Minningabrot: Í skólann í fyrsta skipti

Árið er 1971, það er októberbyrjun. Landroverjeppar og Austingifsar streyma að Laugagerðisskóla. Það er komið haust og skólinn er að byrja. Þarna mætir árgangur fæddur 1964 og alinn upp á sunnanverðu Snæfellsnesi fyrst í skólann, flestir með  léreftspoka sem áður innihélt hveiti (sem nú er búið að baka úr) í staðinn eru krakkarnir með sængina sína í þessum pokum. Við eigum að vera þarna í 10 daga, þetta er heimavist.

Ég verð í herbergi með Rósu, Önnu og Steinu. Við erum allar 7 ára og höfðum hist í réttunum nokkrum dögum áður. Þar ákváðum við að við ætluðum að vera saman í herbergi, þetta var svo spennandi. Ég man að pabbi keyrði mig, ég man líka að pabbi bjó um rúmið mitt, líklega í eina skiptið sem hann hefur gert það. Ég var í efri koju við vaskinn, Steina var í hinni efri kojunni. Fyrsta kvöldið var erfitt, Rósa vildi hafa opinn gluggann, mamma hennar var líka með opinn gluggann, þannig næði hún betri tengslum. Eitthvað var skælt.

Ég var ekki með sundbol, hann gleymdist heima. Það var bagalegt því það var mikið farið í sund. Ég fékk að hringja heim og mamma lofaði að senda bolinn með mjólkurbílnum. Bíllinn kom held ég 2var í viku heim og einnig 2var í viku í skólann, ekki sömu dagana þannig að þetta tók langan tíma. Ég held að ég hafi fengið bolinn rétt áður en ég átti að fara aftur heim. Það eru 25 km í skólann. Í dag myndum við bara skreppa með sundbolinn fyrir krakkann. Þannig var þetta ekki þá. Ekki keyra neitt að óþörfu, ekki eyða bensíni. Þetta þótti líka óravegalengd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já maður fær bara gæsahúð. Þeir voru illa staddir sem ekki áttu eldri systkyn, frænkur eða frændur til að hugga sig. Svo eru auðvitað þeir sem bundust vinaböndum sem endast ævina.

ásdís (IP-tala skráð) 24.9.2007 kl. 09:28

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Frábært að lesa þetta !  Ég man núna óljóst eftir því þegar við vorum að melda okkur saman í réttunum.  Var annars búin að steingleyma því. 

Anna Einarsdóttir, 24.9.2007 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband