Að vera hinsegin - leyfið til að vera öðruvísi

Þessa dagana standa yfir hinsegin dagar og eru þeir tileinkaðir réttindabaráttu samkynhneigðra. Hápunkturinn er efalaust gleðigangan í miðbæ Reykjavíkur og eiga samkynhneigðir lof skilið fyrir það jákvæða yfirbragð sem þessari göngu hefur ávallt fylgt. Í stað reiði, sjálfsvorkunnar og kröfuspjalda er ásýndin gleði og hamingja yfir lífinu og þeirri einlægu ósk að fá að vera "eins og ég er".

Á fáum árum hefur samkynhneigðum á þennan hátt tekist með jákvæðni að breyta viðhorfi almennings til sín. Smám saman höfum við gefið leyfið til að vera hinsegin, leyfið til að vera öðruvísi en fjöldinn.

Seinustu mánuði hef ég oft hugsað um hve illa okkur Íslendingum hefur gengið að gefa þetta leyfi, tilhneigingin til að steypa alla í sama mót hefur verið mjög sterk. Börn sem skera sig úr fjöldanum hafa átt erfitt uppdráttar, jafnvel fullorðnir líka. Vafalaust gildir þetta enn um samkynhneigða en jákvæð baráttuaðferð þeirra hefur skilað þeim ákveðinni viðurkenningu og er það vel.

Ein er sú stofnun sem hefur átt erfitt með að viðurkenna samkynhneigð, það er kirkjan. Því miður er það einnig stofnun sem á erfitt með að viðurkenna margskonar fjölbreytileika, m.a. það að til er fólk sem aðhyllist enga trú.

Þessi stofnun reynir leynt og ljóst að sækja inn í skólastofnanir til að tryggja sér fylgi áður en gagnrýnin hugsun festir sig í sessi hjá barninu. Því miður spila margir kennarar með í þessari sókn.

Fyrir um ári síðan fékk dóttir mín eftirfarandi athugasemd frá kennara í grunnskóla:

"Það trúa allir á eitthvað".

Þessi athugasemd er jafnröng og eftirfarandi athugasemd:

"Allir strákar verða skotnir í stelpum og allar stelpur verða skotnar í strákum".

Í báðum þessum fullyrðingum er fjölbreytileika hafnað. Í gær var okkur svo sannarlega sýnt fram á hversu röng seinni athugasemdin er og ég held að við séum smám saman að átta okkur á þeirri staðreynd.

Spurningin sem ég hef velt fyrir mér er hins vegar: Höfum við almennt áttað okkur á því hversu röng fyrri athugasemdin er?

Samkynhneigðir eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeim hefur tekist að sýna okkur fram á fjölbreytileika mannlífsins. Það er okkar að víkka hugann og viðurkenna þennan fjölbreytileika á fleiri sviðum, gefa leyfið til að vera hinsegin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

"Það trúa allir á eitthvað"

Nei, það er svo sannarlega ekki búið að koma því að hjá öllum að svo er ekki -í neinum venjulegum skilningin á orðinu "trúa". Viðmælendur mínir á trúarþrasbloggi mínu keppast við það linnulaust að fullvissa mig um að ég trúi einhverju. Ég einfaldlega má ekki kalla mig trúlausan, það er of erfitt fyrir fólkið að skilja. Ég er þá í besta falli kallaður trúaður á "framtíðina", eða í versta falli sagður trúa á hinn vísindalega sannleik, að það sé minn guð. Síðan er mikið gert úr því að það sé trú á sama hátt og kristni er trú, eða íslam er trú.

"Það trúa allir á eitthvað" er einhver sefjun af þeirra hálfu held ég.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 9.8.2009 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband