Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gæðastjórnun í Seðlabanka

Ég starfa í vottuðu gæðakerfi. Í slíku umhverfi er nauðsynlegt að allt sé skráð og kvittað fyrir.

Ef ekki er skráð að vinnuborð hafi verið þrifin þá lítur kerfið svo á að engin þrif hafi átt sér stað.

Ef ekki er skráð að vikulegt eftirlit með tæki hafi verði gert, þá er ekki hægt að sýna fram á við úttekt að þetta eftirlit hafi farið fram og úttektaraðilar líta svo á að það hafi ekki verið gert.

Alla fundi skal skrá og einnig hvað var ákveðið sem og hvaða starfsmaður ber ábyrgð á að fylgja þeim ákvörðunum eftir.

Í Seðlabanka Íslands virðist engin svona skráning fara fram. Bankastjórinn segist hafa varað við bankahruninu munnlega á fundum sem enginn kannast við að hafa verið á, eða í símtali við forsætisráðherra. Engin skráning er til á þessu.

Í vottuðu gæðakerfi er einfalt að skera úr um svona atriði: Ef engin skráning er til á þessari viðvörun þá var hún aldrei gerð.


Skortur á vitrænni umræðu

Í kjölfar hruns bankakerfisins og krónunnar hef ég smám saman komið út úr skápnum sem stuðngingsmaður þess að við hefjum aðildarviðræður við ESB. Því miður hefur skort vitræna umræðu um kosti aðildar og er íslenskur almenningur því illa upplýstur um þetta. Þar er ég sjálf engin undantekning.

Ég hef því undanfarið lagt eyrun við þegar þessi mál ber á góma en því miður finnst mér umræðan bera keim af upphrópunum. Helstu varnaglar sem ég hef heyrt tengjast sjávarútvegi og vissulega er það eitthvað sem skiptir okkur verulegu máli.

Í tvígang nú á seinustu vikum hef ég séð og heyrt það fullyrt að önnur aðildarríki muni miðað við núverandi skipulag innan ESB ekki fá að veiða svo mikið sem eitt kílógramm úr fiskistofnum sem einvörðungu eru innan íslenskrar lögsögu.

Fyrst heyrði ég þetta í viðtali við Aðalstein Leifsson í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni þann 2. nóvember sl. (ef þið smellið á linkinn þá er þetta allra aftast í þættinum). Aftur sá ég þessa fullyrðingu í færslu hjá Árna Snævar í gær:

miðað við núverandi reglur hefur engin þjóð rétt á fiskveiðikvótum í íslenskri lögsögu, Íslendingar myndu sjálfir semja tillögur um skiptingu kvóta og sjá um fiskveiðieftirlit, þó vissulega þyrfti ráðherraráðið að gefa endanlegt grænt ljós.

Þrátt fyrir þetta fullyrða margir og þar á meðal forsvarsmenn LÍÚ, að með aðild að ESB myndum við afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlind sjávar.

Ég fer fram á vitræna umræðu um þetta. Þetta hlýtur að vera einfalt atriði að skera úr um og ljóst hvernig núverandi reglur eru. Það er ólíðandi að andstæðingar aðildar fari fram með staðlausar fullyrðingar og drepi þannig vitrænni umræðu á dreif.


Davíð fyrir viðskiptanefnd Alþingis

Á fimmtudag fyrir viku var Davíð Oddsson seðlabankastjóri kallaður fyrir viðskiptanefnd Alþingis og átti hann að skýra út fyrir nefndinni hvað hann átti við þegar hann sagði að hann vissi hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum á okkur.

Öll þjóðin beið í ofvæni eftir að fá að heyra hvað þetta gæti verið. En, nei höfðinginn var eitthvað vant viðlátinn og mátti ekki vera að því að hitta nefndina.

Og hvað svo?

Enginn fjölmiðill hefur svo ég hafi tekið eftir, sagt frá því að karlinn hafi verið kallaður aftur fyrir.

Er málið bara dautt af því að seðlabankastjóri mátti ekki vera að þessu og lítilsvirti nefndina?

Eða..............hefur nefndinni verið tjáð hver ástæðan var og sannleikurinn er þess eðlis að við megum ekki vita?

Eða..............var þetta bara show, þ.e. ætlaði nefndarformaðurinn bara að nýta augnablikið og vera svalur og bjóða Davíð birginn?

Eða.............hefur nefndin ekki það vald að geta skikkað Davíð til að koma og skýra frá þessu?

Eða............eitthvað allt annað sem ég hef ekki hugmyndaflug í að giska á?

Hver sem ástæðan er þá er full ástæða til að fjölmiðlar fylgi þessu eftir. Mér vitanlega hefur það ekki verið gert, gæti þó hafa misst af því og væri þakklát fyrir ef einhver benti mér á ef svo er.


Hver ber ábyrgð á hverju?

Það er forvitnilegt í ljósi atburða seinustu vikna að skoða ályktanir sem samþykktar voru á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl 2007. Ég verð að viðurkenna að þessi klausa sem finna má á vefnum xd.is og er úr ályktun um viðskipta og neytendamál, segir meira en mörg orð:

Hið opinbera þarf stöðugt að huga að því að lögbundið eftirlitskerfi verði ekki of íþyngjandi fyrir atvinnulífið og þarf að gæta þess að gera ekki óþarfar kröfur til atvinnulífsins og taka ekki upp meira regluverk en nauðsyn krefur. Þá skal lögð áhersla á að eftirlit verði eftir því sem kostur er í höndum einkaaðila, meðal annars með því að fyrirtæki njóti innra eftirlits. Það að ákvörðunarvald um hvaða kröfur skuli gerðar liggi hjá hinu opinbera, þarf ekki að þýða að ríkið þurfi sjálft að hafa allt eftirlitið með höndum. 

Ég vek semsagt athygli á því að að landsfundur Sjálfstæðisflokksins lagðist gegn regluverki og eftirliti í viðskiptalífinu. Gagnrýni þessa dagana beinist einmitt helst að því að regluverk og eftirlit hafi skort.

Væri ekki ágætt fyrsta skref hjá viðkomandi stjórnmálaflokki að kannast við þessa ályktun?


Gandhi og friðsamleg mótmæli

Í gærkvöld horfði fjölskyldan saman á myndina um Gandhi. Líklega eru 20 ár síðan ég sá þessa mynd og var þetta mjög góð upprifjun. Þessa mynd ætti eitthvað kvikmyndahúsið að sýna þessa dagana, án endurgjalds.

Gandhi barðist fyrir sjálfstæði Indlands. Indverjar voru örsnauðir á þessum tíma undir stjórn Breta. Grunnhugmynd Gandhis var að baráttan færi fram án ofbeldis. Það þýddi samt ekki að lagabókstaf væri fylgt. Gandhi ögraði yfirvöldum á hárfínan hátt. Ef til handtöku eða ofbeldis lögreglu kom streittust mótmælendur ekki á móti. Ekki kom til greina að greiða sektir eða tryggingar til að sleppa við fangavist.

Eftir að ég horfði á myndina þá varð mér betur og betur ljóst hversu mikil snilld gjörningurinn með Bónusfánann á Alþingishúsinu var. Hann var án ofbeldis, án skemmda á nokkrum hlut en ótrúlega táknrænn.

Ef þeir sem heimsóttu Seðlabankann í dag hefðu sleppt málningunni þá hefði þetta náðst þar líka. Að setjast friðsamlega og syngja í anddyrinu er algerlega í þessum anda.

Þúsundir Íslendinga hafa á friðsamlegan hátt sýnt hug sinn í verki með því að mæta á hverjum laugardegi á útifundi á Austurvelli. Það er ekki hægt að merkja að ráðamenn hafi tekið eftir þessari ólgu.

Friðsamleg mótmæli sem ganga skrefinu lengra eru augljóslega í farvatninu. Þar á ég við að lögum og reglum sé ögrað á friðsaman hátt. Þetta er stundum kallað borgaraleg óhlýðni.

Við sitjum uppi með algerlega óhæfan seðlabankastjóra sem ríkistjórn Íslands heldur hlífiskildi yfir. Lögin sem samþykkt voru í skyndi fyrir seinustu helgi færa honum skelfilega mikil völd, nóg voru þau fyrir.

Ég vil þennan seðlabankastjóra burt úr Seðlabankanum og eftir að hafa horft á myndina um Gandhi er ég fylgjandi aðgerðum sem ganga skrefinu lengra en mótmælin hafa gert hingað til.

Að draga Bónusfána að hún á Alþingishúsinu og friðsamleg seta í anddyri Seðlabankans heyrir undir þetta.


Fréttamat fréttastofu RUV

Ég lagði það á mig seint í gærkvöld að horfa á norska þáttinn Brennpunkt á norsku sjónvarpsstöðinni NRK1. Þennan þátt getið þið horft á netinu með því að smella á linkinn. Tekið skal fram að skandinavísk tungumál eru ekki mín besta hlið en töluvert af þættinum fór fram á ensku.

Það sem mér fannst markverðast í þessum þætti var saga Jóns Sullenberger af því þegar Jón Ásgeir bauð helstu stórjöxlum í íslenska bankageiranum á lystisnekkju í Flórida, hét þetta árshátíð aðstoðarforstjóra. Reyndar er það Tryggvi Jónsson sem sendir tölvupóstinn með boðinu, eftir því sem ég best veit er sá dæmdur maður í dag og enn í vinnu hjá Nýja Landsbankanum. Ég vona að ég hafi þar rangt fyrir mér. Skv tölvupóstinum (sjá hér og ég hvet ykkur til að skoða athugið einnig hverjir fá póstinn) var ekki ætlast til að um stúkuferð væri að ræða, templarar voru beðnir um að vera heima og reita arfa. Strax í boðinu er gefið út að nú skyldi svallað. Skv upplýsingum Jóns Sullenberger voru á gestalistanum 13 menn, þar á meðal allir helstu eigendur og stjórnendur bankanna þriggja þegar þeir hrundu í seinasta mánuði.

Miðað við gestalistann, er auðvelt að gera sér í hugarlund að þarna hafi grunnur verið lagður að samráði eða "samvinnu" í bankageiranum. Planið var að komast inn í bankana og ná þar aðgengi að peningum. Hringekjunni hvernig bankarnir (sem voru að stórum hluta í eign þessara manna) skiptust á að lána sápukúlufyrirtækjum hvers annars, er lýst í þættinum. Það þurfti enga dularfulla fundi í Öskjuhlíðinni eins og í stóra grænmetissamráðsmálinu.

Það getur vel verið að fyrir einhverja hér á landi séu þetta engar fréttir. Þ.e. að þessir menn hafi drukkið og djammað saman reglulega og verið með mikla samvinnu. Mér fannst það fréttir og hafði ekki séð það fyrr. Vissulega bara vitnisburður eins manns um þessa ferð á snekkjuna í Miami en það er staðreynd að þeir stunduðu að lána hverjir öðrum, það hefur komið víðar fram og það vitnuðu fleiri en Jón um þetta í þættinum.

Mér brá því í morgun þegar ég hlustaði á fréttir RUV kl 8.00 í morgun. Þar var fjallað um þáttinn Brennpunkt. Það sem fréttamönnum RUV fannst helst  koma fram þar var að saksóknari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra sagðist ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að rannsaka efnahagsbrot og því þyrftu íslenskir fjárglæpamenn ekki að óttast afskipti lögreglu. Vissulega slæmt en þetta vissi ég og þurfti ekki norska sjónvarpsmenn til að segja mér þetta.

Fréttamenn RUV létu hins vegar alveg vera að segja okkur frá þessum nánu kynnum bankamannanna sem sagt var frá þarna í þættinum og því hvernig þeir skiptust á að lána hverjir öðrum háar upphæðir, jafnvel án annarra veða en bréfum í fyrirtækjunum sem þeir voru að lána.

Er það bara svona sjálfsagt að viðskipti fari fram á þennan hátt hér á landi að íslenskum fjölmiðlum þyki það ekki lengur fréttmætt?

Hér er ég að tala um RUV sem ég af öllum fjölmiðlum hef hingað til borið hvað mest traust til.

Þessi afgreiðsla RUV á þessu máli segir mér að ef við viljum fá að vita eitthvað er ekki nóg að láta íslenska fjölmiðla miðla því til okkar, við verðum því miður að ganga alla leið og fara frumheimildirnar til að fá að vita eitthvað.

Að mínu mati féll fréttastofa RUV á þessu prófi.


Sögusagnir um rússneskan peningaþvott

Um miðjan október gerðist það einu sinni sem oftar að ég sat við tölvuna langt fram yfir miðnætti og reyndi að grafa eftir einhverjum upplýsingum um hvað væri að gerast hér á þessu skeri. Það var (og er reyndar enn) svo margt sem ég ekki skil.

Svo kom að því að ég skreið í rúmið. Ég gat hins vegar ekki sofnað og fór að velta landsmálunum fyrir mér. Stóra spurningin sem þvældist fyrir mér var þessi:

"Hvers vegna í ósköpunum ættu Rússar að vilja lána okkur peninga þegar engir aðrir vilja það?"

Ímyndunaraflið fór af stað og þarna lá ég og samdi í huganum æsilega glæpaskáldsögu um íslenska glæpamenn sem auðguðust í Rússlandi á viðskiptum við þarlenda mafíu, keyptu banka á íslandi og notuðu hann sem peningaþvottavél. Íslenskir ráðamenn voru flæktir í þessa svikamyllu.

Rétt þegar svefninn var að yfirvinna mig hrökk ég upp. Mér fannst ég verða að láta einhverja vita af þessu, ég var næstum farin að skrifa þingmönnum sem ég treysti bréf þar sem ég var búin að "fatta plottið". Ákvað samt að bíða til morguns.

Þegar ég vaknaði hló ég bara að þessari vitleysu minni.

Í gærkvöld fór ég svo á fundinn í Háskólabíó. Þar var Þorvaldur Gylfason og hann hafði þetta að segja:

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Þrálátur orðrómur um fjárböðun íslenzkra banka fyrir rússneska auðmenn horfir nú öðruvísi við en áður. Íslendingar og umheimurinn þurfa að fá að vita, hvort orðrómurinn á við rök að styðjast og hvað fór úrskeiðis.

Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Voru fleiri en ég með svona bilað ímyndunarafl eða á þetta við einhver rök að styðjast?

Í dag skrifar svo Jón Baldvin eftirfarandi í Morgunblaðið:

Erlendir aðilar sem fást við að rannsaka ferla rússneskra mafíupeninga um Norðurlönd beina sjónum sínum að eignarhaldsfélögum rússneskra mafíuforingja á eyjum í Karíbahafi. Í leiðinni hafa þeir rekið augun í fjölda eignarhaldsfélaga, þar sem ráða má í íslenskan uppruna þrátt fyrir náið sambýli við rússneska ólígarka. Mun rannsókn á starfsháttum íslensku bankanna hér heima og erlendis fyrir hrun þeirra leiða í ljós að þar hafi verið ástunduð viðskipti við landamæri hins glæpsamlega? Mun slík rannsókn einnig leiða í ljós að vottun virtra endurskoðunarfyrirtækja um fjárhagslegt heilbrigði bankanna var ekki pappírsins virði? Á það eftir að koma á daginn að tök fáeinna auðjöfra á öllum helstu auðsuppsprettum íslensks efnahagslífs og stofnunum þeirra voru slík að þeir komust upp með hvað sem var í skjóli leynilegs valds yfir mönnum og stofnunum?

Ég verð ein augu þegar ég sé svona. Ef minnsti fótur er fyrir svona getgátum þá þarf að rannsaka það, STRAX.

Eru okkar verstu martraðir að verða að raunveruleika?


Óbragð í munni

Það verður ekki annað sagt en að Davíð hafi tekist að vekja á sér athygli í gær.

Stóra spurningin sem hann skildi eftir er:

Hvað telur hann sig vita um orsök þess að Bretar beittu á okkur hryðjuverkalögum?

Af hverju steinþegir Samfylkingin eftir langan og strangan hitafund í þingflokknum í gær? Davíð jós auri út og suður og þar á meðal yfir ríkisstjórnina og því er þögn Samfylkingarinnar ærandi.

Ég átti von á uppgjöri í dag, engar fréttir voru í mínum huga hrikalega vondar fréttir. Það bárust ekki einu sinni fréttir af því að það væri plott í bakherbergjum eða kurr í fólki.

Ég les bara eitt út úr þessu. Davíð veit eitthvað...........og það kemur mörgum illa ef það er látið uppi. Þess vegna segir enginn neitt sem gæti hróflað við honum.

Ég er með þvílíkt óbragð í munninum og vona bara að ég hafi ekki hundsvit á þessu og vaði í þvílíkri villu.

Ég er líka með óbragð yfir því sem kom fram í kastljósviðtali í gærkvöld hjá Óla Birni Kárasyni. Hann gaf í skyn að "orðið á götunni" sé ekki úr lausu lofti gripið. Þ.e. að það sé verið að fella niður skuldir stærstu skuldaranna í "nýju" bönkunum.

Ég bara vil ekki trúa að það sé hægt. Ég er hins vegar furðu lostin yfir því að fjölmiðlar veita þessu enga athygli, Óli Björn sagði þetta eins og þetta væri bara staðreynd sem verið væri að ganga frá.

Og við borgum.


Valkostir í íslenskum stjórnmálum

Ég varð ákaflega döpur við að horfa á formann VG í kastljósi sjónvarps í kvöld. Ég vildi svo óska að til væri valkostur gegn ónýtri ríkisstjórn. Ég hvet ykkur til að horfa á viðtalið við Steingrím, sjá hér.

Steingrímur hefur hamast mjög gegn lántöku hjá IMF og vissulega er IMF ekki draumalánveitandinn. 

Aðspurður um hvað annað hann sæi í stöðunni: Jú það væri nauðsynlegt að taka lán, en við hefðum átt að leita annað. Nú er það ljóst að ekki einu sinni Norðurlandaþjóðirnar vildu lána okkur nema með aðkomu IMF.

Það kom aðeins á Steingrím þegar spurt var hvert við hefðum átt að leita. Jú til Kína, Rússland..................eða bara eitthvað.

Halló eitthvað land...............viltu lána mér peeeening?

Steingrímur taldi að við hefðum samið af okkur varðandi Icesave. Við hefðum átt að gefa okkur meiri tíma. Veit hann ekki að gjaldeyrisvaraforði okkar er ekki óendanlegur? Erfiðlega gengur að fá gjaldeyri fyrir útflutningi heim. Við einfaldlega höfðum ekki meiri tíma. Þar fyrir utan þá hef ég ekki skilið hvernig við ætluðum að sleppa við að borga þessa lágmarksinnistæðutryggingu. Samningsstaða okkar var engin.

Það hvernig við komumst svo í þessa ömurlegu stöðu er svo allt annað mál. Þess vegna vildi ég óska að formaður VG væri meira lausnamiðaður.

Því miður Steingrímur þér mistókst að heilla mig.


Ef um hagstjórnarmistök var að ræða, ætla Sjálfstæðismenn að gangast við þeim

Þessi bloggfærsla flokkast undir tvöfaldan ritstuld. Hugmyndin er Bylgju og hún birti fyrir nokkrum dögum brilljant bloggfærslu, sjá hér.

Færslan hennar var bara svo brilljant að ég geri bara eins og Hannes Hólmsteinn hefur áður gert, endurbirti það besta. Ritstuldurinn er tvöfaldur því bitastæðasti hlutinn er tekinn af heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, xd.is sjá hér.

Þá að efninu. Á seinasta landsfundi flokksins í apríl 2007 sagði formaðurinn eftirfarandi:

En ef mesta framfaraskeið hagsögunnar endurspeglar mistök í hagstjórn, skulum við sjálfstæðismenn fúslega gangast við þeim.

Ég bíð spennt................

Nei annars, það er bara alheimsfjármálakreppa...............þess vegna "lentum" við í þessu.

Yeh, right.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband