Reynslulausir lukkuriddarar

Þegar boðað hefur verið til Alþingiskosninga er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvaða eiginleika maður vill að frambjóðendur hafi.

Ég hef lengi furðað mig á því hversu margir þingmenn virðast komast þarna að á "gasprinu" einu saman. Á Alþingi eru ótrúlega margir sem hafa afar þunna ferilskrá á bakvið sig. Þessir aðilar eru í öllum stjórnmálaflokkum, koma í gegnum ungliðahreyfingarnar, hafa verið brattir ungliðar í málfundafélögum í mennta- og háskólum en þar fyrir utan ekki afrekað neitt.

Þarna er ég ekki að leggja mat á þessa einstaklinga heldur að benda á að miklar væntingar eru bornar til þeirra þegar þeir eru kosnir án þess að þeir hafi áður sannað sig.

Ég tel að það sé mikilvægt að þingmannsefni okkar hafi eitthvað á bak við sig, hafi náð að sanna sig. Verið framarlega í sveitastjórnarmálum, stéttafélögum, forsvarsmenn í atvinnulífinu eða stofnunum ríkisins.

Ég viðurkenni að með þessum rökum er ég að hækka aldur þingmanna verulega og minnka möguleika ungs fólks til að komast að. En það er einmitt punkturinn, ég tel að til að eiga erindi þarna inn þurfi fólk að hafa reynslu og þroska sem ekki næst í málfundafélögum skólanna. Alþingi er ekki morfísræðukeppni og orðaskak milli stjórnmálamanna má ekki drepa þörfum málefnum á dreif.

Nú er mikið rætt um að þörf sé á endurnýjun í þingmannaliðinu. Því er ég hjartanlega sammála. Núverandi þingmenn eru orðnir samdauna þeim úreltu starfsaðferðum sem hafa verið viðhafðar. Þingmenn hafa verið notaðir sem sjálfvirkar handauppréttingavélar og hefur verið sorglegt að fylgjast með fyrrverandi bæjarstjórum og háskólarektorum í því hlutverki. Því er mikilvægt að vanda valið vel á lista fyrir komandi kosningar.

Útrýmum reynslulausum lukkuriddurum meðal þingmanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Maður hrekkur óneitanlega við þegar þú nefnir "fyrrverandi bæjarstjóra" og "háskólarektor" í pistlinum og í því samhengi sem þú lýsir! Guðfinna Bjarnadóttir, sem kom okkur fyrir augu sem þvílíkur dugnaðarforkur í Háskólanum í Reykjavík, hvarf gjörsamlega sjónum okkar þegar hún fór inn á Alþingi. Eða þá Kristján Þór Júlíusson! Hins vegar hafa Morfís gaurarnir sópað að sér athygli fjölmiðlanna með fimlegum rök-skylmingum sínum.

... og þeir eru líka í Ráðhúsinu, ekki gleyma því! Þetta er í alvörunni umhugsunarefni og í framhaldi af því ..., já, þú veist!

Flosi Kristjánsson, 3.2.2009 kl. 22:26

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Þetta er alveg hárrétt hjá þér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 4.2.2009 kl. 01:54

3 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Ég er þér alveg hjartanlega sammála. 

Sigrún Jónsdóttir, 4.2.2009 kl. 17:45

4 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Þingið á að vera þverskurður þjóðarinnar ekki fjöldi lögmanna og viðskiptamann þar á að vera fólk úr verkalýðhreyfingunni og frá atvinnulífinu.

En aðal atriðið er að þeir sem á þingi sitja afli sér upplýsinga um mál og leiti til fólks úr öllum þáttum manlífsins þegar mál koma fram á að skoða þau með þeim sem eru aðilar máls byggjamegin með og ám mót sjá hvernig lög virka það eru oft sett lög sem tæplega er hægt framkvæma.

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 4.2.2009 kl. 18:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband