Færsluflokkur: Gamlar sögur

Ásdís með myndlistasýningu

Vinkona mín Ásdís Arnardóttir frá Brekkubæ er útskrifuð frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk prófi frá málunardeild árið 1999. Nú seinustu ár hefur Ásdís helgað sig listinni. Afraksturinn ætlar hún að sýna á Bókasafni Háskólans á Akureyri og opnar sýningin 2. febrúar kl 15.00. Sjá nánar hér.

Við þessa frétt varð mér hugsað til gamalla tíma, teiknitíma í Laugagerðisskóla.

Matti kom með skókassa í teiknitímanna, jólakort seinustu ára til fjölskyldunnar voru í skókassanum.

Elsku Matti, Fjóla og börn, Gleðileg jól, farsælt komandi ár o.s.frv.

Þökkum liðið ár Stína, Siggi og börn

Við skemmtum okkur hið besta við jólakortalesturinn og urðum mikils vísari um vini og fjölskyldu teiknikennarans. Myndirnar á kortunum voru hefðbundnar: hús úti í skógi og snjór yfir öllu eða nokkrir galvaskir jólasveinar. Upplegg kennslustundarinnar var að láta nemendurna teikna eftir myndunum á jólakortunum. Mjög voru listaverkin misjöfn og áhugi nemendanna og ástundun var einnig á ýmsum stigum, sumir skemmtu sér meira við jólakortalesturinn en teikninguna. Inn á milli leyndust þó snillingar sem drógu upp myndir sem gáfu fyrirmyndunum ekkert eftir.

Ásdís var ein af þeim sem skaraði fram úr strax á þessum árum. Hennar myndir báru af. Nú hefur hún fært þessa myndlist yfir á nýtt svið. Í stað jólakortanna notar hún gamlar myndir úr fjölskyldualbúminu sem teknar voru á Kodak Instamatic myndavél af einfaldri gerð. Í stað crayola litanna í gamla daga notar Ásdís vatnsliti og mjög þunnan pappír sem ég kann ekki skil á en mikil vinna liggur í hverju verki sem eru mörg stór og glæsileg.

Ásdís, til hamingju með sýninguna, það er ljóst að við hinar eigum erindi til Akureyrar. Akureyringa hvet ég til að gera sér ferð á Bókasafn Háskólans og skoða sýninguna.


Reykingar

Ég var einu sinni á ferð sem leiðsögumaður með hóp af þýskum túristum í Mývatnssveit. Ég lýsti fjálglega landslaginu, hvernig eyjarnar í vatninu mynduðust, hélt fyrirlestur um jarðfræði og dýralífið á svæðinu. Túristarnir reyndu að vera áhugasamir og fylgjast með. Ég lýsti því að í vatninu væri mikið af silung og að bændurnir legðu net í vatnið og veiddu silunginn. Svo benti ég þeim á lítil torfhús sem voru á flestum bæjum en þar var silungurinn reyktur. Þetta útskýrði ég með eftirfarandi orðum:

"Und da in den kleinen Haüsern werden die Forellen geraucht". (Þýðing: "Og þarna í litlu húsunum eru silungarnir reyktir".

Gallinn við þetta var að á þýsku eru til tvö orð yfir sögnina "að reykja":

Rauchen = reykja sígarettur (lýsingarháttur þt: geraucht)

Raüchern = reykja mat (lýsingarháttur þt: geraüchert)

Það er ekki hægt að þýða yfir á íslensku hvað ég sagði Þjóðverjunum að Mývetningarnir gerðu við silunginn en þeir hlógu óskaplega að þessu án þess að ég gerði mér grein fyrir hvað var svona fyndið við það sem ég sagði.


Undrandi tunna

Það var verið að steypa á Stakkhamri. Líklega var þetta þegar verið var að byggja eftir brunann 1971. Í þá tíð hjálpuðust menn að þegar mikið lá við og á steypudögum komu nágrannarnir og aðstoðuðu.

Einhverra hluta vegna var tunna fyllt af steypu. Þetta var gamaldags trétunna með gjörðum og öllu. Hún þoldi ekki álagið og gliðnaði í sundur.

Elli í Dal horfði á tunnuna og sagði: "Sjáiði tunnuna, hún er svo hissa að hún féll í stafi!".


Jólainnkaup í Fjarðarkaupum

Sagan sem ég ætla að segja í dag gerðist þegar ég var í stjórn starfsmannfélags Hjartaverndar. Þetta var aktíf og bráðskemmtileg stjórn, a.m.k. fólkið sem var í stjórninni. Við stóðum fyrir ýmsum uppákomum, allt árið um kring. Samstarfsfólkið var oftast ánægt með okkur, held ég, aðalatriðið var að við vorum hæstánægð með allt sem við gerðum.

Fyrir jólin stóðum við fyrir jólahlaðborði í hádeginu einhvern föstudaginn í desember. Í fyrsta skiptið vorum við óttalegir grænjaxlar og vissum ekkert hvað svona tekur langan tíma í undirbúningi. Vorum samt búnar að panta kartöflusalat og ég hafði keypt nokkrar rúllur af hangikjöti og sauð það heima hjá mér kvöldið áður. Svo fórum við í Fjarðarkaup um morguninn og ætluðum að kaupa allt sem okkur fannst vanta:

Ostar
Síld
Rúgbrauð
Pate
Sultur
Reyktan lax
Grafinn lax
Sósu með laxinum

Laufabrauð
Rauðkál

Smjör
Jólaöl
Mandarínur
Kerti
Dúka
Servíettur
o. fl. o. fl

Listinn var langur því þetta átti að vera flott. Ekki man ég hversu snemma við vorum komnar í Fjarðarkaup en þegar klukkan var farin að halla í 11 og við vorum á kassanum var ég farin að ókyrrast. Maturinn átti að byrja kl 13.00, við áttum eftir að hafa kaffistofuna til og skera allt niður og raða á bakka. Fáránleg bjartsýni.

Stúlkan á kassanum var afspyrnu hæg. Svo hæg að þolinmæði mín var á þrotum. Ég raðaði í innkaupapokana af miklu kappi. Var bara fjári snögg að því. Þetta gekk bara nokkuð fljótt fyrir sig. Harpa Dís, gjaldkerinn okkar dró upp kortið og borgaði, já og Fjarðarkaup voru bara ekkert svo dýr verslun.

Við þurftum eitthvað meira að snúast, ná í gullbakkana hennar Hörpu heim til hennar o.fl. Komum í hús kl 12.00.

Höfðum hraðar hendur við að skreyta og skera. Allt tilbúið kl 13.00. Töluðum um að taka að okkur að útbúa fermingarveislur, þetta væri nú ekki mikið mál, já og versla í Fjarðarkaup, fáránlega ódýrt.

Árið eftir var náttúrulega aftur jólahlaðborð í einhverju föstudagshádeginu. Við ætluðum nú að vera heldur skipulagðari, versla daginn áður og gera góðan innkaupalista. Vorum svo heppnar að eiga strimilinn frá því árið áður.

Bíddu, það var eitthvað lítið á strimlinum, keyptum við ekkert kartöflusalat? Ekkert jólaöl? Og ekkert............. Það var eitthvað lítið á þessum strimli, hvernig gat nú staðið á því? Jú í öllum hamaganginum hafði ég raðað öllu í pokana áður en stúlkan á kassanum náði að skanna vörurnar inn. Þannig varð þetta svona ódýrt og þannig vorum við svona snöggar á kassanum!

Semsagt, hér játa ég þjófnað. Skamm á mig.

(Sagan var pöntuð af Bylgju, veit ekki hvort hún viðurkennir að vera samsek, það var ég sem raðaði í pokana, Harpa bara borgaði).


Jól í Strassburg III

Þriðjudagur 25. desember 1984

"Vaknaði um hádegi en þá var farið niður í eldhús þar sem búið var að leggja á borð en jóladagur og maturinn þá er aðalhátíðin. Fjölskylda Valerie og nunnurnar voru þar í sínu fínasta pússi. Á hverjum diski var nafn þess sem þar átti að sitja og var gjöfum raðað þar í samræmi. Mér til mikillar undrunar voru þrír pakkar til mín auk pakkans frá þeim heima. Hér tíðkast ekki að merkja pakka heldur eru gjafirnar frá öllum og þakka allir öllum fyrir. Góður siður. Ég veit nú samt að frá Valerie fékk ég kassa með umslögum, peysu frá mömmu hennar. Einnig sápupakka sem ég held að frænkan hafi gefið.

Fyrir mat var boðið í glas, bjór eða Martini Bianco. Næst var reyktur lax og hvítvín drukkið með. Má til að minnast á hvað mér finnst fólkið virða vín og dá. Einnig góðum mat. Þar næst var gæs með kartöflum og aspas að ég held og 10 ára rauðvín með. Smakkaðist vel. Eftir dágóðan tíma kom terta og á eftir henni kampavín. Þá held ég að allt sé upptalið. En þegar hér var komið var kominn galsi í mannskapinn (vínið). Mamma Valerie fór á kostum. Sungið og spjallað, ærslast. Á jólunum skal gleðjast, Jesú var að fæðast og því skal skemmta sér. Ólíkt alvöruþrungnu íslensku aðfangadagskvöldi.

Í kvöld var svo aftur borðað en bara lítið og léttur matur. Hef í allan dag öðru hvoru en árangurslaust reynt að hringja heim en engin lína laus, ýmist hér eða heima".

Viðbót:
Það var virkilega athyglisvert að fá að kynnast þessu jólahaldi. Ég minni á að þarna voru auk fjölskyldu Valerie nokkrar kaþólskar nunnur. Á jóladag fengu þær sér vel í glas og voru vel hífaðar. Ég man hvað mér fannst þetta skrítið. Þær sögðu einfaldlega: Jesúbarnið var að fæðast nú gleðjumst við. Þegar ég lýsti fyrir þeim alvöruþrungnu íslensku aðfangadagskvöldi og þeim íslenska sið að ekki mætti spila eða gantast á aðfangadagskvöld, urðu þær undrandi. Það er á föstudaginn langa sem við erum sorgmædd, þá dó Jesú sögðu þær.

Ég man að það var mikið fíflarí í gangi eftir matinn og við uppvaskið, ég var borin um á stóru skurðarbretti og foreldrar Valerie ærsluðust í mér. Fólkið var undir áhrifum víns en þetta var mjög ólíkt því þegar Íslendingar drekka, vínið var lofað og dásamað og aldrei neytt í óhófi. Einnig man ég hversu allir smjöttuðu nákvæmlega á öllum mat, ekki bara á hátíðinni, þetta var bara kúltúrinn í kringum allar máltíðir.

Einnig fannst mér sá siður góður, að merkja ekki frá hverjum jólagjafirnar væru. Allir þökkuðu öllum fyrir á eftir. Ég man ekki hvað hinir fengu í jólagjöf en ég man að þetta voru allt litlar gjafir, líkara því sem við myndum vera með í svona pakkaleikjum sem nú eru algengir í skólum og á vinnustöðum.

Núna 23 árum seinna er ég Valerie og fjölskyldu hennar mjög þakklát fyrir þetta einstæða tækifæri til að kynnast frönskum jólasiðum og fjölskyldulífi.


Jól í Strassburg II

Mánudagur 24. desember 1984

"Eftir morgunverð fórum við Valerie og bróðir hennar í labbitúr um miðbæinn og m.a. skoðuðum við sólarklukku í kirkju einni en þegar klukkan er 12 að sólartíma (venjulegar klukkur eru 1/2 klst á undan) galar einhver hanastytta ásamt fleira dingleríi.

Fórum síðan til ömmunnar og borðuðum hádegismat. Steiktar lundir eða eitthvað þess háttar. Kjötið er rétt brasað að utan, alveg hrátt að innan. Eftir mat skreyttu Valerie og mamma hennar aðeins hjá ömmunni. Ekkert jólatré en gripahús með Jósep, Maríu og Jesú er það mikilvægasta.

Að þessu loknu fórum við Valerie í bæinn og kíktum í búðir og búðarglugga. Svo fór okkur að langa í kakó eða ís. Leituðum en fundum bara staði sem voru búnir að loka vegna jólahátíðar. Fundum að vísu einn sem var fullur af ungu fólki sem þambaði bjór og/eða vín og var orðið drukkið (klukkan var rúmlega 5), rokktónlist hljómaði hástöfum. Höfðum engan áhuga á að setjast þarna inn. Fórum til frænkunnar í nunnuklaustrið og mölluðum kakó. Þar var fjölskyldan og nunnurnar voru búnar að gera jólalegt, virkilega smekklegt og notalegt.

Hér byrja jólin ekki stundvíslega kl 6. Fjölskyldan er öll kaþólsk og fer í miðnæturmessu. Það er enginn sérstakur matur borðaður, bara venjulegt snarl. Klæðnaður hversdagslegur. Farið var í kvöldmat til ömmunnar sem er veik og líður frekar illa. Eftir mat var farið heim til föðurbróðurins sem er piparsveinn síðan kellan hljóp í burtu. Þar var bjór þambaður, þannig var þá aðfangadagskvöld hjá mér!.

Um kl 23 var svo farið í kirkju en það var eiginlega lítil kapella þar sem skólanemendur spiluðu og sungu og tóku einnig mikinn þátt í athöfninni. Söngur og spil var fallegt en röflið þreytandi, enda skildi ég ekkert. Athöfnin í heild ágæt en ekki mjög hátíðleg. Tvennt kom mér spánskt fyrir sjónir: Í miðri athöfn, að fyrirsögn prests, tókst fólk í hendur við aðra við hliðina, fyrir framan og fyrir aftan. Svo var kortum útdeilt til allra en á þeim var mynd af manni án vara og á maður að senda þetta einhverjum sem maður vill hjálpa.

Eftir messu (um kl 1 eftir miðnætti) var farið til frænkunnar (í nunnuklaustrið) og þar var tilbúið Gluhwein. Lagt var á borð og boðið upp á smákökur og ávexti. Ég drakk kakó. Klukkan langt gengin í 3 þegar öllu var lokið".


Jól í Strassburg I

Veturinn 1984-1985 dvaldi ég sem au-pair í Munchen í Þýskalandi. Þá var ferðalag til Íslands meiriháttar fyrirtæki og krafðist útgjalda langt umfram það sem fátæk au-pair stúlka gat látið sér detta í hug yfir jól. Fjölskyldan sem ég bjó hjá ætlaði á skíði til Sviss um áramótin og þar var ekki gert ráð fyrir þjónustustúlkunni. Þarna voru góð ráð dýr, ekki gat ég verið ein yfir áramótin, vinkonur mínar þarna úti ætluðu allar heim til sín, þær voru flestar franskar. Ein þeirra Valerie bjargaði mér og bauð mér að dvelja með stórfjölskyldu sinni í Strassburg yfir jólin. Þar bjó öldruð amma hennar, föðurbróðir og föðursystir. Foreldrar Valerie bjuggu í Suður-Frakklandi, skammt frá Avignion, þau ætluðu að vera í Strassburg um jólin og buðu mér svo heim með sér yfir áramótin.

Það er mér ógleymanlegt að hafa með þessum hætti fengið að kynnast frönsku fjölskyldulífi og jólasiðum. Þetta var að mörgu leyti sérstakt þar sem föðursystirin var nunna, nánar tiltekið skólastjóri í kaþólskum stúlknaskóla í Strassburg með heimavist. Foreldrar og bróðir Valerie ásamt okkur gistum á heimavistinni yfir jólin. Ég hélt dagbók mest allan tíman sem ég var au-pair og ætla ég næstu daga að birta brot frá þessum tíma:

Laugardagur 22. desember 1984

Klukkan rúmlega 8 í morgun kom Róbert (11 ára sonur í þýsku fjölskyldunni) inn til mín og tilkynnti spenntur að í nótt hefði snjóað. Ég reis jafnspennt upp á nærunum og kíkti út. Viti menn, var ekki smáföl. Þetta var þrælskondið. Klukkan hálf 10 mætti ég svo úthverf til morgunverðar og því næst var síðasta pútserí ársins "Buroputzen" (Ég þreif alltaf skrifstofu húsbóndans í kjallaranum um helgar). Flýtti mér heil ósköp en passaði þó að gleyma engu.

Emzy (frúin á heimilinu) fór í flýti í klippingu og gleymdi að kveðja mig en kallarnir mínir voru allir einstaklega elskulegir. Afhentu mér jólagjöf sem var það stór að ég opnaði hana áður en ég fór. Voru það ekki skínandi gljáandi hvítir skautar! Þetta fólk. Eitt er víst, við Róbert förum á skauta þegar ég kem aftur. Og kveðjustundin  var "ganz lieb". Brölti ég síðan með bakpokann minn á strætóstoppistöð og hitti Valerie í S-6 (númerið á lestinni sem gekk á aðalbrautarstöðina) í Pasing. Einfalt mál að finna lestina til Strassburg og plöntuðum við okkur þar. Ferðin tók 5 klst.

Í Strassburg tók fjölskylda Valerie á móti okkur. Mamma hennar, pabbi, bróðir, föðurbróðir og föðursystir. Virkilega elskulegt fólk og komst ég að raun um að franskt fólk heilsar alltaf með kossi. Jafnvel bróðir Valeri kyssti mig! Allir nema mamman og bróðirinn tala góða þýsku því í Strassburg er töluð franska og þýska. Farið var heim til ömmu Valerie og borðað. Franskir borðsiðir eru svo enn einn kapítuli. Margréttað og lítið borðað af hverju. Fyrst súpa, síðan brauð, skinka og annað álegg, einnig salat með soðnum eggjum. Þar næst fjórar tegundir af osti með brauði og endað á ávöxtum, en þá var ég sprungin. Rauðvín drukkið með, namm. Brauð og ostur er borðað allt öðruvísi en ég er vön.

Allt frábærlega hresst og skemmtilegt fólk, sérstaklega föðurbróðirinn. Vildi hann að "við unga fólkið" færum og fengjum okkur bjór á einhverri knæpunni en frænkan (nunnan) hafði bara einn lykil að heimavistinni sem við sofum á.

Þetta er heimavist fyrir 14 stelpur. Hver um sig hefur litla afkróaða kompu. Þar er í rúm, stóll, lítið borð, vaskur og lítill skápur. Tjald fyrir dyrum og veggir ekki lokaðir til lofts. Já og svo sofa franskir ekki með sæng heldur stingur maður sér undir teppi sem er þétt strekkt yfir rúmið. Þar yfir er svo smásængurtíta sem hæfði vel 4 ára krakka. Hefði Valerie ekki komið til mín í kvöld hefði ég skolfið úr kulda alla nóttina með þessa sæng ofan á mér! (ég hefði nefnilega lagst ofan á teppið en ekki undir það og einungis með sængina ofan á en hún rétt náði yfir magann á mér).

Næstu daga mun ég birta minningar mínar af jólahaldi með frönskum nunnum í Strassburg.


Jólasveinarnir eru 12

Það getur vel verið að Stekkjastaur komi til byggða í nótt, 13 dögum fyrir jól. En það vantar einn jólasvein, þeir eru bara 12, ég veit það ég varð nefnilega vitni að því þegar þeim fækkaði um einn. Þetta er alveg satt, það hefur bara enginn trúað mér. 

Ég fór með mömmu og Ernu upp að Breiðabliki, það var jólaskemmtun fyrir krakkana. Kvenfélagskonurnar stóðu fyrir skemmtuninni, karlarnir voru uppteknir heima við að undirbúa fjölgun sauðfjárins að þeirra sögn, það var fengitími! Máttu engan veginn vera að þessu.

Ég var 3ja eða 4ra ára, jólasveininn kom og mér fannst gríðarlega mikið til hans koma. Hann gaf öllum krökkunum epli, það var ekki oft sem við fengum það. Okkur fannst þau safarík og góð. Jólasveinninn gekk með okkur nokkra hringi kringum tréð, sagði nokkrum sinnum hó, hó, svo fór hann.

Á eftir fengu börnin kökur og kakó á kaffistofunni í kjallaranum á félagsheimilinu, þetta var áður en byggt var við. Ég vafraði um efri hæðina, mér fannst þetta óskaplega stórt hús, þurfti að kanna það. Ég kíkti inn í eitt herbergið, á bekk þar inn lá DAUÐUR JÓLASVEINN.

Ég gleymi þessari sjón ekki. Ég staðhæfi að ég sá það. Ég varð algerlega miður mín, það var mikið áfall að verða fyrsta vitnið að fækkun jólasveinanna. Ég fór og sagði mömmu frá þessu, hún vildi ekki trúa mér, frekar en nokkur annar, alveg sama hvað ég reyndi að fá fólk til að koma og skoða þetta, þetta þótti ekkert til að hafa áhyggjur af, það var bara eins og öllum væri sama. Einhver fór samt upp í herbergið en kom og sagði að þar væri ekkert. Ég fékk ekki að fara aftur inn í herbergið.

Næstu daga var ég óhuggandi. Talaði ekki um annað en dauða jólasveininn. Þetta var náttúrulega stórmál. En ég talaði fyrir algerlega dauðum eyrum. Að endingu gafst mamma upp. Tók mig á eintal og sagði við mig að jólasveinarnir væru ekki til, Sigurður Helgason skólastjóri hefði verið í búningi, ég hefði bara séð búninginn á bekknum og gríman og skeggið hefðu legið ofan á.

Glætan að ég trúi þessu. Jólasveinarnir eru 12.


Minningabrot úr mötuneyti Laugagerðisskóla

Á þriðjudögum voru kjötbollur, kartöflur og brún sósa. Líklega var líka rabbabarasulta. Þetta var uppáhaldsmatur flestra. Sumir borðuðu óstjórnlega, stundum var kappát. Þetta var líklega sá matur sem krakkarnir borðuðu af því að þeim þótti hann góður, ekki bara til að fylla magann.

En svo kláruðust bollurnar, allt búið sögðu eldhúskonurnar þegar við báðum um meira. Samt voru alltaf upphitaðar bollur í brúnni sósu á þriðjudagskvöldum.

Skrýtið.


Þegar Solla varð 15

Fyrir nokkrum vikum lýsti ég 15 ára afmæli mínu. Nú ætla ég að segja frá 15 ára afmæli Sollu vinkonu minnar.

Hún á afmæli nokkrum vikum á eftir okkur Rósu og Önnu. Nú vissum við að það væri hægt að halda afmælisveislu í skólanum án þess að nokkur kennari yrði þess var. Þetta var bara spurning um útsjónarsemi. Aftur voru tertur bakaðar um helgi og fluttar með mikilli leynd í skólann með skólabílnum. Síðan var laumast með þær alla leið upp á herbergi. Við sannfærðumst um að við værum snillingar í ólöglegum tertuflutningum.

Í þetta skiptið voru tveir drengir á gestalistanum. Við ætluðum raunverulega að bjóða þeim í afmælið. Planið var að halda veisluna með mikilli leynd áður en vistinni yrði læst. Mig minnir að það hafi verið Ingó (bróðir Ingunnar kennara) og Jonni frá Efri-Hól sem hlutu þann heiður að vera boðið. Veitingarnar voru geymdar inni í fataskáp til að kennarinn sem gekk á herbergin yrði ekki var við neitt. Drengirnir voru geymdir inni í tveim öðrum fataskápum á meðan veislan fór fram. Við opnuðum skápinn og réttum þeim disk með kræsingum og kókglas, síðan var skápnum lokað og þeir gomsuðu veitingunum í sig. Við nutum okkar veitinga hinum megin skáphurðarinnar.

Á meðan veislan stóð sem hæst kom upp vandamál sem við höfðum ekki reiknað með. Kennarinn læsti vistinni, mun fyrr en venjulega. Þar með voru drengirnir fastir inni hjá okkur. Þó við hefðum ekkert á móti þeim þá stóð ekki til að leyfa þeim að gista. Nú voru góð ráð dýr. Ekki stóð til að játa glæpinn. Með einhverjum leiðum tókst okkur að plata kennarann til að skilja hurðina eftir opna í smástund, minnir að við höfum sent hann eftir ljósaperu eða klósettpappír. Á meðan sluppu drengirnir fram á gang. Þá áttu þeir eftir að komast inn á læsta strákavistina. Þeim tókst vekja athygli tveggja kvenna sem unnu í eldhúsinu á sér (Erlu Jónu og Svandísar). Þær höfðu fullan skilning á vandamálinu og hleyptu þeim inn á sína vist án þess að gera meira mál úr glæpnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband