Jól í Strassburg II

Mánudagur 24. desember 1984

"Eftir morgunverð fórum við Valerie og bróðir hennar í labbitúr um miðbæinn og m.a. skoðuðum við sólarklukku í kirkju einni en þegar klukkan er 12 að sólartíma (venjulegar klukkur eru 1/2 klst á undan) galar einhver hanastytta ásamt fleira dingleríi.

Fórum síðan til ömmunnar og borðuðum hádegismat. Steiktar lundir eða eitthvað þess háttar. Kjötið er rétt brasað að utan, alveg hrátt að innan. Eftir mat skreyttu Valerie og mamma hennar aðeins hjá ömmunni. Ekkert jólatré en gripahús með Jósep, Maríu og Jesú er það mikilvægasta.

Að þessu loknu fórum við Valerie í bæinn og kíktum í búðir og búðarglugga. Svo fór okkur að langa í kakó eða ís. Leituðum en fundum bara staði sem voru búnir að loka vegna jólahátíðar. Fundum að vísu einn sem var fullur af ungu fólki sem þambaði bjór og/eða vín og var orðið drukkið (klukkan var rúmlega 5), rokktónlist hljómaði hástöfum. Höfðum engan áhuga á að setjast þarna inn. Fórum til frænkunnar í nunnuklaustrið og mölluðum kakó. Þar var fjölskyldan og nunnurnar voru búnar að gera jólalegt, virkilega smekklegt og notalegt.

Hér byrja jólin ekki stundvíslega kl 6. Fjölskyldan er öll kaþólsk og fer í miðnæturmessu. Það er enginn sérstakur matur borðaður, bara venjulegt snarl. Klæðnaður hversdagslegur. Farið var í kvöldmat til ömmunnar sem er veik og líður frekar illa. Eftir mat var farið heim til föðurbróðurins sem er piparsveinn síðan kellan hljóp í burtu. Þar var bjór þambaður, þannig var þá aðfangadagskvöld hjá mér!.

Um kl 23 var svo farið í kirkju en það var eiginlega lítil kapella þar sem skólanemendur spiluðu og sungu og tóku einnig mikinn þátt í athöfninni. Söngur og spil var fallegt en röflið þreytandi, enda skildi ég ekkert. Athöfnin í heild ágæt en ekki mjög hátíðleg. Tvennt kom mér spánskt fyrir sjónir: Í miðri athöfn, að fyrirsögn prests, tókst fólk í hendur við aðra við hliðina, fyrir framan og fyrir aftan. Svo var kortum útdeilt til allra en á þeim var mynd af manni án vara og á maður að senda þetta einhverjum sem maður vill hjálpa.

Eftir messu (um kl 1 eftir miðnætti) var farið til frænkunnar (í nunnuklaustrið) og þar var tilbúið Gluhwein. Lagt var á borð og boðið upp á smákökur og ávexti. Ég drakk kakó. Klukkan langt gengin í 3 þegar öllu var lokið".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband