Færsluflokkur: Gamlar sögur
13.10.2007 | 10:34
Grautur
Graut ég fæ hjá öllum
Grautur í Seli, grautur í Gröf
Grautur á Kleifárvöllum
Svona kvað umrenningur fyrir margt löngu í Miklaholtshreppi. Mínar æskuminningar tengjast líka graut, hafragraut. Við fengum alltaf hafragraut í morgunmat í skólanum. Það átti að tryggja að gríslingarnir vendust ekki á neitt amerískt pakkafæði eins og tröllum ríður öllum heimilum í dag. Sykrað og vítamínbætt morgunkorn í pappaöskjum. O, svei. Nei það skyldi sko veita staðgóðan morgunverð í þessu mötuneyti. Hafragraut.
Gallinn við þennan hafragraut var bara að þetta var ekki grautur, þetta var súpa, brimsölt. Við stóðum í röð við pottinn, eins og í sögunni um Oliver Twist, réttum fram skálarnar okkar og báðum um lítið, vorum ekki viss um að geta klárað. Verst hvað ausan var stór, eins og meðal kartöflupottur minnir mig. Fulla ausu skyldum við fá, engan gikkshátt hér. Við hliðina stóð kennarinn með vítamínglasið, ekki átti nú að láta skrílinn komast upp með að sleppa bætiefnunum. Stór pilla var látin falla í miðjan grautinn. Fljótlega leystist fagurlitað vítamínið upp í grautnum og marglit slikjan breiddist út.
Á hverjum morgni lagði ég af stað í röðina með þeim ásetningi að borða grautinn. Bað um lítið. Fékk fulla ausu. Bað kennarann um vítamínið í lófann svo ég gæti bara gleypt það með vatnsglasi. Nei pillan átti að fara í grautinn. Ég man enn eftir vítamínbragðinu af grautnum, sumir töluðu um að það væri kattahlandslykt af því, það var ekki köttur heima hjá mér þannig að ég var ekki dómbær á það. Stundum var ég nógu snögg að hreinsa pilluna og slikjuna í burt, en hvað sem ég reyndi, grautinn gat ég ekki borðað, kúgaðist eftir 2 skeiðar, saltbragðið var yfirþyrmandi.
Þá var bara að þrauka með tóman magann fram að hádegismat.
Gamlar sögur | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.10.2007 | 20:52
15 ára afmælið mitt
Þegar maður býr í sveit, langt frá vinum sínum, er í heimavistaskóla og er að verða 15 ára, hvernig heldur maður upp á afmælið sitt? Hverjum vill 15 ára unglingur bjóða í afmælið sitt?
Jú við viljum bjóða vinkonunum, þær voru með mér á herbergi á vistinni, þannig að það var ekki flókið. Halda bara upp á afmælið í skólanum. Hljómar sem frekar góð hugmynd. Gallinn var bara sá að það var bannað að vera með matvæli önnur en ávexti á herbergjum. Hafiði einhvern tíma heyrt um afmælisveislu án veitinga? Svo vill maður nú líka bjóða strákunum.........................en þeir voru á forboðinni strákavist, þanngað máttum við alls ekki fara og þeir enn síður að heimsækja okkar dyngjur.
Já og svo vildum við Rósa (vinkona og herbergisfélagi, eigum næstum sama afmælisdag) líka bjóða Önnu (hún á reyndar líka afmæli, hm, hvað var að gerast í þessari sveit þarna 9 mánuðum áður?) en Anna var ekki á heimavistinni, hún var keyrð heim daglega.
Miðað við þessa upptalningu þá er afmælisveisla frekar flókin framkvæmd. Unglingar hafa sjaldan dáið ráðalausir og gerðu það heldur ekki á þessum tíma. Það þurfti bara smá skipulag. Fyrst var að baka. Það var hægt að bjarga því heima um helgi, skella í eina köku, ekki málið. Næst var að flytja hnallþórurnar í skólann án þess að nokkur tæki eftir. Það var fyrsti þröskuldurinn. Ég man nú ekki hversu skreytt tertan var en mig minnir að þetta hafi verið konfektterta, svona kókosmjölskaka með flórsykurseggjasúkkulaðikremi, bountykaka. Hún komst óséð með rútunni, inn í skólann og upp á vistina. Svo þurfti að redda drykkjarföngum, ég held að Anna hafi séð um það, hún bjó nálægt búðinni, keypti nokkrar líterskók í gleri. Hvernig hún faldi þær í skólatöskunni sinni man ég ekki.
Næsti þröskuldur var talsvert erfiðari. Það var að tryggja að Anna gæti verið með í veislunni. Hún átti nefnilega að fara heim með skólabílnum. Það var alveg harðbannað að krakkar sem áttu að fara heim gistu í skólanum. Við dóum ekki ráðalaus, við fundum okkur eitthvað að dunda við, fjarri bílaplaninu og útganginum, þannig að við óvart bara gleymdum okkur. Sama hvað leitað var, Anna fannst bara ekki. Mikið urðum við glaðar þegar rútan fór, án Önnu. Sem betur fór töldust 20 km ennþá óravegalengt og engum datt í hug að keyra Önnu heim eða fara fram á að foreldrar hennar sæktu hana, þetta var alltof langt!
Þá var það erfiðasta hindrunin, hvernig býður maður strákum á forboðinni strákavist í afmælisveislu sem fer fram eftir að allir eru farnir að sofa? Við ætluðum nefnilega að hafa veisluna eftir að kennarinn væri hættur að ganga á vistina en það gerðist ekki fyrr en eftir að fullkomin ró væri komin á. Litlu gríslingarnir þurftu líka að vera sofnaðir. Vistin var læst eftir kl. 22.00 þannig að þetta var ekki létt verk. Ekki höfðum við nú hugsað okkur að leyfa drengjunum að sofa í rúmunum okkar enda frekar flókið að fela þá þar meðan kennarinn væri að ganga um, og þeirra rúm tóm! Of grunsamlegt. Nei þetta gekk ekki. Við fundum annað og betra ráð. Herbergið þeirra var beint fyrir neðan okkar. Við ætluðum einfaldlega að láta veitingarnar síga niður til þeirra út um gluggann.
Nú var bara að bíða hljóðar í rúmunum með ljósin slökkt þangað til kennarinn hætti þessu ráfi. Verst hvað litlu gríslingarnir voru óþægir, ætluðu aldrei að þagna! Það mátti engu muna að við steinsofnuðum meðan við biðum. Þegar tíminn rann upp mátti ekki hafa of mikið ljós, það varð að birgja gluggann með teppum. Þá gat veislan hafist, þungur hlutur var bundinn í band og strákarnir vaktir með því að skella honum í gluggann. Þeir voru viðbúnir og tóku móti veitingunum eins og ungar í hreiðri, leiðin að hjarta karlmanna liggur ætíð í gegnum magann! Við úðuðum í okkur konfekttertu og kóki, urðum 15 ára saman og alsælar.
Gamlar sögur | Breytt 10.10.2007 kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.10.2007 | 21:35
Það sem ekki mátti
Við erum í Laugargerðisskóla á Snæfellsnesi. Þetta er heimavistarskóli fyrir þau börn sem búa lengra frá en börnin sem búa nær skólanum eru keyrð heim daglega. Í samfélagi barna og unglinga á grunnskólaaldri, samfélagi sem er þeirra heimili 5 daga vikunnar verður að halda uppi aga. Það þarf að passa upp á að gríslingarnir hagi sér almennilega. Kennararnir hafa vökul augu á skrílnum, nótera samviskusamlega niður ef einhverjum verður fótaskortur á svellinu, það heitir að fá "mínus". Mínus þýðir agabrot. Það telst agabrot að vera með sælgæti í skólanum, heimavist meðtalin. Tyggjó er glæpur.
Eitt alvarlegasta agabrotið er náttúrulega að fara á inn á vistina þar sem hitt kynið býr. Það er mjög alvarlegt. Hugsa sér, stelpa að laumast inn á strákaherbergi! Það kann ekki góðri lukku að stýra. Þessir drengir eru nefnilega komnir með hvolpavitið og ekki treystandi um þvert hús. Nei, ef stúlka er gómuð á ferð þar inni, þá þarf umsvifalaust að skrá það niður, setja á agavandamálaskrána.
Svona hegningarkerfi hefur þá náttúru að verða spennandi, það er spennandi að vita hvað maður kemst langt án þess að vera nappaður. Hver er kaldastur, þorir að fara inn á forboðna svæðið. Það er ótrúlega smart að sýna kjarkinn og heimsækja strákana. Spennan sem verður til þegar heyrist í kennaranum á vappi verður eftirsóknarverð, það þarf í skyndi að finna felustað. Fataskáparnir eru sívinsælir, en frekar fyrirsjáanlegir. Undir sæng er möguleiki, þá er maður raunverulega kúl, sérstaklega ef einhver herramaðurinn heldur manni selskap.
Mest er nú fjörið ef allur stelpnaflokkurinn sest að á einu strákaherberginu, þá er nú kennarinn í raunverulegum vanda að skrá allan bófaflokkinn niður. Þær sem ekki eru nógu fljótar að fela sig, taka á rás, hlaupa eftir ganginum, allar vonast eftir að vera í hvarfi við hinar, hverfa í fjöldann.
Eða var markmiðinu kannski náð, vera nöppuð? Fá skjalfest að hafa verið kúl? Fá skrifað í samstarfsbókina: Sást á strákagangi!
Gamlar sögur | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
2.10.2007 | 20:42
Fjárskaði
Þetta var árið 1944 eftir því sem ég best veit. Afi minn, Alexander Guðbjartsson og amma mín, Kristjana Bjarnadóttir voru nýflutt að Stakkhamri. Fluttu með bústofn sinn og 6 börn frá Hjarðarfelli sem var jörð uppi við fjall, niður að sjávarjörð. Aðstæður á þessum jörðum voru um margt ólíkar, meira um þurrar valllendisgrundir að Hjarðarfelli en að Stakkhamri var mest foraðsflói og sjávarfitjar.
Á þessum árum tíðkaðist að beita fé sem mest úti enda tún ekki ræktuð á sama hátt og nú. Erfitt var að afla heyfangs á jörð eins og Stakkhamri, allt forblautt. Fénu var beitt í flóann og fitjarnar, mikið í Glámsflóann sem gleypti marga ána. Það er ekki tilviljun að hann heitir Glámsflói, þar dúar jörðin þvílíkt að maður trúir því að kölski sjálfur búi þarna niðri. Fénu var einnig beitt "suður með víkum" sem kallað var en það var þurrara land meðfram Löngufjörum. Úti á fjörunum voru sker sem sjór féll yfir þegar flæddi að.
Þetta haust var féð eitt sinn sem oftar á beit suður með víkunum. Það rigndi mikið og elsti sonurinn, Guðbjartur var sendur að sækja féð, líklega hefur hann verið 13 ára gamall. Þegar Guðbjartur kom heim var hann rennvotur, móður og í miklu áfalli. Hann rétt gat stunið upp: "Ég náði bara í hornin á einni". Það tók heimilisfólkið nokkra stund að átta sig á hvað gerst hafði. Kindurnar höfðu farið út á fjörurnar og líklega sótt í þangið í skerinu. Síðan féll að. Allar kindurnar fórust.
Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á hversu mikið áfall þetta var. Afi og amma voru með stóran barnahóp, nýbúin að festa kaup á jörð og enginn afgangur. Nú voru góð ráð dýr. Börnin heyrðu þau tala í hálfum hljóðum á kvöldin. Fjárlaus þýddi að það var engin afkoma. Enginn möguleiki á að kaupa nýjar kindur, búið að slátra öllum lömbum á öðrum bæjum það haustið og þó einhver hefðu verið eftir þá var vonlaust að fjármagna það. Þau gátu ekki hugsað sér að flytja á "mölina" sem var líklega eini valkostur þeirra. Þetta voru daprir dagar á Stakkhamri.
Nokkrum dögum síðar sást til mannaferða uppi í holtunum fyrir ofan bæinn og niður flóann. Meira en mannaferða. Það var fjárrekstur, heill hópur af kindum. Þetta voru sveitunarnir sem höfðu safnað saman af bæjunum kindum, nákvæmlega jafnmörgum og fórust og komu með þær niður að Stakkhamri, afa og ömmu algerlega að óvörum. Ég sé þau fyrir mér, standandi á hlaðinu og ég finn enn í dag þakklæti til sveitunga minna sem gerðu þeim með þessu kleift að búa áfram í sveitinni sinni.
Þetta er náungakærleikur.
Gamlar sögur | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.9.2007 | 22:48
Að hylma yfir glæp
Seinna í kennslustund sá kennarinn þetta X. Drengurinn kannaðist ekki við að hafa gert þetta. Kennarinn spurði yfir bekkinn hver hefði gert þetta. Enginn sagði neitt. Mér fannst að það yrði að upplýsa málið svo grunur beindist ekki að mér, sagði að vinkona mín hefði gert þetta. Hún var ári eldri og í öðrum bekk. Kennarinn kannaði málið en vinkonan benti á mig. Ég varð vandræðaleg og játaði að endingu skömmustuleg að ég hefði gert þetta.
Eftir þetta finnst mér alltaf hallærisilegt þegar glæpóninn í bíómyndunum fer að gefa lögreglunni upplýsingar, þekki tilfinninguna, reyna að koma sökinni á einhvern annan, en jafnframt veit ég að það er vísasta leiðin til að nást, maður bara byggir svikamyllu sem fellur. Þvílík heimska.
Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.9.2007 | 18:44
Sími
Ég ólst upp við sveitasíma, það voru 2 langar 1 stutt og 1 löng heim til mín. Það var hægt að hringja út fyrir sveitina (sem var ekki stór) í 3 klst á morgnana (9-12) og 2 klst eftir hádegið (15-17). Þegar talað var í símann var maður nánast viss um að það væri einhver að hlusta, það gerðu allir en enginn viðurkenndi það. Sagt var að á einum bænum væri komin laut í gólfið þar sem síminn var, svo þaulstaðinn var vaktin. Í þessu samfélagi vissi sveitin um barnsfæðingar á sömu stundu og eiginkonan tilkynnti bóndanum það. Frekar rómantísk samtöl.
Merkilegast var að þegar átti að setja upp "sjálfvirkan síma" voru ekki allir vissir um að vilja það, þá myndi aldrei fréttast neitt! Svo var þetta svo dýrt.
Þegar ég kom til Reykjavíkur í menntaskóla vandist ég "síma", leigði íbúð þar sem var þessi fíni sími. Fannst ég reyndar ekki geta talað heim um hvað sem er, vissi að sveitin lá á línunni. Margar setningar í samtölum við mömmu enduðu með þessum orðum: "......æi, ég segi þér það seinna".
Svo fór ég í háskólann, bjó fyrst í kjallaraherbergi á Bergþórugötunni. Þar var enginn sími. Mömmu fannst þetta óþægilegt og vildi hjálpa mér að komast yfir þetta tæki, þ.e. síma. Ég fór niður í Pósthússtræti og sótti um síma. Það var ekki víst að til væru nægilega margar línur inn í húsið til að ég gæti fengi síma í herbergið. Það þurfti að kanna það. "Og hvenær og hvernig fæ ég að vita það?" spurði ég. Við hringjum í þig var svarið. Jamm, gáfnaljósin eru víða.
Ég flutti á stúdentagarða áður en þeir hringdu í mig. Þar voru 2 símar fyrir 60 manns. Fyrirkomulagið var þannig að ef síminn hringdi var bjöllu hringt á því herbergi þar sem sá bjó sem spurt var um. Ef enginn svaraði voru skrifuð skilaboð í bók. "KK hringdi kl 14.00" þýddi að karlmaður hringdi. Svo stóð oft "hringdu í mömmu". Krúttlegt. Það var hins vegar æði erfitt að komast að í símann, þetta voru líka klinksímar. Oft var fljótlegra að taka strætó heim til þess sem maður átti erindi við en að bíða eftir að komast að. Mikið hvað maður æfði þolinmæði.
Nú á dögum GSM síma í vasa hvers manns hljóma þessar sögur aftan úr forneskju. Mér finnst bara gott að vera svona forn, mér líkar vel við símann í vasanum mínum en ég get svo vel verið án hans.
Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2007 | 22:21
Minningabrot: Í skólann í fyrsta skipti
Árið er 1971, það er októberbyrjun. Landroverjeppar og Austingifsar streyma að Laugagerðisskóla. Það er komið haust og skólinn er að byrja. Þarna mætir árgangur fæddur 1964 og alinn upp á sunnanverðu Snæfellsnesi fyrst í skólann, flestir með léreftspoka sem áður innihélt hveiti (sem nú er búið að baka úr) í staðinn eru krakkarnir með sængina sína í þessum pokum. Við eigum að vera þarna í 10 daga, þetta er heimavist.
Ég verð í herbergi með Rósu, Önnu og Steinu. Við erum allar 7 ára og höfðum hist í réttunum nokkrum dögum áður. Þar ákváðum við að við ætluðum að vera saman í herbergi, þetta var svo spennandi. Ég man að pabbi keyrði mig, ég man líka að pabbi bjó um rúmið mitt, líklega í eina skiptið sem hann hefur gert það. Ég var í efri koju við vaskinn, Steina var í hinni efri kojunni. Fyrsta kvöldið var erfitt, Rósa vildi hafa opinn gluggann, mamma hennar var líka með opinn gluggann, þannig næði hún betri tengslum. Eitthvað var skælt.
Ég var ekki með sundbol, hann gleymdist heima. Það var bagalegt því það var mikið farið í sund. Ég fékk að hringja heim og mamma lofaði að senda bolinn með mjólkurbílnum. Bíllinn kom held ég 2var í viku heim og einnig 2var í viku í skólann, ekki sömu dagana þannig að þetta tók langan tíma. Ég held að ég hafi fengið bolinn rétt áður en ég átti að fara aftur heim. Það eru 25 km í skólann. Í dag myndum við bara skreppa með sundbolinn fyrir krakkann. Þannig var þetta ekki þá. Ekki keyra neitt að óþörfu, ekki eyða bensíni. Þetta þótti líka óravegalengd.
Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.9.2007 | 18:28
Ég á forföður sem ég er ekki stolt af
Sá forfaðir minn sem ég er minnst stolt af hét Guðmundur. Hann bjó að Kjós í Árneshreppi á Ströndum. Hann var giftur konu sem hét Guðríður og átti vinnukonu sem hét Sigurós. Ein dóttir Rósu hét Guðrún og var langamma mín.
Guðmundur átti 14 börn með konu sinni.
Guðmundur átti 8 með Rósu, þar af komust 3 til fullorðinsára, Njáll, Júlíana og Guðrún.
Börnin sem Rósa og Guðríður eignuðust, fæddust sitt á hvað, oft voru aðeins örfáir mánuðir á milli barnsfæðinganna.
Rósa réri til sjós með Guðmundi rétt eins og karlmaður og pissaði í hrútshorn. Að róðrum loknum skreið Guðmundur í bælið og Rósa dró af honum blautu fötin og hjúkraði honum þreyttum. Trúlega hefur Guðmundur einnig viljað láta hlýja sér og var þá trúlega algert aukaatriði hver vilji Rósu var.
Ég velti því einu sinni fyrir mér afhverju Rósa og eiginkonan létu bjóða sér þetta. Svarið er einfalt, þær áttu ekki val. Þær gátu ekkert farið og voru háðar Guðmundi um allt og barnanna vegna urðu þær að láta bjóða sér þetta, annars hefðu þær farið á sveitina. Þær voru fangar á eigin heimili.
Guðríður dó á undan Rósu. Þá hefði maður búist við að Guðmundur hefði gifst Rósu en það gerði hann ekki heldur náði sér í aðra konu og átti með henni 2 börn, þá orðinn ca 70 ára gamall. Annað barnið hét Ragnar. Einhverju sinni týndist Ragnar. Móðirin og annað heimilsifólk óttaðist að eitthvað hefði komið fyrir hann. Þá sagði Guðmundur: "Það gerir ekkert til, við skjótum þá bara í annan Ragnar".
Eftir að fyrri eiginkonan dó versnaði hagur Rósu. Þá var sonur hennar Njáll orðinn fullorðinn og farinn að búa, ég held í Norðurfirði á Ströndum. Sagt er að Njáll hafi farið og bjargað Rósu frá Guðmundi og bjó hún eftir það hjá syni sínum.
Ein dóttir Rósu hét Guðrún. Hún var langamma mín. Guðrún var mjög fátæk sem ung kona eins og gefur að skilja. Hún var jú bara vinnukonudóttir, getin í lausaleik. Guðrún gerðist vinnukona að Krossnesi í Árneshreppi á Ströndum. Þangað kom einn daginn Jón, bóndi frá Svanshóli í Bjarnarfirði. Hann hafði misst konuna sína af barnsförum frá 2 börnum. Hann hafði held ég bara einu sinni séð Guðrúnu áður, þá var hún unglingur að taka upp mó í Kjós og honum blöskraði hvað hún var tötralega til fara. Líklega hefur hann vitað um hagi hennar. Jón hafði heyrt að Guðrún væri góð kona og kom að Krossnesi til að biðja hennar. Guðrún var raunsæ og vissi að betri tækifæri byðust henni ekki í lífinu og tók bónorðinu. Jón og Guðrún áttu saman 15 börn (skv Pálsætt á Ströndum) og urðu gömul saman á heimili afa og ömmu. Mér er sagt að þau hafi alltaf boðið hvort öðru góða nótt með kossi og þótt vænt hvoru um annað.
Mig hefur lengi langað til að taka saman það sem ég veit um Rósu og Guðmund en ekki látið verða af. Einnig hefur mig langað til að safna saman fleiri sögum um þau. Ég óska eftir leiðréttingum á þessum sögum ef ég hef misfarið með eitthvað, einnig óska ég eftir fleiri sögubrotum ef til eru. Vinsamlegast skrifið það í athugasemdir eða sendið mér í tölvupósti á krissa@lsh.is.
Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.9.2007 | 19:47
Anna
Ég á bloggvinkonu. Hún heitir Anna. Í dag vekur Anna athygli á mildun hæstarétts í hrottalegu nauðgunarmáli. Við vitum ekki forsendur dómsins, en við vitum að um hrottalega árás var að ræða og mildun dóms í hæstarétti hlýtur að vekja fordæmingu.
Takk, Anna fyrir að vekja athygli á þessu. Þú ert réttsýn. Í tilefni af því ætla ég að segja sögu af mér og Önnu.
Einu sinni var ég mjög vond við Önnu, ég skammast mín enn fyrir þetta, ég ætla að reyna með þessu að komast yfir þetta.
Rósa og Anna eru frænkur.
Ég og Rósa erum frænkur.
Við Anna erum fjarskyldar.
Við byrjuðum saman í skóla enda jafnöldrur (með meiru). Ég taldi Rósu vera mína vinkonu, Anna taldi Rósu vera sína vinkonu. Mér stóð ógn af Önnu. Hvað gerir maður þá ef maður vill upphefja sjálfan sig, koma höggi á andstæðinginn og er 7 eða 8 ára? Ég hafði lausn og sagði við Önnu:
"Þú ert bæði ljót og leiðinleg"
Eðlilega sárnaði Önnu þetta og ræddi þetta við mömmu sína sem ræddi þetta við mömmu Rósu sem ræddi þetta við mömmu mína og hún................ ræddi þetta við mig. Spurði hvort þetta væri satt!!! Ég skammaðist mín svo. Ég vissi að svona segir maður ekki, ég skildi að þarna hafði ég farið út fyrir það sem má gera í mannlegum samskiptum. Ég man ennþá hvað mér fannst ég hafa verið mikill asni já og vond við Önnu.
Næst þegar ég hitti Önnu (það var á jólaskemmtun á Breiðabliki) þá bað ég Önnu um að koma með mér í fatahengið, ég þurfti að tala við hana. Ég bað hana um að fyrirgefa mér. Hún horfði á mig hissa, held hún hafi ekki skilið mig, jafnvel búin að gleyma þessu. En hún sagði já. vonandi meinti hún það, hún er a.m.k. bloggvinkona mín í dag.
Bloggfærslur Önnu sýna hversu rangt ég hafði fyrir mér, Anna er með fallegt hjarta og góðan húmor.
Gamlar sögur | Breytt 29.9.2007 kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)