Færsluflokkur: Gamlar sögur

Hlandsíur og dælur

Matseðill mötuneytis Laugagerðisskóla hefur áður verið umfjöllunarefni mitt. Fastheldni matráðskonunnar á matseðilinn var með eindæmum. Við vissum alltaf hvað var í matinn.

Ég minnist þess að hafa á fimmtudögum verið í tvöföldum líffræðitíma í seinustu kennslustund fyrir hádegismat. Í líffræði lærðum við um starfsemi ýmissa líffæra, hjarta, lungna, lifur og nýra.

Að kennslustund lokinni sagði líffræðikennarinn: "Nú skulum við drífa okkur í mat og fá okkur hlandsíur og dælur".


Pálmasunnudagur 1964

Það var sunnudagskvöld með Svavari Gests í útvarpinu. Húsfreyjan að Stakkhamri ákvað að nota tímann vel og skúra gólfin. Hún átti von á barni en þó gerði talning ekki ráð fyrir að fæðing ætti sér alveg strax stað. Einhverjir verkir gerðu vart við sig og hún reyndi að leggja sig. Það dugði ekkert og verkirnir ágerðust. Það fór ekki á milli mála, það var fæðing í aðsigi.

Á heimilinu var aðeins til Willys jeppi og þótti það ekki heppilegt farartæki til að flytja fæðandi konu. Því var hringt í Leifa í Hrísdal og hann beðinn um að koma til að keyra konuna og eiginmanninn yfir Kerlingarskarð á sjúkrahúsið í Stykkishólmi. Þetta gerði Leifi fúslega. Þegar hersingin nálgaðist fjallið leist honum hins vegar ekki á blikuna, hann hafði litla löngun til að breyta bílnum í fæðingarstofu uppi á miðju fjalli.

Leifi krafðist þess að keyra heim að Hjarðarfelli og koma konunni í hús. Það varð úr þrátt fyrir mótmæli Stakkhamarshjónanna sem fannst það ekki góð hugmynd að banka upp á bæjum og biðja um að fá að fæða barn heima hjá öðru fólki.

Kvöldið áður hafði verið skemmtun í sveitinni og því var Hjarðarfellsfólkið gengið snemma til náða. Gunnar og Ásta risu úr rekkju og tóku vel á móti gestum. Fæðandi konan var drifin upp í hjónarúmið og áhorfendaskarinn viðbúinn.

Ásta hafði sjálf átt 6 börn, hún var nokkuð hress þegar seinasta barnið fæddist og hafði forvitnast um hvernig skilið væri á milli. Þessi forvitni hennar kom sér vel og þarna í öllu patinu og látunum hafði hún hugsun á að sjóða bendla til að hnýta fyrir naflastrenginn.

Fæðingin gekk fljótt fyrir sig, örlítið fjólublá stúlka fæddist með naflastrenginn vafinn um hálsinn. Ásta skildi á milli, líklega með skjálfandi höndum en það kom ekki að sök, ég er lifandi sönnun þess.

Í hamaganginum hafði enginn fyrir því að fylgjast með tímanum. Því var fæðingarstundin eitthvað á reiki, meira að segja hvoru megin við miðnættið þetta var. Einhver kvað þó upp úr með að klukkuna hefði vantað tíu mínútur í tólf þegar barnið fæddist.

Það hefur örugglega verið sérstakt að vakna upp við það á pálmasunnudegi að fæðandi kona stæði á dyraþrepinu. Ég fann alltaf fyrir sérstökum tengslum við Ástu og Gunnar vegna þessa. Á sex ára afmælinu mínu gáfu þau mér áletraða skeið með fæðingarstundinni. Mér þykir mjög vænt um þessa skeið.


Páskar í Ungverjalandi

Veturinn 1984-1985 dvaldi ég sem au-pair í Munchen í Þýskalandi. Þegar ég fór út haustið 1984 hafði ég aldrei farið til útlanda áður, aldrei ferðast með flugvél, þetta var því mikil lífsreynsla. Ég minnist þess að áður en ég fór út tók þáverandi yfirmaður minn mig á eintal. Þetta var Jóhanna Leópoldsdóttir sem þá var útibússtjóri á Vegamótum. Jóhanna var ung og hafði ferðast mikið. Hún gaf mér ráð: "Það er ekki hættulegt að ferðast ef þú ferð eftir ákveðnum reglum. Ein þeirra er að halda þig í fjölmenni, ekki fara í fáfarnar götur eða útaf alfaraleiðum".

Það var nefnilega það. Hve mikið er til í þessu.

Konan sem ég dvaldi hjá í Þýskalandi heitir Emzy og var frá Ungverjalandi. Fjölskyldan átti gamalt hús við Balatonvatn í Ungverjalandi. Þangað bauð fjölskyldan mér að koma með sér um páskana árið 1985. Þetta boð þáði ég með þökkum.

Emzy átti erindi til Budapest og hún bauð mér að koma með sér þangað. Við komum þangað seinni hluta dags og gistum hjá systur Emzy. Daginn eftir sinnti Emzy erindum sínum, hún keyrði mig fyrst um, sýndi mér borgina og sagði mér ýmislegt. Uppi á hæð nokkurri voru miklar og glæsilegar byggingar. Þar benti Emzy mér að skoða mig um, skildi mig síðan eftir og við mæltum okkur mót aftur.

Ég hóf göngu mína um þetta svæði, þarna voru margir túristar að skoða sig um rétt eins og ég. Ég fylgdi götu sem sífellt varð fáfarnari, áttaði mig skyndilega á að mér var veitt eftirför, þarna voru engir aðrir á ferð en ég og maðurinn sem elti mig. Ég hægði ferðina, maðurinn gerði slíkt hið sama. Ég herti aðeins á mér og maðurinn gerði slíkt hið sama.

Gatan lá í eins konar hlíð og þarna voru engin hús. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds, ég þorði ekki að snúa við, þá hefði ég gengið beint í flasið á manninum, vonaði að þessi vegur lægi eitthvert þar sem fleira fólk væri. Það reyndist ekki vera, vegurinn lá að bílastæði, þar voru að vísu margir bílar en enginn manneskja sjáanleg.

Ég reyndi hvað ég gat að vera ákveðin og yfirveguð í fasi, alltaf fylgdi maðurinn í humátt á eftir mér. Ég var óviss hvernig ég átti að snúa mér á bílastæðinu, gekk einhvern hring og hugðist ganga götuna til baka. Maðurinn náði að króa mig af. Þegar ég sneri mér að honum var hann í u.þ.b. 5 metra fjarlægð og með flett niður um sig, það allra heilagasta var í fullri stærð tilbúið til atlögu. Ég fann krampa þrýstast um magann, taldi möguleika mína til að sleppa enga og ég fann hvernig máttleysi læsti sig um mig alla. Ég var ófær um að hlaupa burt enda hefði það ekkert þýtt, maðurinn hefði verið fljótur að hlaupa mig uppi hefði það verið einbeittur vilji hans.

Ég leit flóttalega til mannsins, hristi höfuðið eins og ég væri að afþakka eitthvað sem hann hefði boðið mér. Ég hraðaði mér burt eins ákveðnum skrefum og mér var unnt. Ég vildi ekki fara of hratt, með því væri ég að gefa hræðslu í skyn, það vildi ég ekki.

Maðurinn fylgdi mér ekki eftir.

Ég gekk götuna til baka og fann fljótt staðinn þar sem ég ætlaði að hitta Emzy. Þar settist ég og beið, ég var miður mín og hafði engan áhuga á að skoða meira. Drjúg stund leið þar til Emzy kom, ég lét sem ekkert hefði í skorist og að ég hefði haft ánægju af að skoða mig þarna um.

Ég sagði Emzy aldrei frá þessu, fannst ég væri að móðga hana með því þar sem þetta gerðist í hennar landi. Mér leið líka eins og ég hefði boðið upp á þetta, velti mikið fyrir mér klæðnaði mínum sem var ekki ögrandi, en samt. Hvernig gat ég vitað hvað karlmönnum þarna fannst ögrandi? Ég var vestræn í útliti og frjálsleg í fasi, það gat boðið hættunni heim að mínu mati. Mér fannst að sökin væri að einhverju leiti mín.

Ég átti margar vinkonur í Þýskalandi frá ýmsum löndum, kannski ekki djúp vinátta en a.m.k. voru þetta stelpur sem ég skrafaði við um ýmislegt. Það liðu nokkrir mánuðir áður en ég loksins sagði einni frá þessu. Ég man að ég átti erfitt með að tjá mig og að það fór hrollur um mig þegar ég gerði það.

Síðar hef ég stundum sagt frá þessu, ég kemst iðulega úr jafnvægi, röddin titrar og ég hálfskelf. Lengi fannst mér ég sjálf bera ábyrgð á þessu einnig að ég ætti ekki að segja frá þessu þar sem þessu fylgdi skömm.

Þarna varð ég ekki fyrir neinu líkamlegu áreiti, samt hafði þessi atburður svona mikil áhrif á mig. Það leið langur tími þar til ég treysti mér til að nefna þetta, ég kenndi sjálfri mér um og enn kemst ég í uppnám þegar ég hugsa um þetta eða segi frá þessu.

Ég skil þögn og sektarkennd þeirra sem verða fyrir raunverulegu kynferðislegu áreiti.


Kennsla í líffræði fyrir sveitabörn

Við vorum í líffræði hjá Sveini. Sveinn var ekki minni sveitamaður en við, einn af þessum orginölum, alinn upp langt norður á Ströndum í sterkum tengslum við náttúruna.

Námsefni dagsins var þroskun lífvera, innlag, miðlag og útlag. Við áttum að læra að líffærin væru inni í holi líkamans. Okkur fannst þetta eitthvað skrýtið og flókið með þroskun lífveranna og hvernig myndun eins konar holrúms inni í okkur gæti átt sér stað.

Sveinn stundi yfir skilningsleysi okkar.

"Þegar þið eruð að hjálpa til við sláturstörf, það er verið að taka innanúr, hvað er svo sagt við ykkur?"

Við horfðum tómum augum á kennarann.

"Jú, réttið mér hnífinn, það er sagt við ykkur þegar þarf að skera þindina".

Það sem Sveinn hafði ekki reiknað með var að vegna mikilla niðurgreiðsla á landbúnaðarvörum á þessum tíma var lítið um heimaslátrun, þetta var því reynsluheimur sem sveitabörn á þessum tíma fóru að einhverju leyti á mis við. Okkur skorti þann grunn sem Sveinn gerði ráð fyrir að við hefðum til að skilja fræðin sem hann var að kenna. 


Þýsk nákvæmni

Ég var í nokkur sumur leiðsögumaður með þýska túrista. Í Varmahlið í Skagafirði var í einhverri ferðinni áð og ég sagði sköruglega í míkrófóninn: "Hér stoppum við í 15-20 mínútur".

Til mín kom einn Þjóðverjinn og spurði ósköp kurteislega: "Hvort meintirðu 15 eða 20 mínútur?"


Aðbúnaður barna á heimavistakólum

Nú hefur verið gerð skýrsla um Breiðavíkurheimilið og í ljós hefur komið að þarna var víða pottur brotinn. Í framhaldi af því hefur vaknað umræða um aðbúnað á öðrum heimilum fyrir börn á þessum tíma. Sjálfsagt er að kanna með hvaða hætti það hefur verið.

Upp hefur einnig komið spurningin hvernig aðbúnaður barna á heimavistaskólum var á þessum tíma. Þar sem ég hef birt minningarbrot frá dvöl minni í einum slíkum skóla langar mig að leggja orð í belg.

Ég vil taka það fram að ég minnist þess ekki að skólastjóri, kennarar eða annað starfsfólk hafi vísvitandi með einum eða öðrum hætti komið illa fram við nemendur. Auðvitað fannst okkur margar reglur einkennilegar og við fengum stundum refsingar eða tiltal þegar þær voru brotnar, það er eðlilegur hluti starfssemi svona staða.

Hitt er svo annað mál að tilhögun starfsseminnar var barn síns tíma og endurspeglaði viðhorf sem heyra sögunni til. Hér nefni ég nokkur dæmi:

Fyrstu árin sem skólinn starfaði voru börn allt niður í 7 ára gömul höfð á heimavist 2 vikur í einu, kennt á laugardögum en frí á sunnudögum. Börnin voru eigi að síður í skólanum. Vegir og samgöngur voru með allt öðrum hætti en nú er, en ég hefði samt haldið að hægt hefði verið að stytta þennan tíma niður í viku mun fyrr en gert var. Þegar það var gert voru börnin sótt á sunnudögum heim og keyrð í skólann til að skólastarf gæti hafist snemma á mánudagsmorgnum. Þetta fyrirkomulag var í nokkur ár, þar til farið var að sækja börnin á mánudagsmorgnum. Í dag finnst mér mjög sérkennilegt að ástæða þótti til að keyra börnin í skólann rétt eftir miðjan dag á sunnudögum til að skóli gæti hafist kl 8 á mánudögum. Líklega tók það 2 klst að keyra þau börn sem áttu um lengstan veg að fara.

Ég man ekki eftir að starfsfólk skólans hefði mikil afskipti af yngstu börnunum. Þau sáu um að búa um rúmin sín (setja lakið á rúmið þegar þau komu í skólann) og allar sínar helstu daglegu athafnir. Ef einhver skældi af heimþrá þá var það bara þannig og ekkert mikið verið að velta sér upp úr því. Enda ekkert við því að gera. Ef einhver var veikur þá var hann bara veikur á sínu herbergi og herbergisfélagarnir sáu oftast um að sækja mat. Ég man ekki til að boðið hafi verið upp á aðra umönnun.

Börn í þessum skóla voru ekki frábrugðin öðrum með það að einelti þreifst ágætlega. Ég minnist ekki neinna aðgerða af skólans hálfu til að bregðast við því eða sporna við því. Líklega er þar tíðarandanum um að kenna, það var ekki búið að finna upp þetta hugtak á þessum tíma.

Mötuneytið var sérstakur kapítuli. Gikksháttur var ekki liðinn, sá sem ekki borðaði matinn sinn var einfaldlega svangur. Ekki flókið. Fjölbreytni var í lágmarki og engu hnikað á matseðli þrátt fyrir hávær mótmæli foreldra og barna. Lapþunni og brimsalti hafragrauturinn er mér þar ofarlega í huga.

Á þessum tíma var ekki í sama mæli litið til þarfa, langana og tilfinninga barna eins og gert er í dag. Mötuneytismaturinn endurspeglaði mikla sparsemi og skipulag komutíma barna skapaðist af erfiðum samgöngum en sömuleiðis litlu hugmyndaflugi í að breyta því eftir hvort það var haust og vor eða snjóþungur vetur. Líklega þótti það ekki skipta öllu máli hvort börnin sváfu 4 eða 5 nætur í skólanum. Fyrir lítið barn sem leið illa í skólanum gat þetta hins vegar skipt máli. Umhyggja og andlegt atlæti starfsfólks endurspeglaði tíðarandann, það var ekki venjan að sýna of mikla tilfinningasemi og umhyggju.

Sjálfri leið mér mjög vel þarna, leiddist aldrei og hlakkaði alltaf til að fara. Það segir hins vegar ekkert um líðan hinna. Margir áttu erfitt með að sofna á kvöldin og stundum var skælt. Þeir sem áttu fáa vini eða urðu fyrir aðkasti áttu ekki sjö dagana sæla.

Mér er ekki kunnugt um neitt sem flokka mætti sem slæma meðferð á börnum eða að starfsfólk hafi á nokkurn hátt misboðið börnunum. Fyrirkomulag starfsseminnar endurspeglaði hins vegar tíðaranda sem hefur sem betur fer breyst.


Mötuneytisfiskur

Mötuneyti Laugagerðisskóla á áttunda áratug seinustu aldar: 

Það var fiskur a.m.k. 2var í viku. Fiskur með hamsatólg og kartöflum. Kartöflurnar voru alltaf afhýddar fyrst og síðan soðnar. Þær voru teknar úr pottinum og bornar á borðið, löngu áður en okkur var hleypt í matsalinn. Líka hamsatólgin. Fiskurinn var borinn inn seinast, bara rétt áður en það var opnað fyrir okkur. Það var ekki búið að finna upp grænmeti á þessum árum.

Við streymdum inn í eins ólögulegri röð og við komumst upp með. Settumst og fengum okkur á diskana. Kartöflur og fisk. Hamsatólgin var aðeins farin að hvítna. Við fengum okkur engu að síður af henni og hvít skán myndaðist yfir allan fiskinn.

Þetta fór nú samt upp í okkur, hamsatólgin klesstist við góminn. Við hörkuðum af okkur því ofan í sum okkar hafði farið lítið af morgunmat. Eitthvað af fiskinum komst alla leið. Sjaldan mikið. Skrítið hvað þessi sveitabörn voru lítið fyrir fisk.


Íþróttir

Húsnæði Laugagerðisskóla gerði ekki ráð fyrir að kenndar væru íþróttir. Kompa í kjallaranum var samt kölluð "íþróttasalurinn". Þessi kompa var við hliðina á smíðastofunni og seinni hluta vikunnar var smíðastofan stækkuð og "íþróttasalurinn" notaður til að stækka smíðastofuna. Fyrri hluta vikunnar voru kenndar "íþróttir". Í byrjun hverrar viku var svo sagið dustað af íþróttadýnunum, þeim rúllað út og kennslan gat hafist.

Þessi salur var nægilega stór til að yngri börnin gætu farið þar í kollhnís. Stærri slánar náðu því tæplega fyrir þrengslum. Ekki var það nú mikið meira sem við lærðum í íþróttum í þessum sal.

Ekki man ég eftir að íþróttir hafi verið kenndar utanhúss. Ekki einu sinni að liðinu hafi verið stuggað út á fótboltavöll en þann vettvang forðaðist ég eins og heitan eldinn, myndi muna ef ég hefði verið skikkuð til að spila fótbolta. Finnst það reyndar eftir á einkennilegt að útisvæðið hafi ekkert verið notað til íþróttakennslu.

Við fórum reyndar mikið í sund, en sú aðstaða var ágæt.

Seinna var ákveðið að keyra eldri börnin í samkomuhúsið að Breiðabliki og nota það til íþróttakennslu. Þá var hægt að láta liðið hlaupa og hita upp. Allir þurftu að eignast íþróttafatnað og íþróttagallar úr gerviefni, eldrauðir með hvítum röndum á hliðinni, voru keyptir á allt liðið. Allir í stíl. Svo var skríllinn látinn svitna.

Eftir íþróttirnar var reynt að fara í sturtu. Sjaldnast var það hægt því krafturinn á vatninu var sjaldnast nógu mikill til að sturturnar á stelpnavistinni virkuðu. Ég man að við vorum eitthvað að fjargviðrast yfir þessu en þetta þótti ekki skipta neitt miklu máli. Sveitafólk hafði nú svitnað áður án þess að þurfa að baða sig strax á eftir.


Minningarbrot - Böll

Við erum aftur komin í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi (eftir dálítið hlé).

Það voru oft böll á fimmtudögum. Lög með Slade og Nasareth voru vinsæl. Mest var varið í þetta ef "heimkeyrslan" fékk að vera með, þá stækkaði nú úrvalið til að dansa við.

Hver skyldi nú "vanga" við hvern? Endalaus spenna var í að fylgjast með því. Eða að velta því fyrir sér hvort maður ætti að þora................

Mesta fjörið var samt á kókballinu. Það var einu sinni á ári, í matsalnum. Þá var meira að segja hægt að kaupa kók. Stundum var meira að segja dubbað upp í skólahljómsveit sem spilaði. ´

Ég man enn eftir einni hljómsveitinni, þeir spiluðu lag sem hljómaði eitthvað á þessa leið "Daddy don´t live in New York City no more", hafði aldrei heyrt það áður og held ekki síðan, man bara eftir þessum frasa. Þeir voru bara nokkuð flinkir. Mig minnir að í hljómsveitinni hafi verið: Jónas, Atli, Skúli (allt strákar tengdir kennaraliðinu) og Valgeir frændi minn frá Miklaholti. Þeir voru bara ótrúlega góðir.

Ein saga þessu tengt ætti að vera bönnuð börnum þeirra sem voru í þessum skóla. Læt hana flakka þar sem ég tek ekki líklegt að þessi börn hafi áhuga á bloggi miðaldra kvenna.

Einhver kom þeirri sögu af stað að magnyl í kók ylli ölvunarástandi. Því varð það tískubylgja að hrúga magnyltöflum í kókflöskurnar. Ölvunarástand eða ímyndunarölvunarástand náðist í stöku tilfellum. Þessu fylgdi svo tilheyrandi veikindi og uppköst. Já, já, allur pakkinn. Ég er ekkert viss um að skemmtunin hafi verið eitthvað meiri fyrir vikið, það þurfti bara að prófa. Enda var þessi aldur mjög gjarn á tilraunastarfssemi, og er enn.


Befreiung eða befriedigung - hver er munurinn?

kelheim-altmuehltal-sehenswertes-ausflugsziele-befreiungshalle-treppeFyrir mörgum árum var ég ung. Merkilegt nok. Dvaldi í Munchen Þýskalandi í eitt ár og hafði þann starfa að þrífa skít undan þýskri millistétt. Skemmti mér einnig konunglega við ýmislegt. Eignaðist vinkonur frá mörgum löndum og saman brölluðum við margt.

Eina helgina fór ég með franskri vinkonu minni Valerie og þýskum vini hennar og skoðuðum stað sem heitir Befreiungshalle. Þetta er nokkurskonar minnismerki um sigra sem Bæjarar unnu í styrjöldum á 19. öld.

Þegar við höfðum lokið við að skoða herlegheitin fórum við aftur í bílinn. Þá sagði ég stundarhátt og eins gáfulega og mér var unnt: "Und das var die Befriedigungshalle".

Valerie og vinurinn sprungu úr hlátri. Það tók mig margar vikur að átta mig á hvað ég hafði sagt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband