Í útlegð á Snæfellsnesfjallgarði

Um seinustu helgi fór ég í göngu um svæði sem ég hef horft á í 45 ár. Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið um Ísland og farið í margar göngur hefur þetta svæði orðið útundan.

Nú var loksins látið til skarar skríða. Gangan hófst við Oddastaðavatn í Hnappadal og lauk undir Elliðahamri á Snæfellsnesi.

Ferðafélagar okkar Darra voru Þóra og Palli en þau eru göngufélagar okkar til nokkurra ára.

Lagt var af stað frá Reykjavík á föstudagsmorgni með vistir til þriggja daga í bakpokanum ásamt tjaldi og öðrum nauðsynlegum viðleguútbúnaði.

Við ókum vestur á Snæfellsnes að Lágafelli og skildum annan bílinn eftir við vegaslóða sem liggur að sumarbústað við eyðibýlið Elliða.

Nóttin á undan hafði greinilega verið köld því í hæstu tindum Ljósufjalla var snjóföl.

Síðan var ekið að Oddastaðavatni. Þar voru pokar axlaðir og arkað af stað og stefnan tekinn á fjallið Hest. Þarna er útsýni í allar áttir fagurt, Hnappadalurinn ef litið var til baka, Eldborg, Syðri- og Ytri-Rauðamelskúlur til suðurs og Sáta til norðurs. Hesturinn og Þrífjöllin ávallt framundan og nálguðust óðar.

Göngulandið var aflíðandi upp að Hesti og þokkalegt yfirferðar.

Hesturinn sjálfur er úr móbergi og ekki kleifur hvar sem er. Við afréðum að fara upp aflíðandi afturendann norðaustan við Hestinn og höfðum hugsað okkur að komast upp á höfðið og klappa eyranu. Það sýndist okkur ekki fær leið þegar nær dró og gáfum það upp á bátinn. Létum okkur nægja lendina. Efsti hluti þeirrar leiðar er stórgrýtt og allra efst eru sérkennilegir stuðlar.

IMG_9118

Á toppnum fengu göngumenn ríkulega útborgað. Útsýnið af Hesti svíkur ekki. Til viðbótar því sem ég hef þegar nefnt sjást Ljósufjöllin til vesturs og að horfa norður eftir Snæfellsnesinu svona ofanfrá er erfiðisins virði. Stóri-Langidalur á Skógarströnd er þarna áberandi og síðan glittir í Drápuhlíðarfjall og Bjarnarhafnarfjall.

Þegar komið var niður af Hestinum voru bakpokar axlaðir aftur og haldið áfram norðan við Skyrtunnu. Þarna er landslagið stórbrotið. Mikið um gíga og þarna ægir saman blágrýti, móbergi, líparít og gjallgígum. Líkt og maður sé kominn í eldfjallasafn. Þarna gengum við í um 600m hæð og því er þarna algert hálendislandslag og hálendisgróður.

Norðan við Skyrtunnu er nokkuð giljótt. Við afréðum að halda frekar hæð og fara fyrir ofan gilin. Líklega var það verri leið. Mögulega hefði verið betra að fara niður í þá hæð sem Urðardalur liggur í og þá hefðum við sloppið betur við gilin og mögulega gengið í þægilegra landslagi. Urðardalur liggur í um 760m hæð og er þar lægsti punktur milli norður og suður hluta Snæfellsness á þessum slóðum. Um Urðardal liggur mæðiveikisgirðing og var það óvenjulegur faratálmi göngumanna. Búið er að endurnýja girðinguna en heldur hafa sunnanmenn staðið sig illa í að hreinsa upp leifar gömlu girðingarinnar.

IMG_9163

Ég var búin að stinga út GPS punkt fyrir mögulegan tjaldstað í Litla-Leirdal undir Ljósufjöllum. Ekki vissi ég hvort þar væri möguleiki á að koma fyrir tjaldi. Þarna gat vel verið gróðurlaust, urð, sandur eða þó þarna væri gróður gat það verið tómar þúfur. Einnig gat lækurinn sem merktur var á kortinu vel verið þurr í þurrkunum sem verið hafa að undanförnu.

Þarna höfðum við heldur betur heppnina með okkur. Við fundum frábæran tjaldstað þarna og þar sem við settum niður tjaldið var aðeins 350m í punktinn sem ég hafði stungið út.

IMG_9176

Þessi tjaldstaður var í ca 600m hæð undir Ljósufjöllum og um nóttina fór hitastig niður fyrir frostmark. Um morguninn kom sólin upp kl rúmlega 7 og þá var allur gróður hrímaður. Ég var ágætlega klædd og í góðum svefnpoka og fann ekki fyrir kulda.

Í göngum sem þessum er best að taka daginn snemma og við lögðum aftur af stað kl rúmlega 9. Fyrsti áfanginn voru þrír tindar Ljósufjalla. Fyrir mig var þetta langþráð takmark, hef horft á þessi fjöll frá barnæsku og seinustu ár hef ég æ oftar horft á þau með það í huga hvernig best sé að klífa þau.

IMG_9181

Nú var komið að því. Undir fjöllunum eru líparíthryggir. Þessir hryggir virðast ganga niður úr hverjum tind. Kann ég ekki skýringu á því. Við gengum upp austasta hrygginn og skildum pokana eftir milli austasta og miðtindinum. Á milli þeirra var snjófönn. Upp hana gengum við og var það til mikilli bóta að ganga í snjónum. Líparítskriðan var lítt spennandi til uppgöngu.

IMG_9189

Upp komumst við. Fyrst var ráðist á austasta tindinn en hann er lægstur eða um 1001m. Af honum er auðvelt að ganga í tindinn í miðjunni en sá er 1039m. Við höfðum hugsað okkur að ganga þaðan á vestasta tindinn en okkur sýndist það óráðlegt. Sá er brattur og laus í sér austan megin frá. Því afréðum við að arka skriðuna undir honum vestur undir hann og fara þar upp. Skriðan reyndist laus í sér og alger "skókiller". Einnig mokaðist mölin ofan í skóna okkar og við runnum aðeins niður í hverju spori. Þarna varð aðeins umræða um hvað væri auðfarið þar sem okkur hjónin greindi örlítið á um hvar besta leiðin væri. En upp komumst við og útsýnið sveik ekki frekar en fyrri daginn. Því verður ekki með orðum lýst og mæli ég með þessari fjallgöngu, þetta er með því flottara sem ég hef séð, tek fram að ég er á engan hátt hlutlaus.

Á kortum eru þessir tindar nafnlausir. Í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, leggur Ari Trausti til nöfnin: Gráni, Bleikur og Miðtindur, talið frá austri. Nöfnin eru skýrð þannig að austasti tindurinn Gráni er úr grárri líparít, næsti, Bleikur er aðeins bleikur og sá hæsti Miðtindur er í miðjunni ef vestari tindar Ljósufjalla eru taldir með. Ekki veit ég hvort þessi nöfn hafa fest sig í sessi né heldur hvort heimamenn hafa á þessa tinda nöfn sem kortagerðamönnum hafa yfirsést. Gaman væri að frétta af því.

IMG_9202

Svæðið norðan Ljósufjalla kom mér á óvart. Þar liggur Botna-Skyrtunna en einhvern vegin var hún mér áður ókunn.

Eftir miklar myndatökur og djúp andköf af hrifningu var haldið niður. Þar voru pokar aftur axlaðir og haldið í vestur. Litadýrð Ljósufjallanna er mikil frá þessu sjónarhorni.

IMG_9230

Við gengum undir fjallahrygg sem einnig gengur undir nafninu Ljósufjöll og stefndum á skarð norðan við Rauðukúlu, milli hennar og Hreggnasa. Þar fórum við norður yfir fjallgarðinn. Sem fyrr þá sveik útsýnið ekki þegar norður yfir var komið.

Ég hafði að þessu sinni ekki fastákveðið tjaldstað en var með nokkra í huga. Dagleiðin hafði verið nokkuð ströng og þar sem ég vissi að næsti dagur yrði heldur léttari þá afréðum við að tjalda þar sem við komum niður en það var í Gæshólamýri. Þar fundum við ágætan grasbala við læk. Hvað viljum við hafa það betra?

IMG_9266

Í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind sem Ari Trausti hefur tekið saman eru fjöll af ýmsum erfiðleikastigum. Meðal þeirra er Seljafellið. Það freistaði okkar sem kvöldganga svo hægt yrði að haka við í bókinni. Ég varð að viðurkenna að ég hafði fengið nóg þennan daginn án þess að vera á nokkurn hátt uppgefin eða algerlega búin á því. Taldi skynseminnar vegna að Seljafellið gæti beðið. Palli ákvað sömuleiðis að láta Seljafellið bíða en Þóra og Darri æddu upp. Þau geta samviskusamlega hakað við það.

Næsti dagur rann upp bjartur og fagur. Aftur var pakkað saman og lagt af stað um kl 9. Nú var ferðinni heitið norður fyrir Seljafellið. Við norðvestan Seljafellið varð í vegi okkar andlegur farartálmi: MALBIKAÐUR VEGUR. Þetta reyndist vera meira en andlegur farartálmi því þar sem við hugðumst fara yfir veginn yfir Vatnaleiðina reyndist vera vegrið báðum megin vegarins þar sem hann lá yfir gil sem heitir Þvergil. Það kostaði því smá umhugsun hvernig takast skyldi á við þennan óvenjulega farartálma bakpokaferðalangsins.

IMG_9283

Nú var stefnan tekin milli Urðarmúla og Baulárvallavatns. Tindar þessa dags voru Elliðatindar og þangað skyldi haldið. Valið stóð á milli þess að halda hæð vesta Urðarmúla að upptökum Vallnár. Líklega hefði það verið skynsamlegast. Í staðinn þá afréðum við að hækka okkur skáhalt upp í hlíðina í átt að opi Hamardals í Elliðahamri. Í hlíðinni voru mun fleiri gil en ég mundi eftir eða sáust á kortum. Því reyndist þetta meira puð en ráð var fyrir gert og alger óþarfi svona með bakpokana.

IMG_9292

Ofarlega í hlíðinni, mun ofar en við hefðum þurft, skildum við pokana eftir og skunduðum upp í Hamardal. Maður verður ótrúlega léttur á sér svona pokalaus.

IMG_9293

Elliðatindar eru ekki erfiðir uppgöngu og greinilega lítt gengnir. Efst er viðkvæmur mosi og var greinilegt að hann fær að vera í friði að mestu. Kannski eins gott en útsýni þarna uppi er frábært og er þetta eitt af þeim fjöllum sem er lítt þekkt en tiltölulega auðfarið á.

IMG_9316

Útsýni af Elliðatindum svíkur ekki og má með sanni segja að göngumenn hafi fengið ríkulega útborgað. Að lokinni myndatöku og lotningu yfir fegurðinni sem við blasti var haldið niður á við. Við fundum pokana okkar auðveldlega aftur, öxluðum þá og héldum niður á vegarslóðann þar sem bíllinn beið okkar.

Þriggja daga útlegð á Snæfellsnesfjallgarði var lokið. Það er sannarlega óhætt að mæla með þessari göngu og satt að segja undrast ég að ferðafélögin skuli ekki hafa neitt þessu líkt á sinni dagskrá. Reyndar man ég eftir að hafa séð þessa leið á dagskrá FÍ fyrir nokkrum árum en veit ekki hvernig það gekk. Ekki hef ég heldur heyrt af mörgum sem hafa gengið þetta á þennan hátt, þó veit ég að frændi minn Halldór frá Dal gekk hluta leiðarinnar fyrr í sumar. Myndir sem hann sendi mér nýttust mér vel við skipulagningu þessarar ferðar.

Auðvelt er að skipuleggja 6 daga ferð sem hefði þá annað hvort upphaf eða endi við Hreðavatn og lægi þá einnig um Langavatn, Hítarvatn og Hlíðarvatn.

Ég vil hiklaust hvetja fólk til að ganga um þetta svæði og fullyrði að þetta er ein af mörgum óuppgötvuðum náttúruperlum landsins. Þeir sem lesa þetta og áhuga hafa eru hvattir til að hafa samband og mun ég veita allar þær upplýsingar og leiðbeiningar sem ég get um leiðarval. Einnig má skoða fleiri myndir hér.

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Oh, nú öfunda ég þig, frænka. Ég var í Hvammi um daginn og horfði reglulega yfir að Elliðatindum og hugsaði um að það væri gaman að komast þangað. (sem krakki hugsaði ég það líka en hverjum datt í hug að fara í fjallgöngur að óþörfu í sveitinni!)

Erlendur á hins vegar eftir að fara á Rauðukúlu - áskorun sem kallar á hann í hvert sinn sem við erum fyrir vestan. Það kemur að því.

Á ferðalagi okkar um Nesið um daginn duttum við niður á kort af Snæfellsnesi. Þar var m.a. fjallið Hreggnasi og undir því Háskaskarð. Ég hafði aldrei heyrt þessi örnefni áður.

Kveðja, Þorbjörg.

Þorbjörg Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 12:40

2 identicon

Góð ferðasaga í máli og myndum Kristjana. Eina sem ég sakna er mynd af Elliðahamrinum sjálfum ;-)

En mikið væri nú gaman að fara á gömlu slóðirnar og kanna nýjar. Hef ekki komið á tindana, aðeins að ofanverðum hamrinum að vestanverðu.

Kv. Villa

Vilborg Hjartardottir (IP-tala skráð) 30.7.2009 kl. 21:26

3 identicon

Frábært Kristjana! Gamall sveitungi getur ekki annað en þakkað texta og myndir. Ég hef aðeins einu sinni gengið á Ljósufjöll og þá á austasta tindinn - en þvílík ánægja og útsýni! Við gengum reyndar oft upp á Fellin (Urðarfell og Sandfell) krakkarnir en meiriháttar fjallgöngur voru ekki stundaðar - fyrir utan Rauðukúluna fyrir meira en 30 árum! Varst þú ekki með í þeirri ferð ÍM? Læt fljóta með vísu eftir skáldkonuna Theodóru Thoroddsen sem fæddist á Kvennabrekku í Dölum en fluttist sex ára að Breiðabólsstað á Skógarströnd. Hún hefur horft til fjallana sinna handan Faxaflóans eftir að hún fluttist hingað suður - eins og við gerum sjálfsagt báðar:

Yfir helkalt sævardjúp

sé eg Hest og Tunnu.

Fjöllin mín í fannahjúp

fagna hvítasunnu.

- Erla, Minni-Borg

Erla Hulda Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 31.7.2009 kl. 11:59

4 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Takk fyrir viðbrögðin

Þorbjörg, það eru ótrúlega mörg örnefni þarna sem mér voru ókunn. Hreggnasa hafði ég aldrei tekið eftir, enda er hann í hvarfi við Rauðukúlu úr vestursveitinni. sést samt vel sunnan frá. Vestari hluti Ljósufjalla var einhvern vegin utan við það sem ég hef almennilega tekið eftir fyrr en nú. Nei, fjallgöngur voru víst ekki stundaðar að óþörfu hér áður fyrr.

Villa, ástæðan fyrir því að í myndaseríunni er engin hefðbundin mynd af Elliðahamrinum er einfaldlega sú að þannig sá ég hann ekki. Var komin niður í bíl þá á leið í burtu. Trúi því að þú hafir komið ofarlega í hann í smalamennskum áður fyrr þegar þú smalaðir Furudalinn. Hafði jafnvel velt fyrir mér að bæta við nótt í Furudal þegar ég var að skipuleggja þessa ferð.

Erla, mikið er gaman að vita af þér að lesa þetta. Frábær vísan og lýsir tilfinningu minni þegar ég horfi vestur héðan af Seltjarnarnesinu. Já ÍM fór víst einu sinni í skemmtigöngu á Rauðukúlu. Trúðu mér, ég sat heima þá, fannst ég vera feitur klunnalegur stirðbusi sem hefði ekkert að gera í göngu með íþróttakrökkunum. Þetta er satt og segir kannski svolítið um að það þurfi stöðugt að efla alla til meiri hreyfingar. Uppgötvaði nefnilega seinna að þetta er mest í hausnum á manni, þ.e. hvað maður getur varðandi líkamlega hreyfingu. Byrja smátt og auka síðan við. Það hef ég gert og engan veginn hætt.

Kristjana Bjarnadóttir, 31.7.2009 kl. 13:14

5 identicon

Ég var að skoða myndirnar þínar og lesa ferðasöguna, og langar til þess að þakka fyrir mig.

Frábærar myndir og frásögn. 

Áslaug Benediktsdóttir (var eitt sinn á Vegamótum) (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband