið að fella báðar þessar spurningar út.
Námsmatsstofnun gefur upp að P sé réttur svarmöguleiki í spurningu 69.
Ég mun á næstu dögum skrifa námsmatsstofnun bréf með þessum athugasemdum. Umsóknarfrestur um skólavist í framhaldsskólum næsta vetur rennur út nú rétt eftir næstu helgi. Einkunnum verður því tæplega breytt en námsmatsstofnun hefur afrekað að gera lítið úr vinnu fjölda unglinga.
Menntun og skóli | Breytt 6.6.2008 kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.6.2008 | 21:06
Gallar í samræmdu prófi í náttúrufræði
Nú nýlega birti ég færslur (hér og hér) þar sem ég gagnrýni samræmt próf í náttúrufræði sem lagt var fyrir 10. bekk grunnskóla nú í vor. Í prófinu voru nokkrar meingallaðar spurningar, sumar beinlínis rangt hugsaðar og einnig margar spurningar sem voru alls ekki úr því efni sem var kennt. Ég álít þetta próf vanvirðingu við bæði nemendur og kennara sem hafa undanfarin ár lagt á sig mikla vinnu með það að markmiði að búa nemendur undir framhaldsskólanám.
Svör við prófspurningunum birtust á vef Námsmatsstofnunar í dag. Ég er að skoða þau og í stuttu máli þá hef ég athugasemdir við þau sem ég mun birta nú næstu daga.
Prófið sem lagt var fyrir í ár var að hluta til úr efni sem ekki var að finna í þeim kennslubókum sem notaðar voru í flestum skólum. Ég bendi á að þær kennslubækur sem notaðar voru í skólanum þar sem ég þekki best til voru samtals 7 og blaðsíðufjöldi þeirra var á bilinu 77-173 bls. Þætti mörgum nóg um slíkt námsefni í menntaskóla og jafnvel háskóla, hér erum við að tala um 15 ára grunnskólabörn.
Ég veit dæmi um börn sem alla tíð hafa staðið sig vel í náttúrufræði en komu illa út úr þessu prófi.
Til að komast inn á náttúrufræðibraut í framhaldsskólum er viðmiðið að nemandi hafi náð 5.0 í náttúrufræði. Í þessu prófi náðu 32% þeirra sem þreyttu prófið ekki þeirri einkunn. Þess ber að geta að aðeins 49% nemenda í öllum árganginum þreyttu þetta próf og má gera ráð fyrir að þar hafi verið um að ræða nemendur sem hafi haft það markmið að komast inn á náttúrufræðibraut og treystu sér til að ná tilskilinni einkunn.
Það er eðlileg krafa nemenda og foreldra að framhaldsskólar taki mið af því hversu prófið var illa samið og breyti þessari viðmiðun í ár. Að öðrum kosti eigum við það á hættu að margir úr þessum árgangi hætti við að læra raungreinar í framhaldsskóla og það væri mikill skaði.
Námsmatsstofnun ber mikla ábyrgð á því hvernig þessum börnum reiðir af. Það er óásættanlegt ef mörg börn upplifa sig vanmáttug gagnvart þessu fagi og hætta við frekara nám í raunvísindum.
Námsmatsstofnun skuldar nemendum, kennurum og foreldrum skýringar á því hvaða hugsun var lögð til grundvallar þessu prófi.
Er það markmið þessarar stofnunar að fækka þeim nemendum sem fara á náttúrufræðibrautir í framhaldsskóla?
Er það markmið þessarar stofnunar að brjóta niður sjálfsmynd nemenda?
Nemendur á suðvesturhorni stóðu sig best | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.5.2008 | 21:17
Niðurstöður samræmdra prófa
Flest börn í 10. bekk grunnskóla fengu útkomu sína úr samræmdum prófum afhenta í dag. Sjálfsagt hafa viðbrögðin verið eins mismunandi og börnin eru mörg, allt frá ofsagleði til mikils áfalls.
Sannleikurinn er sá að þessi próf skipta börnin miklu máli. Um skólavist í mörgum framhaldsskólunum er samkeppni milli barnanna, vinningshafar í þeirri samkeppni eru þau börn sem fengu bestar einkunnir. Mér hefur lengi fundist það vafasamt fyrirkomulag, einkunnir gefa ekki allar upplýsingar um getu nemandans.
Ég hef áður gagnrýnt prófið sem lagt var fyrir í náttúrufræði í ár (hér og hér). Ég hef ekki staðfestar upplýsingar um hvernig það kom út á landsvísu en mínar heimildir herma að einkunn upp á 8,5 hafi dugað til að vera meðal 1% þeirra sem fengu besta útkomu og einkunn upp á 7,5 hafi dugað til að vera meðal þeirra 8% sem fengu bestu útkomuna. Því getur einkunnin 6,5 og jafnvel 6.0 verið fín einkunn. Ef satt er þá segir þetta mikið um hversu erfitt prófið var.
Það sem er alvarlegt er að þessar upplýsingar fylgdu ekki einkunnum barnanna í öllum tilvikum (a.m.k. ekki í skóla dóttur minnar). Því upplifðu nemendurnir lágar einkunnir og eru margir miður sín vegna þess, jafnvel þó þau hafi staðið sig vel miðað við hópinn í heild. Margir krakkarnir eru um þessa helgi að taka ákvörðun um hvaða framhaldsskóla þeir eigi að sækja um og einnig hvaða brautir.
Lágar einkunnir í náttúrufræði geta orðið til þess að krakkar hætti við að sækja um náttúrufræðibraut í framhaldsskóla. Sérstaklega ef enginn hefur útskýrt fyrir barninu að einkunnin sé kannski alls ekki svo slæm.
Oft hafa heyrst áhyggjuraddir vegna minnkandi ásókn nemenda í raungreinar, þetta er ekki til að bæta það.
Ég bíð eftir réttum svörum í náttúrufræðiprófinu, þau eiga að birtast á vef námsmatsstofnunar fljótlega. Það verður fróðlegt að sjá með hliðsjón af athugasemdum mínum.
15.5.2008 | 22:46
Meira af samræmdu prófi í náttúrufræði
Ég birti nýlega færslu þar sem ég gagnrýndi samræmt próf í náttúrufræði sem lagt var fyrir 10. bekk grunnskóla nú nýlega. Þar tók ég eingöngu fyrir þær spurningar sem að mínu viti voru beinlínis rangar eða úr efni sem ekki var í þeim kennslubókum sem lagðar voru til grundvallar.
Nú ætla ég að bæta um betur og benda á atriði sem hafa mun minna vægi en eigi að síður eru sérkennileg í þessu prófi.
Í lífefnafræði er gerður greinarmunur á "sykrum" og "sykri" þar sem "sykrur" er samheiti yfir efnasambönd sem einnig eru kölluð kolvetni. Matarsykur eða það sem við köllum sykur (einnig reyrsykur) í daglegu tali, er tvísykra og er samsett úr einsykrunum glúkósa og frúktósa.
Ég geri ekki ráð fyrir að nemendur 10. bekkjar þekki þennan mun og þessi villa í spurningunni ætti því ekki að hafa áhrif á hvernig þau svara þessari spurningu, það er hins vegar eðlileg krafa til prófhöfunda að notuð séu rétt hugtök.
Einungis lítillega er farið í stökkbreytingar í námsefninu, ekkert um það að til að stökkbreyting valdi krabbameini þurfi breytingu í fleiri en einu geni nema einstaklingurinn hafi erft eitthvað af þessum breytingum. Þessi spurning er því til hliðar við námsefnið.
Ég aðstoðaði nokkrar stúlkur fyrir prófið. Við þá aðstoð gleymdi ég mér og fór að útskýra fyrir þeim ýmislegt varðandi krabbamein og stökkbreytingar, bara af því mér fannst þetta skemmtilegt og áhugavert, ekki af því að þetta væri hluti námsefnisins. Nú hef ég heyrt frá einni stúlkunni að hún hafi getað þessa spurningu eingöngu vegna þessa "skemmtifyrirlestur" míns.
Í þessari spurningu er svar L rétt. Ég gat hins vegar ekki fundið neitt um þetta í kennslubókunum. Eftir leit á google fann ég á vísindavefnum að tunglið hefði "bundinn möndulsnúning" sem þýðir að það hefur jafnlangan snúningstíma og umferðartíma. Þetta fann ég ekki í kennslubókinni.
Ég hef verið að velta fyrir mér hvað þetta "yfirleitt" í þessari spurningu þýðir. Veit einhver dæmi þess að flóð og fjara verði ekki tvisvar á sólarhring? Í prófi þar sem stöðugt er verið að leggja gildrur fyrir nemendur þá skiptir máli að orðalag spurninganna veki ekki upp vafa hjá nemendum.
Spurningar sem fjalla um fjölda rafeinda á hvolfum frumefna hafa verið fastur liður í prófum undanfarinna ára. Það er líka betra að kunna skil á þessu til að skilja lotukerfið en lotukerfið er hluti námsefnisins. Hins vegar er ekki fjallað um rafeindahvolf í þeirri kennslubók sem lögð er til grundvallar námsefninu. Ekkert er farið í það hvernig fjöldi rafeinda á ysta hvolfi hafi áhrif á röðun frumefnanna í lotukerfinu.
Þar sem þessi spurning er í eðlifræðihluta prófsins er eðlilegt að ætla að verið sé að fjalla um áhrif saltmagns á frostmark. Ég get hins vegar ekki fallist á að svarið í H lið sé rangt.
Hvaða máli skiptir orðið "hendi" í lið L? Hefði ekki verið nóg að segja: "Málmur leiðir betur varma en plast"?
Þessi mynd sýnir ekki rafgreiningu vatns. Til að rafgreina vatn er ekki nóg að stinga tveim vírum í vatnsglas og hleypa straum á. Myndin hér að neðansýnir rafgreiningu vatns. Ég veit dæmi þess að nemandi lét þetta atriði trufla sig og velti því fyrir sér í hvort málið væri að það væri ekki hægt að rafgreina vatn með þessum hætti og efnið sem myndaðist væri því bara vatn, sbr svar M.
Athugasemdir mínar við prófið sem birtast í þessari færslu hef ég ekki sent Námsmatsstofnun, mér þótti þær léttvægari en þær sem ég birti hér áður. Engu að síður er hér um atriði að ræða sem eiga ekki að koma upp í prófi sem þessu.
Það er eðlileg krafa nemenda, kennara og foreldra að svona próf séu yfirlesin af fólki með þekkingu á þeim sviðum sem verið er að prófa úr. Viðkomandi verður einnig að hafa þekkingu á því námsefni sem lagt er til grundvallar prófi sem þessu. Þetta hefur ekki verið gert.
7.5.2008 | 22:10
Samræmt próf í náttúrufræði 2. maí 2008 - athugasemdir
Á föstudaginn var þann 2. maí var samræmt próf í náttúrufræði í 10. bekk. Ég hef undanfarið gagnrýnt námsefni fyrir þessi próf og einnig þau próf sem lögð hafa verið fyrir undanfarin ár. Nú er röðin komin að því að kryfja samræmt próf í náttúrufræði árið 2008.
Til að gera langa sögu stutta þá eru mörg atriði í prófinu sem orka tvímælis og margar spurningar sem fjalla um atriði sem hvergi eða lauslega er minnst á í kennslubókum sem notaðar eru.
Spurning nr. 33.
Fyrst skulum við athuga hvað börnin læra um frumuskiptingar. Þau læra að í jafnskiptingu myndist tvær dótturfrumur með jafnmikið erfðaefni og móðurfruman, í rýriskiptingu myndist dótturfrumur með helmingi minna erfðaefni en móðurfruman. Í kennslubókunum eru engar skýringamyndir sem sýna muninn á þessum frumuskiptingum.
Í náttúrufræðiprófi árið 2004 eru í einni spurningunni þessar sömu myndir og í prófinu en í annarri röð og tekið fram að þetta sé jafnskipting, spurningin það árið fólst í að raða myndunum rétt.
Ég hef skoðað kennslubók mína í erfðafræði frá því í Háskóla. Ég fæ ekki betur séð en að myndirnar í prófspurningunni sýni það sem kallað er metafasi, anafasi og telofasi. Þetta vita börn í 10. bekk ekki. Það sem þeir sem sömdu prófið greinilega vita ekki heldur er að þessir fasar eru bæði til í jafnskiptingu og rýriskiptingu, í rýriskiptingu koma þeir fyrir tvisvar sinnum, seinna skiptið eru þeir eins og í jafnskiptingu. Kynfrumur myndast við rýriskiptingu og því fæ ég ekki betur séð en að K, L og M séu allt réttir svarmöguleikar.
Spurning nr 43:
Athugum fyrst hvað segir í kennslubókinni Sól, tungl og stjörnur: "Flestar gamlar stjörnur í Vetrarbrautinni hafa fundist nálægt kjarna hennar eða miðju....................Sólin okkar er ein af yngri stjörnunum í þyrilörmunum". Ég gat ekki fundið neitt meira í bókinni sem benti klárlega til hver staðsetning okkar sólkerfis væri í vetrarbrautinni.
Hver ofangreindra valmöguleika er líklegastur miðað við þessar upplýsingar? Er það N af því að það er yst? Er það L af því að það er klárlega í þyrilarmi? Eða er það M af því að það er líka í þyrilarmi. Ég er ekki viss.
Ég hef leitað á vefnum að myndum af vetrarbrautinni okkar og skoðað þær, ég get engan veginn séð af þeim hver rétta staðsetningin er.
Spurning nr 65.
Við fyrsta yfirlestur datt mér ekki í hug annað en svar Æ væri rétt. Við nánari skoðun get ég ekki séð mun á því svari og svari V. Börnin fengu formúlublað, ég hef mikið reynt að reikna mig í gegnum það en er engu nær. Líklega eiga börnin að átta sig á þessu út frá lögmáli Newton en þrátt fyrir að vera búin að lúslesa kennslubókina er ég engu nær.
Ég væri þakklát lesendum ef einhver getur skýrt út fyrir mér muninn og bent mér á rétta svarið.
Ég hef reyndar eftir eftirgrennslan fengið vísbendingar um rétta svarið en hef ekki náð að skilja hvernig maður finnur það út.
Spurning nr 69 og 70
Hvað er að gerast á myndinni? Skoðum hana vel. Hitinn í upphafi er -15°C og hækkar síðan í +10°C og stendur þar í stað í nokkrar mínútur. Fast efni er að bráðna er líklegasta ágiskunin um hvað sé að gerast. Hitinn hækkar síðan enn frekar upp í 35°C og stendur þar í stað í nokkrar mínútur. Þá má giska á að vökvinn sé að gufa upp. Eða hvað?
Hitinn hækkar enn frekar, lesum textann. Hitamælirinn stóð ofan í pottinum allan tímann og í lok tilraunarinnar var rúmmál efnisins helmingi minna en í upphafi. Það þýðir að hitinn gat ekki hækkað meira þar sem ekki var allt efnið gufað upp. Hiti efnis getur ekki hækkað meira fyrr en hamskiptum er lokið.
OK líklega voru þá tvö efni í pottinum í upphafi, annað með bræðslumarkið 10°C og hitt með bræðslumarkið 35°C. En af hverju minnkaði rúmmál efnisins?
Og ef þetta er málið, hvað er þá rétt svar við spurningu 70?
Ef þetta var eitt efni og prófhöfundum yfirsást að hitinn gat ekki hækkað í pottinum þar sem ekki var allt efnið gufað upp, er þá ekki svar T rétti svarmöguleikinn? Þá vek ég athygli á að í spurningunni stendur "Grafið sýnir að", svarmöguleika T er ekki hægt að lesa af grafinu, heldur úr textanum.
Eftir mikla yfirlegu áttaði ég mig loksins á einu mögulegu lausninni. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að prófhöfundar hafi haft hana í huga, mig grunar að hitinn hafi ekki átt að hækka eftir 23. mín, það hafi verið mistök að láta línuna halda áfram upp.
Þessi eina mögulega lausn er þraut dagsins, "ertu skarpari en skólakrakki"? er spurning dagsins. Getur einhver séð lausnina?
Það þarf kannski ekki að taka það fram en í námsefninu er ekkert fjallað um það að hitastig efnis haldist stöðugt á meðan hamskipti eiga sér stað, hvað þá hvernig þetta líti út þegar um fleiri en eitt efni er að ræða. Engin línurit áþekk því sem er á myndinni er í kennslubókinni.
Spurning nr 71-73
Spurningarnar taka heila blaðsíðu og ég ákvað að þreyta ekki lesendur með því að líma hana inn í þessa færslu. Spurningin fjallar um pendúl og sveiflutíma. Í námsefninu er hvergi minnst á pendúl eða sveiflutíma. Það er hins vegar hægt með rökhugsun að leysa verkefnið en aftur kem ég að því að þetta námsefni er alveg nógu mikið og flókið, það er óþarfi að vera með spurningar sem eru út fyrir efnið.
Spurning nr 74.
Þessi spurning olli mér svolitlum heilabrotum. Tengingar í 1,3, og 5 ganga ekki upp og ekki kviknar því á perunni. Ekkert er athugavert við tengingar í nr 4. Börnin læra um hliðtengdar rafrásir eins og er í nr 2. Hins vegar skilst mér að rafmagn sé eins og vatn, flæði alltaf auðveldustu leiðina, þar sem peran er ákv. viðnám og því flæðir ekki nægur straumur um rafrásina í nr 2 til að ljós kvikni á perunni. Þessi spurning reynir á skilning og bestu nemendurnir átta sig á þessu. Það er hins vegar ekki fjallað um þetta í námsefninu.
Það er alvarlegt mál að misræmi milli kennsluefnis og prófa skuli vera eins mikið og ég hef rakið hérna, einnig er alvarlegt ef villur eru í prófinu.
Það er virðingarleysi við bæði nemendur og kennara að svona mikið af prófinu sé úr efni sem ekkert er fjallað um. Bæði nemendur og kennarar hafa mörg lagt mikið á sig fyrir þetta próf og eiga betra skilið.
Fyrir utan þau atriði sem ég geri athugasemdir við hér að ofan er prófið þungt og oft verið að gera spurningarnar óþarflega flóknar með því að bæta inn stærðum og upplýsingum sem engu máli skipta við úrlausn verkefnanna.
Það sem veldur mér ekki síður áhyggjum er að miðað við allar þær villur sem ég tel að séu í prófinu þá treysti ég prófhöfundum ekki til að velja rétta svarmöguleika sem rétt svar.
Ég hef nú þegar skrifað Námsmatsstofnun bréf og gert athugasemdir við prófið. Ég hvet aðra foreldra að kynna sér prófið og námsefnið og gera einnig athugasemdir.
Svör verða birt á vef námsmatsstofnunar þegar einkunnir hafa verið birtar. Ég hef áhuga á að fylgjast með hver þau verða.
Menntun og skóli | Breytt 25.5.2008 kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.5.2008 | 13:19
Námsefni til samræmds prófs í náttúrufræði
Yfirskrift seinustu færslu var "Er magn ávísun á gæði?". Þessi pistill kallast á við þessa yfirskrift þar sem þessi spurning á við um námsefni sem er til samræmds prófs í náttúrufræði í 10. bekk. Ég hef skoðað þetta námsefni þar sem ég hef aðstoðað dóttur mína við undirbúning undir þetta próf. Það er skemmst frá því að segja að þetta námsefni er mjög mikið og kröfur sem gerðar eru til barnanna eru miklar.
Ég ætla hér í stuttu máli að fara yfir það sem börnin þurfa að kunna skil á. Sá listi getur í stuttri upptalningu ekki verið tæmandi en gefur til kynna hversu yfirgripsmikið það efni er sem þau fara yfir og lesa fyrir þessi próf. Þar sem ég veit að margir hafa ekki þolinmæði fyrir langar færslur þá bið ég þá að bara renna lauslega yfir þennan lista, rétt til að fá hugmynd um hversu vítt svið þetta námsefni spannar.
Lífvísindi:
Einkenni lífvera (119 bls)
- efnaskipti, ýmsar gerðir flæðis, byggingarefni lífvera
- Frumur, frumulíffæri og starfssemi
- Vefir, líffæri, líffærakerfi
- Samskipti lífvera, vistkerfi, fæðukeðjan og fæðupíramídi
Lifandi veröld (173 bls)
- Veirur og dreifkjörnungar, einkenni og bygging
- Frumverur, helstu hópar og einkenni þeirra
- Sveppir, helstu hópar og einkenni þeirra
- Þörungar, byrkingar og mosar, einkenni
- Fræplöntur, dulfrævingar og berfrævingar, helstu einkenni og æxlunarfæri
- Hryggdýr, helstu flokkar og einkenni
Erfðir og þróun (87 bls)
- Víkjandi, ríkjandi erfðir
- arfhreinn, arfblendinn, svipgerð, arfgerð
- Lögmálið um aðskilnað litninga
- Lögmálið um óháða samröðun
- Reitatöflur og líkur á arfgerð afkvæma reiknað út frá arfgerð foreldra
- stökkbreytingar í kynfrumum, líkamsfrumum
- Fjölgenaerfðir, kyntengdar erfðir
- erfðir blóðflokka
- erfðir og umhverfi
- erfðatækni, splæst DNA
- þróun, breytileiki, náttúruval
- þróunarsaga mannsins
Jarðvísindi
Sól tungl og stjörnur (139 bls)
- Vetrarbrautir, mismunandi gerðir og einkenni þeirra
- Rauðvik, blávik, dopplerhrif, dulstirni
- stjörnur, gerðir, stærð og einkenni
- HR-línuritið
- sólir, gerð
- þróun stjarna, frumstjarna, hvítir dvergar, nifteindastjörnur, svarthol
- Sólkerfi, þróun og myndun okkar sólkerfis
- Reikistjörnurnar - nöfn, röð og helstu einkenni hverrar
- halastjörnur, geimgrýti
- möndulhalli, árstíðir, kvartilaskipti tunglsins, sjávarföll
Eðlisvísindi
Kraftur og hreyfing (79 bls)
- munurinn á þyngd og massa, þyngdarkraftur jarðar
- kraftur = massi x hröðun
- núningur, ýmsar gerðir
- Þrýstingur = kraftur / flatarmál
- Flotkraftur
- eðlismassi
- vökvaknúin tæki
- vinna = kraftur x vegalengd
- afl = vinna / tími
- Vélar - vogarstöng, trissa, hjól og ás, skáborð, fleygur, skrúfa
- kraftahlutfall
- Þrjú lögmál Newtons
- skriðþungi = massi x hraði
Efnisheimurinn (77 bls)
- Frumefni, efnasambönd, efnablöndur, efnaformúlur
- hamskipti efna, bræðslumark og suðumark, áhrif loftþrýstings
- Efnaleysing, mettun lausna
- Efnahvörf
- rafeindir, róteindir, nifteindir
- jónir og sölt
- Lotukerfið, sætistala, massatala, lotur, flokkar, efnaeiginleikar efna eftir stöðu í lotukerfinu, hvarfgirni, hvaða efni geta hvarfast saman og í hvaða hlutföllum.
- náttúruleg frumefni
- rafgreining vatns
- efnajöfnur, geta stillt efnajöfnur
- útvermin, innvermin efnahvörf
- sýrur og basar, hlutleysing
Orka (155 bls)
- Varmi, hreyfing sameinda, hreyfiorka
- varmaleiðing, varmaburður, varmageislun
- tvímálmur
- hiti og varmi, mælingar og einingar
- eðlisvarmi
- efnaorka, stöðuorka
- Rafmagn, rafhleðslur, rafkraftar, rafsvið, stöðurafmagn, eldingar, eldingavari, rafspenna, rafstraumur, viðnám
- Lögmál Ohms: straumur = spenna / viðnám
- rafhlöður, rafgeymar, jafnstraumur, riðstraumur
- rafafl = spenna x straumur
- straumrásir, rofar, raðtenging, hliðtenging, öryggi
- Segulmagn, segulkraftur, segulmagn úr rafmagni, rafmagn úr segulmagni
- Hljóðbylgjur, langbylgjur, hreyfing sameindanna, bylgjulengd, sveifluvídd, tíðni
- áhrif bylgjulögunar á tónhæð og hljóðstyrk
- dopplerhrif, dýptarmælar
- víxlverkun bylgna
- ljós - ljósorka, ljóseindir
- rafsegulbylgjur, þverbylgjur, rafsegulrófið, sýnilega og ósýnilega rófið
- tvíeðli ljóss
- glóðarljós, flúorljós, neonljós
- speglun, kúptur spegill holspegill, brennipunktur, ljósbrot
- Linsur, safnlinsur, dreifilinsu
- öreindir
- sterk víxlverkun
- samsætur
- frumefnabreytingar og geislavirkni, alfasundrun, betasundrun, gammasundrun
- örvuð kjarnahvörf, kjarnorka, nýting, kjarnaofnar, helmilefni, stýristengur.
Það eru mun fleiri atriði sem börnin þurfa að kunna skil á, þetta eru þau helstu.
Eins og sést á upptalningunni er þetta yfirgripsmikið efni, þetta er námsefni 8. 9. og 10 bekkjar, samtals 7 kennslubækur. Eins og sést í upptalningunni eru þarna ýmsar eðlisfræðiformúlur og í prófinu er mikið af dæmum þar sem börnin þurfa að beita þeim. Í bókunum eru fá slík dæmi og í kennslunni er lítil áhersla á æfingu í að reikna svona dæmi.
Þegar farið er yfir svona yfirgripsmikið efni er hætta á að alla dýpt í umfjöllunina vanti og fyrir vikið öðlast börnin ekki skilning á námsefninu. Afleiðingin er sú að námsefnið læra þau eins og páfagaukar án skilnings á því hvað það þýðir.
Fæstir kennarar hafa djúpa þekkingu í eðlisfræði eða líffræði. Því er ekki hægt að ætlast til að þeir geti útskýrt þetta efni umfram það sem gert er í bókunum, afleiðingin verður að skilning vantar.
Þar sem efnið er umfangsmikið og oft mjög flókið, treysta mörg börnin sér ekki í þetta próf. Börn sem höfðu hugsað sér að taka það og höfðu hug á að fara á náttúrufræðibraut í menntaskóla. Það er því ekki að undra að mörg þeirra skrái sig úr prófinu seinustu vikur fyrir próf. Ef þau taka þetta próf ekki komast þau ekki á náttúrufræðibraut í menntaskóla.
Ég tel að stærðfræði sé mikilvæg undirstaða undir flest háskólanám. Nám á háskólastigi byggist m.a. á rannsóknavinnu, þar er tölfræði nauðsynleg og til að skilja tölfræði er stærðfræðikunnátta skilyrði. Því tel ég stórvarasamt að aukinn fjöldi nemenda fari á málabrautir eða á samfélagsbrautir með minni undirstöðu í stærðfræði en ella.
Þetta gæti verið afleiðing af alltof þungu og yfirgripsmiklu námsefni til samræmds prófs í náttúrufræði.
Niðurstöður svonefndra PISA kannana í náttúrufræði benda til að íslensk ungmenni séu ver að sér í náttúrufræðum en jafnaldrar þeirra í mörgum af þeim löndum sem einnig taka þátt í þessum könnunum. Getur verið að hluti skýringarinnar liggi í því að námsefnið sé það yfirgripsmikið að meginþorri nemendanna skilji það ekki og því sitji lítið af þekkingunni eftir til lengri tíma?
Ég er ekki viss um að magn námsefnis feli í sér gæði. Ég tel mun heillavænlegra að kenna þetta efni til skilnings og skera það frekar niður þannig að einhver von sé til að meira sitji eftir.
Eins og ég hef áður nefnt hér á síðunni hef ég athugasemdir við samræmd próf í náttúrufræði. Þau eru oft illa samin og þrátt fyrir að námsefnið sé flókið og yfirgripsmikið eru margar spurningar sem fara út fyrir það efni sem kennt er í bókunum, spurningar sem krefjast þekkingar sem nær út fyrir námsefnið. Stundum á slíkt rétt á sér, en þegar námsefnið er eins yfirgripsmikið og talið er upp hér að ofan finnst mér það orka tvímælis.
Ég er með stúdentspróf af náttúrufræðibraut, BSc í Líffræði, MSc í heilbrigðisvísindum. Ég hef lesið allar þessar kennslubækur sem eru til prófs í 10. bekk og ég á í vandræðum með sumar spurningarnar í þessum prófum.
Er það eðlilegt?
Menntun og skóli | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)