Jól í Strassburg I

Veturinn 1984-1985 dvaldi ég sem au-pair í Munchen í Þýskalandi. Þá var ferðalag til Íslands meiriháttar fyrirtæki og krafðist útgjalda langt umfram það sem fátæk au-pair stúlka gat látið sér detta í hug yfir jól. Fjölskyldan sem ég bjó hjá ætlaði á skíði til Sviss um áramótin og þar var ekki gert ráð fyrir þjónustustúlkunni. Þarna voru góð ráð dýr, ekki gat ég verið ein yfir áramótin, vinkonur mínar þarna úti ætluðu allar heim til sín, þær voru flestar franskar. Ein þeirra Valerie bjargaði mér og bauð mér að dvelja með stórfjölskyldu sinni í Strassburg yfir jólin. Þar bjó öldruð amma hennar, föðurbróðir og föðursystir. Foreldrar Valerie bjuggu í Suður-Frakklandi, skammt frá Avignion, þau ætluðu að vera í Strassburg um jólin og buðu mér svo heim með sér yfir áramótin.

Það er mér ógleymanlegt að hafa með þessum hætti fengið að kynnast frönsku fjölskyldulífi og jólasiðum. Þetta var að mörgu leyti sérstakt þar sem föðursystirin var nunna, nánar tiltekið skólastjóri í kaþólskum stúlknaskóla í Strassburg með heimavist. Foreldrar og bróðir Valerie ásamt okkur gistum á heimavistinni yfir jólin. Ég hélt dagbók mest allan tíman sem ég var au-pair og ætla ég næstu daga að birta brot frá þessum tíma:

Laugardagur 22. desember 1984

Klukkan rúmlega 8 í morgun kom Róbert (11 ára sonur í þýsku fjölskyldunni) inn til mín og tilkynnti spenntur að í nótt hefði snjóað. Ég reis jafnspennt upp á nærunum og kíkti út. Viti menn, var ekki smáföl. Þetta var þrælskondið. Klukkan hálf 10 mætti ég svo úthverf til morgunverðar og því næst var síðasta pútserí ársins "Buroputzen" (Ég þreif alltaf skrifstofu húsbóndans í kjallaranum um helgar). Flýtti mér heil ósköp en passaði þó að gleyma engu.

Emzy (frúin á heimilinu) fór í flýti í klippingu og gleymdi að kveðja mig en kallarnir mínir voru allir einstaklega elskulegir. Afhentu mér jólagjöf sem var það stór að ég opnaði hana áður en ég fór. Voru það ekki skínandi gljáandi hvítir skautar! Þetta fólk. Eitt er víst, við Róbert förum á skauta þegar ég kem aftur. Og kveðjustundin  var "ganz lieb". Brölti ég síðan með bakpokann minn á strætóstoppistöð og hitti Valerie í S-6 (númerið á lestinni sem gekk á aðalbrautarstöðina) í Pasing. Einfalt mál að finna lestina til Strassburg og plöntuðum við okkur þar. Ferðin tók 5 klst.

Í Strassburg tók fjölskylda Valerie á móti okkur. Mamma hennar, pabbi, bróðir, föðurbróðir og föðursystir. Virkilega elskulegt fólk og komst ég að raun um að franskt fólk heilsar alltaf með kossi. Jafnvel bróðir Valeri kyssti mig! Allir nema mamman og bróðirinn tala góða þýsku því í Strassburg er töluð franska og þýska. Farið var heim til ömmu Valerie og borðað. Franskir borðsiðir eru svo enn einn kapítuli. Margréttað og lítið borðað af hverju. Fyrst súpa, síðan brauð, skinka og annað álegg, einnig salat með soðnum eggjum. Þar næst fjórar tegundir af osti með brauði og endað á ávöxtum, en þá var ég sprungin. Rauðvín drukkið með, namm. Brauð og ostur er borðað allt öðruvísi en ég er vön.

Allt frábærlega hresst og skemmtilegt fólk, sérstaklega föðurbróðirinn. Vildi hann að "við unga fólkið" færum og fengjum okkur bjór á einhverri knæpunni en frænkan (nunnan) hafði bara einn lykil að heimavistinni sem við sofum á.

Þetta er heimavist fyrir 14 stelpur. Hver um sig hefur litla afkróaða kompu. Þar er í rúm, stóll, lítið borð, vaskur og lítill skápur. Tjald fyrir dyrum og veggir ekki lokaðir til lofts. Já og svo sofa franskir ekki með sæng heldur stingur maður sér undir teppi sem er þétt strekkt yfir rúmið. Þar yfir er svo smásængurtíta sem hæfði vel 4 ára krakka. Hefði Valerie ekki komið til mín í kvöld hefði ég skolfið úr kulda alla nóttina með þessa sæng ofan á mér! (ég hefði nefnilega lagst ofan á teppið en ekki undir það og einungis með sængina ofan á en hún rétt náði yfir magann á mér).

Næstu daga mun ég birta minningar mínar af jólahaldi með frönskum nunnum í Strassburg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband