Anna

Ég á bloggvinkonu. Hún heitir Anna. Í dag vekur Anna athygli á mildun hæstarétts í hrottalegu nauðgunarmáli. Við vitum ekki forsendur dómsins, en við vitum að um hrottalega árás var að ræða og mildun dóms í hæstarétti hlýtur að vekja fordæmingu.

Takk, Anna fyrir að vekja athygli á þessu. Þú ert réttsýn. Í tilefni af því ætla ég að segja sögu af mér og Önnu.

Einu sinni var ég mjög vond við Önnu, ég skammast mín enn fyrir þetta, ég ætla að reyna með þessu að komast yfir þetta.

Rósa og Anna eru frænkur.

Ég og Rósa erum frænkur.

Við Anna erum fjarskyldar.

Við byrjuðum saman í skóla enda jafnöldrur (með meiru). Ég taldi Rósu vera mína vinkonu, Anna taldi Rósu vera sína vinkonu. Mér stóð ógn af Önnu. Hvað gerir maður þá ef maður vill upphefja sjálfan sig, koma höggi á andstæðinginn og er 7 eða 8 ára? Ég hafði lausn og sagði við Önnu:

"Þú ert bæði ljót og leiðinleg"

Eðlilega sárnaði Önnu þetta og ræddi þetta við mömmu sína sem ræddi þetta við mömmu Rósu sem ræddi þetta við mömmu mína og hún................ ræddi þetta við mig. Spurði hvort þetta væri satt!!! Ég skammaðist mín svo. Ég vissi að svona segir maður ekki, ég skildi að þarna hafði ég farið út fyrir það sem má gera í mannlegum samskiptum. Ég man ennþá hvað mér fannst ég hafa verið mikill asni já og vond við Önnu.

Næst þegar ég hitti Önnu (það var á jólaskemmtun á Breiðabliki) þá bað ég Önnu um að koma með mér í fatahengið, ég þurfti að tala við hana. Ég bað hana um að fyrirgefa mér. Hún horfði á mig hissa, held hún hafi ekki skilið mig, jafnvel búin að gleyma þessu. En hún sagði já. vonandi meinti hún það, hún er a.m.k. bloggvinkona mín í dag.

Bloggfærslur Önnu sýna hversu rangt ég hafði fyrir mér, Anna er með fallegt hjarta og góðan húmor.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

 ........ ekki mundi ég nú þessi orð.... mundi bara að þið Steina vilduð ekki leiða mig þegar við gengum í kringum skólann...   Ég er alveg að springa úr hlátri hérna !

Þér er allavega fyrirgefið alveg frá -nu.

Mér líður eins og ég sé ljóti andarunginn sem breyttist í svan... fín tilfinning. 

Anna Einarsdóttir, 17.9.2007 kl. 19:55

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ég þarf að tjá mig aðeins meira Kristjana mín.... ...  ég er eitt bros hérna....

Það þarf kjark til að skrifa svona blogg, með fyrirgefningarbeiðni, 35 árum síðar.

Þú færð knús á næsta bekkjarmóti. 

Anna Einarsdóttir, 17.9.2007 kl. 20:16

3 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Ætli foreldrar dagsins í dag taki svona á málunum eins og mömmurnar gerðu þarna. En gott að þú losaðir þig við gamla sektartilfinningu, þær geta borað gat á ónæmiskerfið.  Gott hjá ykkur stelpur.

Faðm og knús til ykkar...vinkonanna.

Gíslína Erlendsdóttir, 17.9.2007 kl. 21:01

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

ég meinti þetta nú kannski ekki alveg svona hjartnæmt, en hm allt í lagi með það. Punkturinn var margvíslegur, eins og hvað það eru oft frumstæðar hvatir sem ráða orðum manns, sérstaklega þegar þroskinn er lítill. Það er reyndar ekki alltaf aldursháð. Einnig hversu mikilvægt það er að stoppa börn (fullorðna líka) af þegar þau fara yfir strikið í orðum og gjörðum. Svo náttúrulega síðast en ekki síst hrós til Önnu!

Kristjana Bjarnadóttir, 18.9.2007 kl. 11:58

5 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Skil ég það rétt að þú viljir ekki knúsið ?    Ok.... sjáum til með það.   

Takk Kristjana mín fyrir hrósið... það var mjög fallegt.

Anna Einarsdóttir, 18.9.2007 kl. 13:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband