Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Samningslausir iðnnemar

Kreppan hefur mörg andlit. Okkur er tíðrætt um atvinnuleysi, tekjumissi og gjaldþrot heimila og fyrirtækja.

Þessu til viðbótar er vandi iðnnema. Þeim er skylt að vera á samning hjá meistara í sínu fagi í ákveðinn tíma til að geta lokið sínu námi. Ákveðin bókleg og verkleg fög geta þessir nemar ekki tekið í skólanum fyrr en að loknum samningstíma.

Þessir nemar eru meðal þeirra sem misst hafa vinnuna nú seinustu vikur og mánuði. Atvinnumissir fyrir þessa einstaklinga er því ekki einungis tekjumissir, heldur einnig stöðvun á námsframvindu og algerlega ómögulegt er að reikna út hvenær hægt verður að halda náminu áfram.

Rof á námi getur í mörgum tilvikum þýtt að nemar gefist upp og hrökklist frá námi. 

Við megum síst af öllu við þessu þar sem hlutfall þeirra sem ekki hafa lokið neinu prófi eftir grunnskólapróf er nú þegar alltof hátt hérlendis og með því hæsta sem gerist meðal ríkja OECD.

Það að þjóðin sé vel menntuð er mýta sem við þurfum að horfast í augu við að stenst ekki skoðun.


Reynslulausir lukkuriddarar

Þegar boðað hefur verið til Alþingiskosninga er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvaða eiginleika maður vill að frambjóðendur hafi.

Ég hef lengi furðað mig á því hversu margir þingmenn virðast komast þarna að á "gasprinu" einu saman. Á Alþingi eru ótrúlega margir sem hafa afar þunna ferilskrá á bakvið sig. Þessir aðilar eru í öllum stjórnmálaflokkum, koma í gegnum ungliðahreyfingarnar, hafa verið brattir ungliðar í málfundafélögum í mennta- og háskólum en þar fyrir utan ekki afrekað neitt.

Þarna er ég ekki að leggja mat á þessa einstaklinga heldur að benda á að miklar væntingar eru bornar til þeirra þegar þeir eru kosnir án þess að þeir hafi áður sannað sig.

Ég tel að það sé mikilvægt að þingmannsefni okkar hafi eitthvað á bak við sig, hafi náð að sanna sig. Verið framarlega í sveitastjórnarmálum, stéttafélögum, forsvarsmenn í atvinnulífinu eða stofnunum ríkisins.

Ég viðurkenni að með þessum rökum er ég að hækka aldur þingmanna verulega og minnka möguleika ungs fólks til að komast að. En það er einmitt punkturinn, ég tel að til að eiga erindi þarna inn þurfi fólk að hafa reynslu og þroska sem ekki næst í málfundafélögum skólanna. Alþingi er ekki morfísræðukeppni og orðaskak milli stjórnmálamanna má ekki drepa þörfum málefnum á dreif.

Nú er mikið rætt um að þörf sé á endurnýjun í þingmannaliðinu. Því er ég hjartanlega sammála. Núverandi þingmenn eru orðnir samdauna þeim úreltu starfsaðferðum sem hafa verið viðhafðar. Þingmenn hafa verið notaðir sem sjálfvirkar handauppréttingavélar og hefur verið sorglegt að fylgjast með fyrrverandi bæjarstjórum og háskólarektorum í því hlutverki. Því er mikilvægt að vanda valið vel á lista fyrir komandi kosningar.

Útrýmum reynslulausum lukkuriddurum meðal þingmanna.


Okkar norrænu vinir

Það er áhugavert að skyggnast inn í hvernig nágrannar okkar á Norðurlöndum sjá "ástandið" hjá okkur.

Í seinustu viku fór ég á fund með norrænum kollegum til Lundar í Svíþjóð. Þegar hefðbundnum kveðjum lauk spurðu þeir út í "ástandið" hér. Spurningarnar voru á þessa leið:

"What´s going on in Iceland?"

"Were have all your money gone? Gone with the wind?"

"Har dere ikke nogen öre?"

Ég sá mér þann kost vænstan að svara í gríni. Sagði að peningarnir hefðu farið með vindinum til Suðurhafseyja í Karabíska hafinu. Sagði líka að okkur hefði dottið í hug að hringja í stjórnvöld í Danmörk eða Noregi og segja að þetta með sjálfstæðisyfirlýsinguna 1944 og til vara þarna á 13. öld hefði bara verið misskilningur.

Þá sagði Bodil frá Árósum: "En þið skuluð vara ykkur á rússnesku peningunum!"

Ég játti því en sagði það ekki vera neitt grín, nefndi að þó það væri lítið fjallað um það í íslenskum fjölmiðlum þá væri ég full grunsemda um dularfull tengsl við rússneska aðila.

"Þú ert ekki ein um þær grunsemdir" sagði þá annar Dani.

Mér brá við. Hingað til hafa fáir Íslendingar ljáð þessu máli eyra en Danirnir virtust hins vegar vera vel með á nótunum og töldu miklar líkur á að þarna væri eitthvað gruggugt í gangi.

Hér ríkir alger þöggun um þetta mál.

Innanum þessa norrænu vini leið mér samt örlítið eins og að upp væri að komast um óhugnað innan minnar nánustu fjölskyldu. Ég sveiflaðist milli þess að vilja hylma yfir eða að vilja létta á mér og segja frá öllu.

Ég dauðskammaðist mín fyrir hvernig komið er fyrir okkur.


Gerum ekki óraunhæfar kröfur til nýrrar stjórnar

Búsáhaldabyltingin bar árangur. Til hamingju byltingasinnar!

Nú er ný ríkistjórn í burðarliðnum. Það er meira að segja Röskvustjórn, einmitt það sem mig hefur lengi dreymt um. Aðstæður eru reyndar allt aðrar en mig dreymdi um og má segja að einungis sé tjaldað til einnar nætur.

Það er ljóst að þessari stjórn bíða erfið verkefni og óvinsæl. Það er einnig ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir óánægðir lukkuriddarar munu ekki gefa þessari ríkisstjórn nokkurn grið. Það er líka hætt við að til þessarar stjórnar verði gerðar óraunhæfar kröfur. Svigrúmið sem stjórnin hefur til aðgerða er lítið, bæði pólitískt svigrúm þar sem stutt er í kosningar og ekki síður efnahagslegt svigrúm. Það er ekkert.

Þetta verða forsvarsmenn stjórnarinnar að gera almenningi ljóst strax í upphafi. Segja okkur blákalt hvernig staðan er. Áframhaldandi niðurskurður er óhjákvæmilegur, það eru engir peningar til og það vill enginn lána okkur. Atvinnuleysi mun aukast enn frekar, þessi ríkisstjórn breytir engu um það.

Nú gefst Sjálfstæðisflokknum tími og ráðrúm til að ná vopnum sínum. Ég skora á alla að fylgjast grannt með áróðrinum. Hann mun bæði vera augljós og einnig dulinn. Fram stíga ótrúlegustu lukkuriddarar með alls konar sögur, sannar, ýktar og lognar. Þetta er byrjað.

Sigurður Kári kom í Sprengisand á Bylgjunni á sunnudag og fullyrti að Sjálfstæðisflokkurinn hefði viljað fá Alþjóða gjaldeyrissjóðinn miklu fyrr. Þetta er helber lygi. Þeir stóðu frekar í vegi fyrir aðkomu IMF, jafnvel nokkru eftir bankahrunið.

Björn Bjarnason og Sveinn Andri Sveinsson hafa komið fram og borið á þingmenn VG að hafa staðið fyrir óeirðum í mótmælunum seinustu viku. Þetta er fráleitt og þessum mönnum til minnkunar að halda þessu fram.

Þetta er bara byrjunin.

Ég óttast að minni kjósenda sé stutt, að þegar tekur að vora muni þeir halla sér að Sjálfstæðisflokknum og krossa við hann í kosningum.

Framsóknarflokkurinn er klókur, stendur glottandi á hliðarlínunni og mun sópa til sín atkvæðum í næstu kosningum. Allir búnir að gleyma hver Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson eru og hvernig Framsóknarflokkurinn færði þeim eignir á silfurfati.

Eftir kosningar munu þessir flokkar svo ganga í eina sæng og ballið byrjar upp á nýtt.

Því er nauðsynlegt að við höldum vöku okkar og styðjum þessa ríkisstjórn í gegnum þykkt og þunnt. Þetta verður engin álfkona með töfrasprota sem gerir allt gott aftur.

Það er forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkistjórn. Allt annað skiptir mun minna máli.


Var einhver að tala um: Gagnsæi, heiðarleika og að allt verði uppi á borðinu?

Undanfarna mánuði hefur mér fundist eins og ríkisstjórn þessa lands hræðist að segja þegnunum hversu alvarlegt ástandið sé, og að það eigi aðeins eftir að versna. Mér hefur fundist ráðherrana skorti kjark og þor að efna til umræðu um hver forgangsröðunin eigi að vera. Hvað við höfum efni á að gera.............og hverju við verðum að sleppa.

Í vikunni kynnti heilbrigðisráðherra tillögur sínar til sparnaðar. Róttækar tillögur sem augljóslega voru ekki líklegar til vinsælda. Áður en ég vissi nokkuð um hvað í þeim væri hugsaði ég með mér......loksins þorði hann.

En hvað var í pakkanum?

Það skal leggja niður St Jósefspítala. Ég hef enga þekkingu á þeirri starfssemi sem þar fer fram og skal því ekki leggja mat á þessa aðgerð. En það að flytja skurðaðgerðir sem þar hafa verið framkvæmdar til Keflavíkur líst mér ekki á. Síðar hefur komið upp orðrómur um að þessi starfsemi verði einkavædd í Keflavík og það sem meira er, að ákveðinn aðili er sagður vera í sigtinu.

Höfum við ekkert lært?

Hversu mikið minnir þetta ekki á einkavæðingu bankanna? Ákveðnir aðilar pikkaðir út og góssið látið í þeirra hendur?

Nei, ég hef fengið nóg.

Það er talað um "Nýtt Ísland", "allt upp á borðið", gagnsæi ákvarðanna. Það er lágmarkskrafa að staðið sé við þessi stóru orð.

Það er um þessi atriði sem mótmælafundirnir á laugardögum snúast.

Heiðarleika í ákvarðanatökum, gagnsæi og virðingu ráðamanna gangvart okkur sauðsvörtum almúganum.

Okkur er ljóst að kjör okkar munu rýrna, að margir hafa misst sparnað og atvinnu, einnig að enn fleiri muni standa í þeim sporum á næstu mánuðum. Það er skelfileg afleiðing bankahrunsins.

En í mínum huga snúast mótmælin samt ekki um peninga. Heldur um að stjórnvöld sýni okkur að þau ætli að standa við stóru orðin um: Gagnsæi, heiðarleika og að allt verði uppi á borðinu.

Þess sér engin merki.

Þess vegna höldum við áfram að mæta á Austurvöll, hvern laugardag kl. 15.00, þangað til við teljum að eitthvað hafi breyst.

Sá tími er ekki kominn.

Ég vil jafnframt benda á hvatningarpistil Láru Hönnu sem ég sá fyrst nú rétt í þessu. Lára hefur svo sannarlega staðið vaktina fyrir okkur öll. Höfum við staðið okkar vakt?


Sprungurnar dýpka og verða sýnilegar

Sprungurnar í sambandi stjórnarflokkanna verða æ meira áberandi. Hvernig eiga þessir flokkar að starfa áfram saman ef landsfundur Sjálfstæðismanna hafnar því að hefja aðildarviðræður að ESB? Ef það gerist er ljóst að flokkarnir stefna ekki í sömu átt. Það var því eðlilegt að Ingibjörg Sólrún segði það á mannamáli í útvarpsþætti nú fyrir jól að undir slíkum kringumstæðum væri kominn tími á kosningar.

Nú hefur Geir stungið upp á því að þjóðin kjósi um hvort fara eigi í aðildarviðræður. Mér virðist sú uppástunga vera tilkomin til að flokkurinn geti lifað án þess að taka formlega afstöðu til málsins. Þá þarf Geir ekki heldur að gera upp hug sinn.

Þessi leið er að mínu viti arfavitlaus, það nægir að kjósa um inngöngu í ESB þegar þar að kemur. Ef endilega þarf að kjósa um hvort við eigum hefja aðildarviðræður þá er eins gott að kjósa nýtt þing og nýja ríkisstjórn sem hafi þá óskorað umboð til að hefja þessa vegferð............eða gera eitthvað allt annað ef úrslit kosninganna verði á þann veg.

Það er þá sjálfsögð krafa okkar kjósenda að fá að vita hvað þetta eitthvað allt annað sé. Það hefur Geir enn ekki sagt okkur hvaða aðrir valkostir séu í boði. Það er ekki valkostur að gera ekki neitt.

Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn með vandlætingu að segja okkur að samstarfsflokkurinn hafi stillt sér upp við vegg.

Fyrirgefið, Sjálfstæðisflokkurinn stillir sér þar sjálfur. Fórnarlambshlutverkið fer þessum flokki illa, hann hefur stjórnað alltof miklu, alltof lengi. Samfylkingin hefur verið ósýnileg og sofandi lagt blessun sína yfir gerðir Sjálfstæðisflokksins. Eða spilað viljug með? Veit ekki hvort er verra.

Nú er mál að linni.


Vonbrigði og þreyta

Seinustu mánuðir hafa einkennst af miklu tilfinningaflóði.

Ég hef verið sorgmædd yfir þeim missi sem þjóðin hefur orðið fyrir vegna þess að við höfum verið rænd.

Ég hef verið öskureið út í þá sem gerðu okkur þetta.

Ég hef verið hrædd því ég veit ekki hvað tekur við.

Ég hef lagt mig fram við það að fylgjast með því sem er í gangi, á köflum verið fréttasjúk. Ég vildi ekki trúa að þetta væri að gerast, ekki heldur að þrátt fyrir ótrúlega atburðarás væri enginn sem kannaðist við að hafa gert neitt rangt. Enginn hefur sagt af sér, enginn hefur kannast við að hafa gert mistök. Algerlega vanhæfur seðlabankastjóri situr í skjóli ríkisstjórnar sem þumbast við og lætur yfir sig ganga ótrúlegar fullyrðingar. Fjármálaeftirlitið virðist hafa lagt blessun sína á gjörninga sem það hefði átt að stoppa. Grunur um að aðilar í stjórnkerfinu hafi eitthvað að fela, læðist að fólki.

Þetta er ekki einleikið.

Ég trúði því að það að þúsundir löghlýðinna borgara mættu viku eftir viku í miðbæ Reykjavíkur og sýndu óánægju sína á friðsaman og kurteisan hátt myndi hafa einhver áhrif.

Það reyndist rangt.

Til viðbótar við sorg, reiði og hræðslu þá finn ég fyrir vonbrigðum með viðbrögð stjórnvalda, þau hafa verið ótrúlega máttlaus.

Getur verið að.....................manni dettur svo margt í hug og getur bara vonað að ímyndunaraflið hlaupi með mann í vitlausar áttir.

Það hrjáir mig bloggþreyta. Biðst forláts.

Annars bara hress og kát................


Skúrkar, tortryggnisrófur og nytsamir sakleysingjar

Hér kemur sálgreining leikmanns á manngerðum í íslensku samfélagi þessa dagana:

Ég tel að hér séu þrjár manngerðir: Skúrkar, tortryggnisrófur og nytsamir sakleysingjar.

Skúrkarnir eru þeir sem ekki eru með hreinan skjöld. Þar á ég ekki eingöngu við lögleysur, ekki síður það sem flokkast undir siðleysi. Bæði gerendur og þá sem staðið hafa aðgerðarlausir til hliðar vitandi hvað var í gangi.

Tortryggnisrófurnar eru þeir sem sjá eitthvað gruggugt í hverju horni og eru tilbúnir að trúa öllu misjöfnu og dæma jafnvel áður en rannsókn hefur farið fram.

Nytsömu sakleysingjarnir eru þeir sem trúa ekki að nokkuð misjafnt hafi farið fram. Vilja ekki grípa inn í nokkurt ferli áður en að sekt sé sönnuð.

Skúrkarnir eru auðvitað mestu skaðvaldarnir, tortryggnisrófurnar geta einnig valdið skaða ef þær ganga of langt.

En hlutur nytsömu sakleysingjanna hefur held ég verið stórlega vanmetinn. Í skjóli hrekkleysis þeirra hafa skúrkarnir komist upp með ýmislegt.

Bilið á milli nytsömu sakleysingjanna og skúrkanna minnkar stöðugt, það styttist í að sakleysingjarnir viljandi loka augunum og líta í hina áttina, vitandi innst inni að eitthvað misjafnt gangi á.

"Auðvitað verður okkur á mistök" hafa ráðamenn sagt um viðbrögð seinustu vikna. Með þessu hugarfari sigla þeir hraðbyri inn í skúrkaliðið, hafi þeir ekki þá þegar átt heima þar.

Venjulegur almenningur fellur líklega einnig undir nytsömu sakleysingjana. Með því að loka augunum fyrir því sem er að gera er stutt í að hann falli undir skúrkaskilgreininguna.

Því segi ég: Setjið upp efasemdargleraugun og byrjið að spyrja spurninga. Ekki bíða eftir að aðrir geri það. Dæmin um undarlegt siðferði eru of mörg til að við höfum efni á að bíða.


Borgarafundir - Hver er tilgangur þeirra?

Ég hef mætt á tvo seinustu borgarafundi, báðir voru í Háskólabíó. Á þeim fyrri var ríkisstjórnin í pallborði, þeim síðari forsvarsmenn stéttafélaga og lífeyrissjóða.

Ég hef velt fyrir mér tilgangi þessara funda.

Er hann sá að almenningur fái útrás fyrir reiði sína og aðilar í pallborði standi frammi fyrir fólki sem fær útrás?

Eða, er tilgangurinn að upplýsa fólk?

Ef tilgangurinn er að fólk fái útrás fyrir reiði sína þá er tilganginum náð. Hvort svo útrásin beinist að réttum aðilum er svo annað mál. Sannarlega er það góðs viti að fjöldi fólks standi upp frá sjónvarpinu og sýni samfélagsmálefnum áhuga en gangrýnin verður að vera réttmæt og byggð á því að fólk hafi fengið upplýsingar.

Þar komum við að atriði númer tvö, eru fundirnir upplýsandi? Nei ekki á nokkurn hátt. Erindin sem flutt hafa verið hafa verið tilfinningaþrungin og nokkuð einhliða, ef undanskilin er framsaga Gylfa Arnbjörnssonar í gærkvöld.

Dæmin um að aðilar í pallborði hafi þurft að svara mörgum flóknum spurningum og haft til þess einungis tvær mínútur eru of mörg. Það getur ekki verið tilgangurinn að upplýsa fólk ef ekki er gefinn meiri tími til að svara, lágmarkið væri tvær mínútur á hvert svar, en ekki tvær mínútur á hvern svaranda.

Viðskiptaráðherra fékk í gær vel orðaða spurningu um ábyrgð. Ráðherra byrjaði á að svara annarri spurningu sem hann fékk en þegar hann var rétt byrjaður á spurningunni um ábyrgð var tíminn búinn og henni var aldrei svarað. Ég hefði viljað heyra svarið.

Fundargestir á Borgarafundinum í gærkvöld virtust hafa þörf fyrir að sýna forsvarsmönnum stéttafélaganna andúð sína, eins og atburðir liðinna vikna væru á einhvern hátt á þeirra ábyrgð.

Mín upplifun af starfi innan stéttafélags og eins það sem ég hef séð til annarra félaga, er ekki að þau hafi sofið á verðinum. Hinn almenni félagsmaður hefur hins vegar gert það. Það er reynsla flestra stéttafélaga að stéttavitund fólks nú seinustu ár hafi verið af afar skornum skammti. Vilji til að fylgjast með því sem er að gerast hjá félögunum hefur verið afar daufur. Forysta félaganna er aldrei sterkari en fólkið sem stendur á bak við þau.

Á fundum stéttafélaga er oft verið að upplýsa fólk um réttindi þess og kjör. Einnig er reynt að fá fram vilja félagsmanna á áherslur í kjarasamningum. Mæting á þessa fundi er yfirleitt dræm. Ég hef setið í stjórn stéttafélags, mætt á fundi félagsins og séð þetta með eigin augum.  

Þess ber þó að geta að engin hreyfing er yfir gagnrýni hafin, það er brýn nauðsyn á að veita forystu stéttafélaga aðhald, á öllum tímum, ekki bara þegar kreppa steðjar að. Því verður fólk að mæta á fundi sinna félaga og fá þar réttar upplýsingar og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Það er hins vegar miklu minna spennandi að fá upplýsingar um veruleikann en að fá útrás fyrir tilfinningar sínar.

Þess vegna er mæting á borgarafundina miklu betri en mæting á fundi stéttafélaga.


Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands

Vinstri grænir héldu flokksráðsfund um helgina. Ég var svo barnaleg að trúa því að frá þeim kæmu hugmyndir um leiðir út úr þeim ógöngum sem við erum í.

Víst er að ég er ekki ósammála því sem birt er á eyjan.is sem helstu verkefni framundan. Flest miðar þetta að auknum ríkisútgjöldum og það er erfitt að vera ósammála átaki í velferðarmálum eins og málin standa í dag.

Spurningin sem stendur eftir hjá mér er einfaldlega: Hvernig?

Við því fékk ég ekki svar. Í flokknum um efnahags- og ríkisfjármál stendur þó:

Efnahags- og ríkisfjármál: Dreifa þarf skattbyrðinni á réttlátari hátt og skera um leið niður ríkisútgjöld, m.a. með sparnaði í rekstri stofnana, með því að skera niður hernaðarútgjöld og utanríkisþjónustu og með því að lækka laun æðstu ráðamanna og fella úr gildi eftirlaunalög byggð á sérréttindum. Breikka þarf tekjustofna sveitarfélaganna til að efla sjálfstæði þeirra og sjálfsforræði. Ganga þarf út frá því að halli á ríkissjóði og sveitarfélögum sé óhjákvæmilegur á meðan á kreppunni stendur. Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.

Þessu öllu er ég fullkomlega sammála nema hvað mér þótti sérkennilegt að stinga upp á niðurskurði ríkisútgjalda í þessum lið en allir aðrir punktar miðuðu að aukningu. Ég trúi hins vegar ekki að launalækkun æðstu ráðamanna vegi þungt, slíkt er miklu frekar táknræn aðgerð.

Hvað varðar seinustu setninguna:

Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.

Tja, þarna fannst mér bara vanta töluvert í viðbót, eins og ekki væri búið að vinna heimavinnuna, nánast eins og að mæta ólesinn í próf og skila auðu.

Já kæru vinir í VG, varðandi þessa fullyrðingu er ég ykkur fullkomlega sammála, en hvað leggið þið til?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband