Færsluflokkur: Dægurmál

Júróvisjónrím og textar

Ég játa það á mig að hafa gaman af Júróvisjón. Að í sömu söngvakeppninni sé pláss fyrir finnskt þungarokk, balkanskar ballöður, spænskt grín og austurevrópskan súludans, það er bara fyndið.

Þetta er bara dásamlegt. Dásamlegast af öllu er þó textagerðin, þegar þjóðir sem státa af mismikilli enskukunnáttu byrja að ríma á engilsaxnesku, útkomn getur verið ansi skemmtileg.

Hér koma nokkur dásamleg dæmi:

Grikkir árið 2005 (vinningslagið það árið):

You´re my lover
under cover
I´ve no other

Þetta kalla ég dýrt kveðið.

Hvíta Rússland nú í ár (komust ekki upp úr forkeppninni):

Baby,
goodbye,
I´ll miss you
maybe

Ég þori ekki alveg að lofa að þetta sé kórrétt, en þetta var mjög nálægt þessu. Dásamlegur kveðskapur. Það var karlmaður sem söng og mikið held ég að elskan hans sé ánægð með hann sakni hennar................kannski.

Grikkir voru nálægt sigri í ár. Ég treysti mér ekki til að fara rétt með textann en uppistaðan í ríminu var:

Destination
Combination
Imagination

Dýrara verður þetta tæplega.

Það væri svo hægt að taka aðra umferð á sviðsetningum.

Hverjar eru líkurnar á því að verða Ólympíumeistari á skautum og vinna Evróvision? Hm, vinningslagið var ágætt en hvað skautadansarinn var að gera á þessum plastdúk, því náði ég ekki.


Missti ég af góðærinu?

Kunningi minn sagði við mig nýlega að hann hefði heyrt fólk fagna kreppunni, þá væri ekki lengur þessi þrýstingur á að eiga allt, þetta væri bara ákveðinn léttir. 

Það var og.

Í góðærinu áttu allir að kaupa allt sem þeim datt í hug. Jeppa, flatskjá, nýjar innréttingar. Þetta var svo mikill þrýstingur á marga að þeir stóðust ekki mátið. Dótið var keypt, stundum útá krít.

Ég er alveg ofboðslega löt. Ég nenni ekki í búðir til að skoða dót. Þess vegna kaupi ég lítið, nema útivistardót, verð að viðurkenna að það er æði hár útgjaldaliður.

Framkvæmdir innanhúss vaxa mér í augum. Af illri nauðsyn stóðum við reyndar í framkvæmdum á vatnslögnum í húsinu okkar fyrir ári. Því fylgdi endurnýjun á baðherbergi með tilheyrandi búðarápi og útgjöldum.

Þar fyrir utan þá missti ég af góðærinu. Eldhúsinnréttingin sem var gömul og ljót fyrir 10 árum þegar við fluttum inn, hún er ennþá gömul og ljót. Enginn jeppi var keyptur þegar þeir áttu ekki að kosta neitt innfluttir frá Ameríku. Sjónvarpið með gömlum túpuskjá og geislaspilarinn ónýtur síðan um þarseinustu jól.

Nú er allt að hækka og ég beið góðærið af mér. Ætli ég bíði ekki bara kreppuna af mér líka?


Handboltadómarar og héraðsdómari

Umræða um skipun dómara norðan heiða hefur dregist meira á langinn en mér datt nokkurn tíma í hug að myndi verða. Hélt að þetta yrði bara svona venjulegur stormur í vatnsglasi sem svo myndi deyja út, þannig hefur það yfirleitt verið. Svo kjósa allri Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum, allt gleymt. Þessu hafa ráðamenn getað treyst.

Nú er liðinn mánuður frá gjörningnum og enn í þessari viku hefur þetta verið heitasta málið í fjölmiðlum, fjölskylduboðum og á kaffistofum. Annars bara alger gúrkutíð.

Í dag hófst hins vegar eitthvað handboltamót í Noregi. Íslendingar taka þátt og ætla sér gullið, til vara silfrið, til þrautavara bronsið. Taka átti Svíana í dag. Æi, eitthvað mistókst, gerum betur í næsta leik. Hvað voru þessir Danir að gera þarna inni á vellinum? Er ekki eitthvað skrítið við skipan þeirra í þessar dómarastöður?

Nú loksins fékk íslensk alþýða eitthvað annað að tala um en skipan héraðsdómara norðan heiða, nú verður skrafað um alvöru dómara.

Mikið held ég að Árna nokkrum Matthíesen sé létt, nú loksins er von til að öldur lægi.


Fáránleiki í fréttatíma

Ríkissjónvarpið á það til að tapa sér algerlega í spennufréttum. Fréttamaður er gerður út af örkinni vegna einhverra atburða sem verið er að fjalla um, stillt upp fyrir utan höfuðstöðvar stofnunar eða samtaka sem tengjast fréttinni. Jafnvel í myrkri og vondu veðri. Tæknilið og fréttamaður látið bíða eftir réttu stundinni.

Í miðjum fréttatíma er lesinn inngangur að fréttinni, síðan er skipt yfir á niðurrigndan fréttamann utan við myrkvað hús, bein útsending. Augljóslega er ekkert að gerast en fréttamaðurinn fer yfir aðalatriði fréttarinnar.

Í kvöldfréttum sjónvarps í kvöld var ein svona sena. Landspítalinn þarf að draga saman seglin, engar nýráðningar á næsta ári en reyna á að komast hjá uppsögnum. Fréttamaður stendur fyrir utan myrkvaða byggingu Landspítalans og lýsir fjárhagsvanda spítalans. Hvað var að gerast á fimmtudagskvöldi 20. desember sem kallaði á beina útsendingu? Frétt um að ekki stæði til að segja upp starfsfólki um næstu mánaðamót?

Hvað var að gerast úti í myrkrinu sem gerði beina útsendingu nauðsynlega? Ekki einu sinni rætt við nokkurn enda allir sem tengdust fréttinni farnir heim að horfa á fréttirnar.

Ég óska eftir því að skattpeningum mínum sé varið í eitthvað annað en að borga fréttamönnum og tækniliði yfirvinnu fyrir að standa úti í myrkri og segja mér að mér verði ekki sagt upp um næstu mánaðamót.


Líkamsrækt

Mikilvægi hreyfingar er aldrei of oft brýnt fyrir okkur. Í því þjóðfélagi sem við búum í eru ýmsir lífsstílssjúkdómar í mikilli aukningu, tengjast margir ofnæringu (ofáti) og hreyfingarleysi.

Ég hef oft talið það eitt af mínum höppum í lífinu að ég var frekar þéttvaxinn unglingur. Einnig var ég með þráláta höfuðverki sem engin skýring fannst á. Ég forðaðist hreyfingu aðra en sem fylgdi sveitastörfum þeim sem ég ólst upp við. Vissulega fylgdi því hreyfing en hún var oft einhæf, bogra undir kýr við mjaltir og mokstur á votheyi á sumrin getur tæplega talist holl hreyfing til lengdar. Ég stundaði engar reglubundnar íþróttir, íþróttir voru tæplega á sundaskránni í skólanum okkar þar sem aðstaða til íþróttaiðkana var æði bágborin.

Við 16 ára aldur gerði ég mér grein fyrir að ég var of feit, tók mér tak og gekk vel, hef síðan verið meðvituð og ef kílóin læðast að mér gríp ég strax til minna ráða. Í menntaskóla fékk ég betri og meiri íþróttakennslu og sótti til viðbótar sundlaugar og aðra líkamsrækt.

Á háskólaárunum slakaði ég á í ræktinni. Næstu viðvörun fékk ég þegar háskólanámi lauk og ég fór að vinna. Ég hafði iðulega verið með hausverk í náminu en bara sleppt úr tíma eða dópað mig upp. Þetta gekk ekki í vinnu. Ég fór til sjúkraþjálfara sem sagði mér að gera svo vel að hugsa betur um skrokkinn, styrkja mig og teygja á hálsvöðvum.

Ég hef sinnt þessu síðan, samviskusamlega. Alltaf stundað einhverskonar hreyfingu. Lykilatriðið er að hafa eitthvað gaman af því, vera í góðum félagsskap hjálpar mikið. Einnig er gott að setja sér markmið, ég reyni að fara á vorin stranga göngu, síðast fór ég á Hrútfjallstinda í Vatnajökli. Til að geta það stundaði ég ræktina stíft seinasta vetur og fór reglulega út að hlaupa með félögum mínum í TKS (Trimmklúppi Seltjarnarness). Nú dreymir mig og göngufélaga mína um Þverártindsegg í Suðursveit næsta vor.

Af höfuðverk er það að frétta að ef ég stunda líkamsrækt eða hlaup og teygjur þá er ég laus við hann, ef ég skrópa í hlaupunum eða ræktinni þá læðist hann aftan að mér.

Ég var heppin, fékk viðvörunina snemma og gerði eitthvað í því. Það fylgja því mikil lífsgæði að vera líkamlega vel á sig komin, slíkt gerist ekki af sjálfu sér og það er nauðsynlegt að huga að því alla tíð.


Fákeppni víðar en á íslenskum matvörumarkaði

Ég skrapp í frí, frí frá bloggi, frí frá afkomendum, frí frá heimilisstörfum og smá frí frá vinnu. Skrapp í Englalandið. Alltaf gaman að bregða sér yfir hafið, uppgötva enn og aftur hversu gott við eigum það hér heima. Gaman að láta sig fljóta í mannmergðinni í eina helgi eða svo, koma svo aftur og skilja hvað plássið sem við höfum hér heima er mér mikils virði.

Eins og Íslendinga er siður þá fór ég í búðir í útlandinu. Rölti á Oxfordstreet og reyndi að standa undir væntingum um einhver lágmarksinnkaup. Þar stakk eitt í augun, heljarlöng gata, já og búðirnar voru víðar en við Oxfordstræti, en þetta voru alltaf sömu búðirnar aftur, og aftur. Next, Topshop, Monsoon, Jane Norman, Selfridge, H&M, Gap. Þessar búðir skiptust á og mér fannst örlítið að þó ég færi inn í 3 af hverri sort, hefði ein búð nægt. Auðvitað fór ég í þrjár, maður varð nú að skoða þetta allt saman, hluti af því að vera íslenskur túristi í útlöndum.

En er þetta ekki fákeppni? Milljónaþjóðfélag og bara pláss fyrir nokkur vörumerki.


"More you buy, more you earn"

Í blöðum í gær var sagt frá því að stórar ferðatöskur væru uppseldar á Íslandi. Fólk verslar ferðatöskur og flykkist í innkaupaferðir til útlanda, Bandaríkin ku vera sérlega hagstæð. Þar kostar hver spjör helming af íslensku verði og í sérstökum "outlet" mörkuðum er munurinn enn meiri. Fólk telur margborga sig að taka leigubíl fyrir nokkra íslenska þúsundkalla á þessa outlet markaði til að versla enn meira. Sérstakar vogir eru á hótelum svo hægt sé að vigta öll herlegheitin áður en haldið er heim á leið. Margir taka unglinga með sér til að geta flutt enn eina ferðatöskuna með dýrmætum varningi til baka.

Vöruskortur á Íslandi hafði alveg farið framhjá mér þannig að líklega veldur verðmunur milli landanna ásókn í þessar verslunarferðir.

Ég kann illa hagfræði en í barnaskóla lærði ég að reikna. Ekki veit ég hvað flugmiði til Bandaríkjanna kostar, lausleg athugun á vef Icelandair gaf mér ca 65 þús að lágmarki, líklega er hann dýrari. Gisting í 2-3 nætur er tæplega undir 8 þús manninn. Miðað við 3 nætur erum við komin með 90 þús í ferðakostnað og gistingu, algert lágmark, ég hef ekki tiltekið annan ferðakostnað sem alltaf er til staðar þannig að óhætt er að reikna með lágmarkskostnaði kringum 100 þús. Ekki nefndi ég fæði, alls staðar þarf að borða en við vitum að það er dýrara á ferðalögum en heima hjá okkur. Ef við gerum ráð fyrir að helmingsmunur sé á öllum vörum þarf að versla fyrir a.m.k. 100 þús í Ameríku til að ferð fyrir einn borgi sig, miðað við helmings verðmun þar og hér. Þetta gera 200 þús kr verslunarferð hér heima. Athugið þetta er lágmarks verslun á mann til að ferðin borgi sig.

En þá kemur að grundvallarspurningunni: Er ekki nauðsynlegt að varan sem keypt er verði notuð til að hægt sé að tala um ágóða? Að við höfum virkilega þurft á þessu að halda? Get ég grætt á því að kaupa ódýra tösku þó ég eigi aðra vel nothæfa og þurfi á engan hátt á nýrri að halda?

"More you buy, more you earn" stóð á auglýsingaskilti í risamolli einhvers staðar í Ameríku.

Einhvern veginn finnst mér Íslendingar taka þessu of bókstaflega. Ég held að ágóðinn felist frekar í því að kaupa bara það sem maður þarf.

Þörfin er svo skilgreiningaratriði og ekki til umföllunar í dag.

 


Norðlenskir bændur - vinir í raun

Á blaðsíðu 2 í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að Norðlenskir bændur hyggist leggja til kýr, kvígur og kálfa til hjálpar bóndanum á Stærra-Árskóg. Eins og vonandi flestir hafa fylgst með brann þar fjós með á annað hundrað gripum um seinustu helgi. Þrátt fyrir nokkuð góðar tryggingar þá er þetta mikill fjárhagslegur og ekki síður tilfinningarlegur skaði. Enga rekstrartryggingu hafði bóndinn og er því tekjulaus þar til nýtt fjós kemst í notkun.

Þetta er gríðarlegt áfall fyrir ungan bónda sem er nýbúinn að byggja upp. Þessi vinarhugur er vottur um samstöðu og mér hlýnar verulega um hjartaræturnar, fæ næstum kökk við tilhugsunina. Vonandi léttir þessi vinarhugur ekki einungis fjárhagslega bændunum að Stærra-Árskóg, ég trúi að sá andlegi stuðningur sem felst í þessu vegi einnig þungt.

Afi minn og amma máttu einnig þola mikinn skaða á erfiðum tíma í þeirra búskap. Sveitungarnir brugðust við á svipaðan hátt. Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég einmitt pistil um það, ég ætla ekki bara að vitna í hann, ég birti hann aftur hér fyrir neðan:

Fjárskaði

Þetta var árið 1944 eftir því sem ég best veit. Afi minn, Alexander Guðbjartsson og amma mín, Kristjana Bjarnadóttir voru nýflutt að Stakkhamri. Fluttu með bústofn sinn og 6 börn frá Hjarðarfelli sem var jörð uppi við fjall, niður að sjávarjörð. Aðstæður á þessum jörðum voru um margt ólíkar, meira um þurrar valllendisgrundir að Hjarðarfelli en að Stakkhamri var mest foraðsflói og sjávarfitjar.

Á þessum árum tíðkaðist að beita fé sem mest úti enda tún ekki ræktuð á sama hátt og nú. Erfitt var að afla heyfangs á jörð eins og Stakkhamri, allt forblautt. Fénu var beitt í flóann og fitjarnar, mikið í Glámsflóann sem gleypti marga ána. Það er ekki tilviljun að hann heitir Glámsflói, þar dúar jörðin þvílíkt að maður trúir því að kölski sjálfur búi þarna niðri. Fénu var einnig beitt "suður með víkum" sem kallað var en það var þurrara land meðfram Löngufjörum. Úti á fjörunum voru sker sem sjór féll yfir þegar flæddi að.

Þetta haust var féð eitt sinn sem oftar á beit suður með víkunum. Það rigndi mikið og elsti sonurinn, Guðbjartur var sendur að sækja féð, líklega hefur hann verið 13 ára gamall. Þegar Guðbjartur kom heim var hann rennvotur, móður og í miklu áfalli. Hann rétt gat stunið upp: "Ég náði bara í hornin á einni". Það tók heimilisfólkið nokkra stund að átta sig á hvað gerst hafði. Kindurnar höfðu farið út á fjörurnar og líklega sótt í þangið í skerinu. Síðan féll að. Allar kindurnar fórust.

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á hversu mikið áfall þetta var. Afi og amma voru með stóran barnahóp, nýbúin að festa kaup á jörð og enginn afgangur. Nú voru góð ráð dýr. Börnin heyrðu þau tala í hálfum hljóðum á kvöldin. Fjárlaus þýddi að það  var engin afkoma. Enginn möguleiki á að kaupa nýjar kindur, búið að slátra öllum lömbum á öðrum bæjum það haustið og þó einhver hefðu verið eftir þá var vonlaust að fjármagna það. Þau gátu ekki hugsað sér að flytja á "mölina" sem var líklega eini valkostur þeirra. Þetta voru daprir dagar á Stakkhamri.

Nokkrum dögum síðar sást til mannaferða uppi í holtunum fyrir ofan bæinn og niður flóann. Meira en mannaferða. Það var fjárrekstur, heill hópur af kindum. Þetta voru sveitungarnir sem höfðu safnað saman af bæjunum kindum, nákvæmlega jafnmörgum og fórust og komu með þær niður að Stakkhamri, afa og ömmu algerlega að óvörum. Ég sé þau fyrir mér, standandi á hlaðinu og ég finn enn í dag þakklæti til sveitunga minna sem gerðu þeim með þessu kleift að búa áfram í sveitinni sinni.

Þetta er náungakærleikur.


Umræða um líffæraflutninga óskast

Nýlega fjallaði ég um líffæraígræðslur. Nú kemur framhald af því og einskorða ég mig við nýrnaígræðslur. Vissuð þið að:

  • Árlega eru framkvæmdar 7-10 nýrnaígræðslur á Íslandi.
  • Miðað við höfðatölu eru framkvæmdar flestar nýrnaígræðslur úr lifandi gjöfum á Íslandi á öllum Norðurlöndum. Fæstar eru þær í Finnlandi.
  • Finnar standa öðrum Norðurlandaþjóðum framar í fjölda ígræðslna úr látnum gjöfum.

Nánar um þetta. Í desember 2003 var framkvæmd á Landspítalanum fyrsta nýrnaígræðsla á Íslandi. Árlega eru framkvæmdar á Landspítalanum 7-10 nýrnaígræðslur. Áður voru þessar aðgerðir framkvæmdar erlendis, Kaupmannahöfn eða um tíma í Gautaborg. Fyrir utan stórkostlega bætt lífsgæði þega er um að ræða hagkvæma aðgerð þar sem nýtt starfhæft nýra losar sjúklinginn úr kostnaðarsamri meðferð og aðgerðin því fljót að "borga sig upp". Íslenskir nýrnasjúklingar sem ekki eiga kost á nýra úr lifandi gjafa eru á biðlista eftir nýra á ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og ef um er að ræða ígræðslu þar teljast þeir með í þeirra tölum.

Nýra úr lifandi gjafa er líklegra til að endast heldur lengur en nýra úr látnum gjafa. Þægindi bæði þega og gjafa að eiga kost á þessari aðgerð hér heima eru ótvíræð. Mögulegt er að það geti að hluta skýrt hversu hátt hlutfall lifandi gjafa er hér á landi.

Umhugsunarvert er hins vegar að Íslendingar eru miðað við höfðatölu með heldur lágt hlutfall látinna líffæragjafa. Þó er erfitt er að draga miklar ályktanir um þetta þar sem um lágar tölur er að ræða árlega og sveiflur því miklar. Mögulegt er að þetta lága hlutfall skýrist af því að lítil umræða er manna á meðal um hver afstaða hvers og eins er til líffæraflutninga.

Hver er þín afstaða til líffæraflutninga úr látnum gjöfum? Veist þú hver afstaða þinna nánustu er?

Aftur hvet ég til þessarar umræðu og ekki síst út frá hugsuninni hvaða afstöðu við hefðum gagnvart þeim ef við eða náinn ættingi þyrfti á líffæri að halda.


Líffæraígræðslur

Ýmsir sjúkdómar eru þess eðlis að líffæraígræðsla er eina von sjúklings. Um getur verið að ræða hjarta, lungu, lifur eða nýru. Nýrnaígræðslur njóta töluverðrar sérstöður þar sem sjúklingur á möguleika á meðferð í blóðskilun eða kviðskilun og einnig er mögulegt fyrir sjúklinginn að fá nýtt nýra úr lifandi gjafa, oftast systkini eða foreldri. Stundum er þetta ekki valkostur fyrir sjúklinginn og er hann þá settur á biðlista eftir nýra úr látnum gjafa. Líffæraígræðslur hjarta, lungna og lifra eru bara mögulegar úr látnum gjöfum.

Fyrir þá sjúklinga sem um ræðir er þetta oft á tíðum lífgjöf, a.m.k. fær sjúklingurinn ef vel tekst til umtalsvert aukin lífsgæði.

Sífellt fleiri sjúklingar eru á biðlista eftir líffærum en framboðið er takmarkað. Eitt af því sem takmarkar framboð er að ættingjar látins mögulegs líffæragjafa treysta sér ekki við dánarbeð að heimila líffæratöku. Þetta er mjög skiljanlegt sjónarmið ef ættingjarnir vita ekki hug hins látna og umræða um þessi atriði hefur aldrei farið fram. Því er upplýst umræða innan fjölskyldna um líffæragjafir úr látnum einstaklingum mikilvæg þannig að fólk viti um hvað málið snýst og sé kunnugt um hug sinna nánustu.

Þetta er kannski ekki skemmtilegasta umræðuefnið við kvöldverðarborðið en eigi að síður mikilvægt að ræða svona mál og afla sér upplýsinga ef fólk veit ekki um hvað málið snýst. Það er líka mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk sem kemur að þessum málum hvetji til þessarar umræðu og gefi á opinberum vettvangi upplýsingar sem gagnast fólki til að taka vitræna ákvörðun.

Ég hvet til þessarar umræðu og bendi fólki á að nálgast þetta einnig frá sjónarhóli þeirra sjúklinga sem þurfa á líffærum að halda. Hver væri okkar hugur til líffæraígræðslna ef við sjálf eða náinn ættingi væri á slíkum biðlista?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband