Til Parísar

Ég hef aldrei talið mig fátæka, ég hef alltaf átt nóg fyrir mat og húsnæði. En ég hef þurft að velta fyrir mér hverri krónu, stunda miklar æfingar í deilingu í búðum til að finna út einingarverð vöru til þess að finna hagstæðustu kaupin.

Þetta var á menntaskólaárum mínum, þá lét ég sumarhýruna duga veturinn, drýgði hana reyndar með vinnu hjá félagsþjónustu Reykjavíkur og síðar vinnu í sjoppu. Þetta dugði fyrir húsaleigu og fæði. Ég fékk að vísu sent að heiman úr sveitinni, slátur og ýmsan innmat úr kálfum sem ekkert fékkst fyrir í sláturhúsinu. Mamma sótti þetta í sláturhúsið, frekar en láta sláturhúsið taka þetta og fá ekkert fyrir. Þetta sendi hún mér síðan. Kálfalifrar, kálfahjörtu og hakkaðar þindar og hálsæðar voru mínir bónusar fyrir velunnin sumarstörf.

Ég var í skólanum í 8 mánuði á ári, því með góðri ástundun tókst mér yfirleitt að sleppa vorprófum. Að hausti tók ég sumarhýruna og deildi með 8. Lagði allt inn á bók og borgaði mér mánaðarlega það sem kom út úr deilingunni.

Þetta var á miklum verðbólgutíma en eftir áramótin kom dreifbýlisstyrkur fyrir þá nemendur sem sóttu skóla fjarri heimahögum. Dreifbýlisstyrkurinn var fyrir mér eins konar verðbætur þannig að hann jafnaði út þá rýrnun sem varð vegna verðbólgu á mánaðarlegri útborgun minni eftir áramót.

Mér er enn minnisstæð öfund samnemenda minna þegar við "utanaflandi" nemarnir fengum dreifbýlisstyrkinn. Þau voru þá flest búin með sína sumarhýru og litu þannig á að við værum heppin mjög að fá þessa peninga. Þessir nemar bjuggu flest áhyggjulaus hjá foreldrum og þeirra flestra beið heitur matur á kvöldin sem þau þurftu ekki að hafa áhyggjur af hvað kostaði. 

Ég man líka eftir kveini þeirra þegar þau voru blönk og sögðust ekki komast á skólaböllin þar sem þau ættu engan pening. Einhverra hluta vegna þá mættu þau þar flest eigi að síður.

Ég man líka eftir kveini sumra stúlknanna yfir fataleysi en einhvern veginn tókst þeim nú samt að komast yfir nýjan kjól fyrir árshátíðina.

Best man ég hvað mér sjálfri fannst um þetta blankheitakvein þeirra. Ég hugsaði svo sannarlega mitt án þess að geta orðað hugsanir mínar upphátt því ég vissi að minn veruleiki var þeim svo framandi að það hafði enga þýðingu að setja hugsanir mínar í orð. Þau hefðu ekki skilið það, því valdi ég þá leið að fela peningaleysi mitt og barlómur var mér víðsfjarri en ég hugsaði mitt.

Nú hefur skotið upp umræðu um að lausn á skuldavanda okkar Íslendinga sé að sækja inngöngu í klúbb nokkurn sem kenndur er við París. Slíkt hljómar ágætlega í fyrstu. Þar ku vera hægt að fá einhverja niðurfellingu skulda og semja um greiðslukjör á lánum.

Þegar betur er að gáð reynist þetta vera sérúrræði fyrir allra fátækustu ríki heims. Ríki sem eru svo fátæk að þau geta ekki boðið þegnum sínum upp á lágmarks heilbrigðisþjónustu eða menntun. Ólæsi landlægt semog barnadauði.

Við þessar fréttir verður mér hugsað til þess hvað mér fannst um blankheitavæl skólafélaga minna.

Hvað skyldu þessi allra fátækustu ríki hugsa um okkur þegar við sækjum um inngöngu í Parísarklúbbinn?

Og okkur hefur dottið í hug að sækja þar um.......til að geta áfram haft ein betu lífssgæði í öllum heiminum.

Að bera stöðu okkar saman við stöðu í þessum löndum er veruleikafirring og stjórnmálamenn sem gera sig seka um það þurfa svo sannarlega að hugsa sinn gang.

Umfjöllun um erindi okkar í Parísarklúbbinn má sjá hér og hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið er ég innilega sammála þér, Kristjana. En það er svosem ekkert nýtt!

Lára Hanna Einarsdóttir, 7.7.2009 kl. 02:28

2 Smámynd: Sigrún Jónsdóttir

Frábær pistill hjá þér.  Takk fyrir.

Sigrún Jónsdóttir, 7.7.2009 kl. 14:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband