Sofandi hrun flugeldahagfræði

Atburðir liðinna mánaða hafa gert mig einbeitingarlausa. Hugurinn hefur verið rótlaus og ég hef ekki náð sæmilegri einbeitingu við lestur góðra bóka eins og ég annars hef stundum dundað mér við. Fyrirsagnir dagblaða og síðan skautað yfir helstu fréttir með mismunandi hröðum yfirlestri, ásamt lestri ýmissa pistla á netinu er það sem einbeiting mín hefur ráðið við.

Nú nýverið hef ég þó hesthúsað þrjár bækur. Skyldu þær fjalla um "kreppuna"? Ójá.

Sofandi að feigðarósi
Hrunið
Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendur.

Það skemmtilega við þessar bækur er að nálgunin á efnið er mjög mismunandi.

Sofandi að feigðarósi

Þessi bók kom fyrst út. Hún ber þess líka merki að vera unnin hratt. Töluvert er um langar tilvitnanir í fréttir, skýrslur eða annan texta. Þennan texta hefði vel mátt stytta. Bókin er örlítið grautarleg og svolítið vaðið úr einu í annað og sömu atriði tekin fyrir oftar en einu sinni.

Textinn rennur hins vegar vel og það heldur manni við efnið. Fyrir mig kom ekkert nýtt fram í bókinni enda hef ég fylgst þokkalega vel með atburðum liðinna mánaða. Höfundur kemur með sína sýn og skýringar á atburðarásinni og það kom mér skemmtilega á óvart hversu sú sýn er samhljóma minni eigin.

Í stuttu máli þá telur höfundur aðkomu og aðgerðaleysi bankastjórnar Seðlabankans hafa haft mikið að segja um það sem gerðist. Það er óhætt að segja að Davíð Oddsson fari ekki vel út úr umfjöllun bókarinnar.

Bókin er fljótlesin en skilur í sjálfu sér ekki mikið eftir fyrir þá sem hafa fylgst vel með atburðum seinustu mánaða, skýringar höfundar eru áhugaverðar en hafa ber í huga að þær eru hans sýn á atburðina.

Hrunið

Hrunið er mesta heimildaritið. Höfundur er að lýsa atburðum og raðar í tímaröð. Inn á milli eru kaflar sem lýsa tíðarandanum og varpa betri yfirsýn á umhverfi þessara atburða. Höfundur kemur þó með eigin sýn og skýringar á bakgrunninum en sú sýn er dempuð og án sterkra lýsinga.

Þessi bók mun lifa lengst. Það getur verið áhugavert að glugga í þessa bók að tíu eða tuttugu árum liðnum og rifja upp atburðina.

Fyrir mig sem hef fylgst vel með fréttum kom fátt nýtt fram. Þó man ég eftir tveim atriðum.

Í bókinni kemur fram að Árni Matthiesen hafi staðið frammi fyrir því að verða að hafna eða samþykkja gerðardóm í Icesave málinu. Hann reyndi að ná í Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu en náði ekki. Hann samþykkti gerðardóminn. Stuttu síðar náðist í Ingibjörgu sem var ekki par hrifin og tókst að segja okkur frá gerðardóminum. Þetta vissi ég ekki.

Í bókinni kemur einnig fram að það hafi verið eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur sem borgaði Hauk, bónusfánapiltinn út úr varðhaldi í nóvember. Þetta vissi ég ekki heldur.

Bókin lýsir atburðum í Búsáhaldabyltingunni. Þar er sagt frá því að miðvikudaginn 21. hafi mótmælendur flutt sig af Austurvelli yfir að stjórnarráðshúsinu af tillitssemi vegna yfirstandandi jarðarfarar.

.....meira að segja trúleysingjarnir í liði anarkista - sýndu kirkjugestum þá háttvísi að trufla ekki athöfnina.

Þetta fannst mér sérkennileg athugasemd. Ég þekki bæði trúað fólk og trúleysingja. Ég hef ekki séð að tillitssemi eða tillitsleysi sé bundin við annan hópinn umfram hinn. Fannst mér bókina setja töluvert niður við þessa óþörfu athugasemd.

Hrunið gerir ekki tilraun til að finna sökudólga eða skyggnast á bakvið atburðina og finna skýringar eða orsakir, þetta er meira lýsing á atburðum. Sem slík er þetta ágætlega vönduð bók, heldur seinlesnari en hinar.

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendur

Af þessum þremur bókum er þessi mest djúsí. Þetta er ekki sagnfræði en þarna er gerð tilraun til að lýsa ótrúlegum viðskiptaháttum fyrir sauðsvörtum almúganum. Viðskiptum og lífi sem við máttum vita að ætti sér stað en kusum að vita ekki af.

Einnig er tengslum manna lýst og eftir lesturinn áttar maður sig betur á hve hættulega lítið þjóðfélag okkar er. Kunningja- og ættartengslin eru víða.

Í bókinni eru lýsingar á mönnum og vel getur verið að höfundur eigi erfitt með að standa við allt sem sagt er. Þessar lýsingar eru samt áhugaverðar og þó settir séu örlitlir fyrirvarar þá þær þá verður heildarmyndin skýrari fyrir vikið.

Einkavæðingarferlið er sett fram, krosseignartengsl skýrð út, tengsl bankamanna, stjórnmálamanna og lífeyrissjóða sett í samhengi. Einnig hvernig þær aðgerðir sem gripið var til seinustu mánuði fyrir hrun urðu til þess að tap almennings í gegnum lífeyrissjóði,  peningamarkaðsreikninga og lána Seðlabankans, varð miklu meira en það hefði þurft að verða. Þetta var vegna þess að menn sem áttu að gæta hags almennings voru of nákomnir stærstu eigendum og stjórnendum bankanna og aðgerðir þeirra miðuðust meira við hagsmuni stærri eigenda frekar en umbjóðenda sinna.

Þessi bók setti hlutina í betra samhengi fyrir mig þó í raun hafi ég ekki séð margt nýtt. Hún er mjög fljótlesin.

Ég get eftir þennan lestur mælt með öllum þessum bókum. Líklega er bókin "Sofandi að feigðarósi" síst. Hrunið er mesta ritið og á vafalaust eftir að lifa lengst. Íslenska efnahagsundrið er samt áhugaverðust en krefst þess jafnframt að maður sé í þokkalegu andlegu jafnvægi því það er auðvelt að verða fjúkandi reiður við lesturinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband