Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Að kyrkja lambið

Fréttir undanfarinna daga hafa svo sannarlega vakið mig upp af værum blundi. Auðlindasalan sem virðist vera að eiga sér stað á Suðurnesjunum fær hárin á mér til að rísa.

Enn á ný voru hugsanir mínar vaktar og ég ákvað að kynna mér betur hvað væri í gangi varðandi söluna á HS-Orku. Lára Hanna Einarsdóttir hefur safnað gríðarlega miklu efni og á síðunni hennar er hægt að finna mikið fréttaefni tengt þessum gerningi.

Ekki get ég sagt að ég hafi náð skilningi á hvað þar er í gangi en svo mikið er víst að grunsemdir mínar um að þar sé ekki allt sem sýnist, hafa vaknað. Greinin hér að neðan birtist í DV í byrjun júlí og vakti áhuga minn (smellið á myndina þar til læsileg stærð fæst):

dv_090703_sala_hs_orku_874848

Að ofurskuldsett fyrirtæki eins og GGE virðist vera, skuli hafa getað keypt hlut í HS Orku er mér óskiljanlegt.

Nokkru síðar birti DV umfjöllun um tengsl Geysis Green Energy og S-hópsins svonefnda. sjá hér:

090710_dv_s-hopurinn_fer_me_vold_i_geysi_green

Við lestur þessarar greinar kom upp í hugan frasinn "The usual suspects".

Í júlí framseldi Reykjanesbær hlut sinn í HS orku til GGE. Þá voru landsmenn með hugann við sitt sumarfrí og stjórnmálaumræðan snerist um ESB eða ekki ESB. Því hafa þessar fréttir vafalaust farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum.

Nú er ágúst. Allir með hugann við Icesave málið. Þá var lag til að framkvæma annan þátt í gerningnum, GGE selur 10% af hlut sínum í HS Orku til Magma energy. Á sama tíma gerir Magma energy tilboð í hlut HS Orku sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Samkeppnisyfirvöld hafa úrsurðað að OR sé ekki heimilt að eiga þennan hlut og er því OR tilneydd til að selja. 

Og hvað skyldi svo þetta Magma energy vera? Látið er líta út fyrir að um sé að ræða erlent stórfyrirtæki í orkuiðnaði en reyndin er önnur. Þetta er nýlegt fyrirtæki sem enn hefur ekki skilað inn neinum tekjum að því mér skilst. Kjörin sem fyrirtækið fer fram á í kaupunum er lítið borgað út, lágir vextir og restin eftir 7 ár.

Þetta á að heita erlent fjármagn inn í landið. Og forsvarsmenn í atvinnulífinu kætast, sbr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sl. föstudag.

Vissulega vantar okkur erlent fjármagn inn í landið en það er bara svo að sumt í þessu lífi er ekki til sölu. Við gætum svo sannarlega selt:

  • Börnin okkar í ánauð
  • Konur erlendum auðmönnum blíðu sína
  • Auðlindir

En ekkert af þessu er til sölu. Hversu illa sem við erum stödd.

hs-logo

 

Þegar ég horfi á merki HS-Orku finnst mér eins og verið sé að kyrkja Íslandslambið okkar.

Dæmi hver fyrir sig.

 

Fyrir þá sem vilja kynna sér meira af efni þessu tengt þá bendi ég sérstaklega á eftirfarandi:

Pistill Bjargar Evu Erlendsdóttur og linkar á eldri umfjallanir Láru Hönnu 

Nýlega umfjöllun Láru Hönnu og samanklipptar fréttir úr ljósvakamiðlum

Svikamyllan á Suðurnesjum, Lára Hanna og grein Guðbrands Einarssonar í Víkurfréttum

http://icelandtalks.net/?p=643

http://ak72.blog.is/blog/ak72/entry/937113/ glæný og góð samantekt um helstu persónur og leikendur


Þar sem er reykur þar er stundum............

Eitt af tómstundaverkum mínum er að sitja við tölvuna og gúggla. Uppáhaldsgúgglorðin mín eru "money laundering + iceland" eða + einhver nöfn á einstaklingum, bönkum eða fyrirtækjum sem tengjast bankahruninu. Einnig nota ég stundum "russian mafia +" sömu nöfn. Einnig hef ég dundað við þetta á dönsku. Eins og ég hef áður nefnt er niðurstaðan áhugaverð.

Ég tók mér gott sumarfrí frá þessu tómstundagamni en nú nýlega byrjaði ég aftur og viti menn............. mikið var um nýjar niðurstöður frá því í sumar.

Ég get ekki stillt mig um að setja hér inn link á það sem mér þótti áhugaverðast. Þess skal þó getið að það sem þarna birtist er í sögusagnastíl svo ekki sé meira sagt. Ég vil samt minna á að þar sem er reykur, þar er stundum..........

Njótið heil.

http://icelandtalks.heidi.1984.is/


Bjartur og þjóðin

Illugi Jökulsson skrifar ágætisumfjöllun um Bjart í Sumarhúsum í DV sl. föstudag. Mér varð ljóst þegar ég las þessa umfjöllun að minni mitt gagnvart þessari persónu Íslandssögunnar var farið að daprast. Því fór ég í bókahillurnar og veiddi karlinn fram.

Lesturinn stendur enn yfir, en þó er mér ljóst að gagnrýni Illuga á hvernig margir lofa sjálfstæðisbaráttu Bjarts á við rök að styðjast.

Ég væri ekki ánægð með að vera líkt við karlinn.

Ég væri ekki heldur ánægð með að tilheyra þjóð sem væri líkt við karlinn.

Því miður held ég samt að þvermóðska okkar þjóðar og rembingur eigi það samt skilið. Líkindin eru meiri en ég vildi.

Annars er líklega heillavænlegast að klára bókina áður en ég tjái mig meira.


Umræðan um íssparnaðinn

Ég hef lengi vel reynt að leiða hjá mér umræðuna um íssparnaðinn, talið þetta of lagatæknilega flókið til að ég treysti mér til þess að hafa skoðun.

En þar sem ég er skoðanafíkin með afbrigðum þá hefur mér mistekist þetta. Einkum og sérílagi vegna þess að það pirrar mig hversu mikið afvegaleidd umræðan er. Látið er í það skína að þetta snúist um hvort við viljum borga, viljum hafa samninginn svona eða hinsegin. Betur ef svo væri. Sannleikurinn er einfaldlega sá að við erum í níðþröngri stöðu.

Það sem mér finnst vanta í umræðuna er að velt sé upp hvaða valkosti við raunverulega höfum og kosti og galla hvers valkosts. Í mínum huga þá höfum við um þrjá kosti að velja:

  1. Við borgum ekki. Þeir sem velja þennan kost telja að okkur beri ekki lagaleg skylda til að greiða innistæðueigendum í Bretlandi og Hollandi. Því er þá helst borið við að það sé Tryggingasjóður innistæðueigenda sem beri að greiða þetta, hann sé tómur, málið dautt. Íslenska ríkið beri þarna enga ábyrgð. Ef Bretar og Hollendingar fallist ekki á þetta geti þeir bara farið í mál við okkur sem við ættum þá að vinna.

  2. Okkur ber að greiða þetta en núverandi samkomulag er óviðunandi, semjum upp á nýtt.Þeir sem velja þennan kost telja vænlegast að hafna ríkisábyrgð skv nú verandi samkomulagi en eigi að síður beri okkur skylda til að greiða þetta. Vænlegast sé að skipa nýja samninganefnd og senda til Breta og Hollendinga og freista þess að fá nýjan og betri samning.

  3. Okkur ber að greiða þetta skv. því samkomulagi sem búið er að undirrita. Mögulega sé þetta samkomulag sem þegar hafi verið undirritað, ekki algott. Hins vegar sé fórnarkostnaður af því að hafna því og reyna að semja upp á nýtt margfaldur miðað við mögulegan ávinning. Hafa beri í huga að allar aðgerðir til endurreisnar efnahagslífisins séu í frosti og bíði þar til þetta mál sé afgreitt. Þolinmæði umheimsins sé þrotinn og við séum fallin á tíma. Algerlega sé óvíst yfirhöfuð að við fengjum betri samning.

Þar sem öll umræða seinustu daga hefur verið byggð á tilfinningalegum nótum með grátandi Jón Sigurðsson í broddi fylkingar, hefur verið illgerlegt að átta sig á hver er í hvaða flokki. Meginhluti þingmanna stjórnarflokkanna eru þó í seinasta hópnum.

Málefnalega er styttra milli hóps 2 og 3 en hóps 1 og 2. Mér er ekki með nokkru móti mögulegt að átta mig á hvar stjórnarandstaðan stendur. Hér hafa fjölmiðlar enn og aftur fallið á prófinu og ekki spurt hvaða leið andstæðingar samkomulagsins sjái og hvernig eigi að ná því fram.

Það er ekki nóg að segja "nei ég vil ekki". Það verður líka að útskýra hvað á að koma í staðinn og hvernig eigi að ná því fram. Einnig þarf að rökstyðja það með hvaða hætti við ætlum að halda áfram uppbyggingu efnahagslífisins án aðstoðar annarra þjóða sem halda að sér höndum meðan þetta mál er á ís. Getum við beðið?

Þetta hefur vantað í umræðuna.


Af því að útlenski maðurinn sagði það

Íslendingar eru alltaf sömu smásálirnar. Nú má helst skilja að samningsstaða okkar gagnvart Bretum og Hollendingum hafi skyndilega batnað. Af hverju? Jú af því að útlenskur maður sagði að rétt hefði verið að bíða með að semja þar til ljóst væri hvað eignir Landsbankans gæfu af sér.

Hver getur ekki tekið undir þetta?

Og hvað kemur í ljós, jú auðvitað það að íslenska samninganefndin reyndi að semja á þessum nótum.........en því var hafnað.

Og hvað hefur þá breyst?

Útlenskur maður sagði þetta við fjárlaganefnd Alþingis.

Einnig hefur leiðarahöfundur Financial Times talað máli okkar.

En hverju breytir það varðandi stöðu okkar gagnvart viðsemjendum okkar?

Engu að því ég best get séð.

Af umfjöllun undanfarinna daga mætti stundum halda að atkvæðagreiðsla Alþingis um ríkisábyrgð á Icesavesamningnum snúist um það hvort við skuldum þetta eða ekki, eða hvort við yfirhöfuð viljum borga. Að með einfaldri handauppréttingu á Alþingi sé hægt að ákveða hvort við þurfum að borga þetta.

Mikið vildi ég að svo væri. Þá er ég ansi hrædd um að Ögmundi yrði að ósk sinni og niðurstaðan yrði klárlega 63:0 og samningurinn yrði felldur og skuldirnar myndu niður falla.

Það er eins og það gleymist í umræðunni að við skuldum þetta jafnmikið hvort sem samningurinn verði felldur eða samþykktur.

Fáránleiki umfjöllunarinnar náði nýju hámarki í kvöld þegar fréttkona á Stöð 2 varpaði undrandi þeirri spurningu til Guðbjartar Hannessonar hvort hann vildi kannski sleppa við að borga Icesave. Hélt hún virkilega að þetta snerist um hvort okkur langaði að borga?

Að lokum vil ég svo benda á ágætan pistil Guðmundar Gunnarssonar frá því í gær og annan sem birtist í dag.


Úr heitapottinum

Í heitum pottum sundlauganna er ýmislegt skrafað. Pottarnir í sundlaug Seltjarnarness eru þar engin undantekning. Ég læt hér fljóta samsæriskenningu ættaða úr pottinum.

Margir einstaklingar sem tengjast Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki eru með æði óhreint mjöl í poka sínum. Nægir þar að nefna lánabók Kaupþings þessari fullyrðingu til stuðnings. Sú flökkusaga gengur víða, í bloggheimum, kaffistofum og í heitu pottunum að lánabók Kaupþings hljómi sem barnasögur við hliðina á lánabók Landsbankans.

Nú sé hins vegar tekið að hitna æði hressilega undir elítunni í áðurnefndum stjórnmálaflokkum. Því hafi verið gefið algert skotleyfi á núverandi ríkisstjórn.

Stjórnarandstaðan lætur einskis ófreistað í andstöðu sinni gegn stjórninni og virðast málefni þar litlu skipta. Er með ólíkindum að fylgjast með forsvarsmönnum atvinnulífsins sem stundum hafa verið tengdir sterklega Sjálfstæðisflokknum, koma með hjáróma andóf gegn áköfum áróðri flokksmaskínunnar. Þessi staðreynd segir meira en mörg orð um stöðu flokksins, það geta ekki verið hagsmunir umbjóðendanna sem ráða framgöngu ráðamannanna, þar eru einhverjir aðrir hagsmunir sem ráða för.

Ég og fleiri hafa furðað sig á þeim krafti sem lagður er í andóf stjórnarandstöðunnar, hvort sem er Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins gegn bæði icesave og ESB. Skiptir þar engu máli stefna flokkanna (sbr Framsókn og ESB) eða skuldbindingar ráðamanna í fyrri ríkisstjórn (sbr Sjálfstæðisflokkurinn og framganga þeirra varðandi Icesave sl. haust).

Skýringu fékk ég í heita pottinum um helgina, þessir flokkar verði að komast að kjötkötlunum til að hindra að fleiri steinum verði velt við. Með það markmið að leiðarljósi þá sé raunverulega allt leyfilegt. Þeir verði að sprengja ríksstjórnina, besta leiðin til þess sé að róa í þjóðernissinnunum í Vinstri Grænum og fá þá til að hafna Icesave frumvarpinu.

Eftir höfnun á því, sé stjórninni ekki stætt og þá sé eftirleikurinn auðveldur. Mögulega nýjar kosningar og þjóðin virðist sannfærð um að útlendingar séu okkur vondir og Icesave samkomulagið sé birtingarmynd þess. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur muni bjarga okkur frá samþykkt ríkisábyrgðar á því.

Það er ekki einleikið hversu sterkur áróðurinn fyrir þjóðernishyggju er þessa dagana. Það eru tilfinningar sem auðvelt er að kynda undir og þar erum við veikust fyrir, þar eru Vinstri Grænir líka veikastir fyrir.

Guð blessi Ísland.


Að vera hinsegin - leyfið til að vera öðruvísi

Þessa dagana standa yfir hinsegin dagar og eru þeir tileinkaðir réttindabaráttu samkynhneigðra. Hápunkturinn er efalaust gleðigangan í miðbæ Reykjavíkur og eiga samkynhneigðir lof skilið fyrir það jákvæða yfirbragð sem þessari göngu hefur ávallt fylgt. Í stað reiði, sjálfsvorkunnar og kröfuspjalda er ásýndin gleði og hamingja yfir lífinu og þeirri einlægu ósk að fá að vera "eins og ég er".

Á fáum árum hefur samkynhneigðum á þennan hátt tekist með jákvæðni að breyta viðhorfi almennings til sín. Smám saman höfum við gefið leyfið til að vera hinsegin, leyfið til að vera öðruvísi en fjöldinn.

Seinustu mánuði hef ég oft hugsað um hve illa okkur Íslendingum hefur gengið að gefa þetta leyfi, tilhneigingin til að steypa alla í sama mót hefur verið mjög sterk. Börn sem skera sig úr fjöldanum hafa átt erfitt uppdráttar, jafnvel fullorðnir líka. Vafalaust gildir þetta enn um samkynhneigða en jákvæð baráttuaðferð þeirra hefur skilað þeim ákveðinni viðurkenningu og er það vel.

Ein er sú stofnun sem hefur átt erfitt með að viðurkenna samkynhneigð, það er kirkjan. Því miður er það einnig stofnun sem á erfitt með að viðurkenna margskonar fjölbreytileika, m.a. það að til er fólk sem aðhyllist enga trú.

Þessi stofnun reynir leynt og ljóst að sækja inn í skólastofnanir til að tryggja sér fylgi áður en gagnrýnin hugsun festir sig í sessi hjá barninu. Því miður spila margir kennarar með í þessari sókn.

Fyrir um ári síðan fékk dóttir mín eftirfarandi athugasemd frá kennara í grunnskóla:

"Það trúa allir á eitthvað".

Þessi athugasemd er jafnröng og eftirfarandi athugasemd:

"Allir strákar verða skotnir í stelpum og allar stelpur verða skotnar í strákum".

Í báðum þessum fullyrðingum er fjölbreytileika hafnað. Í gær var okkur svo sannarlega sýnt fram á hversu röng seinni athugasemdin er og ég held að við séum smám saman að átta okkur á þeirri staðreynd.

Spurningin sem ég hef velt fyrir mér er hins vegar: Höfum við almennt áttað okkur á því hversu röng fyrri athugasemdin er?

Samkynhneigðir eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeim hefur tekist að sýna okkur fram á fjölbreytileika mannlífsins. Það er okkar að víkka hugann og viðurkenna þennan fjölbreytileika á fleiri sviðum, gefa leyfið til að vera hinsegin.


Hvar skal tryggja?

Við höfum undanfarna mánuði fengið í misstórum skömmtum ótrúlegar fréttir af viðskiptum sem tíðkast hafa hér á landi.

Margar þessar fréttir eru þess eðlis að hefðu þessi viðskipti verið kynnt í skáldsögu hefðum við afskrifað skáldsöguna vegna þess hve allt væri ótrúverðugt.

Raunveruleikinn er lygilegri en skáldsaga.

Ein af þessum furðufréttum var um að Sigurður Einarsson fyrrum bankastjóri Kaupþings hefði fengið háar upphæðir að láni hjá VÍS vegna byggingar á sumarhöll sinni í Borgarfirði, sjá hér.

"Er það hægt, er VÍS lánastofnun?" spurði ég mig í vetur og fór enn einu sinni hamförum yfir fréttum dagsins.

Þar sem allar tryggingar okkar hjóna eru hjá VÍS varð ég algalin yfir þessum fréttum og hótaði að segja viðskiptum mínum upp hjá þessu siðlausa tryggingafélagi.

"Og hvert hafðir þú hugsað þér að flytja þig?" spurði þá eiginmaður minn sem öllu jafna hugsar einum leik lengra.

Það var nú það.

Er einhver með hugmynd?


Sofandi hrun flugeldahagfræði

Atburðir liðinna mánaða hafa gert mig einbeitingarlausa. Hugurinn hefur verið rótlaus og ég hef ekki náð sæmilegri einbeitingu við lestur góðra bóka eins og ég annars hef stundum dundað mér við. Fyrirsagnir dagblaða og síðan skautað yfir helstu fréttir með mismunandi hröðum yfirlestri, ásamt lestri ýmissa pistla á netinu er það sem einbeiting mín hefur ráðið við.

Nú nýverið hef ég þó hesthúsað þrjár bækur. Skyldu þær fjalla um "kreppuna"? Ójá.

Sofandi að feigðarósi
Hrunið
Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendur.

Það skemmtilega við þessar bækur er að nálgunin á efnið er mjög mismunandi.

Sofandi að feigðarósi

Þessi bók kom fyrst út. Hún ber þess líka merki að vera unnin hratt. Töluvert er um langar tilvitnanir í fréttir, skýrslur eða annan texta. Þennan texta hefði vel mátt stytta. Bókin er örlítið grautarleg og svolítið vaðið úr einu í annað og sömu atriði tekin fyrir oftar en einu sinni.

Textinn rennur hins vegar vel og það heldur manni við efnið. Fyrir mig kom ekkert nýtt fram í bókinni enda hef ég fylgst þokkalega vel með atburðum liðinna mánaða. Höfundur kemur með sína sýn og skýringar á atburðarásinni og það kom mér skemmtilega á óvart hversu sú sýn er samhljóma minni eigin.

Í stuttu máli þá telur höfundur aðkomu og aðgerðaleysi bankastjórnar Seðlabankans hafa haft mikið að segja um það sem gerðist. Það er óhætt að segja að Davíð Oddsson fari ekki vel út úr umfjöllun bókarinnar.

Bókin er fljótlesin en skilur í sjálfu sér ekki mikið eftir fyrir þá sem hafa fylgst vel með atburðum seinustu mánaða, skýringar höfundar eru áhugaverðar en hafa ber í huga að þær eru hans sýn á atburðina.

Hrunið

Hrunið er mesta heimildaritið. Höfundur er að lýsa atburðum og raðar í tímaröð. Inn á milli eru kaflar sem lýsa tíðarandanum og varpa betri yfirsýn á umhverfi þessara atburða. Höfundur kemur þó með eigin sýn og skýringar á bakgrunninum en sú sýn er dempuð og án sterkra lýsinga.

Þessi bók mun lifa lengst. Það getur verið áhugavert að glugga í þessa bók að tíu eða tuttugu árum liðnum og rifja upp atburðina.

Fyrir mig sem hef fylgst vel með fréttum kom fátt nýtt fram. Þó man ég eftir tveim atriðum.

Í bókinni kemur fram að Árni Matthiesen hafi staðið frammi fyrir því að verða að hafna eða samþykkja gerðardóm í Icesave málinu. Hann reyndi að ná í Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu en náði ekki. Hann samþykkti gerðardóminn. Stuttu síðar náðist í Ingibjörgu sem var ekki par hrifin og tókst að segja okkur frá gerðardóminum. Þetta vissi ég ekki.

Í bókinni kemur einnig fram að það hafi verið eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur sem borgaði Hauk, bónusfánapiltinn út úr varðhaldi í nóvember. Þetta vissi ég ekki heldur.

Bókin lýsir atburðum í Búsáhaldabyltingunni. Þar er sagt frá því að miðvikudaginn 21. hafi mótmælendur flutt sig af Austurvelli yfir að stjórnarráðshúsinu af tillitssemi vegna yfirstandandi jarðarfarar.

.....meira að segja trúleysingjarnir í liði anarkista - sýndu kirkjugestum þá háttvísi að trufla ekki athöfnina.

Þetta fannst mér sérkennileg athugasemd. Ég þekki bæði trúað fólk og trúleysingja. Ég hef ekki séð að tillitssemi eða tillitsleysi sé bundin við annan hópinn umfram hinn. Fannst mér bókina setja töluvert niður við þessa óþörfu athugasemd.

Hrunið gerir ekki tilraun til að finna sökudólga eða skyggnast á bakvið atburðina og finna skýringar eða orsakir, þetta er meira lýsing á atburðum. Sem slík er þetta ágætlega vönduð bók, heldur seinlesnari en hinar.

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendur

Af þessum þremur bókum er þessi mest djúsí. Þetta er ekki sagnfræði en þarna er gerð tilraun til að lýsa ótrúlegum viðskiptaháttum fyrir sauðsvörtum almúganum. Viðskiptum og lífi sem við máttum vita að ætti sér stað en kusum að vita ekki af.

Einnig er tengslum manna lýst og eftir lesturinn áttar maður sig betur á hve hættulega lítið þjóðfélag okkar er. Kunningja- og ættartengslin eru víða.

Í bókinni eru lýsingar á mönnum og vel getur verið að höfundur eigi erfitt með að standa við allt sem sagt er. Þessar lýsingar eru samt áhugaverðar og þó settir séu örlitlir fyrirvarar þá þær þá verður heildarmyndin skýrari fyrir vikið.

Einkavæðingarferlið er sett fram, krosseignartengsl skýrð út, tengsl bankamanna, stjórnmálamanna og lífeyrissjóða sett í samhengi. Einnig hvernig þær aðgerðir sem gripið var til seinustu mánuði fyrir hrun urðu til þess að tap almennings í gegnum lífeyrissjóði,  peningamarkaðsreikninga og lána Seðlabankans, varð miklu meira en það hefði þurft að verða. Þetta var vegna þess að menn sem áttu að gæta hags almennings voru of nákomnir stærstu eigendum og stjórnendum bankanna og aðgerðir þeirra miðuðust meira við hagsmuni stærri eigenda frekar en umbjóðenda sinna.

Þessi bók setti hlutina í betra samhengi fyrir mig þó í raun hafi ég ekki séð margt nýtt. Hún er mjög fljótlesin.

Ég get eftir þennan lestur mælt með öllum þessum bókum. Líklega er bókin "Sofandi að feigðarósi" síst. Hrunið er mesta ritið og á vafalaust eftir að lifa lengst. Íslenska efnahagsundrið er samt áhugaverðust en krefst þess jafnframt að maður sé í þokkalegu andlegu jafnvægi því það er auðvelt að verða fjúkandi reiður við lesturinn.


Til Parísar

Ég hef aldrei talið mig fátæka, ég hef alltaf átt nóg fyrir mat og húsnæði. En ég hef þurft að velta fyrir mér hverri krónu, stunda miklar æfingar í deilingu í búðum til að finna út einingarverð vöru til þess að finna hagstæðustu kaupin.

Þetta var á menntaskólaárum mínum, þá lét ég sumarhýruna duga veturinn, drýgði hana reyndar með vinnu hjá félagsþjónustu Reykjavíkur og síðar vinnu í sjoppu. Þetta dugði fyrir húsaleigu og fæði. Ég fékk að vísu sent að heiman úr sveitinni, slátur og ýmsan innmat úr kálfum sem ekkert fékkst fyrir í sláturhúsinu. Mamma sótti þetta í sláturhúsið, frekar en láta sláturhúsið taka þetta og fá ekkert fyrir. Þetta sendi hún mér síðan. Kálfalifrar, kálfahjörtu og hakkaðar þindar og hálsæðar voru mínir bónusar fyrir velunnin sumarstörf.

Ég var í skólanum í 8 mánuði á ári, því með góðri ástundun tókst mér yfirleitt að sleppa vorprófum. Að hausti tók ég sumarhýruna og deildi með 8. Lagði allt inn á bók og borgaði mér mánaðarlega það sem kom út úr deilingunni.

Þetta var á miklum verðbólgutíma en eftir áramótin kom dreifbýlisstyrkur fyrir þá nemendur sem sóttu skóla fjarri heimahögum. Dreifbýlisstyrkurinn var fyrir mér eins konar verðbætur þannig að hann jafnaði út þá rýrnun sem varð vegna verðbólgu á mánaðarlegri útborgun minni eftir áramót.

Mér er enn minnisstæð öfund samnemenda minna þegar við "utanaflandi" nemarnir fengum dreifbýlisstyrkinn. Þau voru þá flest búin með sína sumarhýru og litu þannig á að við værum heppin mjög að fá þessa peninga. Þessir nemar bjuggu flest áhyggjulaus hjá foreldrum og þeirra flestra beið heitur matur á kvöldin sem þau þurftu ekki að hafa áhyggjur af hvað kostaði. 

Ég man líka eftir kveini þeirra þegar þau voru blönk og sögðust ekki komast á skólaböllin þar sem þau ættu engan pening. Einhverra hluta vegna þá mættu þau þar flest eigi að síður.

Ég man líka eftir kveini sumra stúlknanna yfir fataleysi en einhvern veginn tókst þeim nú samt að komast yfir nýjan kjól fyrir árshátíðina.

Best man ég hvað mér sjálfri fannst um þetta blankheitakvein þeirra. Ég hugsaði svo sannarlega mitt án þess að geta orðað hugsanir mínar upphátt því ég vissi að minn veruleiki var þeim svo framandi að það hafði enga þýðingu að setja hugsanir mínar í orð. Þau hefðu ekki skilið það, því valdi ég þá leið að fela peningaleysi mitt og barlómur var mér víðsfjarri en ég hugsaði mitt.

Nú hefur skotið upp umræðu um að lausn á skuldavanda okkar Íslendinga sé að sækja inngöngu í klúbb nokkurn sem kenndur er við París. Slíkt hljómar ágætlega í fyrstu. Þar ku vera hægt að fá einhverja niðurfellingu skulda og semja um greiðslukjör á lánum.

Þegar betur er að gáð reynist þetta vera sérúrræði fyrir allra fátækustu ríki heims. Ríki sem eru svo fátæk að þau geta ekki boðið þegnum sínum upp á lágmarks heilbrigðisþjónustu eða menntun. Ólæsi landlægt semog barnadauði.

Við þessar fréttir verður mér hugsað til þess hvað mér fannst um blankheitavæl skólafélaga minna.

Hvað skyldu þessi allra fátækustu ríki hugsa um okkur þegar við sækjum um inngöngu í Parísarklúbbinn?

Og okkur hefur dottið í hug að sækja þar um.......til að geta áfram haft ein betu lífssgæði í öllum heiminum.

Að bera stöðu okkar saman við stöðu í þessum löndum er veruleikafirring og stjórnmálamenn sem gera sig seka um það þurfa svo sannarlega að hugsa sinn gang.

Umfjöllun um erindi okkar í Parísarklúbbinn má sjá hér og hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband