ESB og þjóðaratkvæðagreiðsla

Umræður um aðild eða ekki aðild að ESB hafa heldur betur lifnað við eftir kosningar. Í raun er stórfurðulegt að ekki hafi verið fjallað meira um þetta mál í aðdraganda kosninganna.

Kaffistofan á mínum vinnustað logar sem aldrei fyrr, kannski vegna þess að þeir sem fyrir kosningar töldu sig samherja (VG og Samfylkingarfólk) skyndilega uppgötva að í raun ber himin og haf á milli þessara flokka í þessum málum. Annar flokkurinn telur þetta vera leið okkar út úr þeim hremmingum sem við erum í en hinn telur þetta nánast landráð.

Í vikunni rakst ég á umfjöllun um þetta í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 frá því í byrjun apríl. Þessi þáttur er aðgengilegur á síðu Láru Hönnu, sjá hér. Ég hvet alla eindregið til að skoða þáttinn, hann er vel gerður og aðgengilegur á mannamáli. Alls engin einhliða áróður, kostir og gallar aðildar dregnir fram, einnig farið yfir þau atriði sem misskilningur virðist vera uppi um og reynt að leiðrétta hann.

Framarlega í þættinum er talað við hagfræðing hjá Seðlabankanum. Hann fer yfir gjaldmiðilsmálin og eftir að hafa dregið fram ýmsa möguleika og bent á kosti og galla þeirra kemst hann bara að einni niðurstöðu.

Í byrjun vikunnar var rætt um að ein helsta leið stjórnarflokkanna til að leysa þetta mál væri að láta þjóðina kjósa um hvort við ættum að sækja um aðild.

Slíkt tel ég hið mesta óráð. Ekki bara vegna þeirrar bullumræðu sem uppi yrði þar sem andstæðingar myndu draga upp alls kyns fals um hvað í þessu fælist og þeir sem eru hliðhollir umsókn myndu draga upp glansmynd sem aldrei fengist staðist.

Það sem ég óttast meir er að í aðdraganda slíkra kosninga myndu stjórnarflokkarnir, meira að segja ráðherrar í ríkisstjórn, verða í andstæðum fylkingum og láta einskis ófreistað. Slíkt yrði ekki heppileg byrjun fyrir vinstri stjórn sem ég og fleiri hafa beðið eftir árum saman.

Loksins þegar íhaldið hrökklaðist frá völdum.

Ekki langar mig að skemmta skrattanum með því að berjast í kosningum við þá sem ég tel miklu frekar vera samherja í stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hef trú á því að þú sért að reyna að halda uppi vitrænni umræðu um ESB og þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna skil ég ekki að þú skulir óttast "bullumræðu" í aðdragandanum. Ekki er betri kostur að kjósa án þess að ræða málið og það verður þjóðaratkvæðagreiðsla hvernig sem fer. Þar verða stjórnarflokkarnir óumflýjanlega sinn á hvoru máli.

Mín skoðun er að fyrst Samfylking leggur svona mikla áherslu á málið sé best að fá þessa umræðu strax, áður en lögð er inn umsókn. Við kjósendur erum vön því að þurfa að sía bitastæðar upplýsingar frá bullin.

Lilja (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband