Færsluflokkur: Dægurmál

Tveir fyrir einn

Í dag ætla ég bara að nöldra, ekki að ég hafi svosem ekki gert það oft áður. Þetta nöldur er hins vegar fullkomlega ópólitískt. Fer í flokkinn "Það sem ég þoli ekki".

Ég þoli ekki þegar bílum er lagt þannig á almenningsbílastæðum, að hluti bílsins nær yfir í næsta stæði.

Þetta virðist ekki skipta miklu máli en í borgarsamfélagi sem þéttist óðum er hvert bílastæði dýrmætt, jafnvel liggur stundum við slagsmálum um þau. Stundum sér maður bíla sem eru vel inn á stæðinu við hliðina, stæðin eru yfirleitt vel merkt með hvítum línum og það ætti ekki að vera flókið að hafa bílinn innan þeirra marka. Þetta verður oft til þess að næsta stæði nýtist ekki. Þetta er ný skilgreining á "tveir fyrir einn".

Vinafólk mitt bjó um nokkurt skeið í Gautaborg. Þar er það einfaldlega þannig að ef þú leggur svona þá færðu sekt eins og þú hafir ekki borgað í stæði, eða lagt ólöglega. Ég mæli með þessu.


Leggur og skel

Með örfárra vikna millibili voru opnaðar tvær risaleikfangaverslanir hér á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir herma af metsölu í fyrri búðinni og örtröð við opnun í þeirri seinni.

Var skortur á leikföngum á Íslandi? Það hlýtur að hafa verið. Hafði að vísu ekki orðið vör við það, skorti ekki einu sinni leikföng í æsku.

Í æsku já.

Við Erna áttum "bú", bæði dýrabú og drullubú. Þetta var í holtinu rétt við bæinn. Í drullubúinu var gamla kolavélin hennar ömmu. Þar áttum við brotna diska frá mömmu, eyrnalausa bolla og hálfar netakúlur voru notaðar sem salatskálar eða til að hræra í kökudeig. Þarna voru hvalbein notuð sem eldhúskollar, miklar hnallþórur voru bakaðar og skreyttar með Holtasóleyjum, Jakobsfíflum og Maríustakk. Kaffi var lagað á gamla kaffikönnu frá ömmu og "drukkið" úr eyrnalausu bollunum.

Dýrabúið var myndarlegt. Hver tegund átti sinn kofa. Byggingastíllinn var einfaldur, stungið með skóflu út úr þúfu, helst í halla. Spýtur voru settar yfir hliðarnar og torfið sem stungið var út notað til að tyrfa yfir.

Við sátum um alla leggi sem til féllu á haustin, við vorum sérfræðingar í að hnýta band um þá fremsta. Svo var farið á útreiðar þetta voru að sjálfsögðu hestar. Við þekktum leggina með nafni og fundum greinilegan mun milli þeirra þegar við brugðum okkur á bak, sumir voru viljugir, aðrir hastir, sumir hrekkjóttir. Það þurfti mikið að temja.

Kjálkana var auðvelt að fá, þá fengum við náttúrulega af sviðunum. Þeir voru að sjálfsögðu kýr, við rákum stórt kúabú. Verra var þetta með kindurnar, það hefðbundna var að nota horn sem kindur en þar sem fjárstofninn heima hjá okkur var kollóttur var ekki um auðugan garð að gresja. Við vorum stórhuga og sættum okkur ekki við þau örfáu horn sem við með góðu móti komumst yfir. Því brutum við hefðina og notuðum öðuskeljar sem kindur. Af þeim var nóg við sjóinn. Við áttum því fleiri hundruð fjár og til að þær fengju nú nóg að bíta yfir sumarið þá fórum við með skeljarnar í fötum á "afrétt" sem var í holtum töluvert frá. Þar dreifðum við "kindunum" á vorin og fórum svo í leitir á haustin til að safna þeim saman.

Í borgarsamfélagi nútímans eiga börn ekki kost á leikjum eins og lýst er að ofan. En er ekki hægt með einhverju móti að leyfa þeim að nota hugmyndaflugið með heldur minna magni af tilbúnum leikföngum? Er hamingja barna okkar keypt í þeim búðum sem verið var að opna? Eða erum við sjálf að kaupa okkur frið frá þeirri sektartilfinningu sem við búum yfir þar sem við höfum ekki gefið okkur þann tíma með þeim sem við hefðum viljað?


Af kynþáttahyggju - ég fæ hroll

Í dag fékk ég sendan link inn á skapari.com sem lætur mann fá hroll. Þarna er fólk af öðrum kynstofnum en hvítum kallað nöfnum sem ég get ekki haft eftir og viðhorf til þeirra slíkt að ég á ekki orð til að lýsa. Þarna er upptalning á "óvinum Íslands" og rökstuðningur fyrir því hvers vegna viðkomandi eru á þeim lista. Þar má m.a. finna Ólaf Ragnar Grímsson og Gauta B. Eggertsson, annar er þarna vegna val á eiginkonu og hinn vegna afstöðu sinnar til "barnakvæðisins" Tíu litlir negrastrákar. Gauti skrifaði sterka grein um kvæðið í Fréttablaðið, birtist hún einnig á heimasíðu hans.

Á forsíðu skaparans má m.a. lesa:

Í stuttu máli
Ég er Skapari.
Ég er Hvítur.
Ég er Kynþáttasinni.
Ég er Norrænn.
Ég er Íslendingur.
Ég er Þjóðernissinni.
Ég er Kynbótasinni.
Ég er Rasisti.
Ég er Nasisti.
Ég er Náttúrusinni.
Ég er FRAMTÍÐIN.

Undir flipa sem kallaður er "Sköpun" má lesa:

Sköpunarhreyfingin

er byggð á hinum Eilífu Lögum Náttúrunnar,
Sögu, Rökum og Almennri Skynsemi.

1. VIÐ TRÚUM að Kynþáttur okkar er okkar Trú.

2. VIÐ TRÚUM að Hvíta Kynið er Náttúrunnar Best.

3. VIÐ TRÚUM að Kynþáttatryggð sé efst af öllum heiðrum og Kynþáttasvik sé verst af öllum glæpum.

4. VIÐ TRÚUM að það sem er gott fyrir Hvíta Kynið er æðsta dyggðin og það sem er slæmt fyrir Hvíta Kynið er versta syndin.

5. VIÐ TRÚUM að sú EINA og SANNA, HREINA og BYLTINGARKENDA Hvíta Kyn Trú - SKÖPUN - er eina frelsunin fyrir Hvíta Kynið.

Undir flipa sem kallaður er "Greinar" má finna link þar sem fjallað er um samkynhneigða:

Með blóði, svita og tárum komust samkynhneigðir út úr skápnum og með blóði, svita og tárum verður þeim troðið þangað aftur - ekki beint fögur spá en líklega mjög sönn.
Finnum lausn áður en uppgjör mun eiga sér stað.

Ég velti fyrir mér hvað vaki fyrir þeim sem halda úti slíkri síðu.

  1. Getur verið að um grín sé að ræða? Ef það er málið þá er það háalvarlegt því það er óvíst að "grínið" komist til skila. Svo mikið er víst að það fór fram hjá mér og ég lít á þetta sem stórhættulegan áróður.
  2. Getur verið að um um sé að ræða hóp af einstaklingum sem meinar þetta í fullri alvöru? Í því samhengi velti ég því fyrir mér hvort best væri að láta sem ekkert væri því það að vekja athygli á þessu gæti virkað sem örvun og auglýsing. Eftir nokkra umhugsun komst ég að því að það er líka stórvarasamt, þögn er sama og samþykki og með því að láta sem ekkert sé erum við á vissan hátt að samþykkja að þessi skoðun eigi rétt á sér. Ég get fallist á að ýmsar skoðanir sem ég er ósammála eigi rétt á sér og sé jafvel hægt að rökstyðja. Þetta er svo sannarlega undanskilið.
  3. Getur verið að um sé að ræða geðveila(n) einstakling(a)? Þetta tel ég reyndar líklegt en alvarlegt eigi að síður.

Það vakti athygli mína að hvergi er að finna nokkurn ábyrgðarmann fyrir þessum skrifum. Það er þó vottur af siðferðiskennd fólgin í því að vilja ekki kannast við þessar skoðanir undir nafni.

Nú er ég illa netfróð manneskja, en verður ekki einhver að vera opinberlega ábyrgur fyrir því sem sett er á netið? Prentmiðlar hafa ábyrgðarmann, er löggjafinn svona langt á eftir með að koma höndum yfir netmiðla?

Það að til séu í okkar samfélagi einstaklingar með hugmyndir eins og birtast þarna er verulega alvarlegt. Ég tel það skyldu mína að vekja athygli á þessu og hvet aðra til að vera meðvitaða um að þessi viðhorf séu til. Að hunsa þetta og láta eins og þetta sé ekki til býr til jarðveg fyrir svona hugarfar og þar blómstrar það. Einnig tel ég varasamt að flissa að þeim hugmyndum sem þarna birtast, með því erum við að senda ákveðin skilaboð til samfélagsins, skilaboð um að svona hugarfar sé í lagi, jafnvel fyndið.


Neyðarkall

Það er aldrei of oft vakin athygli á því að björgunarstarf á Íslandi er að miklu leyti unnið í sjálfboðavinnu. Eigi að síður þurfa sveitirnar mikið fjármagn til kaupa og viðhalds tækjabúnaðar og annars reksturs. Þessir fjármunir detta ekki af himnum ofan, nema þá helst í formi flugelda sem við verslum af sveitunum.

Nú um þessa helgi munu björgunarsveitarfólk dreifa sér um fjölfarna staði í þéttbýli og selja "neyðarkall" til styrktar björgunarsveitunum. Hver "kall" (þetta er víst "kelling" í ár) kostar 1000 kr og er hreinn styrkur til björgunarstarfsins.

Börnin mín tvö hafa tekið þátt í unglingastarfi björgunarsveitarinnar Ársæls en þar er rekið alveg frábært starf. Þar fá unglingar að kynnast starfi björgunarfólks í formi kynninga, einnig námskeiða í skyndihjálp, leitarhundar eru kynntir, þau fá að prófa ýmsan búnað t.d. klifra utan í tönkunum í Örfirisey og fara á slöngubáta. Þau eru einnig þátttakendur í björgunaræfingum þar sem þau leika slasaða. Einnig hafa þau tekið þátt í flugeldasölu en seinustu árin hefur lögreglan takmarkað mjög aðkomu unglinga að því sem mér finnst vafasamt, tel mun betra að þeim sé kennt að umgangast þessa vöru en að banna þeim að snerta hana.

Í haust byrjaði 17 ára sonur minn í nýliðasveit björgunarsveitarinnar og er það stíf þjálfun og námskeiðahald. Þar fær ungt fólk að kynnast "hard core" útivist og læra á þær hættur sem því fylgir og bregðast við þeim.

Björgunarsveitarmenn eru tilbúnir til útkalls allan sólarhringinn, allt árið. Fyrir okkur, endurgjaldslaust. Nú er komið að okkur að láta smávegis á móti.


Gjafabréf Hjálparstofnunar kirkjunnar

Það tíðkast að boða til gleðskapar við tímamót svo sem eins og tugafmæli. Sá sem heldur boðið gerir það í flestum tilvikum til að nota tækifærið til að hitta sjaldséða ættingja og vini, langar að fá það fólk sem næst sér stendur til að fagna við þetta tækifæri.

Boðsgestir vilja síður koma tómhentir, vilja sýna í verki hug sinn og gleðja veisluhaldarann með einhverjum hætti. Nú á dögum allsnægta er erfiðleikum háð að finna fyrir skynsamlegan pening eitthvað sem kemur viðkomandi vel, fólk gjarnan stofnar til samskota og er það vel. En stundum er maður ekki hluti af hóp þegar svona veisluboð rekur á fjörurnar.

Hjálparstofnun kirkjunnar býður upp á falleg gjafabréf. Á gjafabréfinu kemur fram til hvers upphæðin verður notuð. Hægt er að kaupa geit fyrir 3000 kr, geitinni verður ráðstafað til fátækrar fjölskyldu í Afríku, hægt er að leysa þrælabarn á Indlandi úr ánauð fyrir 5000 kr og einnig er hægt að leggja til mismunandi upphæðir til byggingar vatnsbrunna.

Það er ágæt hugmynd að eiga alltaf heima gjafabréf fyrir t.d. einni geit, þá er maður alltaf viðbúinn óvæntum boðum og er ég sannfærð um að geit í Afríku gleðji gamlar frænkur ekki minna en fertugasta slæðan.


Leirburðarárátta

Þegar leirburðaráráttan er æst upp í mér þá er oft erfitt að hætta. Ég datt í morgun inn á bloggsíðu hjá Herra Limran. Þar birtir hann fyrriparta og skorar á lesendur að botna. Þar sem ég var komin í leirstuð ákvað ég að prófa og aldrei slíku vant var ég bara keik með árangurinn. Þar sem seinni hluti hverrar vísu er minn leyfi ég mér að birta þetta hér:

Negrastrákar stuða allt
stórt er vandamálið.
Rasismi í sárið salt
sáldrar, kyndir bálið

Biblían er bókin svört
berjast helgir núna
á
sýnd þeirra ekki björt
argir missa trúna

Kjötsúpan var kekkjótt, þunn
köld og illa soðin.
Rann hún samt í margan munn
minnkar kuldadoðinn 

Hundfúl platan hikstar enn
hávært Snati geltir.
Giftast bara mær og menn
Margir prestar hrelltir 

Ódýrt fæði upp á hæð
ekki ræði lengur
Ég engu lengur um það ræð
asnalegur fengur


Bloggari gerir grein fyrir afstöðu sinni

Anna bloggvinkona mín með meiru æsti upp í mér tilburði til leirburðar í gærkvöld. Hún bannaði stuðla á sinni síðu svo ég verð bara að birta þetta á minni. 

Ég geri hér með grein fyrir afstöðu minni til þeirra mála sem að mínu viti bar hæst í umræðunni í seinustu viku.

Kirkjuþing og afstaða kirkjunnar til samkynhneigðra

Vorrar þjóðar kirkju klerkar

af kynvillu þeir ama hafa

þeirra allir svörtu serkar

á sínum kreddum ennþá lafa

 breytt 28.10.07:

Vorrar þjóðar kirkju klerkar

við kynvillu þeir amast

þeirra allir svörtu serkar

á sínum kreddum hamast

 

Þeir hjónur gefa í hjónuband

hjónar einnig böndin hnýta

jafnrétti á langt í land

lofa sumir aðrir sýta

 

Tíu litlir negrastrákar

Bókin er níðkvæði um negra

niðrandi hana ég held

Muggse eftir myndir ei fegra

margt frekar les ég um kveld

Sala áfengis í matvöruverslunum

Fá vilja í búðunum bjóra

bytturnar yfir því fagna

sitja að sumbli og þjóra

síst mun það pöblinum gagna

 

 


Heilbrigðisráðherra útilokar ekki bólusetningu

Í fréttum á Stöð 2 í kvöld var sagt að heilbrigðisráðherra útiloki ekki að íslenskar stúlkur verði bólusettar gegn leghálskrabbameini. Mikið er ég nú glöð að stjórnvöld standi nú ekki í veginum fyrir fyrirbyggjandi aðgerðum í heilbrigðismálum. Það væri nú fyrst fréttnæmt ef ráðherra færi svona að óathuguðu máli að útiloka bólusetningar.

Í sömu frétt kom fram að bóluefnið fengist nú þegar hér á landi og hafi íslenskar konur getað um nokkurt skeið bólusett sig.

Ég bara vissi ekki að ég gæti bara svona alein og sjálf keypt mér sprautur og bólusett mig fyrir hinu og þessu. Nú veit ég það sem sagt.


Gulur Bónusbjór með bleiku svíni

Um nokkurt skeið hefur verið uppi hávær umræða um hvort leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum. Lengst af hef ég leitt þessa umræðu hjá mér en nú er mér skyndilega ljóst að kostir við að leyfa þetta eru.....................ENGIR.

Ókostir eru hins vegar fjölmargir:

  1. Aðgengi að áfengi eykst. Slíkt leiðir eingöngu til aukinnar neyslu. Stórmarkaðir eru að mestu leyti mannaðir af börnum og unglingum undir löglegum innkaupaaldri áfengis og sé ég ekki að verslunin geti látið þau sjá um að jafnaldrar þeirra kaupi ekki þessa vöru.
  2. Álagning ÁTVR á áfengi er víst ekki há, að mér skilst. Tollar og gjöld eru það hins vegar og það mun ekki breytast, ríkið vill sitt. Ég á bágt með að trúa að smásöluaðilar sætti sig við lága álagningu og því grunar mig að verð muni hækka.
  3. Úrval tegunda í ÁTVR er að mínu viti ágætt. Ef varan verður seld í fleiri verslunum muni hver verslun ekki vera með lager af öllum þessum tegundum og því mun úrval minnka. Sérstaklega mun þetta eiga við úti á landsbyggðinni.
  4. Opnunartími ÁTVR er orðinn mjög áþekkur og stærri matvöruverslana. Ég get ekki séð að aðgengi fullorðins fólks að þessum sérverslunum sé eitthvað lítið og það þurfi að setja þetta í hendur smásölunnar til að bæta það.

Að þessu sögðu tel ég að það sé eingöngu hagur verslananna sjálfra að fá þetta leyfi. Ég tel að alþingismönnum beri að hugsa frekar um hag almennings, hvort heldur sem neytenda (verð og úrval) eða að takmarka eigi aðgengi að vörunni (ungt fólk).


Leyfið til að vera öðruvísi

Hvernig samfélagi viljum við búa í? Er leyfilegt að skera sig út úr fjöldanum? Skal steypa alla í sama mót? Við eigum oft erfitt með að gefa leyfið, til að vera öðruvísi, það er svo miklu þægilegra ef allir eru eins. Hafa sömu trú, sama tungumál, bakgrunn, þarfir, getu, kynhneigð, þá þurfum við ekki að taka tillit til annarra. Ó, hve lífið væri einfaldara. Þá þyrftum við aldrei að útskýra neitt fyrir börnunum okkar............

Það væri draumaheimurinn okkar, eða hvað?

Hvernig getum við gert kröfu til þess að börnin okkar gefi þetta leyfi ef það er ekki til staðar í þeirra nánasta umhverfi?

Hreyfihamlaðri stúlku í unglingadeild grunnskóla er sagt að vera inni að læra meðan bekkjarsystkinin fara út að leika sér í góða veðrinu.

Unglingsstúlka utan trúfélaga neitar að fara í kirkjuferð á vegum skólans, skólinn gerir þá kröfu að hún mæti samt, kennari spyr af hverju hún haldi jól.

"Það trúa allir á guð" fullyrðir náttúrufræðikennari í bekk með 3 börnum af asískum uppruna. Svo eru til íslensk börn utan trúfélaga.

Biskup yfir þjóðkirkju sem segir okkur að allir séu jafnir fyrir guði en vill skipta sambúðarformum í flokka eftir kynhneigð.

Getum við ætlast til umburðarlyndis af börnunum gagnvart fjölbreytileika þegar þau alast upp í umhverfi sem viðurkennir ekki litróf mannlífssins, dregur fólk í dilka?

Af hverju erum við ekki opin fyrir fjölbreytileikanum og gefum öllum tækifæri til að njóta sín á sínum forsendum?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband