Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
9.8.2009 | 10:29
Að vera hinsegin - leyfið til að vera öðruvísi
Þessa dagana standa yfir hinsegin dagar og eru þeir tileinkaðir réttindabaráttu samkynhneigðra. Hápunkturinn er efalaust gleðigangan í miðbæ Reykjavíkur og eiga samkynhneigðir lof skilið fyrir það jákvæða yfirbragð sem þessari göngu hefur ávallt fylgt. Í stað reiði, sjálfsvorkunnar og kröfuspjalda er ásýndin gleði og hamingja yfir lífinu og þeirri einlægu ósk að fá að vera "eins og ég er".
Á fáum árum hefur samkynhneigðum á þennan hátt tekist með jákvæðni að breyta viðhorfi almennings til sín. Smám saman höfum við gefið leyfið til að vera hinsegin, leyfið til að vera öðruvísi en fjöldinn.
Seinustu mánuði hef ég oft hugsað um hve illa okkur Íslendingum hefur gengið að gefa þetta leyfi, tilhneigingin til að steypa alla í sama mót hefur verið mjög sterk. Börn sem skera sig úr fjöldanum hafa átt erfitt uppdráttar, jafnvel fullorðnir líka. Vafalaust gildir þetta enn um samkynhneigða en jákvæð baráttuaðferð þeirra hefur skilað þeim ákveðinni viðurkenningu og er það vel.
Ein er sú stofnun sem hefur átt erfitt með að viðurkenna samkynhneigð, það er kirkjan. Því miður er það einnig stofnun sem á erfitt með að viðurkenna margskonar fjölbreytileika, m.a. það að til er fólk sem aðhyllist enga trú.
Þessi stofnun reynir leynt og ljóst að sækja inn í skólastofnanir til að tryggja sér fylgi áður en gagnrýnin hugsun festir sig í sessi hjá barninu. Því miður spila margir kennarar með í þessari sókn.
Fyrir um ári síðan fékk dóttir mín eftirfarandi athugasemd frá kennara í grunnskóla:
"Það trúa allir á eitthvað".
Þessi athugasemd er jafnröng og eftirfarandi athugasemd:
"Allir strákar verða skotnir í stelpum og allar stelpur verða skotnar í strákum".
Í báðum þessum fullyrðingum er fjölbreytileika hafnað. Í gær var okkur svo sannarlega sýnt fram á hversu röng seinni athugasemdin er og ég held að við séum smám saman að átta okkur á þeirri staðreynd.
Spurningin sem ég hef velt fyrir mér er hins vegar: Höfum við almennt áttað okkur á því hversu röng fyrri athugasemdin er?
Samkynhneigðir eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeim hefur tekist að sýna okkur fram á fjölbreytileika mannlífsins. Það er okkar að víkka hugann og viðurkenna þennan fjölbreytileika á fleiri sviðum, gefa leyfið til að vera hinsegin.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2008 | 22:13
Krikja og skóli
Dýrmætur er réttur trúaðra að fá að rækta sína trú. Sá réttur má þó aldrei verða rétti þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða standa utan trúfélaga sterkari.
Seinustu ár hefur þjóðkirkjan sótt stíft inn í leikskóla og grunnskóla. Bænahald þykir víða sjálfsagður partur í almennri kennslustund grunnskóla, kirkjuheimsóknir í desember hafa verið óvalkvæðar og sóknarprestar hafa fengið leyfi skólayfirvalda til að koma í kennslustund hjá fermingarárgangi í þeim tilgangi að útdeila viðtalstímum vegna fermingar.
Er það réttlætanlegt að skikka grunnskólabarn utan trúfélaga til að spenna greipar og fara með bænir án þess að hugur fylgi máli?
Er það réttlætanlegt að börnum af öðrum trúfélögum og utan trúfélaga sé ekki boðið upp á val þegar farið er til kirkju í jólamánuði?
Er það réttlætanlegt að börnum utan þjóðkirkju sé ítrekað boðinn viðtalstími við sóknarprest vegna fermingarundirbúnings? Þrátt fyrir að hafa neitað kurteislega.
Ofangreint og margt fleira ástundar þjóðkirkjan í krafti stærðar sinnar.
Á kirkjuþingi unga fólksins sem haldið var föstudaginn 24. október var hvatt "til að efla boðun kirkjunnar í framhaldsskólum, með vísan til mikilvægis þess að sjónarmið kirkju og trúar þyrftu einnig að heyrast þar".
Næsti markhópur kirkjunnar eru framhaldsskólarnir. Þar eru börnin orðin eldri og eiga auðveldara með að skera sig úr hópnum og því finnst mér það reyndar bærilegri tilhugsun en aðkoma kirkjunnar á yngri stigum. Það breytir því þó ekki að það er algerlega óviðunandi að kirkjan sæki markvisst inn í opinberar stofnanir á þennan hátt.
Ég er hrædd um að okkur þætti einkennilegt ef kirkjan myndi á sama hátt sækja að starfsfólki þessara stofnana og jafnvel standa fyrir bænahaldi í matartímum.
Frelsi til að stunda trú á ekkert skylt við frelsi til að boða trú og í krafti stærðar að virða ekki rétt annarra til að ástunda aðra trú eða standa utan trúfélaga. Þjóðkirkjan verður að virða rétt þessara hópa til að hafna trúboði hennar.
26.6.2008 | 23:24
Að skera sig úr fjöldanum - má það?
Það er staðreynd að í mörgum skólum, bæði grunnskólum og leikskólum, á sér stað trúarinnræting. Er þar ýmist um að ræða beina aðkomu presta í heimsóknum í skóla og leikskóla, einnig eru kirkjuferðir á vegum skólans og bænastundir sem kennarar standa fyrir.
Sterk hefð er meðal þjóðarinnar fyrir því að sjálfsagt þyki að allir fylgi þjóðkirkjunni. Það er hins vegar svo að henni tilheyra í dag ekki nema um 80% þjóðarinnar skv tölum hagstofunnar fyrir árið 2007. Kristnum trúfélögum tilheyra hins vegar um 90% þjóðarinnar. Munum að þessar tölur segja ekki nema hálfa söguna um trúariðkun eða trú þjóðarinnar, þetta er einungis trúfélagaskráning.
Það sem þessar tölur segja okkur er að 10% þjóðarinnar eru ekki skráð í kristið trúfélag. Í 20 barna bekk má gera ráð fyrir að a.m.k. 2 börn séu ekki alin upp við kristna trú.
Er eðlilegt að farið sé með bænir í kennslustundum og kennarinn líti yfir bekkinn og fylgist með hvort allir lúti höfði og biðji af heilum hug?
Er eðlilegt að prestur komi inn í bekk fermingarárgangs og úthluti tímum í viðtal með foreldrum til undirbúnings fermingarfræðslu? Komi síðan með athugasemdir fyrir framan öll börnin til þeirra sem ekki vilja þiggja, spyrji hvort barnið vilji nú ekki ræða þetta við foreldrana.
Er eðlilegt að kennari fullyrði við börnin að það trúi allir á guð?
Er eðlilegt að kirkjuferðir á vegum skóla séu ekki valfrjálsar?
Er eðlilegt að þjóðkirkjuprestur segi að "þeir sem skeri sig úr fjöldanum hljóti einhvern tíma að mæta því"?
Hvað er maðurinn að segja? Er kirkjunni leyfilegt að vanvirða þá lífsskoðun fólks utan trúfélaga að trú sé ekki nauðsynlegur hluti lífsins?
Hvernig getum við ætlast til að börnin virði rétt hvers annars til að vera öðruvísi en fjöldinn (klæðaburður, kynþáttur, getustig) þegar þjóðkirkjuprestar geta ekki virt þennan rétt?
Sjálfsagður er réttur allra til að stunda sína trú, það er líka sjálfsagður réttur þeirra sem ekki hafa trú að vera ekki þröngvað til að taka þátt í trúarathöfnum. Þetta á einnig að gilda um börn.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2007 | 00:37
Áfram Þorgerður Katrín
Þessi færsla er hól til menntamálaráðherra fyrir frammistöðu hennar í Kastljósinu í kvöld þar sem hún og Guðni Ágústsson áttust við vegna umræðu um trúarlega aðkomu í skólastarf. Það er örugglega ekki auðvelt að standa gegn kirkju og biskupi en mér fannst hún skilja um hvað málið snýst, mun meira en margir hafa gert.
Örlítið fannst mér vanta á að Þorgerður skýrði út í hverju kristið siðgæði er frábrugðið "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi" eins og segir í nýjum grunnskólalögum. Að öðru leyti stóð hún sig vel.
Aumingja Guðni var eins og nátttröll. Talaði um að kristilegt siðgæði væri fallegt orð, heiðingjar væru sjálfsagt með verra siðgæði en aðrir!
Hvað meinti maðurinn?
Hvað eru heiðingjar? Er það ég sem stend utan trúfélaga? Er hægt að fullyrða að heiðingjar séu með verra siðgæði en aðrir án þess að geta þess hvað átt er við með þessu orði "heiðingjar"?
Æi, hvernig getur umræða meðal almennings verið á vitrænu plani þegar stjórnmálamenn og biskup láta svona.
En Þorgerður Katrín: Stattu þig stelpa!
7.12.2007 | 22:24
Er ég hatrömm í augum biskups?
Umræða um aðkomu kirkju að skólastarfi hefur verið áberandi undanfarna daga. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í hana þó ég sé stútfull af skoðunum um þetta mál, fannst bara svo margt sagt að ég hefði litlu við það að bæta.
Nú get ég ekki lengur orða bundist, biskupinn fyllti mælinn í dag. Hann svarar (sjá hér) opnu bréfi Siðmenntar þar sem Siðmennt hafði farið fram á afsökunarbeiðni vegna orða biskups um að samtökin væru hatrömm. Hér er valinn kafli úr svari biskups:
Félagið hefur sent bréf og yfirlýsingar, til dæmis til yfirvalda menntamála, þar sem amast er við m.a. skoðunarferðum í kirkjur, að börn séu látin lita eða teikna trúarlegar myndir og tryggt verði að greinarmunur sé gerður á sagnfræði og goðsögnum í kennslustundum. Ýmsir talsmenn Siðmenntar hafa leyft sér þann málflutning að tala niðrandi um trú og að krefjast banns við helgileikjum og jólaguðspjalli í skólum. Ég leyfi ég mér að nota orðið hatrammur um þennan málflutning.
Um hvað snýst þessi "hatrammi" málflutningur?
Geta ferðir sem ganga út á helgistundir þar sem börnin fara saman með bænir flokkast sem skoðunarferðir í kirkju? Er óeðlilegt að foreldrar barna utan trúfélaga og þeirra sem aðhyllast önnur trúarbrögð eigi erfitt með að samþykkja að börnum þeirra sé gert að spenna greipar og biðja til Guðs sem þau ekki aðhyllast? Eru það "hatrammir" foreldrar sem biðja um að þetta sé ekki gert? Börnin eiga tvo kosti: biðja án þessa að meina það eða sitja hjá og horfa út í loftið. Það er ekki erfitt að sjá fyrir sér þegar kennari og prestur líta yfir hópinn og gefa bendingu til þessara barna um að fylgjast með, þau eiga að vera virkir þátttakendur í þessum athöfnum, þær eru þess eðlis. Vill kirkjan frekar að börnin láti sem þau trúi? Er það ekki hræsni? Það væri hægt að tala um skoðunarferð ef öll börnin fylgdust með helgistund annarra, ekki ef þau eru þátttakendur.
Hvernig getur sú skoðun að "greinarmunur sé gerður á sagnfræði og goðsögnum í kennslustundum" verið hatrammur málflutningur og réttlæta það að kalla samtökin "hatrömm"?
Ég minni á að þetta er haft eftir æðsta yfirmanni þjóðkirkjunnar sem kennir sig við "kristið siðgæði". Þetta er ekki bara einhver bullari á bloggsíðum.
Áfram heldur biskup:
Ég fagna því ef Siðmennt vill nú styðja kristinfræðikennslu og trúarbragðafræðslu í skólum, eins og fram kemur í opnu bréfi félagsins til mín. Það er sannarlega gleðilegt ef Siðmennt vill taka þannig höndum saman við Þjóðkirkjuna. Aldrei var brýnna en nú andspænis vaxandi fjölmenningu að efla slíka fræðsla í skólunum og að auka menntun kennara í þessum efnum.
Þýða þessi orð að öllum trúarbrögðum skuli gert jafnhátt undir höfði? Eða merkir þetta að gera eigi kristni enn hærra undir höfði til að sporna við fjölmenningu? Ég skil ekki alveg hvað biskup er að fara. Þetta þarfnast frekari skýringa.
Ég hef lesið mikið af því námsefni sem notað er í kristinfræðikennslu. Það er mjög óljóst í því hvenær er fjallað um sögulegar staðreyndir, hvenær er verið að fjalla um bókmenntir og hvenær er verið að kenna siðfræði. Fellur þessi gagnrýni mín undir það að vera "hatrömm"? Er ég hatrömm að halda þessu fram?
Er ég hatrömm þar sem ég lýsi yfir óánægju með að börnin mín hafi árum saman komið heim með miða fyrir jól þar sem á stendur: "Allir fara saman í kirkju"? Ég vek athygli á að í þessum orðum er ekki boðið upp á val.
Hvernig má það vera að biskupinn telur það kirkjunni til framdráttar að haga málflutningi sínum með þessum hætti?
Er þetta það kristilega siðgæði sem ekki má fella út úr grunnskólalögum og setja í staðinn almenna útlistun á því siðgæði sem við flest viljum kenna okkur við? Texta um að þetta siðgæði byggist á "umburðarlyndi, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi". Hvað er það í þessum texta sem biskup getur ekki sætt sig við? Er ég hatrömm að aðhyllast þennan texta frekar en ónákvæma tilvísun um kristilegt siðgæði?Kristin trú hefur ekki einkarétt á því að kenna sig við það sem fellur undir manngildissjónarmið, enn síður þegar forsvarsmenn hennar fara fram með þessum hætti.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.11.2007 | 18:12
Er þróun staðreynd eða skoðun
Er hægt að hafa mismunandi skoðun á staðreyndum raunvísindanna? Dæmi:
- 2+2=5.
- Jörðin er flöt.
- Sólin snýst í kringum jörðina.
Eru til mismunandi skoðanir á fullyrðingum sem þessum? Erum við tilbúin til að viðurkenna þessar fullyrðingar sem jafnréttháar skoðanir og það sem við teljum "vísindalega sannað"?
Hvaða hug berum við til menntakerfisins ef á vegi okkar verður fólk sem staðhæfir eitthvað af þeim atriðum sem ég taldi upp hér að ofan?
Þróun er í mínum huga staðreynd og hélt ég satt að segja að svo væri í huga flestra. Gilda einhver önnur viðhorf okkar á meðal gagnvart þeim raunvísindum en til þeirra sem ég taldi upp hér að ofan?
Hvernig kirkjan vill túlka sköpunarsöguna í ljósi þróunar er mér ekki ljóst. Ekki að það trufli mig eða mína sýn á lífið, heldur finnst mér ekki boðlegt að unglingar í upplýstu samfélagi nútímans líti á Adam og Evu sem sögupersónur í mannkynssögunni. Kristinfræði er kennd í grunnskólum á Íslandi, það er staðreynd. Í þessari kennslu er alls ekki alltaf ljóst hvenær er verið að kenna börnunum óstaðfestar sögusagnir með misvitrum boðskap (dæmi: sonarfórn Abrahams) eða staðreyndir mannkynssögunar.
Er það nema von að börnin geri sér ekki alltaf grein fyrir mörkunum þarna á milli fyrst það er ekki skýrt út fyrir þeim? Hver er tilgangurinn með svona kennslu?
Getur verið að upplýst nútíma samfélag telji það bara í lagi að hægt sé að hafa þá "skoðun" að sköpunarsagan eigi við rök að styðjast? Erum við virkilega svo hrædd við kirkjuna að við þorum ekki að andmæla þessu opinberlega?
Berum við meiri virðingu fyrir mismunandi "skoðunum" á staðreyndum raunvísindanna ef þær snúa að trúarlegum álitaefnum heldur en þeim atriðum sem talin voru upp í upphafi pistilsins?
23.10.2007 | 22:22
Leyfið til að vera öðruvísi
Hvernig samfélagi viljum við búa í? Er leyfilegt að skera sig út úr fjöldanum? Skal steypa alla í sama mót? Við eigum oft erfitt með að gefa leyfið, til að vera öðruvísi, það er svo miklu þægilegra ef allir eru eins. Hafa sömu trú, sama tungumál, bakgrunn, þarfir, getu, kynhneigð, þá þurfum við ekki að taka tillit til annarra. Ó, hve lífið væri einfaldara. Þá þyrftum við aldrei að útskýra neitt fyrir börnunum okkar............
Það væri draumaheimurinn okkar, eða hvað?
Hvernig getum við gert kröfu til þess að börnin okkar gefi þetta leyfi ef það er ekki til staðar í þeirra nánasta umhverfi?
Hreyfihamlaðri stúlku í unglingadeild grunnskóla er sagt að vera inni að læra meðan bekkjarsystkinin fara út að leika sér í góða veðrinu.
Unglingsstúlka utan trúfélaga neitar að fara í kirkjuferð á vegum skólans, skólinn gerir þá kröfu að hún mæti samt, kennari spyr af hverju hún haldi jól.
"Það trúa allir á guð" fullyrðir náttúrufræðikennari í bekk með 3 börnum af asískum uppruna. Svo eru til íslensk börn utan trúfélaga.
Biskup yfir þjóðkirkju sem segir okkur að allir séu jafnir fyrir guði en vill skipta sambúðarformum í flokka eftir kynhneigð.
Getum við ætlast til umburðarlyndis af börnunum gagnvart fjölbreytileika þegar þau alast upp í umhverfi sem viðurkennir ekki litróf mannlífssins, dregur fólk í dilka?
Af hverju erum við ekki opin fyrir fjölbreytileikanum og gefum öllum tækifæri til að njóta sín á sínum forsendum?
21.10.2007 | 14:28
Hjónaband
Fyrir kirkjuþingi sem nú stendur yfir liggur tillaga um að prestum verði heimilað að staðfesta samvist samkynhneigðra. Jafnframt leggur biskup fram tillögu um skilgreiningu á hjónabandinu. Samkvæmt henni getur hjónaband eingöngu verið sáttmáli milli karls og konu.
Hvað er þá staðfest samvist samkynhneigðra? Í hverju felst munurinn á staðfestri samvist þeirra og hjónabandi?
Ég skil hjónaband sem sáttmála milli tveggja einstaklinga um að taka sameiginlega ábyrgð á lífi sínu, mitt er þitt og þitt er mitt. Er skilningur biskups á þessum sáttmála milli samkynhneigðra einhver annar?
Í fréttablaðinu í dag er haft eftir biskupi: "..... grundvallaratriðið hvað hjónabandið varðar sé þessi gagnkvæmni kynjanna sem getur af sér líf". Hvað þýða þessi orð? Er hjónabandið einskis virði ef það er barnlaust? Hvað er biskup með þessum orðum að segja við hjón sem glíma við ófrjósemi?
Kirkjunnar menn verða að átta sig á þeim samfélagsbreytingum sem hafa orðið. Almenningur hefur að miklu leyti látið af fordómum sínum gagnvart samkynhneigðum. Menn innan kirkjunnar reyna að skipta sambúðarformum í flokka og það dylst engum hvaða flokkur er óæðri. Skilaboðin til samkynhneigðra eru skýr. Í örvæntingu sinni til að réttlæta þessa skoðun sína heggur biskup nærri fólki sem stríðir við ófrjósemi.
Ef kirkjan ætlar sér að lifa af í nútímanum verður hún að skilja að almenningur vill ekki að fólk sé dregið í dilka með þessum hætti, sá munur sem biskup vill gera á samvist samkynhneigðra og hjónabands karls og konu segir að hann á langt í land með að viðurkenna samkynhneigð.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)