Færsluflokkur: Dægurmál

Kreppukona í Köben - seinasti hluti

Þetta er þriðji og seinasti hluti sögu af ferð til Köben. Fyrsti hluti er hér, annar hluti hér.

Á fundinum sem ég sótti hitti ég fólk sem ég hitti öðru hvoru í norrænu samstarfi á því sviði sem ég starfa á.

"How is the situation in Iceland" var algeng spurning eftir kurteislegar kveðjur. Svíarnir sögðu mér að deginum áður hefði sænska ríkið yfirtekið einn bankann hjá þeim. Þeir vildu meina að ástandið þar væri strax orðið verra en í bankakreppunni eftir 1990.

Ég dvaldi svo í einn dag á rannsóknastofu við Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn. Sú sem tók á móti mér þar heitir Bodil og ég hef hitt hana á nokkrum fundum. Hún spurði einskis. Mér fannst það einkennilegt eftir allt spurningaflóð hinna skandinavanna. Í hádegismatnum þegar kom vandræðalega þögn nefndi ég þetta. Þá sagði hún:

"I didn´t ask because I thoght it would be too embarrasing for you". Já blessuð konan var tillitssöm.

Ég sagði þeim að eitt af vandamálum okkar væri hversu þaulsetnir allir væru á sínum stólum þrátt fyrir mistök, jafnvel afglöp í starfi. Nefndi dæmi um niðurfellingu persónulegra ábyrgða stjórnenda hjá stórum banka, viku áður en hann var yfirtekinn. Þar á meðal eiginmaður ráðherra. Einnig að einn af þeim sem staðið hefði að þessari ákvörðun væri formaður eins stærsta verkalýðsfélags á Íslandi. Bæði sitja enn.

Þeir sem á þetta hlýddu störðu á mig í forundran. Svo sagði einn: "Þú ert ekki að lýsa vestrænu lýðræðisríki, þú ert að lýsa spillingu í þriðja heims ríki".

Þá höfum við það. Hér þarf mikið að skúra áður en við getum tjáð okkur um stjórnarfar í öðrum löndum.


Meira af kreppukonu í Köben

Þetta er framhald af ferðasögu minni til Köben í vikunni. Fyrsti kafli sjá hér.

Ég fór á fund fyrir notendur ákveðinnar vöru á Norðurlöndunum. Ég var sú eina af þátttakendum sem mætti degi áður en í fundarboði voru þeir sem mættu snemma boðið að koma og borða kvöldverð með fundarboðendum. Ég hafði boðað komu mína.

Ég mætti á tilskyldum tíma til að verða samferða í kvöldmatinn. Þar voru tveir sölumenn frá Bandaríska framleiðandanum og tveir skandínavískir sölumenn. Annan, Stuart, hafði ég hitt nokkrum sinnum, verulega viðkunnanlegur maður.

Þegar ég mætti í lobbíið á hótelinu þar sem þau gistu var það fyrsta sem Stuart sagði: "How is the situation in Iceland?" Ég svaraði eftir bestu getu og átti ágætt rabb við Stuart sem var greinilega brugðið yfir ástandinu.

Við gengum síðan saman á veitingastað í nágrenninu. Ég átti frekar von á að þetta yrði í boði fyrirtækisins en var engan veginn viss. Eins og gefur að skilja spyr maður bara ekki að svoleiðis. Ég hafði farið í stórmarkaðinn um daginn og verslað smá og um leið og ég skoðaði matseðilinn varð mér ljóst að það yrði á mörkunum að seðlarnir sem ég átti eftir dygðu fyrir máltíðinni. Þokkaleg kjötmáltíð kostaði vel yfir 200 DKR sem gerðu vel yfir 4400 IKR. Bjór með matnum kostaði minnir mig 65 DKR sem gerðu ca 1400 IKR. Ég lét á engu bera og fann ódýra kjúklingabringu og pantaði mér bjór með.

Yfir matnum var rætt um heima og geyma, oftar en einu sinni barst talið að ástandinu á Íslandi en einnig að kreppunni á heimsvísu. Peter, sá frá Bandaríkjunum sagði að margir af hans vinum hefðu tapað stórfé á hlutabréfum.

Þegar aðalréttinum var lokið var fóru þau að velta fyrir sér eftirréttum. Ég rétt leit á þá en sá að verðið var í kringum 100 DKR. Það gerði 2200 IKR sem mér fannst alveg fáránlegt verð fyrir ískúlu og þar að auki hélt ég enn í vonina með að 600 dönsku krónurnar mínar færu langt með að duga mér. Ég sagði þeim hinum að ég væri svo södd eftir aðalréttinn að ég gæti bara ekki torgað eftirrétt, það er bara ekki hægt að bera fyrir sig nísku í svona selskap.

Þegar að uppgjöri kom þá auðvitað var allt sett á reikning fyrirtækisins, ég borgaði ekki krónu. Það grunaði mig reyndar allan tímann, en gat engan veginn verið viss.

Ég dvaldi á öðru og mun ódýrara hóteli en þau. Ég viðurkenndi fyrir þeim að fyrir ári hefði dýra hótelið alveg komið til greina, núna væri verðið bara út úr kortinu. Nóttin þar var á 1050 DKR sem gera ca 23.100 IKR. Fyrir einu ári voru þetta ca 12.600 IKR. Mér fannst örlítið pínlegt að viðurkenna þetta en þetta er bara sá veruleiki sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir í dag. Það sem fyrir ári var gerlegt að borga fyrir er bara ekki inni í myndinni í dag.

Þegar ég skildi við þau fyrir utan hótelið þeirra, sagði Stuart að kannski hefðu þau bara öll átt að dvelja á ódýra hótelinu, það væri engin ástæða til að eyða svona miklu í hótelkostnað. Ég hummaði bara eitthvað, var sammála honum á vissan hátt en grunaði hann um að segja þetta bara svona í samúðarskyni.

Ég fann að honum fannst illa fyrir okkur Íslendingum komið.


Saga af kreppukonu í Köben

Ég skrapp af skerinu í nokkra daga. Fór á fund í Kaupmannahöfn vegna vinnu minnar og heimsótti í leiðinni rannsóknastofu vefjaflokkana á Ríkissjúkrahúsinu.

Ég var spurð þegar ég kom heim hvernig hefði verið. Svarið er: SKRÝTIÐ.

Eingöngu er leyfilegt að taka gjaldeyri með sér að andvirði 50.000 IKR. Það gerði í mínu tilviki 2.250 DKR. Ég valdi frekar ódýrt hótel, án morgunverðar. Dvaldi þrjár nætur og verðið var 1.650 DKR. Það þýddi að ég átti eftir 600 DKR til að ferðast fyrir og borða. Auðvitað gat ég notað kort en bankinn minn varaði mig við því, ekki væri víst hvert gengið væri á þeim tíma sem ég notaði kortið. Sögur gengu um að gengið gæti verið allt að tvöfalt það sem ég greiddi fyrir dönsku krónurnar í bankanum. Sannleiksgildi þessa ábyrgist ég ekki en ég tók strax þá ákvörðun að reyna hvað ég gæti til að láta þessar 600 DKR duga.

Þegar ég kom á hótelið tók á móti mér hótelhaldarinn, myndarleg dönsk valkyrja.

"How is the situation in Iceland?" var það fyrsta sem hún spurði mig. Ég kom mér strax upp stöðluðu svari: "The economy in Iceland isn´t bad, it´s ruined".

Konan sagði mér strax að þetta hefði mikil áhrif hjá henni, 60% af hennar viðskiptavinum væru Íslendingar og venjulega kæmu margir í nóvember. Nú bókar enginn Íslendingur og ef þeir bóka, þá afbóka þeir skömmu síðar. Við dæstum saman yfir hversu agalegt þetta ástand væri. Hún var meðvituð um að þetta væru svona 20-30 einstaklingar sem hefðu valdið þessu. Venjulegt fólk væru fórnarlömbin. Hún vissi líka til þess að Íslendingar hefðu verið hraktir út úr verslunum í Kaupmannahöfn og einnig að það væri stórvarasamt að nota kerditkort, algerlega óvíst hvert gengið væri.

Hún vissi að við mættum bara taka með okkur ákveðna upphæð í dönskum krónum og ég sagði henni hversu mikið það væri. Á sama augnabliki var hún að taka við greiðslu fyrir herbergið. Hún var fljót að reikna hvað ég hefði til að lifa fyrir. Ég flissaði vandræðalega og sagðist bara fara og kaupa jógúrt úti í "seven eleven" búðinni á móti. "Nei það skaltu ekki gera, farðu miklu heldur í stórmarkaðinn", svo sýndi hún mér hvert ég ætti að fara.

Um leið og hún stimplaði kvittunina fyrir greiðslunni spurði hún mig varlega hvort vinnan mín greiddi ekki gistinguna. "Jú, hún gerir það" svaraði ég, mér var alveg hætt að lítast á fátæktarbraginn sem var orðinn á mér, hélt hún ætlaði bara að lækka reikninginn. Ætlaði að segja henni að það yrði líklega boðið upp á mat á fundinum en fann að það var bara vandræðalegt.

Að endingu bauð hún mér að koma í eldhúsið hjá sér og fá kaffi ef ég vildi og svo gæti ég fengið smjör hjá henni á brauðið sem ég keypti í stórmarkaðinum.

Þetta var indæl kona sem vildi mér hið besta. Þetta var hins vegar afar skrýtið að vera þarna eins og bónbjargarmanneskja frá fátæku landi.

Meira síðar.


Gagnrýnin hugsun

Fyrir rétt rúmu ári eða þann 23. okt í fyrra skrifaði ég bloggfærslu sem ég kallaði "Leyfið til að vera öðruvísi".

Ég mundi eftir þessari færslu í gær þegar ég velti fyrir mér mögulegum ástæðum þess að við erum komin í svona miklar efnahagslegar og ekki síður pólitískar eða hugmyndafræðilegar þrengingar sem raun ber vitni.

Hvernig stendur á því að heilt þjóðfélag gat rambað svona lengi blindandi?

Getur verið að ein af ástæðunum sé að hér hafi átt sér stað eins konar þöggun, að gagnrýnni hugsun hafi verið ýtt til hliðar?

Gagnrýnin hugsun hefur ekki átt upp á pallborðið í okkar samfélagi seinustu ár, rökræður eru alltof oft á tilfinningalegum nótum.

Unglingum er ekki kennt markvisst að gagnrýna þær auglýsingar sem á þeim dynja og læra að skilja á milli staðreynda og áróðurs.

Kirkjan kveður markvisst niður rök fólks utan kristinna trúfélaga til að hamla aðkomu kirkjunnar inn í skólastarf. Umræða um þetta byggist á tilfinningalegum rökum en ekki faglegum af hálfu kirkjunnar.

Umræðu um aðild Íslands að Evrópubandalaginu hefur markvisst verið haldið niðri og vitræn umræða ekki fengist því málið hefur ekki verið á dagskrá. Fyrir vikið veit hinn almenni borgari afar lítið hvað í aðild að ESB felst og hverju við mögulega værum að fórna með slíku.

Við vorum alveg hætt að gera athugasemdir við ótrúlega misskiptingu launa á Íslandi, þetta var bara svona.

Mótmæli á Íslandi þykja verulega hallærisleg, það væri líka alveg agalegt ef til okkar sæist á slíkum samkomum.

Svona mætti lengi telja.

Nú óskum við þess að við hefðum miklu fyrr gert athugasemdir, hvar voru fjölmiðlar, spyrjum við. En við sjálf spurðum ekki heldur. Okkur þótti bara alveg ágætt að láta ráðamennina um þetta, treystum þeim í blindni og gleymdum okkur í góðærinu.

Gleymdum að vera gagnrýnin.

Það er kominn tími til að vakna, fylgjast með og halda hverju öðru við efnið. Í því felst einnig að leyfa hverju öðru að hafa mismunandi skoðanir en jafnframt að gera kröfu um að geta rökstutt þær.


Íslenski þjóðbúningurinn og þjóðsöngurinn

Seinustu daga hafa pilsklæddir karlmenn prýtt miðbæ Reykjavíkur. Flestir eru auk þess berleggjaðir og ég segi nú bara ekki meir. Ég átti leið um bæinn í gær og fannst þetta lífga verulega upp á tilveruna.

Þegar landsleikurinn hófst í gær var ég með sjónvarpið opið. Fyrst var íslenski þjóðsöngurinn sunginn, hljómfögur söngrödd ómaði, enginn fjöldasöngur. Svo kom sá skoski, aftur hljómaði falleg söngrödd en berleggjuðu skotarnir í köflóttu pilsunum stálu senunni og yfirgnæfðu söngkonuna.

Mikið öfundaði ég þá. Þjóðbúningurinn okkar eru þvílík spariföt að það klæðist þeim varla nokkur maður. Þjóðsöngurinn okkar er ekki óður til lands og þjóðar sem fyllir okkur stolti og hvetur okkur til dáða. Þjóðsöngurinn er óður til Guðs og hefur ekkert með land og þjóð að gera, textinn er tyrfinn og lagið getur enginn sungið.

Þjóðsöngur á að æra upp í manni þjóðerniskenndina og fylla mann stolti yfir því að tilheyra þessari þjóð og minna mann á hversu vænt okkur þykir um landið okkar. Hvaða línur í þessum texta gera það?

Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
:/: Íslands þúsund ár, :/:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

Það vill svo til að við eigum texta sem uppfyllir það að æsa upp í manni þjog lagið við textann er grípandi og auðvelt að syngja:

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

Það er verra með þjóðbúninginn, sé ekki alveg hvernig við eigum að breyta honum þannig að hann henti fyrir klæðnað fyrir áhorfendur á íþróttaleikjum.


Net fyrir atvinnulausa

Í fréttablaðinu í dag bls 16 er frásögn sem ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á.

Á Alþingi í fyrradag var fjallað um aðsteðjandi efnahagsþrengingar og vandamál vinnumarkaðarins sem birtist meðal annars í auknu atvinnuleysi. Geir Haarde sagði: "Þeir sem missa vinnuna geta treyst á netið sem sterkt velferðarkerfi býður upp á."

Eitthvað hefur Guðni Ágústsson verið utanvið sig því hann steig í pontu heldur þungur á brún og fannst Geir ekki sýna vandanum tilhlýðilega alvöru: "Og forsætisráðherra segir fólki bara að treysta á netið!"

Nú er það spurningin hvort okkar "sterka" velferðarkerfi býður atvinnulausum upp á fría nettengingu.


Fréttir vikunnar (og það er bara fimmtudagur)

14,5% verðbólga 
Mannekla á frístundaheimilum 
Ljósmæður fá ekki menntun sína metna  
Hópuppsagnir hjá Ístak og Pósthúsinu 

Já það er þröngt í búi hjá smáfuglunum þessa dagana. Við skyldum ætla að stjórnvöld gæfu okkur gott fordæmi. En nei á þessum sama tíma gefa stjórnvöld okkur eftirfarandi skilaboð:

Samgöngunefnd Alþingis gistir á Hóteli á höfuðborgarsvæðinu
Menntamálaráðherra, maki og ráðuneytisstjóri ferðast eins og jójó til Kína

Forgangsröðunin greinilega á hreinu. 

Og við gleymum okkur í tilfinningahitanum við að horfa á sjónvarpið þar sem hægt er að sjá beina útsendingu af flugvél fljúga yfir Reykjavík. Bara af því að handboltalandslið er innanborðs þá er þetta sjónvarpsefni. Myndavélin staðsett ýmist á húsi héraðsdóms (eða var það hæstiréttur?) eða Hallgrímskirkju.

Æi, hvert stefnum við.

Mér finnst eins og fjölmiðlar og stjórnvöld geri lítið úr almenningi, daglega.


Stórar skólatöskur með lítil börn á leið í skólann

Þessa dagana er fjöldi 6 ára barna að hefja sína skólagöngu. Það er ætíð ákveðin athöfn að velja fyrstu skólatöskuna. Má þá stundum vart á milli sjá hver er spenntari, barnið eða foreldrarnir sem eru fullir stolts.

Ég hef hins vegar lengi furðað mig á stærð þeirra skólataska sem eru á markaðnum. Þær eru alltof stórar fyrir líkama 6 ára barna. Hvaða nauðsyn er á því að 6 ára börn (já 7, 8 og jafnvel 9 ára) noti bækur af stærðinni A4? Minni bækur hæfa þessu smáfólki mun betur, það að bjóða þeim upp á þessa stærð er rétt eins og pappír okkar fullorðna fólksins væri af stærðinni 2xA4 (er það ekki A3? er ekki viss).

Einnig furða ég mig á því að börnin þurfi yfirhöfuð töskur. Mögulega undir nesti en í flestum skólum er farið að bjóða upp á heitan mat. Heimavinna barna á þessum aldri ætti að vera liðin tíð þar sem skóladagurinn er það langur að hann ætti að teljast fullur vinnudagur fyrir þau.

Hvað er það sem börnin þurfa að burðast með fram og til baka milli heimilis og skóla í þessum stóru töskum?

Er ekki tímabært að útrýma skólatöskum fyrir börn undir 10 ára aldri?


Sagan af litla sæta ísbirninum

Ég ætla að leyfa mér að vera verulega ómálefnaleg og linka inn á ísbjarnarsögu sem mér finnst vera ákveðinn botn á umræðunni.

Einhvern veginn efast ég um að þessi saga sé sögð út frá sjónarhóli heimilisfólksins að Hrauni á Skaga.

Ekki orð um það meir.


Í tengslum við náttúruna

Fyrir um 20 árum heyrði ég eftirfarandi sögu frá Vestmannaeyjum:

Bandarísk kona kom til Eyja sem ferðamaður. Hún fór í skoðunarferð og skoðaði fuglabjargið. Hún undraðist allan fuglafjöldann og varð að orði: "Hvernig farið þið eiginlega að því að gefa öllum þessum fuglum að borða?"

Mér fannst þessi saga óborganlega fyndin og bera vott um hversu Kaninn væri kominn langt frá náttúrulegu umhverfi sínu. Það var nú eitthvað annað með okkur Íslendingana, allir í miklum tengslum við náttúruna.

Af hverju dettur mér þessi saga í hug í dag?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband