Aðild að ESB skyndilega orðið kosningamál

Í gær og í dag hefur umræða um aðild Íslendinga að ESB orðið skarpari. Greinar hafa birst í blöðum og vefmiðlum með umfjöllun um hversu brýnt hagsmunamál aðildarumsókn að ESB sé fyrir okkur Íslendinga (sjá t.d. hér og hér). Sömuleiðis er leiðari Morgunblaðsins í dag á sömu nótum. Þessi umfjöllun á það sammerkt að leggja áherslu á að efnahagsleg staða okkar sé mun verri en haldið hefur verið fram. Þorsteinn Pálsson hélt því fram í þættinum "Markaðurinn" á Stöð 2 í gærkvöld að jafnvel margir þingmenn gerðu sér enga grein fyrir þessu.

Það er klárt að aðild að ESB er engin töfralausn en í peningamálum þjóðarinnar hefur engum dottið neitt annað í hug til framtíðar. Helst hefur verið gagnrýnt að ferlið taki langan tíma. Með sömu rökum ætti engin fitubolla að fara í megrun, það taki of langan tíma.

Krónan sem framtíðargjaldmiðill Íslands er ekki valkostur og lánstraust okkar á erlendum vettvangi er minna en ekkert. Ég vildi óska að til sé önnur leið en aðild að ESB. Á þá leið hefur enginn stjórnmálaflokkur bent.

Vegna þessarar umfjöllunar sem var í gær og í leiðara Morgunblaðsins í dag vekur það furðu mína að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins komi í veg fyrir að hægt sé að breyta stjórnarskránni með einfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík breyting hefði flýtt aðildarferlinu en nú er ljóst að kjósa þarf aftur til alþingis áður en við getum orðið aðilar að ESB.

Þökk sé Sjálfstæðisflokknum.

Það vekur einnig furðu mína ef þessir sömu aðilar og hafa verið forvígismenn þessarar umræðu, ætla áfram að kjósa sinn gamla flokk. Í mínum huga snúast kosningarnar um næstu helgi um aðild að ESB. Þetta er okkar brýnasta hagsmunamál, þ.e. hvernig við ætlum að haga peningamálum þjóðarinnar næstu árin.

Um næstu helgi er valið okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Þú hlýtur að hafa verið lengi erlendis Kristjana, fyrst þú gatar svona á peingamálunum. Vissulega eru aðrir og miklu betri kostir í boði, en upptaka Evru eftir píslar-göngu í Evrópusambandið.

Benda má þér á "fastgengi undir stjórn Myntráðs", sem er okkar bezti kostur, ef menn vilja koma á varnalegum efnahagslegum stöðugleika og það strax. Ef við veljum Bandaríkjadal sem stoðmynt erum við jafnframt komin með í notkun alþjóðlegan gjaldmiðil.

Útfærsla "fastgengis undir stjórn Myntráðs" getur verið með ýmsu móti, en öllum útfærslum er sameiginlegt, að vera betri kostur en upptaka Evru ásamt Evrópusambandi. Það eru bara heittrúaðir áhangandur ESB og vanhugsandi, sem ljá Evrunni máls. Varla getur verið að þú sért í þeim hópi.

Loftur Altice Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 00:26

2 identicon

Krónan sem framtíðargjaldmiðill Íslands er ekki valkostur

Hvers vegna? Vegna þess að hún gefur eftir undir skuldabagga sem er á við margfalda veltu hagkerfisins sem hún þjónar? Vegna þess að hún sveiflast í takt við efnahaginn (sem er fábreyttur og óstöðugur)? Hvaða gjaldmiðill gerir það ekki?

Býstu við því að hinn undirliggjandi óstöðugleiki fari eitthvert þótt skipt verði um lögeyri? Voru hagkerfi heimsins stöðugri á tímum gullfótar eða Bretton-Woods kerfisins? 

lánstraust okkar á erlendum vettvangi er minna en ekkert

Vissulega, en hvort heldu þú að það hafi meira að gera með það að við ráðum ekki við að greiða af þeim skuldum sem þegar hvíla á okkur eða skort á ESB aðild? Myndi "trúverðugleikinn" sem fylgdi ESB-aðild verða þess valdandi að menn myndu lána okkur peninga þótt engin möguleiki væri á að við gætum endurgreitt þá?

Og hversu mikill trúverðugleiki myndi annars fylgja aðild? Eru ekki Ungverjaland, Lettland og Pólland (sem öll hafa sótt um aðstoð frá AGS) í ESB? Er ekki ESB ríkið Bretland hættulega nálægt brúninni eins og evrulöndin Írland, Grikkland og Austurríki?

ESB er ekki brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar heldur gervilausn fyrir sakleysingja.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 00:48

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég vil benda þeim sem hafa efasemdir um aðild að ESB að lesa pistil í fréttablaðinu í dag um manninn með tjakkinn. Í þeirri sögu kristallast hræðsla ESB andstæðinga.

Af hverju viljum við ekki vita hvernig samning við getum fengið og tekið afstöðu á grundvelli hans?

Upp úr skotgröfunum með þessa umræðu.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.4.2009 kl. 09:16

4 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

"Upp úr skotgröfunum með þessa umræðu" segir þú Kristjana, en hvers vegna má þá ekki ræða aðra kosti en undirgefni við Evrópusambandið og upptöku Evru eftir 10-15 ár ?

Loftur Altice Þorsteinsson, 18.4.2009 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband