Fjárskaði

Þetta var árið 1944 eftir því sem ég best veit. Afi minn, Alexander Guðbjartsson og amma mín, Kristjana Bjarnadóttir voru nýflutt að Stakkhamri. Fluttu með bústofn sinn og 6 börn frá Hjarðarfelli sem var jörð uppi við fjall, niður að sjávarjörð. Aðstæður á þessum jörðum voru um margt ólíkar, meira um þurrar valllendisgrundir að Hjarðarfelli en að Stakkhamri var mest foraðsflói og sjávarfitjar.

Á þessum árum tíðkaðist að beita fé sem mest úti enda tún ekki ræktuð á sama hátt og nú. Erfitt var að afla heyfangs á jörð eins og Stakkhamri, allt forblautt. Fénu var beitt í flóann og fitjarnar, mikið í Glámsflóann sem gleypti marga ána. Það er ekki tilviljun að hann heitir Glámsflói, þar dúar jörðin þvílíkt að maður trúir því að kölski sjálfur búi þarna niðri. Fénu var einnig beitt "suður með víkum" sem kallað var en það var þurrara land meðfram Löngufjörum. Úti á fjörunum voru sker sem sjór féll yfir þegar flæddi að.

Þetta haust var féð eitt sinn sem oftar á beit suður með víkunum. Það rigndi mikið og elsti sonurinn, Guðbjartur var sendur að sækja féð, líklega hefur hann verið 13 ára gamall. Þegar Guðbjartur kom heim var hann rennvotur, móður og í miklu áfalli. Hann rétt gat stunið upp: "Ég náði bara í hornin á einni". Það tók heimilisfólkið nokkra stund að átta sig á hvað gerst hafði. Kindurnar höfðu farið út á fjörurnar og líklega sótt í þangið í skerinu. Síðan féll að. Allar kindurnar fórust.

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á hversu mikið áfall þetta var. Afi og amma voru með stóran barnahóp, nýbúin að festa kaup á jörð og enginn afgangur. Nú voru góð ráð dýr. Börnin heyrðu þau tala í hálfum hljóðum á kvöldin. Fjárlaus þýddi að það  var engin afkoma. Enginn möguleiki á að kaupa nýjar kindur, búið að slátra öllum lömbum á öðrum bæjum það haustið og þó einhver hefðu verið eftir þá var vonlaust að fjármagna það. Þau gátu ekki hugsað sér að flytja á "mölina" sem var líklega eini valkostur þeirra. Þetta voru daprir dagar á Stakkhamri.

Nokkrum dögum síðar sást til mannaferða uppi í holtunum fyrir ofan bæinn og niður flóann. Meira en mannaferða. Það var fjárrekstur, heill hópur af kindum. Þetta voru sveitunarnir sem höfðu safnað saman af bæjunum kindum, nákvæmlega jafnmörgum og fórust og komu með þær niður að Stakkhamri, afa og ömmu algerlega að óvörum. Ég sé þau fyrir mér, standandi á hlaðinu og ég finn enn í dag þakklæti til sveitunga minna sem gerðu þeim með þessu kleift að búa áfram í sveitinni sinni.

Þetta er náungakærleikur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fríða Eyland

Yndisleg saga, hvernig fólkið stóð saman og studdi hvort annað var til fyrirmyndar alveg hreint. Held að þjóðin sé enn svona inn við beinið, takk búbót

Fríða Eyland, 2.10.2007 kl. 22:17

2 Smámynd: Solla Guðjóns

Solla Guðjóns, 3.10.2007 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband