Færsluflokkur: Gamlar sögur

Ferð um gömlu Sovét 5. kafli

Þetta er framhald af ferðasögu minni um gömlu Sovétríkin. Hér má sjá 1. kafla, 2. kafla, 3. kafla og 4. kafla.

Eftir viðburðaríka dvöl í Kiev, var komið að því að skoða Odessa. Sú borg kom mér mun meira aðlaðandi fyrir sjónir en sérstaklega Leningrad sem var verulega fátækleg en einnig var Kiev frekar grá. Í Odessa voru kaffihús og lifandi mannlíf á götum. Rússneska leiðsögukonan skýrði þetta með því að mun meiri matvælaframleiðsla væri þarna sunnar, nauðþurftir bárust illa norður til Leningrad og skýrði það mun meiri fátækt fólksins þar. Vörurýrnun í flutningum var verulegt vandamál og spilling í öllu kerfi var grasserandi.

Frá Odessa lá leiðin til Moskvu. Moskvu minnist ég helst vegna mikillar mengunar, öll föt urðu strax grá af sóti. Einnig er mér Rauða torgið minnisstætt og ekki síst grafhýsi Leníns, þar lá karlinn smurður og fínn, sá það með eigin augum.

Frá Moskvu flugum við svo til baka til Kaupmannahafnar. Við Sigrún vorum örlítið spenntar að vita hvort við myndum lenda í einhverri athugun eða yfirheyrslu vegna pappírsins sem festur var við landvistaleyfið hennar og bókstafsins sem skrifaður var á mitt. Svo reyndist ekki vera.

Flugið var seint á föstudagskvöldi. Í vélinni fór ég að finna fyrir miklum magaverkjum og vott af ógleði. Maturinn sem við fengum í Sovét var ekki það mest kræsilega sem ég hef fengið um dagana. Allt drykkjarvatn var soðið og við drukkum mikið te. Mig grunaði að þessir verkir tengdust matnum eða drykkjarföngum.

Á Kastrup tóku ættingjar Sigrúnar á móti okkur en við fengum að gista hjá frænku hennar sem bjó í Kaupmannahöfn. Við ætluðum að dvelja þarna í nokkra daga og skoða okkur um, heimferð var áætluð á miðvikudegi, á fimmtudegi var 1. september og þá átti ég að mæta í fyrsta skipti á nýjan vinnustað, Blóðbankann.

Á Laugardeginum fórum við í ferð að einhverjum kastala og um kvöldið í Tivoli. Ég var alltaf með þessa magaverki og ætlaði ekki að komast heim með lestinni um kvöldið, gat varla gengið. Sigrún er hið mesta hörkutól og var augljóst að henni fannst ég fullaum. Á sunnudagsmorgun var ég algerlega að farast, frænkan gaf mér gammel dansk en allt kom fyrir ekki. Þar kom að Sigrún yfirheyrði mig um verkina og kom þá í ljós að þeir voru mestir í botnlangastað. Ég var flutt á spítala og skorin upp um kvöldið við botnlangabólgu.

Ég get enn þann dag í dag ekki hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst ef þetta botnlangakast mitt hefði orðið tveim dögum fyrr, í Moskvu.

Sigrún var á þessum tíma í námi í sjúkraþjálfun og var hún dugleg að koma mér fram úr rúminu strax á mánudag, ég þurfti að verða ferðafær á miðvikudag. Ég man að ég var aum eftir uppskurðinn og gat varla gengið.

Frænkan hjálpaði Sigrúnu að panta hjólastól á Kastrup þannig að ég þyrfti ekki að ganga alla flugstöðina. Við mættum tímanlega á flugvöllinn en þegar þangað kom var þar enginn hjólastóll. Við tékkuðum farangurinn inn og biðum........og biðum. Á skjá mátti sjá að farið var að hleypa inn í flugvélina. Þolinmæði okkar var á þrotum og á endanum fékkst stóll. Starfskona á vellinum keyrði stólinn og Sigrún fylgdi með. Á leiðinni að vélinni sást á skjá: "Gate closed" fyrir okkar vél. Svitinn bogaði af Sigrúnu því hún var með þungar töskur í handfarangri. SAS konan sem keyrði stólinn minn var ekki ánægð með þá þjónustu sem við höfðum fengið.

Þegar við komum að vélinni var beðið eftir okkur þar sem farangurinn var þegar kominn. Enn og aftur slapp ég með skrekkinn.

Þegar til Keflavíkur kom var ég fær um að ganga með því að liggja framá töskugrindina. Ég man eftir tortryggnissvip tollvarðanna þegar ég gekk þar framhjá, náföl og liggjandi fram á grindina.

"Nei, ekki taka mig, ég nenni þessu ekki", hugsaði ég. Það dugði, þeir hleyptu mér í gegn.

Ég hafði þurft að hringja heim og biðja systur mína um að hringja í nýju yfirmenn mína og tilkynna að ég myndi ekki mæta í vinnu fyrsta vinnudaginn minn. Það leit ekki vel út að byrja í nýrri vinnu með því að tilkynna veikindi.

Þessi ferðasaga hófst með því að ég keypti mér tvo vinstrifótarskó. Ferðin sjálf var bráðskemmtileg en það má segja að hver vinstrifótaruppákoman hafi rekið aðra. Því segi ég það að hendi það mig aftur að kaupa tvo vinstrifótarskó þá ætla ég að halda mig í rúminu í nokkra daga.

Kveikjan að því að ég settist niður til að skrifa þessar minningar var að nú í september eru 20 ár síðan ég byrjaði að vinna í Blóðbankanum, þegar ég minntist þess rifjaðist þessi ferð upp fyrir mér. Ég er enn að vinna í Blóðbankanum, þó ekki samfellt allan tíman þar sem ég var fjögur og hálft ár á öðrum vinnustað.


Ferð um gömlu Sovét 4. kafli

Þetta er framhald af ferðasögu minni um gömlu Sovétríkin. Hér má sjá 1. kafla, 2. kafla og 3. kafla.

Karlarnir með löggubeltin tóku okkur Sigrúnu og leiddu okkur inn á hótelið. Okkur var báðum strax ljóst að við vorum grunaðar um svartamarkaðsbrask. Hversu vel við skynjuðum alvöruna er ég ekki viss. Ég man að innst inni trúði ég ekki að neitt alvarlegt gæti gerst, ég var 24 ára og það er einhvern veginn í eðli ungs fólks að gera sér illa grein fyrir hættum í umhverfinu.

Á hótelinu var lögreglan með aðstöðu í nokkuð stóru herbergi. Þeir byrjuðu strax að yfirheyra okkur á rússnesku en við skildum ekki neitt. Fljótlega komu hollenski fararstjórinn og rússneska leiðsögukonan. Ég held að ferðafélagar okkar hafi séð í hvaða félagsskap við vorum komnar og látið þau vita. Við Sigrún sáum strax á svip þeirra að málið var grafalvarlegt.

Sigrún hafði skipt peningum á svörtum markaði fyrr í ferðinni. Hún var með meira af rúblum en magn dollaranna sem hún kom með inn í landið gaf til kynna. Slíkt var lögbrot, okkur var það báðum ljóst. Ég gerði mér grein fyrir að taugar Sigrúnar væru mun meira þandar en mínar. Það varð með okkur þegjandi samkomulag um að ég hefði orð fyrir okkur þar sem ég var í meira jafnvægi. Við gátum að sjálfsögðu ekki rætt þetta þarna en síðar kom í ljós að við hugsuðum nákvæmlega það sama þ.e. að það væri betra að ég hefði orð fyrir okkur.

Þá hófst yfirheyrslan. Mig minnir að fararstjórinn og leiðsögukonan hafi túlkað fyrir okkur, þó held ég að einhver frá lögreglunni hafi haft einhverja enskukunnáttu. Spurningarnar snerust um hvað við hefðum verið að gera þarna í þessum bakgarði. Við þóttumst bara hafa verið að skoða okkur um og könnuðumst ekkert við að hafa hitt einhverja drengi. Eitthvað sýndist mér löggan lítið trúuð á þessa söguskýringu.

Þegar ekkert gekk með að fá okkur til að játa glæpinn (sem enn var ósýnilegur) vorum við beðnar að sýna þeim hvað við værum með í handtöskunum okkar. Okkur rann kalt vatn milli skinns og hörunds því þarna nálguðust þeir miðann með yfirlitinu yfir peningana. Ég var búin að setja í handtöskuna mína ýmislegt sem ég ætlaði að hafa við höndina í lestinni til Odessa. Ég tók einn hlut í einu upp úr töskunni, lýsti hvaða hlutur þetta væri og til hvers ég notaði hann, bara til að treina tímann. Þetta var absúrd sena og löggan skynjaði það og brast þolinmæði.

"Sýndu okkur peningana þína og miðann með yfirlitinu" skipuðu þeir.

"Þar kom að því" hugsuðum við báðar og ég man að ég fraus eitt augnablik. Ég náði þó fljótt áttum og dró upp það sem ég var með, allt slétt og fellt, dollararnir mínir og upplýsingarnar á miðanum um peningaviðskipti mín í Sovétríkjunum stemmdu. Þar með misstu þeir alveg áhugann á Sigrúnu og hún var ekki spurð út í sín viðskipti, mér er enn óskiljanlegt hvaða lukka var yfir henni.

Í miðri yfirheyrslunni komu tveir lögreglumenn með einn af strákunum inn í herbergið, við vorum spurðar hvort við könnuðumst við strákinn, við neituðum. Strákurinn var með bolinn hennar Sigrúnar í bakpokanum sínum og aðspurð játaði Sigrún að eiga bolinn. Þar með var fæddur glæpur.

Hvernig gat strákur sem við könnuðumst ekki við verið með fatnað af Sigrúnu? Þetta þarfnaðist frekari yfirheyrslna og skýringa enda örugglega kolólöglegt.

Eftir töluvert þras og vesen gafst löggan upp á frekari yfirheyrslum. Stóri glæpurinn fannst ekki. Sigrún þurfti hins vegar að skrifa undir skjal sem hljóðaði eitthvað á þessa leið:

T-bolur með áletruninni "(skrifað var hvaða enska áletrun var á bolnum)" fannst í fórum (nafn stráksins) sem ég þekki ekki.

Þessi pappír var síðan festur við landvistarleyfi Sigrúnar til merkis um brot hennar. Á landvistarleyfið mitt var skrifaður áberandi bókstafur í eitt hornið. Hvað hann þýddi fékk ég engar skýringar á.

Með þetta sluppum við úr yfirheyrsluherberginu. Rútan sem átti að flytja okkur á lestastöðina var mætt fyrir utan hótelið þegar við komum út. Það mátti ekki mikið tæpara standa með að við misstum af lestinni til Odessa. Mikið varð ég fegin þegar lestin rann úr af lestastöðinni í Kiev, við vorum sloppnar.

Framhald síðar, hér er 5. kafli.


Ferð um gömlu Sovét - 3. kafli

Þetta er 3. kafli ferðasögu minnar um gömlu Sovét en sjá má 1. kafla hér og 2. kafla hér.

Ég hljóp eftir ganginum í flugstöðinni í Keflavík og átta mig á því að ég er með bíllykilinn í hendinni. Um mig rann kaldur sviti, voru engin takmörk fyrir óheppni minni þennan sólarhringinn? Ég hafði engan tíma til að hugsa þar sem vélin var við það að fara í loftið, ég sneri mér að næsta starfsmanni, sagði honum að í innritunarsalnum væri örugglega pirraður maður og hann ætti að fá þennan bíllykil. Að þessu loknu dreif ég mig í flugvélina.

Á Kastrup tók Sigrún á móti mér. Það urðu fagnaðarfundir þar sem við höfðum ekki sést síðan um vorið. Hún hafði verið í Kristianssand í Noregi um sumarið og hafði frá ýmsu að segja. Ég man enn eftir svipnum á henni þegar ég sagði henni hversu litlu hefði munað að ég missti af fluginu........og hún hefði þá ekki fengið ferðagögnin sín.

Daginn eftir mættum við aftur á Kastrupflugvöll, þar hittum við ferðafélagana sem voru víða að. Mig minnir að fararstjórinn hafi verið hollenskur en ég man ómögulega hvað hann hét. Þegar við komum til Sovétríkjanna tók á móti okkur kona sem mig minnir að hafi átt heima í Kiev og hún var síðan leiðsögumaður fyrir okkur allan tímann.

Hópurinn flaug saman til Leningrad. Í flugvélinni fengum við miða þar sem við áttum að skrá hversu mikla peninga við værum með á okkur þegar við fórum inn í landið. Ég held að allir hafi verið með dollara en þeim gat maður síðan skipt yfir í rúblur þegar við komum inn í landið. Í hvert skipti sem maður skipti dollurum í banka var það bókað á þennan miða sem við fengum í flugvélinni. Það var einnig hægt að skipta á svörtum markaði en það var mun hagstæðara og var hægt að fá fjórum sinnum meira í rúblum þannig heldur en með því að skipta löglega. Þá var hins vegar ekkert skráð á miðann og gat maður þá verið með á sér mun fleiri rúblur en opinbert virði dollaranna sem maður kom með inn í landið. Slíkt var algerlega ólöglegt.

Það var freistandi að skipta á svörtum markaði. Við vorum reyndar búin að borga bæði fæði og gistingu, það var innifalið í ferðinni. Því voru það ekki stórar upphæðir sem þetta snerist um. Kerfið virtist allt stíft og strangt og mér stóð stuggur af því. Sigrún var kaldari, bandarískur strákur sem var með okkur í ferðinni skipti fyrir hana nokkrum dollurum á svörtum. Hún var því með á sér mun fleiri rúblur en dollararnir sem hún kom með inn í landið gerðu ráð fyrir.

Við vorum fyrst nokkra daga í Leningrad. Ég man að mér fannst borgin óskaplega grá og köld í útliti. Verslanir voru tómar og kaffihús minntu helst á frystihús. Frá Leningrad flugum við til Kiev.

Fyrir utan hótelið sem við dvöldumst á í Kiev héngu nokkrir strákar. Við Sigrún spjölluðum við þá og ég man að við fórum með þeim á diskótek. Það var gaman að rabba við þá og forvitnast um þeirra hagi. Okkur fannst hins vegar mjög sérstakt hversu varir þeir voru um sig og þorðu ekki að segja okkur neitt nema þeir væru vissir um að það væri enginn að fylgjast með þeim eða að hlera. Þeir voru sífellt að kíkja í kringum sig hvort einhver væri að njósna um þá.

Strákarnir voru spenntir fyrir vestrænum klæðnaði, Levis gallabuxur var það alflottasta, næstflottast voru bolir með enskum áletrunum. Við Sigrún áttum engar Levis buxur en við vorum í bolum með einhverjum áletrunum. Okkur langaði líka í boli með rússneskum áletrunum því varð það að samkomulagi að við myndum skipta við strákana á bolum.

Ekki vildu strákarnir gera það á hóteltröppunum. Við áttum að hitta þá í bakgarði stutt frá hótelinu á tilteknum tíma, rétt eftir kvöldmat seinasta daginn okkar í Kiev, seinna um kvöldið átti allur hópurinn að taka næturlest til Odessa við Svartahaf.

Strákarnir voru stundvísir. Við drógum upp okkar boli, þeir drógu upp sína og gagnkvæm skoðun hófst. Skyndilega tóku strákarnir á rás og hlupu hver í sína áttina, einn þeirra tók bol frá Sigrúnu með sér. Við botnuðum ekki neitt í neinu hvað komið hefði fyrir, datt helst í hug að þarna hefðu þeir náð að plata okkur.

Við ákváðum að rölta til baka heim á hótel enda stutt í brottför hópsins á lestastöðina til að taka lestina til Odessa. Við gengum rólega eftir göngustíg og urðum skyndilega varar við að tveir menn veittu okkur eftirför. Þegar við nálguðumst hótelið voru þeir þétt upp við sitthvora hliðina okkar. Við ákváðum að ganga löturhægt, þeir einnig. Þeir ávörpuðu okkur á rússnesku og við hristum höfuðið. Þá tóku þeir um beltið á sér og sýndu okkur lögreglumerki.

Við vorum teknar fastar.

Framhald síðar, hér er 4. kafli.


Ferð um gömlu Sovét - 2. Kafli

Þetta er framhald af fyrri færslu, 1. kafli er hér.

Ég bölvaði vinstrifótaskónum í hljóði, tók gömlu skóna og stillti þeim upp, tilbúnum í ferðina. Vissi að þeir væru óþægilegir í túristaráp, einnig að það væri ólíklegt að ég gæti keypt góða skó í Sovét. Ég gretti mig í hljóði.

Morguninn eftir átti ég bókað flug til Kaupmannahafnar, það var mæting í flugið kl 7.00, brottför kl 8.00. Þetta var fyrir þann tíma að almennir borgarar voru álitnir stórhættulegir í áætlunarflugi.

Ég var nýlega byrjuð að sofa hjá núverandi eiginmanni mínum. Nóttina fyrir ferðina gisti ég hjá honum enda var ég svo til húsnæðislaus á þessum tíma. Þessi elska ætlaði svo að keyra mig til Keflavíkur tímanlega í flugið. Tvær vekjaraklukkur voru stilltar, svona til öryggis.

Á mínútunni 7.00 vöknuðum við upp með andfælum.........í Breiðholti. Það tekur 45 mínútur að keyra til Keflavíkur........að lágmarki. Við hringdum í Flugleiðir, það var mögulegt að fluginu hefði seinkað. Nei, ekki aldeilis, vélin var á tíma.

Við drifum okkur í bílinn sem var gömul Ford Fiesta. Vélin var þanin til hins ýtrasta á Keflavíkurveginum. Darri vann á þessum tíma hjá Flugleiðum og kunni flugáætlunina utanað. Á leiðinni til Keflavíkur þuldi hann áætlunina, kl 9.00 væri vél á leið til London, ég gæti þó alltaf tekið hana.

"Ég er á leiðinni til Kaupmannahafnar, ekki til London", urraði ég.

"Það er alltaf hægt að komast frá London til Kaupmannahafnar" sagði Darri hinn rólegasti.

Fyrir mig sem þá var bara fátækur námsmaður hafði þessi ferð kostað hvítuna úr augunum á mér. Farseðill frá Íslandi til London og þaðan til Kaupmannahafnar var bara umfram það sem ég gat hugsað mér að punga út fyrir. Þar fyrir utan átti ég ekki greiðslukort og sá engan möguleika á að fjármagna þessi flugmiðakaup. Það sem mér fannst alverst var að ég var með öll ferðagögn Sigrúnar vinkonu minnar, vegna Sovétferðarinnar. Ég var í djúpum........

Klukkan var 7.50 þegar við lögðum fyrir utan flugstöðina. Darri þaut inn til að kanna hvort hægt væri að væla mig inn í flugið. Ég tók töskurnar og læsti bílnum.

Eins og áður sagði þá var þetta áður en flugfarþegar almennt voru álitnir skaðræðislið. Ég slapp í gegn, farangurinn tékkaður inn og ég hljóp í gegnum vegabréfaskoðun og eftir ganginum í flugstöðinni í átt að réttum rana.

Þegar ég nálgaðist rétt hlið áttaði ég mig á hvað ég var með í hendinni.

BÍLLYKILLINN!

Framhald síðar, hér er 3. kafli.


Ferð um gömlu Sovét - 1. Kafli

Sumarið 1988 fór ég ásamt Sigrúnu Völu vinkonu minni í ferð um Sovétríkin fyrrverandi. Ferðina fórum við með erlendri ferðaskrifstofu í gegnum ferðaskrifstofu stúdenta. Við heimsóttum 4 borgir, Leningrad, Kiev, Odessa og Moskvu. Til að komast inn í landið þurftum við með nokkurra vikna fyrirvara að sækja um visa hjá sovéska sendiráðinu og passa upp á það eins og lög gera ráð fyrir. Ferðin hófst á Kastrupflugvelli í Kaupmannahöfn þar sem við hittum fararstjórann sem var hollenskur að mig minnir og ferðafélagana sem voru frá mörgum löndum, margir bandarískir.

Sigrún var í vinnu í Noregi þetta sumar en ég átti bókaðan miða til Kaupmannahafnar degi fyrir Rússlandsferðina og ætlaði Sigrún að taka á móti mér á Kastrup. Ég ætlaði að vera með alla hennar pappíra, farseðil og visa.

Daginn fyrir ferðina fór ég í bæinn og keypti mér þægilega skó til að vera í á ferðalaginu. Þegar ég svo var að pakka niður um kvöldið tók ég skóna upp úr kassanum og skoðaði. Þeir reyndust vera báðir á vinstri fót.

Síðan hef ég sagt: "Ef þið kaupið skópar þar sem báðir skórnir reynast vera á vinstri fót þá..........VARÚÐ!"

Framhald síðar, hér er 2. kafli.


Afi og amma

afiogamma

Rætur okkar liggja hjá forfeðrunum, það er okkur hollt að minnast þeirra með reglubundnum hætti, minnast kjara þeirra og aðbúnaðar sem var slíkur að okkur er ómögulegt að skilja eða skynja með hvaða hætti þau náðu að koma fjölda barna upp. Lífið var daglegt amstur og frítími var hugtak sem þeim var ókunnugt.

Ég man að amma minntist þess að hafa farið frá Hjarðarfelli þar sem hún þá bjó, í reiðtúr inn á fjall, þannig að hún sá yfir á láglendið að norðanverðu Snæfellsnesi. Það var í hennar huga mikið ferðalag, mikil tilbreyting í lífi þess tíma.

Myndin hér að ofan er af afa mínum Alexander Guðbjartssyni og ömmu minni Kristjönu Bjarnadóttur. Þessi mynd er líklega tekin árið 1938 eða 1939. Þau áttu þá þegar 4 börn, 5 voru ófædd.

Í sumar munu afkomendur þeirra hittast og minnast þeirra. Þau og þeirra kynslóð lagði grunninn að því velferðarkerfi sem við lifum við í dag. Þau skildu nauðsyn þess að leggja fyrir þegar vel áraði til að lifa af þegar harðnaði á dalnum. Þau skildu líka nauðsyn samfélagslegrar samhjálpar.

Það er langt síðan það var hart í ári hjá okkur, einhvers staðar á leiðinni höfum við glatað þessum skilningi.


Spilaði og söng

Í heimavistaskólanum Laugargerði á Snæfellsnesi vissum við stundum ekki alveg hvað við ættum að gera af okkur á kvöldin, rétt eins og algengt er með unglinga allra tíma. Við söfnuðumst saman á einhverju herberginu, stelpurnar oftast á herbergi 314. Hrúguðumst þar, setið þétt í hverri koju, líka í þeim efri. Það kom fyrir að svo margir væru þarna saman komnir að einnig væri setið í glugganum.

Ólína tók gítarinn og byrjaði að spila, "Um sólsetur í fjörunni", "Híf op æpti karlinn", "Þýtur í laufi" og mörg fleiri lög. Það varð vinsælt að skrifa textana upp í stílabækur og læra þá utanað.

Svona gátum við setið og sungið heilu kvöldin, allir textar á hreinu, flottast var þegar einhverjar gátu raddað lögin, stundum var dundað sér við það.

Það er farið að fenna í minniskubbin þar sem textarnir eru geymdir. Það var sannreynt um helgina, Ólína með gítarinn, Erna og Elín með hringlur, hristur og trommur. Textarnir runnu ekki eins ljúflega upp úr okkur og áður, stundum þurftum við að humma laglínuna. Frekar pínlegt, eins og við kunnum þetta einu sinni vel.

Það er ljóst að það þarf að hressa upp á textakunnáttuna hjá okkur.


Er magn ávísun á gæði?

Ég bjó sem barn við það sem í dag væri kallað skert skólaganga. Skólaganga mín var þannig:

  • 7 ára fór ég í skólann fyrst 10 daga að hausti og síðan 5 daga að vori.
  • 8 ára fór ég í skólann 4 sinnum, ýmist í viku eða hálfan mánuð í senn.
  • 9-12 ára var ég í skólanum aðra hverja viku, 5 daga í senn.
  • 13-15 ára var ég í skólanum hverja viku, 5 daga í senn en fór heim um helgar.

Venjulega hófst skóli seinast í september og honum lauk um miðjan maí. 

Við bekkjarsystkinin vorum eins misjafnir námsmenn og við vorum mörg en árangur okkar í lokaprófum (samræmdum) í 9. bekk var yfir landsmeðaltali í öllum greinum, einnig í öllum prófþáttunum var okkur sagt.

Jafnaldrar okkar sem tóku þessi sömu próf höfðu langflest mun meiri skólagöngu á bak við sig. Einhverjir sveitamenn voru svipað staddir og við, en það var eingöngu brot af árganginum.

Ég hef oft spurt mig hvort árangur okkar hafi verið svona góður af því að við vorum ekki meira í skólanum eða þrátt fyrir skerta skólagöngu.

Er magn alltaf ávísun á gæði?


Sundlaugin

Enn og aftur erum við í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi, rétt fyrir 1980. 

Sundlaugin var fyrir okkur eins konar félagsmiðstöð. Það var mjög vinsælt að fá kennarann sem var á vakt til að opna sundlaugina og leyfa okkur að eyða kvöldinu í lauginni. Sérstaklega var þetta vinsælt á vorin og man ég að við fórum stundum í sund mörgum sinnum sama daginn.

Við ærsluðumst oft í djúpu lauginni. Einhverju sinni var símastaur komið fyrir á tunnum sitt hvoru megin við laugina og farið í koddaslag á honum á sumardaginn fyrsta. Lengi á eftir var staurinn þarna og það var mikið sport að leika sér að ganga þvert yfir laugina eftir staurnum, jafnvel að stinga sér ofaní laugina af honum.

Sundlaugin var 25m löng, það hefur verið mikill stórhugur í fólki þegar ákveðið var að byggja hana, mörgum árum áður en skólinn var byggður. Mínar heimildir segja að hún hafi verið byggð árið 1948.

Stundum var laugin köld og yfir háveturinn var hún lokuð. Það þótti hins vegar oft mikið fjör og hetjuskapur að velta sér upp úr snjónum og stökkva út í ef svo bar undir.

Búningsaðstaðan var hins vegar ákaflega döpur og hélt hvorki vatni né vindum. Ég man hve kalt það var oft að skipta um föt.

Drengirnir notfærðu sér pjáturslegt byggingalagið. Þeir fundu leið til að skríða upp á loftið og boruðu gat í einangrunina. Það gat var auðvitað ekki staðsett af tilviljun heldur beint yfir búningsklefa stelpnanna. Það var annars merkilegt hvað það tók okkur stelpurnar langan tíma að átta okkur á þessari götun drengjanna. Eftir að við vissum af gatinu var ákveðið svæði í klefanum sem enginn okkar vildi nota. Ég minnist hins vegar ekki að það hafi verið gert við gatið, líklega verið skortur á verkfærum og spýtum í sveitinni.

Laugin var ekki útbúin með sjálfhreinsibúnaði, stundum varð hún alveg skelfilega slímug. Þá var smalað saman sjálfboðaliðum úr hópi nemenda, þeir klæddust druslufötum og voru vopnaðir kústum. Einhver hetjan kafaði niður á botn djúpu laugarinnar og tók tappann úr. Síðan var hafist handa við skrúbbið. Það var mikil vinna en gríðarlegt fjör. Það hvarflaði ekki að okkur að hætta í miðju verki, vera með hálfkák eða krefjast launa. Þetta var einfaldlega verk sem þurfti að vinna. Þannig var hugsun okkar.


Selveiðar

Á hverju vori veiddi pabbi sel. Lítill árabátur var notaður við veiðina og net voru lögð. Netin héngu þess á milli hátt uppi á krók í skemmunni. Það þurfti að tryggja að þau væru með réttri möskvastærð og gera við göt sem höfðu myndast árið áður. Þau voru lögð út á grasflötina við íbúðarhúsið. Ég lærði snemma að hnýta netahnúta og að hjálpa til við viðgerðina.

gera við net 

Korkhringir sem ráku á fjörurnar voru sagaðir niður, gerð göt í þá og bútarnir festir á netin með reglulegu millibili. Svo var farið upp í holt og leitað að heppilegum steinum til að setja í neðri hluta netanna. Steinarnir þurftu að vera aflangir, þannig að hægt væri að bregða bandi um þá svo það héldi.

Ekki var hægt að fara á litlum árabát í skerin í hvað veðri sem var, brimið í sunnanáttinni var of mikið til að á það væri hættandi, ef norðanáttin var of hvöss gat undiraldan verið kröpp.

Vandlega var fylgst með veðurfréttum. Um leið og veðurspáín gaf vonir um hagstætt veður var lagt af stað. Báturinn settur á heykló aftan á dráttarvél. Önnur dráttarvél var með vagn aftan í með netin, steinana og hlunna. Keyrt var fram nesið eins langt og hægt var að komast, bátnum bakkað í flæðarmálið, netum og steinum hlaðið í hann og ýtt á flot.

Oftast réri Gunnar í Borgarholti með pabba. Nokkrum sinnum fengum við Erna að fara með að leggja netin, það var yfirleitt gert að degi til en vitjað um að nóttu.

Skerin eru þrjú, Staðasker, Bullusker og Stakkhamarssker. Það var mér kappsmál að geta róið með körlunum. Líklega voru áratökin ekki eins öflug og mér finnst í minningunni. Ég man ekki hversu mörg netin voru, líklega á bilinu 5-7. Það var vandi að halda bátnum kyrrum meðan netin voru lögð því aldan var töluverð upp við skerin. Hlutverk liðléttinganna var að finna steina og festa á netin jafnóðum og þau voru lögð. Pabbi lagði netin og Gunnar var á árunum.

Selveiði

Áður en netin voru lögð var reynt að ná einhverjum kópum í skerinu. Þá var hægt að blóðga þá og þannig mögulegt að nýta kjötið. Selkjötið var soðið og yfirleitt bara borðað með kartöflum og uppstúf. Ég man það var dökkrautt og bragðaðist ágætlega.

Á hverju ári voru veiddir svona 20-40 kópar. Skinnin voru verðmæt og þetta voru töluverð hlunnindi. Pabbi fláði selinn og skóf skinnin. Mamma þvoði skinnin svo í gömlu þvottavélinni og síðan voru þau spítt upp á timburþil í fjárhúsunum. Eftir nokkrar vikur voru þau tilbúin og lögð inn í Kaupfélagið, nema hvað.

Svo kom Brigitte Bardot. Líklega taldi hún fatnað úr gerviefnum umhverfisvænni en selskinn. A.m.k. var hún ekki hrifinn af selskinnsfatnaði og var í herferð gegn þessum veiðum. Skinnin lækkuðu í verði og  selveiðin lagðist af.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband