Rafmagn

"Ég man eftir þegar rafmagnið kom". Þannig næ ég ávallt að slá á allar aðrar sögur fólks um hvernig þetta eða hitt var hér áður fyrr. Það dettur engum í hug að svo bráðung manneskja geti átt svona minningu. En það er satt.

Ég man þegar mamma eldaði á gaseldavél og hjá ömmu í gamla húsinu var kolavél. Það var reyndar ljósavél sem nánast eingöngu var notuð til að drífa lýsingu. Ljósavélin var drifin áfram með olíu. Það var ekki kveikt á henni á sumrin, þá var næg birta.

Jú ef mamma þurfti að strauja eða þvo þvott, þá var kveikt á vélinni. Það voru sérstakir þvottadagar, suðupottur fyrir þvott sem þoldi suðu, þvottavél með bullu í miðjunni fyrir hinn þvottinn og rúlluvinda til að vinda þvottinn milli skolvatna. Allan daginn stóð mamma í þvottahúsinu og þvoði, ljósavélin malaði.

Yfir vetrartímann var kveikt á ljósavélinni þegar fór að dimma, það heyrðist vel í henni. Áður en farið var að sofa var slökkt á ljósavélinni, ef við þurftum á klósett á nóttunni var notast við kerti eða vasaljós. Útvarpið var með batteríi og sjónvarp áttum við ekki. Önnur rafmagnstæki voru að mig minnir ekki á heimilinu.

Ég man eftir að ég fór einu sinni út í snjóinn með Dísu, uppáhaldsdúkkuna mína. Hún var klædd í hlýjustu fötin sem voru til á hana. Samt varð henni ískalt á tánum. Ég stakk tánum á henni í gaslogann á eldavélinni þegar ég kom inn til að hlýja henni. Hún er ennþá með brenndar tær.          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Ertu nokkuð eldri en ég ?    Rosalega manstu vel.

Anna Einarsdóttir, 16.11.2007 kl. 19:48

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Nei, ég er yngri. Munar einum degi, þú manst það er það ekki?

Kristjana Bjarnadóttir, 16.11.2007 kl. 20:08

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Jú, auðvitað man ég það.   Ég er greinilega með eldri og úreltari minniskubb í kollinum.

Anna Einarsdóttir, 16.11.2007 kl. 21:33

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ætli rafmagnið hafi ekki komið fyrr að Holti en niður að Stakkhamri. Að hugsa sér að fólk á bæjum í Grafningi þurfti í áratugi að horfa upp á háspennumöstur í túnfætinum hjá sér án þess að geta fengið rafmagn sjálft. Rafvæðingu landsins er ekki nema nýlokið. Ekki man ég þó eftir að hafa verið án rafmagns. Óskaplegt ástand nútildags ef rafmagnið fer, en þótti lítið mál áður fyrr. Nú fær maður fráhvarfseinkenni ef Netsamband dettur niður í smástund.

Sæmundur Bjarnason, 17.11.2007 kl. 02:47

5 identicon

ja, kannski hefur þetta nú ekki breyst eins mikið og þið haldið. Hér liggur ljósleiðari í gegnum landareignina og kemur meira að segja við í símaskúr á Furubrekku, en, nei, við getum ekki fengið afnot af honum nema borga svívirðilega háa upphæð. Hér í sveit kom rafmagnið víst 1967 eða um það bil. Ég aftur á móti hef alltaf lifað við rafmagn.

Bryndís (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 09:27

6 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Já ég man þetta líka vel :) Ókunnugir menn að stika um landareignina prílandi í staurum. Man líka að þegar þurfti að geyma eitthvað í kæli um vetur þá var það bara grafið í snjóskafl!! Eins gott að rafmagnið er komið núna, það kemur vala nokkurntíma snjór orðið. Ég man líka eftir þegar síminn var lagður í húsið okkar. Fyrst sveitasíminn, tvær langar stutt og löng. Og svo sjálfvirki síminn líklega 1979. En núna þegar fólk getur ekki treyst að aðrir fylgist með því í gegnum sveitasímann hefur það fundið nýja aðferð, það bloggar bara um allt milli himins og jarðar og þá geta allir fylgst með öllum. Fer ekki bara allt í hring hehe.

Erna Bjarnadóttir, 17.11.2007 kl. 13:29

7 identicon

Sæl Kristjana mín, ég er alltaf að flandrast hér um og forvitnast. Þið stöllur eru svo duglegar að halda úti bloggsíðum. En hvað eru þið eiginlega gamlar !! Ekkert rafmagn, ég veit ekki hvað er verið að tala um. kveðja Þórdís Jónasd.

Þórdís ( Lynghaga) (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 14:54

8 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Sæl Þórdís, gaman að vita af þér og ævinlega velkomin .

Ég gleymdi náttúrlega að telja upp þetta með mjólkurkælingu í ísskápsleysi, það var náttúrulega bara fata í rennandi vatni. Mjólkin í fjósinu í brúsum í vatnsþró. Fiskur úti í skafli og ekkert kjöt í frystikistunni því hún var ekki til. Kjötið var bara saltað og slátrið súrt. Það upplýsist hér með að rafmagnið kom að Stakkhamri 1968 og ég var 4 ára. Kannski svolítið ung til að muna þetta, ég man þetta samt.

Punkturinn hjá mér með þessari minningu er að minna okkur á að þó við séum ekki eldri en þetta þá höfum við lifað breytingar, kannski ekki eins miklar og afar okkar og ömmur eða foreldrar okkar enda tíminn sem við höfum haft heldur styttri (þessi var gáfulegur!). Eigi að síður eru þetta töluverðar breytingar og okkur ber að gera okkur grein fyrir því. Þægindin sem við teljum sjálfsögð í dag eru til að gera nýtilkomin. Hvort við svo í heildina lifum betra lífi................það er svo allt annað mál.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.11.2007 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband