Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
2.7.2009 | 19:37
Frekur krakki - óábyrgir stjórnmálamenn
Í Húsafelli er notaleg sundlaug. Þangað lá leið mín nýverið. Í hópnum voru börn á öllum aldri sem voru staðráðin í að skemmta sér vel og höfðum við með okkur vatnsbyssur og skemmtum okkur við að sprauta hvert á annað.
Svo kom að því að okkur leiddist vatnsslagurinn og vatnsbyssurnar lágu á bakkanum á litlum heitum potti. Ég sat í makindum í pottinum. Þangað kom lítill gutti og vildi prófa byssurnar. Ég leyfði það. Sýndi honum hvernig þær virkuðu og sagði að hann mætti prófa þær þarna í pottinum en ekki fara með þær annað.
Drengurinn sinnti þessu engu. Tók eina byssuna traustataki og æddi í burtu. Maður verður einhvern veginn svo vandræðalegur gagnvart svona frekju. Stutt í hugsunina "aumingja barnið langar svo að leika með þetta dót, hvað get ég verið að banna honum það". En ég var búin að setja reglur. Við þær á að standa. Ég stóð upp og æddi á eftir barninu.
"Viltu koma með byssuna og láta mig fá hana, þú máttir prófa hana í pottinum en ekki fara með hana", þrumaði ég yfir alla laugina. Ég gerði mér vel grein fyrir að þetta var fáránlegt, 45 ára kona að rífa vatnsbyssu af litlu barni.
Móðirin lá í potti stutt frá, sagði ekkert. Barnið reyndi hvað það gat að sleppa frá mér en bæði Sigrún systir mín og Signý frænka mín komu og studdu kröfu mína. Þrjár kerlingar á móti barni. Allt til að fá vatnsbyssuna til baka.
Við höfðum sigur, fengum byssuna til baka.
Þá kom að því að móðirin fékk málið: "Hann hélt að sundlaugin ætti byssurnar". Enga tilraun gerði konan til að komast að því fyrir barnið á meðan á rifrildinu stóð hver ætti byssurnar eða að gera barninu ljóst að það megi ekki ganga svona í annarra dót.
Þegar ég horfði á málflutning Bjarna Ben í þinginu í dag um Icesave samninginn rifjaðist þessi saga upp fyrir mér.
Það var búið að setja reglur um innistæður. Landsbankinn auglýsti ábyrgð íslenska ríkisins meðan það hentaði. Stjórnvöld staðfestu sl haust að þau myndu greiða innistæðurnar upp að ákveðinni upphæð.
Nú reynir stjórnarandstaðan að loka eyrunum og túlka reglurnar að sinni vild. Reglurnar gilda ekki um okkur af því að við erum svo fá, höfum ekki efni á þessu.
Fjármálaeftirlitið sinnti engri eftirlitsskyldu, gekk ekki í málið meðan enn var lag og stoppa Landsbankann af í söfnun innistæðna. Setti bankanum ekki stólinn fyrir dyrnar og gerði honum grein fyrir alvöru málsins.
Vitandi af reglunum og undirskrift íslenskra stjórnvalda frá í haust hafa Bretar og Hollendingar sterka samningsstöðu. Önnur lönd í Evrópu standa með þeim, jafnvel Norðurlöndin líka.
Við hljótum að játa okkur sigruð, eins og drengurinn í Húsafelli.
Vatnsbyssan var aldrei okkar, þó okkur langaði ofboðslega til að hafa hana og viljum alls ekki láta þessi freku stóru lönd hafa hana.
25.6.2009 | 22:46
Ég skil ekki Sjálfstæðismenn
Afstaða Sjálfstæðismanna til Icesave samkomulagsins vekur sífellt meiri furðu mína.
Ef Íslendingar töldu vitlegt og fært að fara með málið fyrir dómsstóla þá átti að gera það strax eftir hrun. Þáverandi stjórnvöld fullvissuðu Breta og Hollendinga fyrir hrun að innistæðurnar væru tryggðar. Eftir hrun skrifuðu íslensk stjórnvöld undir að við ætluðum að standa við það og semja um þetta. Um þetta virtust Sjálfstæðismenn á þessum tíma sannfærðir.
Ég var strax í haust með hroll yfir þessu máli. Engan vegin viss um hvað bæri að gera.
En yfirlýsingar og undirskriftir frá því í haust setja okkur ákveðnar skorður. Við hlaupumst ekki svo auðveldlega frá þeim.
Nú hefur Gauti Eggertsson rifjað upp frétt á BBC frá því 4. október að því að mér sýnist. Þar er viðtal við Tryggva Þór Herbertsson þáverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar...........nú þingmann Sjálfstæðisflokksins. Í frétt BBC kemur þetta fram:
The first 20,000 euros of that comes from the Icelandic compensation scheme, with the balance coming from the scheme in the UK.
Tryggvi Herbertsson said, despite its economic problems, the Icelandic government would honour that commitment if a bank did get into trouble.
"We are not in that kind of difficulty.
"We are part of the European directive on deposit insurance and we are bound by international law."
Svo mörg voru þau orð efnahagsráðgjafa forsætisráðherra.
Hefur þingmaðurinn eitthvað allt annað um þetta mál að segja nú?
Enn og aftur, ég fer fram á að stjórnmálamenn séu sjálfum sér og fyrri yfirlýsingum samkvæmir.
Afstaða Vinstri Grænna er skiljanleg, þeir voru strax í haust mótfallnir því að við sem þjóð bærum ábyrgð á þessu. Afstaða Steingríms J. er einnig skiljanleg, hann var mótfallinn þessu í haust en skilur að við hlaupumst ekki svo glatt frá yfirlýsingum fyrri ríkisstjórnar.
Ég skil ekki Sjálfstæðismenn.
23.6.2009 | 22:44
Vantraust og óþol
Þessa dagana treysti ég litlu af því sem sagt er.
Einn segir Icesave stórvarasamt framsal á fullveldi......
Annar segir að ákvæði samningsins séu alvanaleg í slíkum lánasamningum.....
Maður skyldi ætla að það sé ekki flókið að skera úr um slíkt, að menn eigi ekki að halda því fram að þarna sé um óeðlilegar veðsetningar að ræða, mögulegt framsal á þjóðargersemum, ef alþjóðasamningar komi í veg fyrir að svo sé.
Ég óttast að populistar Íslands notfæri sér ástandið til að þeyta upp moldviðri til að veikja ríkisstjórnina. Notfæri sér þessa ömurlegu stöðu sem fyrri stjórnvöld, gráðugir bankamenn og vanhæfar eftirlitsstofnanir komu okkur í, til að æsa fólk upp. Gera út á tilfinningasemi fólks, skapa ólgu.
Það er alltaf nauðsynlegt að veita málefnalega stjórnarandstöðu. En að skapa ólgu meðal fólks bara til að gera stjórnvöldum erfitt fyrir á ekkert skylt við málefni.
Hvaða stjórnmálaflokkur var við völd þegar Íslendingar skrifuðu undir að við ætluðum að leysa þetta Icesave með samningum?
Hvað veldur sinnaskiptum þessa flokks?
Er bara hægt að hlaupast undan slíkri undirskrift og láta eins og hún komi okkur ekki við?
Ég þoli ekki Sjálfstæðisflokkinn...........kom það einhverjum á óvart?
10.6.2009 | 21:48
Hreyfiskýrsla og Joly
Nú styttist óðum í margumtalaða og mikiðtilhlakkaðrar ferðar á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Æfingar og aðhald hafa skilað árangri sem ég er ánægð með. Úthald og kraftur hafa aukist og allt að 5 kíló fokin á jafnmörgum vikum. Nokkuð bratt en ef tekið er tillit til þess að byrjunarvigtun var gerð eftir mikið hamborgaraát og bjórdrykkju má reikna með að þetta séu um 3 kíló. Það gera ríflega 1/2 kíló á viku sem er mjög svo mátulegt.
Frétt dagsins er svo að mínu mati hótun Evu Joly um að hætta og svo að hún sé hætt við að hætta. Það er ljóst að einhver öfl hafa ekki sætt sig við að hún væri með puttana í óhreina tauinu okkar. Sjálf varð ég róleg í vetur þegar hún var ráðin að rannsókninni að bankahruninu. Taldi þar með að það væri óþarft að ég væri að hafa áhyggjur af þessu og hætti fyrirgrennslunum mínum á netinu. Það var komin hæfari kona í málið.
Ýmislegt sem sagt hefur verið og gefið í skyn í tengslum við icesave samkomulagið fyllir mig enn frekari tortryggni gagnvart fyrrum eigendum og stjórnendum Landsbankans. Ég ætla ekki að rökstyðja þetta frekar hér en hvet fólk til að hlusta á það sem EKKI er sagt og lesa það sem stundum er milli línanna og gefið í skyn.
Einnig vil ég benda á nokkrar nýlegar færslur Láru Hönnu (1, 2, 3 og 4) þar sem hún birtir greinar í danska blaðinu Ekstrabladed frá því árið 2006. Þar eru íslensku "útrásarvíkingarnir" teiknaðir upp ófögrum litum. Kaupþing var viðkvæmt fyrir þessari umfjöllun og fékk lögbann á birtinguna.
Endilega skoðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.5.2009 | 22:08
Ég treysti félagshyggju- og jafnaðarmönnum best
Það er algerlega á tæru að ég fagna nýrri ríkisstjórn. Þetta stjórnarmynstur er það sem mig og fleiri hefur dreymt um en ekki þorað að vona að gæti orðið að veruleika.
Ég hins vegar vara við bjartsýni. Þeir sem líta á þessa ríkisstjórn sem lausn á okkar vandamálum og að nú muni bjartir tímar vera framundan, þeir munu verða fyrir vonbrigðum.
Heimanmundur þessarar ríkisstjórnar er enginn. Hennar verkefni er niðurskurður og aðhald. Margir munu spyrja hvar merkin um félagshyggju verði þegar litið verður á þessar aðgerðir. Nú þegar gætir vonbrigða hjá mörgum vegna aðgerða til aðstoðar heimilanna í landinu.
Félagshyggju- og jafnaðarstefna snýst ekki um að veita öllum sömu ívilnun. Hún snýst um það að jafna aðstöðu fólks og aðstoða þá sem þurfa en ekki flatt yfir línuna.
Ég finn ekki til öfundar gagnvart þeim sem fá auknar vaxtabætur eða barnabætur. Ég þarf ekki þessa aðstoð.
Takmörkuðum fjármunum okkar þarf að ráðstafa til þeirra sem þess þurfa. Til þess treysti ég vinstri mönnum betur en þeim hægri.
Ég óska nýrri ríkisstjórn farsældar og vinnufriðar.
5.5.2009 | 16:51
Álfkona óskast
Seinustu daga hafa heyrst háværar raddir sem krefjast niðurfellingar skulda heimilanna. Slík krafa hljómar í mínum eyrum sem bón um að til okkar komi algóð álfkona og breyti ártalinu í 2007.
Einn stjórnmálaflokkur er duglegri en aðrir að kynda undir þessari óskhyggju en það er Framsóknarflokkurinn.
Í kosningum fyrir 6 árum var kosningaloforð Framsóknarflokksins um 90% íbúðalán fyrirferðamikið. Nú er talið að efndir þessa loforðs sé ein af orsökum gríðarlegrar hækkunar íbúðaverðs. Þeir sem tóku þessi lán horfa nú á eignir sínar falla í verði og standa margir hverjir uppi með neikvæða eignastöðu.
Sú staða er þyngri en tárum taki.
Til þessa hóps höfðaði Framsóknarflokkurinn í nýliðnum kosningum. 20% niðurfelling skulda var kosningaloforðið þetta árið.
En hvað þýða svona hókus pókus lausnir?
Án efa er fjöldi fólks í sömu stöðu og ég og mín fjölskylda. Núverandi húsnæði keyptum við þegar íbúðaverð var í lágmarki. Skuldir okkar eru mjög svo viðráðanlegar. Miðað við hugmyndir Framsóknarmanna þýðir þessi niðurfelling nokkrar milljónir í okkar vasa.
Þjóð sem hefur efni á að gefa fólki í minni stöðu milljónir er ekki þjóð í fjárhagsvanda. Það er þjóð sem neitar að horfast í augu við vandann.
Málflutningur Framsóknarmanna er veruleikafirring í besta falli en populismi í versta falli.
Því finnst mér afskaplega sorglegt að Hagsmunasamtök heimilanna haldi fram hliðstæðum kröfum og Framsóknarmenn, þ.e. kröfu um almenna niðurfærslu skulda. Slík niðurfærsla kemur ekki til með að gagnast þeim verst settu en gríðarlegum fjármunum verði þá varið til fólks sem ekki er í neinum vandræðum.
Nú þegar hafa verið sett í gang ýmis úrræði fyrir þá sem eiga erfitt með að standa í skilum. Vel má vera að þar sé ýmislegt gagnrýnivert og þar reynist gloppur sem þarf að laga, en þessar aðgerðir miða að því að taka sértækt á vanda hvers og eins. Tel ég það mun vænlegri kost en einhliða aðgerð á línunna óháð stöðu hvers og eins.
1.5.2009 | 17:04
1. maí
Í dag er 1. maí. Dagurinn er baráttudagur verkafólks, ekki frídagur verkafólks eins og dagurinn er stundum kynntur.
Á þessum degi er okkur hollt að hugleiða stöðu launafólks, hugleiða þau réttindi sem hafa áunnist og hversu fjarlæg þessi réttindi voru forfeðrum okkar.
Seinustu ár hefur kjarabarátta þótt óspennandi. Miklu fínna þótti að semja um kjör með einstaklingsbundnum samningum beint við vinnuveitanda. Kjarasamningar voru einungis lágmörk sem enginn lét bjóða sér. Nú þegar harðnar á dalnum getur launafólk staðið frammi fyrir því að þessi lágmörk séu þau kjör sem þeim eru boðin.
Í dag er okkur nauðsynlegt að hugleiða mikilvægi stéttafélaga og hversu mikilvægt það er að taka virkan þátt í starfi þeirra og kjarabaráttu. Hætt er við að sú barátta einkennist af varnarbaráttu næstu árin, en mikilvægi baráttunnar minnkar ekki heldur eykst.
Því er þátttaka launþega í sínum stéttafélögum mjög mikilvæg því án samstöðu er auðvelt að kroppa í áunnin réttindi.
Til hamingju með daginn!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2009 | 22:17
ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla
Umræður um aðild eða ekki aðild að ESB hafa heldur betur lifnað við eftir kosningar. Í raun er stórfurðulegt að ekki hafi verið fjallað meira um þetta mál í aðdraganda kosninganna.
Kaffistofan á mínum vinnustað logar sem aldrei fyrr, kannski vegna þess að þeir sem fyrir kosningar töldu sig samherja (VG og Samfylkingarfólk) skyndilega uppgötva að í raun ber himin og haf á milli þessara flokka í þessum málum. Annar flokkurinn telur þetta vera leið okkar út úr þeim hremmingum sem við erum í en hinn telur þetta nánast landráð.
Í vikunni rakst ég á umfjöllun um þetta í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 frá því í byrjun apríl. Þessi þáttur er aðgengilegur á síðu Láru Hönnu, sjá hér. Ég hvet alla eindregið til að skoða þáttinn, hann er vel gerður og aðgengilegur á mannamáli. Alls engin einhliða áróður, kostir og gallar aðildar dregnir fram, einnig farið yfir þau atriði sem misskilningur virðist vera uppi um og reynt að leiðrétta hann.
Framarlega í þættinum er talað við hagfræðing hjá Seðlabankanum. Hann fer yfir gjaldmiðilsmálin og eftir að hafa dregið fram ýmsa möguleika og bent á kosti og galla þeirra kemst hann bara að einni niðurstöðu.
Í byrjun vikunnar var rætt um að ein helsta leið stjórnarflokkanna til að leysa þetta mál væri að láta þjóðina kjósa um hvort við ættum að sækja um aðild.
Slíkt tel ég hið mesta óráð. Ekki bara vegna þeirrar bullumræðu sem uppi yrði þar sem andstæðingar myndu draga upp alls kyns fals um hvað í þessu fælist og þeir sem eru hliðhollir umsókn myndu draga upp glansmynd sem aldrei fengist staðist.
Það sem ég óttast meir er að í aðdraganda slíkra kosninga myndu stjórnarflokkarnir, meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn, verða í andstæðum fylkingum og láta einskis ófreistað. Slíkt yrði ekki heppileg byrjun fyrir vinstri stjórn sem ég og fleiri hafa beðið eftir árum saman.
Loksins þegar íhaldið hrökklaðist frá völdum.
Ekki langar mig að skemmta skrattanum með því að berjast í kosningum við þá sem ég tel miklu frekar vera samherja í stjórnmálum.
26.4.2009 | 22:28
Sérfræðingar og ESB
Steingrímur J. er ákveðinn og skeleggur stjórnmálamaður. Með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgja.
Nú óttast ég að ósveigjanleiki hans verði honum og nýrri vinstri stjórn fjötur um fót. Steingrímur virðist ekki geta sætt sig við að hafnar verið aðildarviðræður að ESB og kosið verði um inngöngu í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hann kvartar undan ESB elítu sem haldi umræðunni á lofti og öllum þeim "sérfræðingum" sem haldi því fram að við ættum að láta reyna á aðildarviðræður.
Ég tel nauðsynlegt í ljósi aðstæðna á þessu landi að við hlustum á "sérfræðinga" um efnahagsmál. Tökum mark á þeim leiðum sem þeir leggja til. Þetta gildir bæði um leikmenn og stjórnmálamenn.
Því tel ég að Steingrímur verði líka að hlusta á alla "sérfræðingana".
Í umræðu liðinna vikna hafa þessi "sérfræðingar" flestir átt það sammerkt að hafa mælt með aðildarumsókn.
Nú ríður á að VG dragi upp leiðir út úr þeirri krísu sem við erum í og marki okkur peningamálastefnu til framtíðar. Peningamálastefnu sem studd er rökum sérfræðinga í efnahagsmálum.
Með eða án ESB.
Ef Steingrímur skilar enn auðu í þessum málum en þverskallast samt enn við að fara að ráðum "sérfræðingaelítunnar" þá sýnist mér von mín um Röskvustjórn fölna fljótt.
19.4.2009 | 20:53
Ekki tíðkaðist að ræða slíka styrki í bankaráðinu
Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld var umfjöllun um "styrki" (lesist mútur) sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk frá Landsbankanum í árslok 2006. Umfjöllunin snerist um það að Björgólfur Guðmundsson hefði vitað af þessum styrk að sögn Sigurjóns Árnasonar. Styrkurinn hefði verið veittur með vitund og vilja Björgólfs.
Gott og vel, en:
"Aðspurður um af hverju þessi ákvörðun hefði ekki verið rætt í bankaráðinu sagði Sigurjón að það hefði einfaldlega ekki tíðkast að ræða slíka styrki þar".
Þessi seinustu orð segja meira en margt. "Styrkurinn" sem þjóðin hefur tekið andköf yfir seinustu vikur var ekki einsdæmi. Það var heldur ekki einsdæmi að ákvarðanir um slík fjárútlát hefðu bankastjórar tekið framhjá bankaráðinu.
Krefst þessi játning Sigurjóns ekki rannsóknar?