Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Það versta sem fannst um Vinstri græna

Þegar á brattann er að sækja í kosningabaráttu grípa stjórnmálaöfl stundum til örþrifaráða. Eitt af þeim er að dreifa neikvæðum áróðri um andstæðinginn.

Þessi neikvæði áróður getur falist í því að slíta orð hans úr samhengi, gera lítið úr honum eða benda á möguleg hagsmunatengsl sem þykja óæskileg.

Án efa eru Vinstri grænir hreina mey þessarar kosningabaráttu. Þeir voru í stjórnarandstöðu allan gróðæristímann en óþreytandi við að benda á hættuna sem yfir vofði. Þóttu bara neikvæðir nöldrarar. Einnig voru þeir með bókhald sitt opið þannig að ljóst var allan tímann hver styrkti þá og hversu mikið.

Einn skeleggasti og hreinskilnasti stjórnmálamaður okkar í dag er Katrín Jakobsdóttir í VG. Hún segir okkur umbúðalaust það sem aðrir þora ekki að segja. Þannig stjórnmálamönnum getum við treyst. Við erum komin með nóg af því að vera leynd sannleikanum.

Nú hefur verið opnuð vefsíða sem "AHA hópurinn" stendur fyrir. Hverjir það eru kemur auðvitað ekki fram. Markmið þessarar vefsíðu er að sverta frambjóðendur VG.

Miðað við það markmið finnst mér afar þunnt það sem er á þessari síðu. Það versta sem síðuhöfundar hafa um VG að segja er eftirfarandi:

  • Katrín Jakobsdóttir segir okkur sannleikann um niðurskurð í opinberum rekstri, vill frekar launalækkanir en uppsagnir.
  • Jón Bjarnason telur ósanngjarnt að niðurskurður næstu ára lendi með sama þunga á þeim svæðum sem ekki nutu góðærisins og þeirra svæða sem nutu þess.
  • Bróðir Kolbrúnar Halldórsdóttur hefur setið í stjórnum svokallaðra útrásarfyrirtækja.
  • Steingrímur J. Sigfússon er á móti nektar- og súlustöðum og vill stemma stigu við klámdreifingu á netinu.
  • Kolbrún Halldórsdóttir hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um litaval á klæðnaði ungbarna á fæðingardeildum.

Var AHA hópurinn búinn að leita lengi þegar hann loksins fann þessi hræðilegu atriði um frambjóðendur VG?

Var virkilega ekkert annað sem hópurinn fann til að setja sem andáróður um þau?

Eða er þetta bara lélegur brandari?


Aðild að ESB skyndilega orðið kosningamál

Í gær og í dag hefur umræða um aðild Íslendinga að ESB orðið skarpari. Greinar hafa birst í blöðum og vefmiðlum með umfjöllun um hversu brýnt hagsmunamál aðildarumsókn að ESB sé fyrir okkur Íslendinga (sjá t.d. hér og hér). Sömuleiðis er leiðari Morgunblaðsins í dag á sömu nótum. Þessi umfjöllun á það sammerkt að leggja áherslu á að efnahagsleg staða okkar sé mun verri en haldið hefur verið fram. Þorsteinn Pálsson hélt því fram í þættinum "Markaðurinn" á Stöð 2 í gærkvöld að jafnvel margir þingmenn gerðu sér enga grein fyrir þessu.

Það er klárt að aðild að ESB er engin töfralausn en í peningamálum þjóðarinnar hefur engum dottið neitt annað í hug til framtíðar. Helst hefur verið gagnrýnt að ferlið taki langan tíma. Með sömu rökum ætti engin fitubolla að fara í megrun, það taki of langan tíma.

Krónan sem framtíðargjaldmiðill Íslands er ekki valkostur og lánstraust okkar á erlendum vettvangi er minna en ekkert. Ég vildi óska að til sé önnur leið en aðild að ESB. Á þá leið hefur enginn stjórnmálaflokkur bent.

Vegna þessarar umfjöllunar sem var í gær og í leiðara Morgunblaðsins í dag vekur það furðu mína að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins komi í veg fyrir að hægt sé að breyta stjórnarskránni með einfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík breyting hefði flýtt aðildarferlinu en nú er ljóst að kjósa þarf aftur til alþingis áður en við getum orðið aðilar að ESB.

Þökk sé Sjálfstæðisflokknum.

Það vekur einnig furðu mína ef þessir sömu aðilar og hafa verið forvígismenn þessarar umræðu, ætla áfram að kjósa sinn gamla flokk. Í mínum huga snúast kosningarnar um næstu helgi um aðild að ESB. Þetta er okkar brýnasta hagsmunamál, þ.e. hvernig við ætlum að haga peningamálum þjóðarinnar næstu árin.

Um næstu helgi er valið okkar.


Leikhús fáránleikans

Fréttir um risagreiðslur FL group og Landsbankans til Sjálfstæðisflokksins setja atburði liðinna mánaða í nýtt samhengi. Vissulega grunaði mig að sterkt samband væri milli ýmissa fyrirtækja og Flokksins en stærðargráða upphæðanna er slík að ekki er lengur hægt að tala um styrki.

Stærðargráðan er slík að hún þoldi ekki dagsljósið. Það eitt gaf þessum fyrirtækjum tangarhald á Flokknum, tangarhald sem gerði það að verkum að ógnin um að ljóstrað yrði upp um greiðslurnar gerði Flokknum ókleift að gera nokkuð gegn hagsmunum þessara fyrirtækja.

Þess vegna heita svona greiðslur MÚTUR.

Það að flokkurinn reyni nú að segja okkur að einn maður beri ábyrgð á þessum greiðslum og að öðrum innan flokksins hafi ekki verið kunnugt um þetta er aumt yfirklór. Sérstaklega ef hugað er að því að framkvæmdastjóri flokksins var á þessum tíma varaformaður bankaráðs Landsbankans. Sá maður hefur verið illasofandi í vinnunni á báðum stöðum og ekki sinnt skyldu sinni eða að freklega hafi verið gengið fram hjá honum.

Enn erum við stödd í leikhúsi fáránleikans á Íslandi.


Öll dýrin í skóginum eru EKKI vinir

Stundum dunda ég mér við að lesa blogg. Í dag fann ég eina bloggfærslu sem er algerlega brilljant. Færsluna skrifar Björgvin Valursem ég því miður kann engin deili á. Færslan er hins vegar svo brilljant að ég ákvað að stela henni:

"Heldurðu að þeir sem eiga netin veiði sjálfir?  Asni.  Auðvitað lét ég karlana snurpa.  Ég var bara yfirmaður.  Pabbi minn fiskar aldrei sjálfur.  Hann á bara allan fisk hér í firðinum og öll skip.  Ég fékk sígarettu hjá formanninum."

Svo mæltist syni Bogesens kaupmanns á Óseyri við Axlarfjörð en eins og allir vita er þetta úr Sölku Völku Halldórs Laxness.  Þegar eitthvað úr stuttbuxna- og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins rekur á mínar fjörur, kemur mér alltaf þessi kaupmannssonur í hug.

Feitur, dekraður, ófyrirleitinn og gjörsamlega úr takti við líf annarra en hinna spilltu forréttindapésanna.

Ég held það væri þjóðinni hollt núna að lesa Laxness og uppgötva að það er ekkert nýtt undir sólinni; þeir sem eiga hafa alltaf reynt að kúga þá sem eiga ekki og þeir beita öllum meðölum til að geta gert það.  Ljúga, svíkja og pretta.

Við skulum þess vegna ekki ímynda okkur eitt andartak að Sjálfstæðisflokkurinn gangi erinda annarra en hinna sterku, þeirra sem eiga, og hann mun gera allt til að standa vörð um hagsmuni þeirra.

Meðal annars ljúga, svíkja og pretta.

Málið er að áróðursmaskínurnar hafa seinustu árin reynt að þurrka út hugtökin "vinstri" og "hægri" í stjórnmálum. Þessi hugtök eru ekki úrelt, það þjónar hins vegar hagsmunum peningaaflanna að láta eins og þau séu ekki til, öll dýrin í skóginum séu vinir. Peningaöflin þurfa á okkar atkvæðum að halda. Því er það þannig að eftir því sem misskiptingin verður meiri þá fækkar í hópi peningaaflanna og þá eykst þörfin á að plata okkur sauðsvartan almúgann, láta okkur halda að þau séu að vinna að okkar hagsmunum.

Við vitum betur, þessir hagsmunir fara ekki saman. Bankahrunið ætti svo sannarlega að vera búið að kenna okkur það.


Hinir raunverulegu glæpónar

Fjármálaeftirlitið hefur loks áttað sig á hverjir eru glæpamenn Íslands. Það eru auðvitað blaðamennirnir Agnes Bragadóttir og Þorbjörn Þórðarson, ritstjóri Eyjunnar Guðmundur Magnússon og sjónvarpsmaðurinn Kristinn Hrafnsson.

Þessir aðilar hafa að mati FME brotið bankaleynd og það geti varðað sektum eða fangelsi.

Vissulega ber að taka á brotum hvers eðlis sem þau kunna að vera. En skýtur það ekki skökku við að þetta sé það helsta sem við heyrum um ábendingar frá FME um brot í fjármálaheiminum? Talað hefur verið um tregðu FME til að veita sérstökum saksóknara upplýsingar.

Einhvern veginn finnst mér þetta ekki verstu glæpirnir þessa dagana.


Ó, kæra króna

Við búum við gjaldmiðil sem við viljum ekki einu sinni sjálf eiga. Ekki einu sinni landsfundur Sjálfstæðisflokksins reynir að andmæla því:

Peningamálastefnuna verður að endurskoða. ................. Ákvarðanir um framtíðarskipan gjaldmiðilsmála verður hins vegar að taka af mikilli yfirvegun eftir gaumgæfilega skoðun á öllum möguleikum. Lagt er til að vinna við endurskoðun á gjaldmiðli landsins hefjist strax og ljúki á árinu.

Það er algerlega brilljant nú 6 mánuðum eftir bankahrun að halda landsfund og stinga upp á endurskoðun á gjaldmiðilsmálum......og semja ályktun um að byrja strax og ljúka endurskoðun á þessu ári.

Á sama landsfundi kom fram að endurskoðað hagsmunamat skilaði niðurstöðu um að innganga í Evrópusambandið þjónaði ekki íslenskum hagsmunum.

Gleymdu Sjálfstæðismenn að taka tillit til gjaldmiðilskreppunnar við þetta endurskoðaða hagsmunamat?

Samkvæmt ályktuninni hér að ofan eiga þeir alveg eftir að marka sér peningamálastefnu.

Athyglisvert.


Að búa til peninga

Á tímum bankaútrásarinnar trúðum við flest að bankarnir okkar væru að græða peninga. Já, að með einum eða öðrum hætti yrðu miklir fjármunir til með einhverjum undarlegum hætti í meðferð þessara galdramanna sem unnu þarna.

Peningarnir urðu til í bönkunum. Það bara hlaut að vera.

Við trúðum að peningarnir yrðu til úr engu.

Svo hrundi spilaborgin. Þetta reyndist loftbóla og peningarnir sem við héldum að væru til breyttust í skuldir. Skuldir sem við sauðsvartur almenningurinn berum einhvern veginn ábyrgð á.

Okkar prívat skuldir vaxa í verðbólgunni með verðtryggingunni eða í formi gengistryggðra lána. Þar til viðbótar hefur ríkið tekið yfir gríðarlegar skuldbindingar (Icesave), já og svo er það lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðinum. Svona mætti lengi telja.

Nú á að plata okkur aftur. Láta lánin okkar hverfa.

Framsóknarflokkurinn býður upp á 20% niðurfellingu lána. Tryggvi Þór Herbertsson talar af miklum fjálgleik einnig um þessa leið. Lilja Mósesdóttir býður betur, 4 milljóna króna niðurfelling til allra heimila.

Höfum við ekkert lært? Á aftur að láta okkur trúa því að peningar verði til úr engu?

Ég vil að okkur sé sagt satt, að við séum í svo djúpum að það séu ekki til töfralausnir.

Ég hafna alfarið stjórnmálamönnum sem taka þátt í svona yfirboðum og frábið mér slíkt lýðskrum.


Og salurinn klappaði og hló

"Þú veist hver" hélt ræðu.

Enn hefur hann dáleiðsluvald yfir hjörðinni. 

Hæddist að andstæðingum og einnig samherjum í stjórnmálum.

Upphóf sjálfan sig, hagræddi sannleikanum.

Ég varaði við, ég vildi dreifða eignaraðild..........

Mér er alveg sama hvað hann varaði oft við, mér er líka sama hvort hann á einhverjum tíma vildi dreifða eignaraðild. Mér er líka sama hvort Ásta Ragnheiður sagði að hún teldi það erfitt í framkvæmd.

Það sem skiptir máli er hvað "þú veist hver" gerði eða réttara sagt gerði EKKI.

Við vitum það.

Ræðan sjálf kom í sjálfu sér ekki á óvart, hún var í takt við veruleikafirringu flytjandans. Það sem kom á óvart voru viðbrögð viðstaddra. 

Salurinn dáir enn "þú veist hver" og hlær taugaveikluðum hlátri og klappar eftir pöntun.

Þetta er verðugt  rannsóknarefni í sálfræði.

Hægt er að sjá ræðuna á síðu Láru Hönnu.

PS. Þessi færsla fjölgar ekki þeim síðum sem koma upp á Google ef raunverulegu nafni "þú veist hver" er slegið upp.


Fjórar millur í minn vasa er sóun á almannafé

Í kastljósi kvöldsins var fjallað um hugmyndir Lilju Mósesdóttur frambjóðanda VG um niðurfærslu skulda um 4 milljónir á hvert heimili. Lilja mætti og reyndi að útskýra þetta fyrir okkur.

Ég sat og reyndi að meðtaka boðskapinn og gapti af undrun.

Undrun mín var tilkomin vegna þess að ég hafði hingað til talið vinstri stjórnmál snúast um að jafna aðstöðu fólks, þannig að gæðum þjóðfélagsins væri jafnar skipt.

Ég keypti mitt núverandi húsnæði í febrúar 1998. Þá var fasteignaverð í algeru lágmarki. Við hjónin höfðum verið aðhaldssöm og greitt niður lán á fyrra húsnæði og áttum því fína innborgun og vorum því ekki mjög skuldsett á þeim tíma miðað við hvað tíðkast í dag. Síðan höfum við greitt enn meira niður af lánunum. Þetta þýðir að skuldir okkar eru ekki miklar í dag. Tekjur okkar eru einnig þokkalegar og ekki fyrirsjáanlegt að bankahrunið hafi áhrif á innkomu þó kaupmáttur rýrni á sama hátt og almennt gerist.

Hvað á það að þýða að afhenda okkur sem ekkert höfum með það að gera, 4 milljónir af almannafé?

Hvernig getur slík sóun á almannafé fallið undir þá hugsun vinstri manna að nota sameiginlega sjóði okkar til að jafna aðstöðu fólks?

Stóra spurningin er svo náttúrulega hvaðan þessir fjármunir eiga að koma, því hef ég ekki náð.

Ég var algerlega gáttuð yfir hugmyndum Framsóknarmanna um 20% niðurfellingu skulda til allra og taldi mig lítið þurfa á slíkri aðgerð að halda. Þessi leið Lilju gefur mér hærri upphæð í minn vasa og er því enn fráleitari.


Langefst í huga

Yfirskrift þessarar síðu er "Efst í huga". Ég játa hér með að ég hef seinustu mánuði ekki verið sjálfri mér samkvæm og ekki skrifað það sem mér hefur verið langefst í huga.

Langefst í huga mér hefur verið grunur minn um stórfellt uppvask á erlendum peningum í íslenskum bönkum. Ég hef gengið ansi langt í að búa til samsæriskenningar í huganum og dottið í hug að misferlið gangi lengra inn í stjórnkerfið og embættismannakerfið en við viljum vita af. Ég hef verið svo heltekin af þessum hugleiðingum mínum að fjölskylda, vinir og vinnufélagar hafa miskunnarlaust flissað að mér, bæði leynt og ljóst. Ég hef látið það mér í léttu rúmi liggja og hugsað með mér: "vonandi hef ég rangt fyrir mér, en sjáum samt til".

Þeim fjölgar stöðugt sem viðurkenna að vera hættir að hlægja að mér.

Ég ítreka að alls óvíst er um sannleiksgildi þessa. Því hef ég ekki viljað gaspra mikið um þetta opinberlega.

Það voru mikil tíðindi og gleðileg að Eva Joly taki vel í að leggja okkur lið í rannsókn á efnahagsbrotum tengdum íslensku viðskiptalífi. Í fyrsta skiptið frá bankahruninu fékk ég trú á að mögulega náist í skottið á einhverjum sem bera ábyrgð á vafasömum viðskiptaháttum.

Ég horfði aftur á viðtalið við hana í Silfri Egils og það er algert skylduáhorf. Ég mæli með að áhorfendur hlusti ekki aðeins heldur lesi líka í svip hennar. Hún segir margt í viðtalinu en þar er líka margt ósagt. Veitið einnig athygli orðum hennar um að stjórnvöld í Þýskalandi og Bretlandi hafi stöðvað rannsóknir þrátt fyrir ótvíræð sönnunargögn um ólöglega gjörninga í viðskiptum. Stjórnkerfið og viðskiptalífið er samtvinnað og það er passað upp á að ekki sé gengið of nærri viðskiptajöfrunum. 

Það voru einnig mikil tíðindi að þriggja manna rannsóknanefnd um orsakir bankahrunsins óski eftir gögnum innan úr bönkunum um möguleg óeðlilega fyrirgreiðslu fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna.

Kannski er von.

Það er tómt mál að tala um ró meðal íslensks almennings fyrr en þessi mál komast á hreint. Það má hins vegar búast við að þetta taki tíma og að gríðarlegir fjármunir hafi glatast.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband