Gerum ekki óraunhæfar kröfur til nýrrar stjórnar

Búsáhaldabyltingin bar árangur. Til hamingju byltingasinnar!

Nú er ný ríkistjórn í burðarliðnum. Það er meira að segja Röskvustjórn, einmitt það sem mig hefur lengi dreymt um. Aðstæður eru reyndar allt aðrar en mig dreymdi um og má segja að einungis sé tjaldað til einnar nætur.

Það er ljóst að þessari stjórn bíða erfið verkefni og óvinsæl. Það er einnig ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir óánægðir lukkuriddarar munu ekki gefa þessari ríkisstjórn nokkurn grið. Það er líka hætt við að til þessarar stjórnar verði gerðar óraunhæfar kröfur. Svigrúmið sem stjórnin hefur til aðgerða er lítið, bæði pólitískt svigrúm þar sem stutt er í kosningar og ekki síður efnahagslegt svigrúm. Það er ekkert.

Þetta verða forsvarsmenn stjórnarinnar að gera almenningi ljóst strax í upphafi. Segja okkur blákalt hvernig staðan er. Áframhaldandi niðurskurður er óhjákvæmilegur, það eru engir peningar til og það vill enginn lána okkur. Atvinnuleysi mun aukast enn frekar, þessi ríkisstjórn breytir engu um það.

Nú gefst Sjálfstæðisflokknum tími og ráðrúm til að ná vopnum sínum. Ég skora á alla að fylgjast grannt með áróðrinum. Hann mun bæði vera augljós og einnig dulinn. Fram stíga ótrúlegustu lukkuriddarar með alls konar sögur, sannar, ýktar og lognar. Þetta er byrjað.

Sigurður Kári kom í Sprengisand á Bylgjunni á sunnudag og fullyrti að Sjálfstæðisflokkurinn hefði viljað fá Alþjóða gjaldeyrissjóðinn miklu fyrr. Þetta er helber lygi. Þeir stóðu frekar í vegi fyrir aðkomu IMF, jafnvel nokkru eftir bankahrunið.

Björn Bjarnason og Sveinn Andri Sveinsson hafa komið fram og borið á þingmenn VG að hafa staðið fyrir óeirðum í mótmælunum seinustu viku. Þetta er fráleitt og þessum mönnum til minnkunar að halda þessu fram.

Þetta er bara byrjunin.

Ég óttast að minni kjósenda sé stutt, að þegar tekur að vora muni þeir halla sér að Sjálfstæðisflokknum og krossa við hann í kosningum.

Framsóknarflokkurinn er klókur, stendur glottandi á hliðarlínunni og mun sópa til sín atkvæðum í næstu kosningum. Allir búnir að gleyma hver Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson eru og hvernig Framsóknarflokkurinn færði þeim eignir á silfurfati.

Eftir kosningar munu þessir flokkar svo ganga í eina sæng og ballið byrjar upp á nýtt.

Því er nauðsynlegt að við höldum vöku okkar og styðjum þessa ríkisstjórn í gegnum þykkt og þunnt. Þetta verður engin álfkona með töfrasprota sem gerir allt gott aftur.

Það er forgangsverkefni í íslenskum stjórnmálum að halda Sjálfstæðisflokknum frá ríkistjórn. Allt annað skiptir mun minna máli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst "búsáhaldabyltingin" alveg hræðilega ljótt nafn á þessari annars flottu byltingu. Kýs þá frekar "janúarbyltingin" eða eitthvað álíka.

Andri Valur (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 23:07

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Algerlega sammála þér !  Ég mæli með því að þeir kjósendur sem hafa lélegt minni, staldri aðeins við í kjörklefanum og kíki svo í veskið sitt.  Tómt veskið ætti að minna þá á afleiðingar efnahagsstjórnar sjálfstæðisflokksins - skrifað með litlum staf að vanda. 

Anna Einarsdóttir, 27.1.2009 kl. 23:27

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Andri, ég er ósammála þér, mér finnst þetta flott og lýsandi, fólk mætti með búsáhöld og vakti Samfylkinguna af Þyrnirósarsvefni.

Kristjana Bjarnadóttir, 28.1.2009 kl. 00:19

4 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Tek undir allt sem þú skrifar þarna.

Sigrún Jónsdóttir, 28.1.2009 kl. 04:03

5 Smámynd: Solla Guðjóns

Já ég tel það enga tilviljun að D listinn hafi loks farið frá........þEtta ver kjörið tækifæri fyrir komandi kosningaáróður þeirra.Ég verð illa svikinn ef þeirra áróður gengur ekki út á það að BENDA  og aftur benda........á allt sem tekkst ekki að vinna á þesum tveim mánuðum

Solla Guðjóns, 30.1.2009 kl. 08:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband