Grautur

Grauturinn mér gerir töf

Graut ég fæ hjá öllum

Grautur í Seli, grautur í Gröf

Grautur á Kleifárvöllum

  

Svona kvað umrenningur fyrir margt löngu í Miklaholtshreppi. Mínar æskuminningar tengjast líka graut, hafragraut. Við fengum alltaf hafragraut í morgunmat í skólanum. Það átti að tryggja að gríslingarnir vendust ekki á neitt amerískt pakkafæði eins og tröllum ríður öllum heimilum í dag. Sykrað og vítamínbætt morgunkorn í pappaöskjum. O, svei. Nei það skyldi sko veita staðgóðan morgunverð í þessu mötuneyti. Hafragraut.

Gallinn við þennan hafragraut var bara að þetta var ekki grautur, þetta var súpa, brimsölt. Við stóðum í röð við pottinn, eins og í sögunni um Oliver Twist, réttum fram skálarnar okkar og báðum um lítið, vorum ekki viss um að geta klárað. Verst hvað ausan var stór, eins og meðal kartöflupottur minnir mig. Fulla ausu skyldum við fá, engan gikkshátt hér. Við hliðina stóð kennarinn með vítamínglasið, ekki átti nú að láta skrílinn komast upp með að sleppa bætiefnunum. Stór pilla var látin falla í miðjan grautinn. Fljótlega leystist fagurlitað vítamínið upp í grautnum og marglit slikjan breiddist út.

Á hverjum morgni lagði ég af stað í röðina með þeim ásetningi að borða grautinn. Bað um lítið. Fékk fulla ausu. Bað kennarann um vítamínið í lófann svo ég gæti bara gleypt það með vatnsglasi. Nei pillan átti að fara í grautinn. Ég man enn eftir vítamínbragðinu af grautnum, sumir töluðu um að það væri kattahlandslykt af því, það var ekki köttur heima hjá mér þannig að ég var ekki dómbær á það. Stundum var ég nógu snögg að hreinsa pilluna og slikjuna í burt, en hvað sem ég reyndi, grautinn gat ég ekki borðað, kúgaðist eftir 2 skeiðar, saltbragðið var yfirþyrmandi.

Þá var bara að þrauka með tóman magann fram að hádegismat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gíslína Erlendsdóttir

Þú ert frábær Kristjana, ég var búin að gleyma þessu en svona var þetta, ég man það núna. Voru þetta ekki lýsispillur sem við fengum? Þarna kom skýringin á því afhverju ég vil hafa hafragrautinn þykkan. Ég borðaði allan mat og geri enn og kvartaði aldrei undan matnum í skólanum. Ég hefði samt alveg viljað fá meiri fjölbreytni eins og að færa steiktu kjötbollurnar af þriðjudögum yfir á fimmtudaga........

Gíslína Erlendsdóttir, 13.10.2007 kl. 23:43

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Það er tvennt sem ég hef aldrei getað borðað síðan í æsku..... Kardimommudropa og Lárviðarlauf.  Þetta var svo hrikalega ofnotað í skólanum að ég bíð þess ekki bætur.

Anna Einarsdóttir, 14.10.2007 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband