Færsluflokkur: Ferðalög

Ormaveikt lamb

Skoðið myndina hér að neðan.

göngur

Hvað dettur ykkur í hug?

Ormaveikt lamb er það sem kemur helst upp í huga mér.

Næsta sem mér dettur í hug er: Það hefur einhver skaðað fallega landið okkar. Farið illa með það. Hverjum finnst það ekki þessa dagana?

Það sem myndin raunverulega sýnir eru helstu leiðir sem ég hef gengið. Það vantar reyndar inn nokkrar styttri leiðir, þær lengri eru þarna inni. Takmark mitt er ekki fallegt; gera lambið enn ormaveikara.......


Í útlegð á Snæfellsnesfjallgarði

Um seinustu helgi fór ég í göngu um svæði sem ég hef horft á í 45 ár. Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið um Ísland og farið í margar göngur hefur þetta svæði orðið útundan.

Nú var loksins látið til skarar skríða. Gangan hófst við Oddastaðavatn í Hnappadal og lauk undir Elliðahamri á Snæfellsnesi.

Ferðafélagar okkar Darra voru Þóra og Palli en þau eru göngufélagar okkar til nokkurra ára.

Lagt var af stað frá Reykjavík á föstudagsmorgni með vistir til þriggja daga í bakpokanum ásamt tjaldi og öðrum nauðsynlegum viðleguútbúnaði.

Við ókum vestur á Snæfellsnes að Lágafelli og skildum annan bílinn eftir við vegaslóða sem liggur að sumarbústað við eyðibýlið Elliða.

Nóttin á undan hafði greinilega verið köld því í hæstu tindum Ljósufjalla var snjóföl.

Síðan var ekið að Oddastaðavatni. Þar voru pokar axlaðir og arkað af stað og stefnan tekinn á fjallið Hest. Þarna er útsýni í allar áttir fagurt, Hnappadalurinn ef litið var til baka, Eldborg, Syðri- og Ytri-Rauðamelskúlur til suðurs og Sáta til norðurs. Hesturinn og Þrífjöllin ávallt framundan og nálguðust óðar.

Göngulandið var aflíðandi upp að Hesti og þokkalegt yfirferðar.

Hesturinn sjálfur er úr móbergi og ekki kleifur hvar sem er. Við afréðum að fara upp aflíðandi afturendann norðaustan við Hestinn og höfðum hugsað okkur að komast upp á höfðið og klappa eyranu. Það sýndist okkur ekki fær leið þegar nær dró og gáfum það upp á bátinn. Létum okkur nægja lendina. Efsti hluti þeirrar leiðar er stórgrýtt og allra efst eru sérkennilegir stuðlar.

IMG_9118

Á toppnum fengu göngumenn ríkulega útborgað. Útsýnið af Hesti svíkur ekki. Til viðbótar því sem ég hef þegar nefnt sjást Ljósufjöllin til vesturs og að horfa norður eftir Snæfellsnesinu svona ofanfrá er erfiðisins virði. Stóri-Langidalur á Skógarströnd er þarna áberandi og síðan glittir í Drápuhlíðarfjall og Bjarnarhafnarfjall.

Þegar komið var niður af Hestinum voru bakpokar axlaðir aftur og haldið áfram norðan við Skyrtunnu. Þarna er landslagið stórbrotið. Mikið um gíga og þarna ægir saman blágrýti, móbergi, líparít og gjallgígum. Líkt og maður sé kominn í eldfjallasafn. Þarna gengum við í um 600m hæð og því er þarna algert hálendislandslag og hálendisgróður.

Norðan við Skyrtunnu er nokkuð giljótt. Við afréðum að halda frekar hæð og fara fyrir ofan gilin. Líklega var það verri leið. Mögulega hefði verið betra að fara niður í þá hæð sem Urðardalur liggur í og þá hefðum við sloppið betur við gilin og mögulega gengið í þægilegra landslagi. Urðardalur liggur í um 760m hæð og er þar lægsti punktur milli norður og suður hluta Snæfellsness á þessum slóðum. Um Urðardal liggur mæðiveikisgirðing og var það óvenjulegur faratálmi göngumanna. Búið er að endurnýja girðinguna en heldur hafa sunnanmenn staðið sig illa í að hreinsa upp leifar gömlu girðingarinnar.

IMG_9163

Ég var búin að stinga út GPS punkt fyrir mögulegan tjaldstað í Litla-Leirdal undir Ljósufjöllum. Ekki vissi ég hvort þar væri möguleiki á að koma fyrir tjaldi. Þarna gat vel verið gróðurlaust, urð, sandur eða þó þarna væri gróður gat það verið tómar þúfur. Einnig gat lækurinn sem merktur var á kortinu vel verið þurr í þurrkunum sem verið hafa að undanförnu.

Þarna höfðum við heldur betur heppnina með okkur. Við fundum frábæran tjaldstað þarna og þar sem við settum niður tjaldið var aðeins 350m í punktinn sem ég hafði stungið út.

IMG_9176

Þessi tjaldstaður var í ca 600m hæð undir Ljósufjöllum og um nóttina fór hitastig niður fyrir frostmark. Um morguninn kom sólin upp kl rúmlega 7 og þá var allur gróður hrímaður. Ég var ágætlega klædd og í góðum svefnpoka og fann ekki fyrir kulda.

Í göngum sem þessum er best að taka daginn snemma og við lögðum aftur af stað kl rúmlega 9. Fyrsti áfanginn voru þrír tindar Ljósufjalla. Fyrir mig var þetta langþráð takmark, hef horft á þessi fjöll frá barnæsku og seinustu ár hef ég æ oftar horft á þau með það í huga hvernig best sé að klífa þau.

IMG_9181

Nú var komið að því. Undir fjöllunum eru líparíthryggir. Þessir hryggir virðast ganga niður úr hverjum tind. Kann ég ekki skýringu á því. Við gengum upp austasta hrygginn og skildum pokana eftir milli austasta og miðtindinum. Á milli þeirra var snjófönn. Upp hana gengum við og var það til mikilli bóta að ganga í snjónum. Líparítskriðan var lítt spennandi til uppgöngu.

IMG_9189

Upp komumst við. Fyrst var ráðist á austasta tindinn en hann er lægstur eða um 1001m. Af honum er auðvelt að ganga í tindinn í miðjunni en sá er 1039m. Við höfðum hugsað okkur að ganga þaðan á vestasta tindinn en okkur sýndist það óráðlegt. Sá er brattur og laus í sér austan megin frá. Því afréðum við að arka skriðuna undir honum vestur undir hann og fara þar upp. Skriðan reyndist laus í sér og alger "skókiller". Einnig mokaðist mölin ofan í skóna okkar og við runnum aðeins niður í hverju spori. Þarna varð aðeins umræða um hvað væri auðfarið þar sem okkur hjónin greindi örlítið á um hvar besta leiðin væri. En upp komumst við og útsýnið sveik ekki frekar en fyrri daginn. Því verður ekki með orðum lýst og mæli ég með þessari fjallgöngu, þetta er með því flottara sem ég hef séð, tek fram að ég er á engan hátt hlutlaus.

Á kortum eru þessir tindar nafnlausir. Í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, leggur Ari Trausti til nöfnin: Gráni, Bleikur og Miðtindur, talið frá austri. Nöfnin eru skýrð þannig að austasti tindurinn Gráni er úr grárri líparít, næsti, Bleikur er aðeins bleikur og sá hæsti Miðtindur er í miðjunni ef vestari tindar Ljósufjalla eru taldir með. Ekki veit ég hvort þessi nöfn hafa fest sig í sessi né heldur hvort heimamenn hafa á þessa tinda nöfn sem kortagerðamönnum hafa yfirsést. Gaman væri að frétta af því.

IMG_9202

Svæðið norðan Ljósufjalla kom mér á óvart. Þar liggur Botna-Skyrtunna en einhvern vegin var hún mér áður ókunn.

Eftir miklar myndatökur og djúp andköf af hrifningu var haldið niður. Þar voru pokar aftur axlaðir og haldið í vestur. Litadýrð Ljósufjallanna er mikil frá þessu sjónarhorni.

IMG_9230

Við gengum undir fjallahrygg sem einnig gengur undir nafninu Ljósufjöll og stefndum á skarð norðan við Rauðukúlu, milli hennar og Hreggnasa. Þar fórum við norður yfir fjallgarðinn. Sem fyrr þá sveik útsýnið ekki þegar norður yfir var komið.

Ég hafði að þessu sinni ekki fastákveðið tjaldstað en var með nokkra í huga. Dagleiðin hafði verið nokkuð ströng og þar sem ég vissi að næsti dagur yrði heldur léttari þá afréðum við að tjalda þar sem við komum niður en það var í Gæshólamýri. Þar fundum við ágætan grasbala við læk. Hvað viljum við hafa það betra?

IMG_9266

Í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind sem Ari Trausti hefur tekið saman eru fjöll af ýmsum erfiðleikastigum. Meðal þeirra er Seljafellið. Það freistaði okkar sem kvöldganga svo hægt yrði að haka við í bókinni. Ég varð að viðurkenna að ég hafði fengið nóg þennan daginn án þess að vera á nokkurn hátt uppgefin eða algerlega búin á því. Taldi skynseminnar vegna að Seljafellið gæti beðið. Palli ákvað sömuleiðis að láta Seljafellið bíða en Þóra og Darri æddu upp. Þau geta samviskusamlega hakað við það.

Næsti dagur rann upp bjartur og fagur. Aftur var pakkað saman og lagt af stað um kl 9. Nú var ferðinni heitið norður fyrir Seljafellið. Við norðvestan Seljafellið varð í vegi okkar andlegur farartálmi: MALBIKAÐUR VEGUR. Þetta reyndist vera meira en andlegur farartálmi því þar sem við hugðumst fara yfir veginn yfir Vatnaleiðina reyndist vera vegrið báðum megin vegarins þar sem hann lá yfir gil sem heitir Þvergil. Það kostaði því smá umhugsun hvernig takast skyldi á við þennan óvenjulega farartálma bakpokaferðalangsins.

IMG_9283

Nú var stefnan tekin milli Urðarmúla og Baulárvallavatns. Tindar þessa dags voru Elliðatindar og þangað skyldi haldið. Valið stóð á milli þess að halda hæð vesta Urðarmúla að upptökum Vallnár. Líklega hefði það verið skynsamlegast. Í staðinn þá afréðum við að hækka okkur skáhalt upp í hlíðina í átt að opi Hamardals í Elliðahamri. Í hlíðinni voru mun fleiri gil en ég mundi eftir eða sáust á kortum. Því reyndist þetta meira puð en ráð var fyrir gert og alger óþarfi svona með bakpokana.

IMG_9292

Ofarlega í hlíðinni, mun ofar en við hefðum þurft, skildum við pokana eftir og skunduðum upp í Hamardal. Maður verður ótrúlega léttur á sér svona pokalaus.

IMG_9293

Elliðatindar eru ekki erfiðir uppgöngu og greinilega lítt gengnir. Efst er viðkvæmur mosi og var greinilegt að hann fær að vera í friði að mestu. Kannski eins gott en útsýni þarna uppi er frábært og er þetta eitt af þeim fjöllum sem er lítt þekkt en tiltölulega auðfarið á.

IMG_9316

Útsýni af Elliðatindum svíkur ekki og má með sanni segja að göngumenn hafi fengið ríkulega útborgað. Að lokinni myndatöku og lotningu yfir fegurðinni sem við blasti var haldið niður á við. Við fundum pokana okkar auðveldlega aftur, öxluðum þá og héldum niður á vegarslóðann þar sem bíllinn beið okkar.

Þriggja daga útlegð á Snæfellsnesfjallgarði var lokið. Það er sannarlega óhætt að mæla með þessari göngu og satt að segja undrast ég að ferðafélögin skuli ekki hafa neitt þessu líkt á sinni dagskrá. Reyndar man ég eftir að hafa séð þessa leið á dagskrá FÍ fyrir nokkrum árum en veit ekki hvernig það gekk. Ekki hef ég heldur heyrt af mörgum sem hafa gengið þetta á þennan hátt, þó veit ég að frændi minn Halldór frá Dal gekk hluta leiðarinnar fyrr í sumar. Myndir sem hann sendi mér nýttust mér vel við skipulagningu þessarar ferðar.

Auðvelt er að skipuleggja 6 daga ferð sem hefði þá annað hvort upphaf eða endi við Hreðavatn og lægi þá einnig um Langavatn, Hítarvatn og Hlíðarvatn.

Ég vil hiklaust hvetja fólk til að ganga um þetta svæði og fullyrði að þetta er ein af mörgum óuppgötvuðum náttúruperlum landsins. Þeir sem lesa þetta og áhuga hafa eru hvattir til að hafa samband og mun ég veita allar þær upplýsingar og leiðbeiningar sem ég get um leiðarval. Einnig má skoða fleiri myndir hér.

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com


Skemmtileg sumarmynd

Þessi mynd var tekin í Húsafelli í morgun, þar var ég í tveggja nátta útilegu í yndislegu veðri og góðum félagsskap.

Sumarfrí á Íslandi er góður kostur.

IMG_8572

Þetta er Sigrún systir mín með Finnbjörn, uppáhaldsfrænda minn.


Eggið og hænan klifra

Á Hnappavöllum í Öræfasveit eru fallegir hamrar sem freista klifrara. Þar hefur verið komið fyrir festingum þar sem klifrarar geta komið fyrir tryggingum. Til eru kort með merktum leiðum í hamrinum þar sem tiltekið er erfiðleikastig klifurleiðanna.

Um seinustu helgi gafst Sindra syni mínum tækifæri á að sýna okkur foreldrunum þetta svæði og hvernig hann ber sig til við þetta sport. Einnig mátti faðirinn til með að prófa og var verulega gaman að sjá þarna eggið kenna hænunni.

IMG_8399

Klifrarar þurfa að vera a.m.k. tveir saman. Talað er um að sá sem fer fyrr upp "leiði", þ.e. hann setur karabínurnar (tvistana) í krókana sem eru fastir í veggnum. Síðan smellir hann línunni í tvistana. Sá sem stendur á jörðinni er með línuna festa í beltið sitt og passar að ætíð sé mátulega strekkt á henni og gefur meiri slaka eftir þörfum. Ef sá sem leiðir dettur, er fallið aldrei meira en sem nemur fallinu úr seinustu festingu.

IMG_8408 

Hér er Sindri kominn langleiðina að efsta krók.

IMG_8414

Þegar línan er kominn í efsta krók er talað um að vera í "toprope". Þá er hægt að síga niður og hirða upp tvistana sem notaðir voru sem tryggingar  á leiðinni upp.

IMG_8424

Þá var komið að hænunni sem stóð sig bara vel. Þetta sport reynir mjög á styrk í öllum líkamanum, sérstaklega í fingrum og framhandlegg skilst mér.

IMG_8423´

Þarna voru staddir fleiri klifrarar. Mér sýndist þetta svæði vera alger paradís fyrir þetta sport. Á þessari mynd sést vel hvernig samspil klifraranna tveggja er.

Það var reglulega ánægjulegt að fá að fylgjast með og sjá hvernig þetta sport gengur fyrir sig.

Ég nefndi í fyrri færslu að ég þekki einn mér nákominn sem lætur sig dreyma um Þumal. Þar eru einhverjar festingar og get ég vel skilið löngun þeirra sem eru byrjaðir í þessu sporti til að klífa hann.


Miðfellstindur klukkaður

Seinustu sex vikur hefur þetta blogg verið undirlagt sögum af undirbúningi mínum undir göngu á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessi undirbúningur hefur falist í venjubundnum mánudags- miðvikudags- og laugardagshlaupaæfingum. Því til viðbótar hef ég farið ófáar fjallgöngur og svo nokkrum sinnum í ræktina. Einnig hef ég flutt vikulegar fréttir af líkamsrýrnun minni.

Allur þessi undirbúningur skilaði sér vel. Ásamt félögum mínum í TKS náði ég takmarkinu um helgina. Miðfellstindur var klukkaður.

Við keyrðum austur að Hofi í Öræfum á föstudagskvöld þar sem við gistum í samkomuhúsinu. Eftir stuttan fund með fjallaleiðsögumönnum þar sem farið var yfir ferðaáætlunina var pakkað í bakpokana. Í svona ferð þarf útbúnaður að vera réttur. Búast má við öllum veðrum, allt frá sól og hita yfir í slagveður og hríð. Nesti verður líka að vera nóg. Það er hins vegar erfitt að átta sig á hversu mikið er hæfilegt fyrir allt að 20 tíma göngu.

Um kl. 23.00 var mannskapurinn komin í ró. Ég var glaðvakandi og þurfti að beita mig hörðu til að ná að sofna. Það var nauðsynlegt að hvílast.

Klukkan þrjú eftir miðnætti hringdi vekjaraklukkan. Nú þýddi ekkert hangs, á fætur skyldum við, borða morgunmat, það verður að fylla tankinn fyrir áreynsluna. Í Skaftafell mættum við svo stundvíslega klukkan fjögur. Lagt var af stað um kl. 04.15.

Fyrsti áfangi göngunnar var yfir Skaftafellsheiði yfir í Morsárdal. Þetta er falleg gönguleið sem ég mæli með, þægilegur göngustígur alla leið.

Þegar yfir heiðina var komið blasti Morsárdalurinn við og yfir honum gnæfði takmarkið - Miðfellstindur. Á myndinni hér fyrir neðan er hann eins og hryggur fyrir miðri mynd, hæsti toppurinn í fjarska.

IMG_8284

Á Morsá er göngubrú sem við fórum yfir og síðan var þrammað meðfram Morsá að vestanverðu og inn dalinn. Allan tímann blöstu Skaftafellsfjöllin við, Miðfellstindur, Ragnarstindur, Skarðstindur og Kristínartindar. Stórbrotinn fjallgarður og fegurðin ólýsanleg í morgunsárið enda veðrið milt og allt lífið bara yndislegt.

IMG_8300

Á myndinni glittir í Miðfellstind lengst til vinstri, Ragnarstindur er eins og geirvarta á brjósti, Skarðstindur er strýtan til hægri og Kristínartindar taka svo við lengst til hægri, mest utan myndar. Skriðjökullinn fyrir miðri mynd er Morsárjökull.

Þegar inn í dalinn kom slógu fjallaleiðsögumenn upp búðum. Settir voru upp þrír tjaldhimnar til skjóls en veðrið var svo milt að við kusum frekar að henda okkur á jörðina. Vatn var hitað og við loftuðum um sveittar tær og nærðum okkur. Við vorum um þrjá klukkutíma þarna inn eftir þannig að við vorum þarna milli klukkan 7 og 8 um morguninn.

Stundvíslega kl 07:45 pípti einn síminn, hvergi var friður fyrir þessum símum, en gat það verið að þarna innfrá væri GSM samband? Nei, þetta var síminn hennar Ragnheiðar. Hann var að minna hana á að þennan dag ætlaði hún á Miðfellstind! Það hefði nú verið gaman hjá henni að vakna við þetta ef hún hefði forfallast.

Eftir morgunmat númer tvö þennan daginn og góða hvíld var haldið af stað. Nú hófst hin eiginlega fjallganga. Það er ekki ofsögum sagt að uppgangan hafi verið brött.

uppganga

Á myndina hef ég merkt inn uppgönguleiðina með rauðri línu. Leiðin liggur vestan gilsins sem sést þarna en það heitir Vestra Meingil.

IMG_8353

Síðan tekur við Hnútudalur sem sést á myndinni hér að ofan og þaðan liggur leiðin upp snarbratta fönn fyrir miðri mynd.

IMG_8355 

Hér pjökkum við upp fönnina.

IMG_8361

Þá er farið yfir hrygginn og þræddum við snarbratta hlíð norðan tindanna. Myndin hér að ofan er tekin ofan af hryggnum og niður á félaga mína sem fóru fyrstir yfir.

IMG_8368

Þumall sjálfur rétt gægðist á okkur í þokunni. Þetta er glæsilegur tindur sem er víst hægt að klífa. Ég þekki einn mér nákominn sem nú þegar lætur sig dreyma um það. Meira um það síðar.

Eftir þetta var farið í línu og pjökkuðum við norðan við Miðfellstind og síðan upp hann að austanverðu.

IMG_8380

Miðfellstindur er hryggur. Á myndinni hér að ofan sést að á honum miðjum er mjótt haft. Við þræddum haftið því vestari hlutinn er hæstur og þangað stefndum við. Að göngu lokinni sögðu leiðsögumennirnir okkur að þarna niður væri snarbratt hengiflug. Þökk sé þokunni að við gerðum okkur enga grein fyrir því. Annars hefðum við líklega ekki þorað þarna yfir.

Það er óhætt að segja að við höfum þrætt breytileg veður á leið okkar upp í skýin. Niðri var milt og hlýtt, þegar ofar dró varð raki meiri og það kólnaði og fór að snjóa. Skyggni var lítið eins og sést á myndunum. Á niðurleiðinni rigndi svo þétt á okkur.

Auðvitað hefði verið gaman að fá útsýni en allt veður hefur sinn sjarma og upplifunin að fara þetta stóð fyrir sínu.

Þegar tindinum var náð var gert stutt stopp en síðan snúið við. Þegar við vorum rétt komin til baka fram hjá Þumli aftur, lá leiðin yfir snarbratta klakarennu með snjóföl yfir. Ég horfði á Svölu rétt fyrir framan mig skrika fót og renna. Hún náði að bjarga sér upp aftur. Ég ákvað að fara eins varlega og ég gat, það dugði ekki til, mér skrikaði fótur og byrjaði að renna. Mér leist ekki á blikuna því þarna var snarbratt svo langt niður sem ég sá í þokunni. Sindri sonur minn var fyrir aftan mig. Hann brást hratt við og náði að krækja í bakpokann minn og hékk í mér. Ég fann að ég mátti mig hvergi hreyfa því þetta var mjög sleipt. Ég náði að rétta stafinn minn til Hugrúnar sem fullyrti að hún hefði góða festu og gat mjakað mér til hennar. Já, allt fór vel.

Þegar við komum að snarbrattri snjóbrekkunni niður í Hnútudalinn skellti Leifur fjallaleiðsögumaður sér á rassinn beint niður brekkuna. Á eftir honum komu svo öll börnin í TKS. Við hlógum og skríktum alla leiðina. Rassarnir okkar grófu braut þannig að okkur fannst við vera á bobsleðum. Ferðin varð þó nokkur.

IMG_8386

Þegar hér var komið við sögu var rigningin tekin við af snjókomunni og hélst hún alla leið niður í tjaldbúðir. Við urðum mörg vel rassblaut af renniferðinni, sveitt og blaut eftir gönguna.

Ósköp var nú gott að hafa tjaldbúðirnar þegar við komum aftur niður. Þar gátum við fengið okkur kvöldmat. Margir höfðu tekið með sér þurrmat. Mér blöskrar verðið á honum þessa dagana og leysti matarmál með kúskús og steiktu beikoni sem ég hafði tekið með mér. Ég hafði einnig tekið með mér ullarbol og sokka til að eiga þurra eftir gönguna. Eitthvað hafði mér brugðist bogalistin í pökkun og gleymdi að setja þetta í plastpoka. Mátti varla milli sjá hvort var blautara bolurinn í bakpokanum eða sá sem ég var í. Þar sem bolurinn sem ég var í var heitur þá var valið auðvelt.

Að matarpásu lokinni voru tjaldbúðirnar teknar saman og arkað til baka yfir aurana í Morsárdal að Skaftafelli. Óhætt er að segja að við höfum verið eins og heimfúsir hestar því það var óttalegt ark á okkur enda gott að skunda svona eftir gönguna í rigningunni og snjónum.

Í Skaftafell komum við um kl 22.15, eftir 18 tíma ferð. Við vorum bara nokkuð ánægð með okkur. Æfingar liðinna vikna höfðu virkilega komið sér vel. Sjálf fann ég hvergi til, auðvitað lúin en ekkert umfram það sem búast mátti við.

Vorferðir TKS eru orðinn fastur liður. Við höfum nú fimm ár í röð fengið fjallaleiðsögumenn til að velja fyrir okkur leið og leiða okkur á hina ýmsu tinda. Þrisvar höfum við verið tilraunadýr hjá þeim, þ.e. verið fyrsti hópurinn sem þeir fara með á viðkomandi tinda. Það eru ferðir á Hrútfjallstinda, Þverártindsegg og svo núna á Miðfellstind. Okkur líkar það mjög vel að vera svona tilraunadýr.

Næsta ferð verður líklega á Sveinstind í Öræfajökli. Þegar ég kemst niður úr skýjunum eftir þessa ferð hefst tilhlökkun og undirbúningur undir hana.

PS. Fleiri myndir úr ferðinni má sjá hér.


Miðfellstindur

Nú er alveg að koma að því.........félagar úr TKS stefna á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum um helgina.

Óhætt er að segja að ferðin sé margumtöluð og mikiðtilhlökkuð. Svo mikið að aðrir félagar okkar í klúbbnum sem og vinir og vinnufélagar eru búnir að fá nóg. Ef áfanganum verður náð verðum við algerlega óþolandi eftir helgi. Líklega breytir það engu, við vorum óþolandi fyrir.

Fyrir þessa göngu höfum við flest æft af kappi. Gert er ráð fyrir að gangan taki um 20klst. Lagt verður af stað um kl 4 aðfararnótt laugardags og komið til baka um miðnætti. Erfiðleiki göngunnar felst fyrst og fremst í því að frá Skaftafelli og inn í Kjós þar sem uppganga er á Miðfellstind, eru um 11km. Gert er ráð fyrir að gangan inn í Kjós taki allt að 4 klst. Tindurinn sjálfur er um 1430m og gert er ráð fyrir að gangan á hann og niður aftur taki um 9klst. Svo þarf að koma sér til baka en það má reikna með að það séu aðrar 4 klst. Glöggir lesendur taka eftir að þetta gera 17 klst en ekki 20. Þessar 3 klst sem á milli ber er reiknað með að fari í góðar hvíldarpásur.

Lýsingu og myndir af þessari göngu má sjá hér.

Hversu erfið svona ganga er síðan ræðst svo að sjálfsögðu af veðri. Veðurspá helgarinnar gerir ráð fyrir lygnu veðri og það skiptir miklu máli. Ekki er alveg ljóst hvort búast má við úrkomu og þá hversu mikilli, en það er hætt við að það verði eitthvað skýjað.

Við tökum því sem að höndum ber, höfum áður reynslu af því að fá brilljant útsýni þrátt fyrir að hefja gönguna í þokusudda.

Að göngu lokinni ætlum við að gæða okkur á súpu sem mallar núna á eldavélinni minni. Hún smakkast vel nú þegar, hvað þá eftir svona göngu.


Vorganga TKS

Árleg vorganga félaga í TKS er áætluð á Miðfellstind í Skaftafellsfjöllum. Þessar vorgöngur eru orðnar árviss viðburður og höfum við þegar gengið á Hvannadalshnjúk, Eyjafjallajökul, Hrútfellstinda og Þverártindsegg.

Löngunin til að taka þátt í þessum göngum heldur mér við efnið yfir veturinn. Ég dríf mig með félögunum út að hlaupa nánast í hvaða veðri sem er, reyni að fara líka í líkamsræktina og svo stunda ég bæði skíðagöngur og fjallgöngur. Allt til að komast með í vorgönguna.

Gangan á Miðfellstind er skipulögð þannig að lagt verður af stað úr Skaftafelli og gengið inn í Kjós og þaðan á tindinn. Gallinn er að gangan úr Skaftafelli inn í Kjós er víst ein og sér 12-16 km (mælingum ber ekki saman, á eftir að afla mér betri heimilda) og þá er eftir gangan á Miðfellstind en hann er víst 1430m. Og síðast en ekki síst þarf að koma sér til baka. Áætlunin gerir ráð fyrir 20klst ferð.

Í gær fórum við félagar í TKS saman í langa göngu til að kanna úthaldið. Við lögðum að baki u.þ.b. 24 km í frekar auðveldu göngulandi. Gengið var um Núpshlíðarháls á Reykjanesi.

Það skal viðurkennt að ég varð lúin eftir gönguna og tilhugsunin um að þetta væri lámarksvegalengd til og frá tindinum og að tindurinn sjálfur væri eftir, var ekki góð.

Síðan ég kom úr þessari æfingaferð hefur læðst að mér sú hugsun að hætta við vorgönguna. Það er ekki viturlegt að leggja af stað og vera óviss um hvort úthaldið leyfi svona ferð.

Ætli þrautalendingin verði ekki samt að herða æfingar, ég hef rúman mánuð, við áætlum ferðina 13. júní.

Semsagt nú verður slegið í og engin leti leyfð!


Sóleyjarhöfði - Kerlingarfjöll

Eldsnemma á skírdag hittist 13 manna hópur með útbúnað og vistir til þriggja daga. Ferðinni var heitið að Sóleyjarhöfða við Þjórsá og átti að fara á skíðum í Kerlingarfjöll. Veðurspáin hljóðaði upp á norðaustanstæðan vind og einhverja úrkomu. Ég var örlítið smeyk um að þetta yrði svolítið slark en reyndi að haga útbúnaði eftir því.

Haldið var af stað á fjallabíl og keyrt sem leið lá upp með Þjórsá. Ekki reyndist fært alveg að Þjórsá og munaði ekki miklu að bíllinn færi með hópinn fram af snjóhengju. Það slapp til og var hópnum í staðinn hent út og sagt að ganga rest. Veðrið var líkt og búast mátti við skv veðurspá, él og hvasst.

IMG_7732

Fólk kepptist við að búa sig af stað, allir fullir tilhlökkunar að takast á við verkefnið. Örlítið kveið ég því að fara yfir Þjórsá en bílstjórinn og fararstjórinn fullyrtu að hún væri ísilögð.

Við pjökkuðum af stað og hrollurinn sem sat í okkur eftir bílferðina var fljótur að hverfa. Skyggnið var lítið en þannig er lífið stundum. Svo kom að því að við fórum yfir nokkra sléttu. Þegar yfir hana var komið var tilkynnt að nú væri matarstopp, við værum komin yfir Þjórsá, sléttan var semsagt Þjórsá. Ekki var það nú neinn farartálmi.

Á myndinni hér að neðan sést sléttan sem reyndist ísilögð Þjórsá.

IMG_7737

Meðan við hlóðum orkubirgðir í matarpásu létti til og eftir það höfðum við gott skyggni. Leiðin lá um Þjórsárver og Kerlingarfjöllin alltaf framundan og nálguðust smám saman eftir því sem ferðinni miðaði áfram. Arnarfell hið mikla, Hjartarfell og Hofsjökull voru á hægri hönd.

Hér að neðan sjást Kerlingarfjöll í fjarska.

IMG_7772

Þennan dag var ferðinni heitið í skála jeppamanna undir Hofsjökli en skálinn kallast Setrið. Það er vel útbúinn skáli enda voru jeppamenn þar með konurnar sínar. Þeir sögðu okkur að það þýddi ekkert að bjóða frúnum aðra skála.

Um kvöldið ræddu göngumenn matarræði í ferðum sem þessum sem og annan útbúnað til gönguferða. Jeppamenn ræddu um bílagræjur. Það hafa allir sín áhugamál.

IMG_7782

Daginn eftir var haldið áfram. Skyggni var gott en heldur hvassara og ekki laust við skafrenning. Áður en haldið var af stað voru skíði smurð eftir kúnstarinnar reglum.

Kerlingarfjöllin blöstu við, Loðmundur togaði okkur til sín. Það er gríðarlega fallegt fjall.

IMG_7786

Í hádeginu stoppuðum við í skjóli en ekki vildi betur til en skafrenningurinn smaug um allt og kakóið fauk upp úr bollanum áður en vatnið náði að bleyta í því. Þegar svo vatnið komst í bollann skvettist það líka út. Eitthvað náðum við samt að nærast og drifum okkur af stað. Vettlingarnir mínir urðu rennblautir og reyndust þeir eini veiki hlekkurinn á útbúnaði mínum. Þetta voru ullarvettlingar og með því að fara í tvenn pör hvort yfir annað náði ég að halda hita.

Þegar við komum vestur undir Kerlingarfjöll komumst við í skjól af fjöllunum og þá lygndi svo mikið að um stund náðum við að skíða á peysunum og jafnvel húfulaus. Þá gleymdist skafrenningurinn fljótt.

IMG_7835

Síðla dags komum við í skálann í Kerlingarfjöllum. Þar var snjór lítill en þó nægur til að við kæmumst á skíðum alla leið.

Áætlunin hljóðaði upp á að skíða einn dag í viðbót í veg fyrir bílinn sem sótti okkur. Vegna snjóleysis í Kerlingarfjöllum varð ekkert af því.

Þetta var bráðskemmtileg ferð. Færið var gott, veðrið langt framar vonum og hópurinn jafn að getu og skemmtilegt fólk. Hér eftir munu gönguskíðaferðir heilla mig enn meir en hingað til.

 


Leyndardómar Snæfellsness

Á okkar fallega landi leynast fjölmargir undurfallegir staðir sem ferðamenn almennt vita ekki af. Jafnvel fólk sem alist hefur upp í næsta nágrenni veit ekki af þessum stöðum. Perlurnar okkar leynast víða og það finnst mér afskaplega heillandi. Ein af þessum perlum er Kothraunsgil á Snæfellsnesi. Þangað fór ég með nokkrum frændum og frænkum í sumar.

047

Gilið lætur ekki mikið yfir sér en ef maður fylgir farveginum þá skiptist hann fljótlega í 2 greinar. Við skoðuðum báðar greinarnar en annar farvegurinn var alveg þurr.

032

Þessi þurri farvegur myndaði eins konar göngu eða hlaupastíg í hörðu móberginu. Hægt var að fylgja þessum "stíg" nokkuð hátt upp.

033

Lækur rann í hinum farveginum og var hann sleipur og því mun erfiðara að fóta sig í honum.

Við eigum fjölmargar perlur sem þessar og í hvert skipti sem ég kannar eina slíka þá átta ég mig á hversu mikið af landinu ég á eftir að skoða.


Fossaganga

Mér hefur tekist í sumar að aftengja mig umheiminum. Ég hef farið í þrjár gönguferðir sem hafa verið 3ja - 6 daga langar. Líkamlega tekur þetta stundum á en andlega er þetta alger endurnæring.

Um verslunarmannahelgina fórum við Darri ásamt Rán dóttur okkar og vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í göngu upp með Djúpá í Fljótshverfi. Markmiðið var að skoða fossa sem leynast efst í Djúpárdal.

Ég læt myndirnar tala sínu máli.

IMG_7256

Fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgi getur litið svona út ef áhugi er fyrir hendi. Það skal tekið fram að við gengum samtals ca 30-35km með allan útbúnað á bakinu.

IMG_7322

Þetta er "Fossinn í Djúpá" af sumum nefndur Bassi. Nokkuð tignarlegur, flúðirnar þarna fyrir neðan eru einnig kraftmiklar og heillandi.

IMG_7324

Og enn fleiri fossar. Áin sem þessir fossar eru í, rennur í Djúpá rétt neðan við Bassa. Upp með þessari á er ævintýraland fossa. Hraunið er ógreiðfært en vel þess virði að fikra sig upp með ánni til að skoða nokkra fossa.

IMG_7339

Eins og kannski sumar myndirnar bera með sér þá hrepptum við þoku og súld. Á sunnudaginn voru greidd atkvæði um að taka struns í bílana eða eiga styttri dagleið og tjalda aftur blautum tjöldum í suddanum. Niðurstaðan var að dvelja eina nótt í viðbót og þá fundum við enn fleiri fossa. Þessi var með góðum hyl sem unglingarnir nýttu sér þar til tennurnar glömruðu. Það er engin lygi að þeim kólnaði nokkuð. Heitt kakó og hlýr svefnpoki var því vel þeginn eftir baðið. Það sá enginn eftir því að halda fossaleitinni áfram því við fundum nokkra fallega til viðbótar.

Fyrir þá sem vilja skoða fleiri fossamyndir þá má sjá þær hér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband