Færsluflokkur: Gamlar sögur
21.11.2007 | 22:09
Björgunarafrek
Fyrir nokkrum árum varð hörmulegt drukknunarslys í sundlauginni að Skógum undir Eyjafjöllum. Ósyndur útlendingur missti fótana í lauginni og drukknaði. Stuttu síðar varð slys í sundlauginni á Tálknafirði þar sem sundlaugagestur (mig minnir útlendingur) var hætt kominn.
Ég varð í framhaldi af þessum fréttum dálítið upptekin af þessum slysum, sundlaugar eru varasamar. Ég átti lítil börn, líklega 5 og 7 ára. Þau þekktu ekki vatnshræðslu og voru miklir glannar í sundlaugum, það gekk oft mikið á. Þau þurftu stöðuga gæslu, mesta fjörið var að kafa eftir hlutum á botni djúpu laugarinnar. Yngra barnið, stúlka, var ósynd en ég veiddi hana bara upp úr þegar mér fannst hún vera búin að vera nógu lengi niðri. Ég var alltaf með sundgleraugu og fylgdist vel með þeim en var samt stanslaust á nálum um að eitthvað kæmi fyrir.
Svo var það einu sinni í sundlauginni í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Við erum að leika okkur í djúpu lauginni. Ég með sundgleraugun að fylgjast með afkvæmunum. Sé skyndilega mann liggja á botninum. Þetta var tækifæri lífs míns til að leika hetju. Ég syndi kafsund að manninum, tek hann kröftuglega í fangið og dreg hann upp. Maðurinn barðist fyrst aðeins um en lét svo að vilja mínum.
Þetta var bara túristi að skoða sundlaugabotninn. Hann var ekkert nálægt því að drukkna. Fannst þetta frekar skrýtin kerling sem faðmaði hann svona innilega í vatninu. "I thought you were drowning" stamaði ég. Hann bara hristi höfuðið.
16.11.2007 | 17:45
Rafmagn
"Ég man eftir þegar rafmagnið kom". Þannig næ ég ávallt að slá á allar aðrar sögur fólks um hvernig þetta eða hitt var hér áður fyrr. Það dettur engum í hug að svo bráðung manneskja geti átt svona minningu. En það er satt.
Ég man þegar mamma eldaði á gaseldavél og hjá ömmu í gamla húsinu var kolavél. Það var reyndar ljósavél sem nánast eingöngu var notuð til að drífa lýsingu. Ljósavélin var drifin áfram með olíu. Það var ekki kveikt á henni á sumrin, þá var næg birta.
Jú ef mamma þurfti að strauja eða þvo þvott, þá var kveikt á vélinni. Það voru sérstakir þvottadagar, suðupottur fyrir þvott sem þoldi suðu, þvottavél með bullu í miðjunni fyrir hinn þvottinn og rúlluvinda til að vinda þvottinn milli skolvatna. Allan daginn stóð mamma í þvottahúsinu og þvoði, ljósavélin malaði.
Yfir vetrartímann var kveikt á ljósavélinni þegar fór að dimma, það heyrðist vel í henni. Áður en farið var að sofa var slökkt á ljósavélinni, ef við þurftum á klósett á nóttunni var notast við kerti eða vasaljós. Útvarpið var með batteríi og sjónvarp áttum við ekki. Önnur rafmagnstæki voru að mig minnir ekki á heimilinu.
Ég man eftir að ég fór einu sinni út í snjóinn með Dísu, uppáhaldsdúkkuna mína. Hún var klædd í hlýjustu fötin sem voru til á hana. Samt varð henni ískalt á tánum. Ég stakk tánum á henni í gaslogann á eldavélinni þegar ég kom inn til að hlýja henni. Hún er ennþá með brenndar tær.
12.11.2007 | 18:06
Leggur og skel
Með örfárra vikna millibili voru opnaðar tvær risaleikfangaverslanir hér á höfuðborgarsvæðinu. Fréttir herma af metsölu í fyrri búðinni og örtröð við opnun í þeirri seinni.
Var skortur á leikföngum á Íslandi? Það hlýtur að hafa verið. Hafði að vísu ekki orðið vör við það, skorti ekki einu sinni leikföng í æsku.
Í æsku já.
Við Erna áttum "bú", bæði dýrabú og drullubú. Þetta var í holtinu rétt við bæinn. Í drullubúinu var gamla kolavélin hennar ömmu. Þar áttum við brotna diska frá mömmu, eyrnalausa bolla og hálfar netakúlur voru notaðar sem salatskálar eða til að hræra í kökudeig. Þarna voru hvalbein notuð sem eldhúskollar, miklar hnallþórur voru bakaðar og skreyttar með Holtasóleyjum, Jakobsfíflum og Maríustakk. Kaffi var lagað á gamla kaffikönnu frá ömmu og "drukkið" úr eyrnalausu bollunum.
Dýrabúið var myndarlegt. Hver tegund átti sinn kofa. Byggingastíllinn var einfaldur, stungið með skóflu út úr þúfu, helst í halla. Spýtur voru settar yfir hliðarnar og torfið sem stungið var út notað til að tyrfa yfir.
Við sátum um alla leggi sem til féllu á haustin, við vorum sérfræðingar í að hnýta band um þá fremsta. Svo var farið á útreiðar þetta voru að sjálfsögðu hestar. Við þekktum leggina með nafni og fundum greinilegan mun milli þeirra þegar við brugðum okkur á bak, sumir voru viljugir, aðrir hastir, sumir hrekkjóttir. Það þurfti mikið að temja.
Kjálkana var auðvelt að fá, þá fengum við náttúrulega af sviðunum. Þeir voru að sjálfsögðu kýr, við rákum stórt kúabú. Verra var þetta með kindurnar, það hefðbundna var að nota horn sem kindur en þar sem fjárstofninn heima hjá okkur var kollóttur var ekki um auðugan garð að gresja. Við vorum stórhuga og sættum okkur ekki við þau örfáu horn sem við með góðu móti komumst yfir. Því brutum við hefðina og notuðum öðuskeljar sem kindur. Af þeim var nóg við sjóinn. Við áttum því fleiri hundruð fjár og til að þær fengju nú nóg að bíta yfir sumarið þá fórum við með skeljarnar í fötum á "afrétt" sem var í holtum töluvert frá. Þar dreifðum við "kindunum" á vorin og fórum svo í leitir á haustin til að safna þeim saman.
Í borgarsamfélagi nútímans eiga börn ekki kost á leikjum eins og lýst er að ofan. En er ekki hægt með einhverju móti að leyfa þeim að nota hugmyndaflugið með heldur minna magni af tilbúnum leikföngum? Er hamingja barna okkar keypt í þeim búðum sem verið var að opna? Eða erum við sjálf að kaupa okkur frið frá þeirri sektartilfinningu sem við búum yfir þar sem við höfum ekki gefið okkur þann tíma með þeim sem við hefðum viljað?
7.11.2007 | 20:41
Táknmál í prófum
Hvað mæla próf?
Getu til að koma skriflega minnisatriðum á framfæri.
Hvað segir þessi mæling um getu einstaklingsins?
Svar: Til lengri tíma (framtíðar) lítið.
Próf mæla einn hæfileika sem ekki hefur verið haft hátt um; hversu flinkir nemendurnir eru í táknmáli sín á milli og skiptast á upplýsingum í prófinu sjálfu.
Úps þar játaði ég það. Við vinkonurnar vorum nefnilega æði flinkar í þessum fræðum, þetta var svona eins konar samhjálp okkar á milli eða þannig. Við komum okkur upp táknmáli. Fjöldi fingra á lofti táknaði náttúrulega númerið á spurningunni sem við vorum í vandræðum með. Svo var bara hugmyndaflugið notað til að skiptast á upplýsingum.
Eitt sinn vorum við í Íslandssöguprófi. Við vorum í 5. eða 6. bekk. Ég sat í öðrum endanum á matsalnum og Elín í hinum endanum. Við snerum á móti hvor annarri. Þetta var töluverð vegalengd og útilokað að við gætum talað saman.
Ég lít upp, Elín rekur upp 4 fingur. Já spurning númer 4. Einhver vandræði þar.
"Hvernig dó Eggert Ólafsson?" Hann drukknaði á Breiðafirði þegar skipið hans fórst, það vissi ég, en hvernig í veröldinni gat ég táknað það yfir allan matsalinn? Ég leit upp, sá hvernig Elín táknaði hengingarsnöru um hálsinn á sér og kippir í. Nei hann var ekki hengdur. Ég hristi höfuðið. Svo byrjaði ég að síga niður í sætinu með hendur fyrir andlitinu, eins og ég væri að drukkna inni í lófunum á mér, þetta reyndi ég aftur og aftur. Elín horfði bara gapandi á mig, líka hinir krakkarnir, hvað var eiginlega í gangi? Ég hugsaði og hugsaði.
Hvernig táknar maður mann á skipi sem ferst á Breiðafirði? Þarna brást okkur bogalistin. Ég held að þarna hafi kennarinn séð við okkur, þetta var bara ekki hægt að tákna.
1.11.2007 | 16:38
Á hvað hlustaðir þú mamma?
Aftur erum við í Laugagerðisskóla á Snæfellsnesi á 8. áratug síðustu aldar. Lög unga fólksins voru alltaf klukkan 8 á mánudagskvöldum, það var hálfgerð helgistund. Þeim var útvarpað um hátalarakerfi skólans. Þvílík hljómgæði. Til að auka á hátíðablæinn söfnuðumst við saman sem flest á einu herberginu, hlustuðum saman á lögin. Algerlega steinþegjandi. Ég held við höfum ekkert verið að senda kveðjur, það var ekki aðalatriði, enda bara brot af þeim lesnar upp. Bara að hlusta á lögin.
Það voru ekki margir sem áttu segulband, þau þóttu dýrgripir. Þeir sem áttu þessa dýrgripi stilltu þeim upp fyrir framan útvarpið og biðu í miklum spenningi eftir hvort það kæmi lag sem ekki var þegar búið að taka upp á spólu. Spólurnar voru vandlega merktar, hvaða lög voru á þeim og í hvaða röð. Það voru hins vegar ekki margir þættir í útvarpinu sem tók því að liggja yfir og bíða eftir spennandi tónlist, mátti reyna að sitja yfir óskalögum sjúklinga og sjómanna. Uppskeran gat verið "Ó, blessuð vertu sumarsól" eða "Síldarvalsinn", en ef heppnin var með tókst að taka upp "Er ég kem heim í Búðardal".
Á einstaka heimili var til plötuspilari. Heima hjá mér var einn, hann var með svo þungum armi að nálin skar niður plöturnar, plöturnar mínar hafa ekki beðið þess bætur. Þær voru heldur ekki svo margar. Í kaupfélaginu í Borgarnesi var ekki mikið úrval og ekki var heldur verið að kaupa mikið, þá sjaldan maður kom þangað. Það mátti nú ekki eyða öllu lambsverðinu sem maður fékk í innlegg á haustin í einhverja vitleysu. Til Reykjavíkur kom ég nánast aldrei. Þar voru víst seldar vínylplötur.
Spurninguna í fyrirsögninni fékk ég um daginn frá dóttur minni. Hún vildi vita um tónlistasmekk minn á unglingsárunum, hvaða tónlist ég hefði valið mér til að hlusta á. Mér vafðist tunga um tönn, "valið mér" það var það sem ég átti svolítið erfitt með að útskýra.
29.10.2007 | 20:13
Skautaveturinn mikli
Það voru langvarandi frost. Hver pollur og smátjörn var frosinn. Það var enginn maður með mönnum nema að eiga skauta. Hvert tækifæri var notað, hverjar frímínútur til að fara út á pollinn rétt utan við girðinguna og við skautuðum eins og við ættum lífið að leysa.
Svo kom þíða, rigningarkafli. Klaki losnaði á Núpánni og flaut fram, klakastífla myndaðist niðri við Kolviðarnes. Stórt lón varð til. Aftur kom kuldakafli og lónið fraus. Þetta voru draumaaðstæður til iðkunar skautaíþrótta. Nú var skautað sem aldrei fyrr. Flóinn var allur eitt svell og Núpáin sjálf breyttist í breiðstræti. Tunglsljósið speglaðist í svellinu og kvöldin voru björt. Fjarlægðaskyn okkar varð annað, við brunuðum á skautunum eftir Núpánni niður að Kolviðarnesi á engum tíma.
Við fórum í eltingaleik og eitur í flösku. Okkur fannst við eiga heiminn og geta skautað á heimsenda.
25.10.2007 | 20:19
Feitt hross
Laugagerðisskóli í einhverju hádeginu líklega árið 1975. Það var hross í matinn. Líklega gamall dráttarklár af einhverjum bænum. Lógað á hlaðinu og seldur í mötuneytið. Þetta var fyrir daga heilbrigðisvottorða. Svo var hrossið brytjað niður og soðið í potti. Lengi, því gamlir vöðvar eru seigir.
Kartöflur voru afhýddar og soðnar, líka lengi. Hvít uppbökuð sósa, vel bragðbætt af sykri.
Matsalurinn var opnaður og stóðið ruddist inn. Það var mikið reynt að láta okkur ganga í röð. Tókst misvel.
Það sátu 6 gríslingar saman við borð, stálbakki með kjötbitum, fat með kartöflum og uppstúf. Kjötið var rauðbrúnt, með drapplitaðri fitu. Þetta drapplitaða var ansi áberandi. Bikkjan hafði líklega verið vel haldin. Við plokkuðum skástu bitana og gomsuðum í okkur af bestu lyst, vorum ýmsu vön í þessu mötuneyti. Þegar skástu bitarnir voru búnir fór ég með bakkann með fitubitunum fram í eldhús og bað um meira. Mér var bent á að það væri fullt af bitum enn á bakkanum. Ég stundi upp á þeir væru frekar feitir og ólystugir. "Ekki getum við gert af því þó hrossið hafi verið feitt" svaraði eldhúskonan.
Nei ég held það hafi bara verið rétt hjá henni, hún hafði ekki stjórnað ofeldinu á þessu hrossi. Ábót á bakkann skyldum við ekki fá nema klára alla drapplituðu fituna, sem við gerðum ekki, vorum ekki nógu svöng.
22.10.2007 | 17:59
Stóri vatnsslagurinn
Það var stríð. Við skyldum sko sýna þessu montnu drengjum hvar Davíð keypti ölið.
Þetta byrjaði með einhverjum meinlausum skvettum. Ég held í sófunum sem voru fyrir framan strákavistina. Vatnsglas var tæmt yfir einhvern villinginn. Sá ætlaði ekki að láta neinn komast upp með yfirgang og svaraði í sömu mynt. Svo vatt þetta upp á sig. Fleiri vatnsglös voru tæmd. Stelpurnar voru komnar upp í stigann það veitti ákveðið forskot að vera á efri hæðinni. Þyngdarlögmálið getur unnið með manni í styrjöldum sem þessari.
Vatnsglösin stækkuðu, urðu að lokum að ruslafötum, við komum okkur upp keðju, svona eins og þegar barist er við eldsvoða í gömlum bíómyndum, fatan látin ganga, mestu skörungarnir voru í fremstu víglínu. Allir kranar á fullu inni á herbergjum til að fylla á skotfærin. Drengirnir skyldu nú aldeilis fá að blotna.
Þetta stríð fór ekki hljóðlega, kennarinn á vakt var fljótur að renna á hljóðið. Ég man enn hvað hvein í honum. Það er hægt að tala um kast. Skríllinn tók á rás. Við hlupum niður í kjallara, og kallinn á eftir. Rausandi, einn uppáhaldsnemandinn hans var gómaður í þessum slag, "................og þú líka, Erna mín". Þetta voru honum greinilega vonbrigði. Við hlupum í gegnum útifataklefann, hann á eftir. Við fórum hringinn, gegnum strákaklefann og til baka gegnum stelpuklefann. Kallinn alltaf á eftir, tuðandi og hvínandi með hnefann á lofti. Svo gafst hann upp á þessum hlaupum. Hringdi í skólastjórann.
Skólastjórinn kom. Þá vorum við búin að þurrka allt upp og komin í þurr föt. Tekkstigahandriðið var að vísu vatnsbólgið og lyktaði en að öðru leyti var ekki margt sem minnti á hvað hafði gengið á. Skólastjórinn horfði á okkur, hristi höfuðið, mér fannst hann glotta. Hann sagði lítið, okkur fannst eitt augnablik sem honum fyndist þetta pínu fyndið. Það urðu engin eftirmál. Það stendur a.m.k. ekkert í samstarfsbókinni minni um þetta.
19.10.2007 | 18:57
Kaupfélagið að Hvammstanga - þangað get ég ekki komið
Þegar börnin mín voru 1 og 3ja ára dvaldi ég nokkra daga í sumarfríi í húsi í Víðidal í Húnavatnssýslunum. Það rigndi mikið og því var alveg upplagt að skreppa í sund að Hvammstanga sem við gerðum nokkrum sinnum. Eftir einhverja sundferðina fórum við í kaupfélagið þar sem mig vantaði hárnæringu og eitthvað fleira smálegt. Þar sem ég stend í röðinni við kassann sé ég körfu með fullt af alls kyns bakkelsi.
"Það væri nú óvitlaust að kaupa eitthvað gott með kaffinu" hugsa ég. "Ætli þetta sé allt nýbakað?" velti ég áfram fyrir mér. Ég byrja að skoða kökurnar sem eru ágætlega girnilegar en það er ekki mikið til af hverri sort. Ég þukla þær vel og vandlega, kreisti og bora fingrinum laumulega inn í þær, smá "gæðatékk", ég ætla sko ekki að kaupa eitthvað gamalt dót.
Í þessum vangaveltum mínum verður mér litið upp, horfi beint framan í manninn sem er fyrir framan mig í kassaröðinni, þetta er innkaupakerran hans ......................... ég er að þukla kökurnar sem hann er að fara að kaupa. Eiginmaðurinn sér hvað er að gerast, tekur krakkana undir sitt hvora höndina og hleypur út úr búiðinni, hann bara gat ekki horft upp á þetta, þetta var of vandræðalegt.
"uh, ...................... ég hélt þetta væri til sölu" styn ég upp !!!!!!!!!!!!
(Auðvitað var þetta til sölu, maðurinn var að fara að kaupa þetta, var ég fífl !!!!!!!!!! Sarið var JÁ)
Maðurinn horfir á mig, þessu augnaráði sem segir manni að manni sé ekki viðbjargandi, sem mér var ekki. Ég var föst, með körfu fulla af vörum, gat ekki flúið og varð bara að bíða eftir að röðin kæmi að mér. Þetta voru langar mínútur.
Síðan hef ég ekki komið að Hvammstanga ................. og það stendur ekki til.
Gamlar sögur | Breytt s.d. kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.10.2007 | 17:50
Af barnabófum
Ég var í 5. bekk, í seinasta tíma á föstudögum var kennslustund með umsjónarkennaranum. Stundum fengum við "samstarfsbækurnar" afhentar í þessum tíma. Í bókinni minni stóð oftast eitthvað á þessa leið: "Samviskusamur nemandi sem stundar nám sitt af kostgæfni". Svo þurftu foreldrarnir að kvitta undir að hafa séð vitnisburðinn. Mamma skrifaði yfirleitt undir: "Þakka góðan vitnisburð, kær kveðja, Ásta Bjarnadóttir". Ég á þessa bók ennþá.
Svo var það einn föstudaginn, tíminn var búinn. Pálína umsjónarkennari bað mig um að vera ögn lengur. Hún afhenti mér lokað umslag, í því var samstarfsbókin. Ég ein fékk hana þennan dag, það gat ekki vitað á gott. Pálína vildi ekkert segja meira um málið.
Ég fór heim með bókina. Var engan veginn viss hvað mér átti að finnast um þetta. Á vissan hátt var það "kúl" að hafa fengið bókina þegar enginn annar fékk hana, gat bara þýtt að ég hafði á einn eða annan hátt boðið kennurunum birginn. Samt var þetta pínu óþekktarstimpill.
Þegar heim kom lét ég mömmu hafa bókina. Þar stóð:
"30. jan. 1976
Þá er miðsvetrarprófunum lokið og þar stóð Kristjana sig mjög vel, eins og hennar var von og vísa. Síðustu kennslustund sem (kennari)XX átti með 5. bekk í eðlisfræði hafði Kristjana sýnt henni mikla ókurteisi. Var hún að vonum leið yfir þessu. Gott væri ef þið vilduð ræða þetta við Kristjönu því að þetta má ekki endurtaka sig í kennsustund.
Með bestu kveðju
Pálína Snorradóttir"
Gallinn var bara að ég gat ekki með nokkru móti munað eftir að hafa verið ókurteis. Yfirleitt veit maður þegar maður er dónalegur, sá sem fyrir því verður lætur maður yfirleitt vita það með viðbrögðum sínum ef maður áttaði sig ekki á því um leið og gjörningurinn var framinn. Ég settist niður og fór að hugsa..................ég hlaut að hafa gert eitthvað. Jú, það kom að því að ég mundi eftir einu atviki.
Þannig var að bekkurinn hafði lokið við námsbókina í eðlisfræði. Á seinustu blaðsíðunni átti að skrifa allt sem við hefðum lært í bókinni. Ég horfði á blaðsíðuna og áttaði mig á að það var útilokað að koma því öllu fyrir á þessari síðu. Höfundarnir höfðu þurft alla bókina, ég átti að koma því fyrir á einni síðu. Þetta var vitavonlaust verkefni. Ég skrifaði því: "Ég hef einfaldlega ekkert lært". Siðan gekk ég til kennarans og sagði hróðug: "Er þetta ekki nóg?"
Einhvern veginn gat mamma ekki með góðu móti tekið mig á beinið fyrir þetta. Hún skrifað því í bókina:
"Ég tel þetta ónógar upplýsingar sem þið gefið upp í samstarfsbókinni til að ég geti farið að atyrða hana. Kristjana segir mér að þetta hafi verið meiningarlaust af sinni hálfu. Hún bætti úr þessu eftir bestu getu þegar hún var heima næst á eftir og vona ég að XX erfi þetta ekki við hana.
Kær kveðja
Ásta Bjarnadóttir"
Hvort þetta var hinn raunverulegi glæpur minn eða hvort ég hafði algerlega óafvitandi verið dónaleg við eðlisfræðikennarann veit ég ekki. Eftir þetta varð ég hins vegar hin snúðugasta við viðkomandi kennara, hleypti viljandi upp tímum bjó til baunabyssur úr nöglum og þvottaklemmum og útdeildi meðal bekkjarfélaganna. Ég fór að svara hortug fyrir mig og varð virkilega dónaleg og með útúrsnúninga, bara alvöru óþæg. Nýtti hvert tækifæri til þess. Ég var hins vegar ótrúlega lúmsk, passaði mig á að vera búin að reikna öll dæmin og ef ég var tekin upp að töflu í hegningarskyni þá bara reiknaði ég dæmið án vandræða þó ég hefði ekki virst hafa flygst hið minnsta með. Ég hins vegar truflaði bekkjarsystkini mín og ég skammast mín fyrir það.
Ég skammast mín núna pínulítið fyrir óþægðina. Hún var afskaplega gelgjuleg en á vissan hátt ákveðin uppreisn. Uppreisn gegn agakerfi þar sem ekki mátti útskýra brotið, en líka uppreisn gegn sjálfri mér sem fyrirmyndarnemenda, fyrirmyndarnemandinn varð að setja upp "kúl lúkk" og bjóða kennurunum birginn, auðvitað varð þá hörundssári kennarinn fyrir barðinu, það var langskemmtilegast.