Að vera hinsegin - leyfið til að vera öðruvísi

Þessa dagana standa yfir hinsegin dagar og eru þeir tileinkaðir réttindabaráttu samkynhneigðra. Hápunkturinn er efalaust gleðigangan í miðbæ Reykjavíkur og eiga samkynhneigðir lof skilið fyrir það jákvæða yfirbragð sem þessari göngu hefur ávallt fylgt. Í stað reiði, sjálfsvorkunnar og kröfuspjalda er ásýndin gleði og hamingja yfir lífinu og þeirri einlægu ósk að fá að vera "eins og ég er".

Á fáum árum hefur samkynhneigðum á þennan hátt tekist með jákvæðni að breyta viðhorfi almennings til sín. Smám saman höfum við gefið leyfið til að vera hinsegin, leyfið til að vera öðruvísi en fjöldinn.

Seinustu mánuði hef ég oft hugsað um hve illa okkur Íslendingum hefur gengið að gefa þetta leyfi, tilhneigingin til að steypa alla í sama mót hefur verið mjög sterk. Börn sem skera sig úr fjöldanum hafa átt erfitt uppdráttar, jafnvel fullorðnir líka. Vafalaust gildir þetta enn um samkynhneigða en jákvæð baráttuaðferð þeirra hefur skilað þeim ákveðinni viðurkenningu og er það vel.

Ein er sú stofnun sem hefur átt erfitt með að viðurkenna samkynhneigð, það er kirkjan. Því miður er það einnig stofnun sem á erfitt með að viðurkenna margskonar fjölbreytileika, m.a. það að til er fólk sem aðhyllist enga trú.

Þessi stofnun reynir leynt og ljóst að sækja inn í skólastofnanir til að tryggja sér fylgi áður en gagnrýnin hugsun festir sig í sessi hjá barninu. Því miður spila margir kennarar með í þessari sókn.

Fyrir um ári síðan fékk dóttir mín eftirfarandi athugasemd frá kennara í grunnskóla:

"Það trúa allir á eitthvað".

Þessi athugasemd er jafnröng og eftirfarandi athugasemd:

"Allir strákar verða skotnir í stelpum og allar stelpur verða skotnar í strákum".

Í báðum þessum fullyrðingum er fjölbreytileika hafnað. Í gær var okkur svo sannarlega sýnt fram á hversu röng seinni athugasemdin er og ég held að við séum smám saman að átta okkur á þeirri staðreynd.

Spurningin sem ég hef velt fyrir mér er hins vegar: Höfum við almennt áttað okkur á því hversu röng fyrri athugasemdin er?

Samkynhneigðir eiga hrós skilið fyrir hversu vel þeim hefur tekist að sýna okkur fram á fjölbreytileika mannlífsins. Það er okkar að víkka hugann og viðurkenna þennan fjölbreytileika á fleiri sviðum, gefa leyfið til að vera hinsegin.


Í framhaldi af Ljósufjöllum

Ég hef í nokkur ár haft áhuga á að skipuleggja 6 daga göngu um austanverðan Snæfellsnesfjallgarðinn og síðan vötn í fjallhögum Mýra í framhaldi. Þessi hugmynd mín fékk nýtt líf á göngu minni um Snæfellsnesfjallgarðinn nú nýlega.

Ég fór einnig að lesa mér til um eldvirkni á austanverðu Snæfellsnesi og rifjaðist þá upp fyrir mér sú staðreynd að Ljósufjallaeldstöðin nær frá Kolgrafarfirði, um Ljósufjöll, í Hnappadal, suður Mýrar og endar við Grábrók í Norðurárdal. Ég fór að lesa meira, skoða kort, gúggla myndir á netinu og komst að því að í fjallhögum Mýra eru verulega áhugaverðir staðir sem hafa fengið litla athygli ferðamanna.

Þegar gönguleiðir um vötnin í fjallhögum Mýra hafa verið farnar hefur verið algengast að hefja göngu við Hlíðarvatn, þaðan að Hítarvatni, síðan að Langavatni og enda við Hreðavatn. Ég komst að því við athugun á hvar eldvirkni hefði verið og skoðun á myndum á netinu að Háleiksvatn, Grjótárvatn, Hraundalur og Sandavatn væru ekki síður athyglisverð. Til að ná að ganga þetta á þremur dögum sá ég að ég þurfti að hugsa þetta allt öðruvísi.

Ákveðið var að sleppa Hlíðarvatni, heldur hefja gönguna við Hítarvatn, ganga inn Þórarinsdal, þaðan yfir að Háleiksvatni og fylgja síðan Grjótá að Grjótárvatni. Þar var tjaldað, gengið síðan meðfram Grjótárvatni, Rauðhálsar skoðaðir, snúið til baka, gengið yfir Álftaskarð niður í Hraundal, að Sandavatni og tjaldað við Langá. Seinasta daginn var gengið sunnan við Langavatn, yfir Beilárheiði, á Vikrafell og eftir því endilöngu og síðan niður með Kiðá að Selvatni og Hreðavatni. Sjá nánar á korti hér að neðan:

Untitled

Verslunarmannahelgin var valin til ferðarinnar, veðurútlit var bara þokkalegt. Ásdís vinkona mín skellti sér með okkur Darra. Við ókum vestur að Hítarvatni á laugardagsmorgni og hófum gönguna um kl hálf ellefu. Það var langt síðan ég hafði komið í Hítardal en sannarlega er þar náttúruperla sem fer hljóðlega. Þar eru miklir möguleikar á krefjandi fjallgöngum sem og léttum lautarferðum í fallegri náttúru.

Tröllakirkja í Hítardal var áður bara nafn í mínum eyrum en það voru mér áður óþekktir Smjörhnjúkar sem heilluðu mig. Þangað langar mig, jú og svo Tröllakirkjuna í framhaldi af þeim.

IMG_9331

Við gegnum inn Þórarinsdal og framhjá Smjörhnjúkum og stefndum í skarð norðvestan við Háleiksmúla. Þetta var töluverð hækkun, líklega um tæplega 500m. Þokuskömm læddist yfir meðan við pjökkuðum þetta og áður en við komum í skarðið sáum við vart handa okkar skil. Þá var nú gott að hafa GPS.

Hitarvatn_1

Í þokunni fikruðum við okkur svo í átt að punkti sem átti að vera við vatnið. Þar sem höfuðáttirnar voru á þessum stað aðallega tvær, upp og niður reyndist það ekki erfitt verk. Við ákváðum þarna að taka seinna kaffið og hvíldum lúin bein. Á meðan við gæddum okkur á skrínukosti létti þokunni. Það hafði verið á dagskránni að reyna að ganga á Háleiksmúla úr skarðinu en því höfðum við sleppt vegna þokunnar. Þegar henni létti var okkur ekki til setunnar boðið og því skokkuðum við upp aftur.

IMG_9369

Útsýnið sveik ekki frekar en fyrri daginn og er óhætt að mæla með þessari leið. Á myndinni hér að ofan sést hvernig móberghryggur hefur lokað dalnum og myndar þannig Háleiksvatn.

Eftir að hafa skokkað niður að Háleiksvatni annað skiptið þennan daginn lá leiðin meðfram vatninu að austan og niður með Grjótá sem fellur í gili úr Háleiksvatni. Við vorum ósköp fegin að hafa útsýni þegar við völdum leiðina í gilinu og er óhætt að segja kindagötur hafi reynst okkur notadrjúgur vegvísir.

Fyrir ofan Grjótárvatn eru miklir grasbalar og var ekki erfitt að finna stað til að koma tjöldunum fyrir.

IMG_9406

Næsta morgun hélt leiðangurinn áfram, ferðinni var heitið meðfram Grjótárvatni og skoða Rauðhálsa sem loka dalnum og mynda þannig Grjótárvatn. Við skildum pokana eftir við vatnið og tókum góðan krók að skoða gígana, útfall Grjótár úr vatninu og fallega fossa þar fyrir neðan.

IMG_9411

Á myndinni hér að ofan sést hvernig Rauðhálsagígurinn lokar dalinn af og myndar Grjótárvatn.

Við Rauðhálsa er mikil litadýrð og Grjótáin rennur í litlu en fallegu gili þarna efst. Eftir að við gáfum okkur góðan tíma í að dást að náttúrunni var ferðinni heitið til baka þar sem pokarnir biðu okkar. Á bakaleiðinni fundum við tófugreni en engin merki um að neinn væri heima. Um nóttina hafði Ásdís heyrt í yrðlingi og var ekki erfitt að ímynda sér að hann ætti heima þarna. Um það vitum við hins vegar ekkert fyrir vissu.

Pokarnir biðu við Grjótárvatn og eftir að þeir voru aftur komnir á sinn stað var haldið upp á við, ferðinni var heitið yfir Álftaskarð yfir í Hraundal. Í Hraundal eru einnig rauðar kúlur eins og víðar á þessu svæði sem tilheyrir Ljósufjallaeldstöðinni. Þarna eru einnig móbergskeilur og hryggir eftir gos á jökulskeiðum. Lambafell er dæmi um þetta en það og hraunið í kring myndar enn eitt vatnið, Sandavatn. Við höfðum áætlað tjaldstað á grasbala við enda Sandvatns. Ég hafði séð grasbalann á myndum og taldi þetta ákjósanlegan tjaldstað. Þarna var kargaþýfi, þúfurnar náðu mér sumar hverjar í hné. Svona geta myndir svikið mann. Við héldum yfir Langá og í hlíðum Staðartungu fundum við prýðilegan tjaldstað.

IMG_9497

Morguninn eftir var enn og aftur pakkað saman og haldið áfram. Nú var gengið meðfram Langá og sunnan Langavatns og haldið yfir Beilárheiði að Vikrafelli. Miðað við kort og myndir hafði ég búist við þægilegu göngulandi yfir Beilárheiði, hafði þó lesið að hún væri "örðugt smalaland". Við skiljum nú hvers vegna og það er alveg klárt mál að þó ég hafi gaman af smalamennsku þá er ég ekki sjálfboðaliði í smalamennsku um þetta svæði. Endalaus holt, hæðir, lægðir og drög þess á milli. Upp og niður aftur. Ein kind fundin farið fyrir holt og kíkt í næsta drag og kindin sem var fundin er aftur týnd. Mögulega fórum við full sunnarlega í Heiðina en þetta var klárlega ekki skemmtilegt gönguland.

Ferðinni var heitið að Vikrafelli. Þar misreiknuðum við okkur einnig aðeins og fórum full sunnarlega í byrjun, það þýddi gil og vesen og dágóðan aukakrók. Þetta fylgir því að skipuleggja ferðina sjálfur með litlum fyrirvara, besta leiðin er ekki endilega alltaf valin.

En upp á Vikrafell komumst við. Það er myndarlegur goshryggur úr gjalli. Útsýnið sveik ekki frekar en fyrri daginn og sannarlega óhætt að mæla með göngu á það. Þarna gátum við skoðað leiðina sem við höfðum farið og sérstaklega var gaman að sjá þarna Háleiksmúla og Smjörhnjúka í fjarska.

IMG_9558

Við fikruðum okkur niður af Vikrafellinu og ákváðum að fylgja kindagötum niður með Kiðá. Við vorum örlítið hrædd um að lenda í kjarri þegar neðar drægi en ákváðum að láta á það reyna þar sem við sáum öðru hvoru greinileg skóför. Auðvitað lentum við í þéttvöxnum skóginum og þá reyndi enn og aftur á hversu auðfarin leiðin var. Það var þetta orð "auðfarið" sem Ásdís var farin að læra nýja merkingu á. Við Darri erum nefnilega búin að koma okkur upp ákveðinni merkingu á þessu orði. Það verður ekki skýrt frekar.

Þegar komið var niður að Selvatni vorum við búin að fá nóg af auðförnum leiðum og ákváðum að taka veginn niður að Hreðavatni. Það er yfir örlítinn háls að fara og í skarðinu á hálsinum blasir við í hlíðinni á móti eitt umtalaðasta og dýrasta sumarhús á landinu og er það enn í byggingu. Þetta hús stendur í landi Veiðilæks í Norðurárdal.

IMG_9592

Bústaðurinn blasir þarna við og sést fyrir miðju á myndinni hér að ofan. Ég horfði þarna á eftir Darra labba með sumarhúsið okkar á bakinu og allt sem við teljum okkur þurfa í velheppnað sumarfrí. Ég kallaði í Darra og bað hann að snúa sér við eitt augnablik og smellti af myndinni. Um leið hugsaði ég:

"Í hverju liggur hamingjan, húsinu í hæðinni þarna fyrir framan eða í litla húsinu okkar, innpökkuðu í bakpokann?"

Ágúst maðurinn hennar Ásdísar kom og sótti okkur að Hreðavatni en hann hafði verið upptekin í vinnu um helgina. Við vorum svo nákvæm á tímasetningum að um það leiti sem við höfðum reimað af okkur gönguskóna og rétt byrjað að lofta um tærnar mætti hann.

Könnun okkar um syðri hluta Ljósufjallaeldstöðvarinnar var lokið. Þetta svæði er enn ein náttúruperlan okkar sem fáum er kunn og ótrúlega fáfarin.

Í haust er væntanlegur bæklingur á vegum FÍ um þetta svæði. Í upphafi ferðar við Hítarvatn hittum við Pálma nokkurn Bjarnason sem einmitt er í útgáfunefnd þessa bæklings. Það var óneitanlega skemmtileg tilviljun því ég hafði einmitt stuðst við myndir af myndasíðunni hans þegar ég var að velja leiðina.

Það er vonandi að bæklingur FÍ veki meiri áhuga á þessu svæði því það þolir vel meiri umferð ferðamanna.

Fleiri myndir úr ferðinni má skoða hér.


Í útlegð á Snæfellsnesfjallgarði

Um seinustu helgi fór ég í göngu um svæði sem ég hef horft á í 45 ár. Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið um Ísland og farið í margar göngur hefur þetta svæði orðið útundan.

Nú var loksins látið til skarar skríða. Gangan hófst við Oddastaðavatn í Hnappadal og lauk undir Elliðahamri á Snæfellsnesi.

Ferðafélagar okkar Darra voru Þóra og Palli en þau eru göngufélagar okkar til nokkurra ára.

Lagt var af stað frá Reykjavík á föstudagsmorgni með vistir til þriggja daga í bakpokanum ásamt tjaldi og öðrum nauðsynlegum viðleguútbúnaði.

Við ókum vestur á Snæfellsnes að Lágafelli og skildum annan bílinn eftir við vegaslóða sem liggur að sumarbústað við eyðibýlið Elliða.

Nóttin á undan hafði greinilega verið köld því í hæstu tindum Ljósufjalla var snjóföl.

Síðan var ekið að Oddastaðavatni. Þar voru pokar axlaðir og arkað af stað og stefnan tekinn á fjallið Hest. Þarna er útsýni í allar áttir fagurt, Hnappadalurinn ef litið var til baka, Eldborg, Syðri- og Ytri-Rauðamelskúlur til suðurs og Sáta til norðurs. Hesturinn og Þrífjöllin ávallt framundan og nálguðust óðar.

Göngulandið var aflíðandi upp að Hesti og þokkalegt yfirferðar.

Hesturinn sjálfur er úr móbergi og ekki kleifur hvar sem er. Við afréðum að fara upp aflíðandi afturendann norðaustan við Hestinn og höfðum hugsað okkur að komast upp á höfðið og klappa eyranu. Það sýndist okkur ekki fær leið þegar nær dró og gáfum það upp á bátinn. Létum okkur nægja lendina. Efsti hluti þeirrar leiðar er stórgrýtt og allra efst eru sérkennilegir stuðlar.

IMG_9118

Á toppnum fengu göngumenn ríkulega útborgað. Útsýnið af Hesti svíkur ekki. Til viðbótar því sem ég hef þegar nefnt sjást Ljósufjöllin til vesturs og að horfa norður eftir Snæfellsnesinu svona ofanfrá er erfiðisins virði. Stóri-Langidalur á Skógarströnd er þarna áberandi og síðan glittir í Drápuhlíðarfjall og Bjarnarhafnarfjall.

Þegar komið var niður af Hestinum voru bakpokar axlaðir aftur og haldið áfram norðan við Skyrtunnu. Þarna er landslagið stórbrotið. Mikið um gíga og þarna ægir saman blágrýti, móbergi, líparít og gjallgígum. Líkt og maður sé kominn í eldfjallasafn. Þarna gengum við í um 600m hæð og því er þarna algert hálendislandslag og hálendisgróður.

Norðan við Skyrtunnu er nokkuð giljótt. Við afréðum að halda frekar hæð og fara fyrir ofan gilin. Líklega var það verri leið. Mögulega hefði verið betra að fara niður í þá hæð sem Urðardalur liggur í og þá hefðum við sloppið betur við gilin og mögulega gengið í þægilegra landslagi. Urðardalur liggur í um 760m hæð og er þar lægsti punktur milli norður og suður hluta Snæfellsness á þessum slóðum. Um Urðardal liggur mæðiveikisgirðing og var það óvenjulegur faratálmi göngumanna. Búið er að endurnýja girðinguna en heldur hafa sunnanmenn staðið sig illa í að hreinsa upp leifar gömlu girðingarinnar.

IMG_9163

Ég var búin að stinga út GPS punkt fyrir mögulegan tjaldstað í Litla-Leirdal undir Ljósufjöllum. Ekki vissi ég hvort þar væri möguleiki á að koma fyrir tjaldi. Þarna gat vel verið gróðurlaust, urð, sandur eða þó þarna væri gróður gat það verið tómar þúfur. Einnig gat lækurinn sem merktur var á kortinu vel verið þurr í þurrkunum sem verið hafa að undanförnu.

Þarna höfðum við heldur betur heppnina með okkur. Við fundum frábæran tjaldstað þarna og þar sem við settum niður tjaldið var aðeins 350m í punktinn sem ég hafði stungið út.

IMG_9176

Þessi tjaldstaður var í ca 600m hæð undir Ljósufjöllum og um nóttina fór hitastig niður fyrir frostmark. Um morguninn kom sólin upp kl rúmlega 7 og þá var allur gróður hrímaður. Ég var ágætlega klædd og í góðum svefnpoka og fann ekki fyrir kulda.

Í göngum sem þessum er best að taka daginn snemma og við lögðum aftur af stað kl rúmlega 9. Fyrsti áfanginn voru þrír tindar Ljósufjalla. Fyrir mig var þetta langþráð takmark, hef horft á þessi fjöll frá barnæsku og seinustu ár hef ég æ oftar horft á þau með það í huga hvernig best sé að klífa þau.

IMG_9181

Nú var komið að því. Undir fjöllunum eru líparíthryggir. Þessir hryggir virðast ganga niður úr hverjum tind. Kann ég ekki skýringu á því. Við gengum upp austasta hrygginn og skildum pokana eftir milli austasta og miðtindinum. Á milli þeirra var snjófönn. Upp hana gengum við og var það til mikilli bóta að ganga í snjónum. Líparítskriðan var lítt spennandi til uppgöngu.

IMG_9189

Upp komumst við. Fyrst var ráðist á austasta tindinn en hann er lægstur eða um 1001m. Af honum er auðvelt að ganga í tindinn í miðjunni en sá er 1039m. Við höfðum hugsað okkur að ganga þaðan á vestasta tindinn en okkur sýndist það óráðlegt. Sá er brattur og laus í sér austan megin frá. Því afréðum við að arka skriðuna undir honum vestur undir hann og fara þar upp. Skriðan reyndist laus í sér og alger "skókiller". Einnig mokaðist mölin ofan í skóna okkar og við runnum aðeins niður í hverju spori. Þarna varð aðeins umræða um hvað væri auðfarið þar sem okkur hjónin greindi örlítið á um hvar besta leiðin væri. En upp komumst við og útsýnið sveik ekki frekar en fyrri daginn. Því verður ekki með orðum lýst og mæli ég með þessari fjallgöngu, þetta er með því flottara sem ég hef séð, tek fram að ég er á engan hátt hlutlaus.

Á kortum eru þessir tindar nafnlausir. Í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind, leggur Ari Trausti til nöfnin: Gráni, Bleikur og Miðtindur, talið frá austri. Nöfnin eru skýrð þannig að austasti tindurinn Gráni er úr grárri líparít, næsti, Bleikur er aðeins bleikur og sá hæsti Miðtindur er í miðjunni ef vestari tindar Ljósufjalla eru taldir með. Ekki veit ég hvort þessi nöfn hafa fest sig í sessi né heldur hvort heimamenn hafa á þessa tinda nöfn sem kortagerðamönnum hafa yfirsést. Gaman væri að frétta af því.

IMG_9202

Svæðið norðan Ljósufjalla kom mér á óvart. Þar liggur Botna-Skyrtunna en einhvern vegin var hún mér áður ókunn.

Eftir miklar myndatökur og djúp andköf af hrifningu var haldið niður. Þar voru pokar aftur axlaðir og haldið í vestur. Litadýrð Ljósufjallanna er mikil frá þessu sjónarhorni.

IMG_9230

Við gengum undir fjallahrygg sem einnig gengur undir nafninu Ljósufjöll og stefndum á skarð norðan við Rauðukúlu, milli hennar og Hreggnasa. Þar fórum við norður yfir fjallgarðinn. Sem fyrr þá sveik útsýnið ekki þegar norður yfir var komið.

Ég hafði að þessu sinni ekki fastákveðið tjaldstað en var með nokkra í huga. Dagleiðin hafði verið nokkuð ströng og þar sem ég vissi að næsti dagur yrði heldur léttari þá afréðum við að tjalda þar sem við komum niður en það var í Gæshólamýri. Þar fundum við ágætan grasbala við læk. Hvað viljum við hafa það betra?

IMG_9266

Í bókinni Íslensk fjöll, gönguleiðir á 151 tind sem Ari Trausti hefur tekið saman eru fjöll af ýmsum erfiðleikastigum. Meðal þeirra er Seljafellið. Það freistaði okkar sem kvöldganga svo hægt yrði að haka við í bókinni. Ég varð að viðurkenna að ég hafði fengið nóg þennan daginn án þess að vera á nokkurn hátt uppgefin eða algerlega búin á því. Taldi skynseminnar vegna að Seljafellið gæti beðið. Palli ákvað sömuleiðis að láta Seljafellið bíða en Þóra og Darri æddu upp. Þau geta samviskusamlega hakað við það.

Næsti dagur rann upp bjartur og fagur. Aftur var pakkað saman og lagt af stað um kl 9. Nú var ferðinni heitið norður fyrir Seljafellið. Við norðvestan Seljafellið varð í vegi okkar andlegur farartálmi: MALBIKAÐUR VEGUR. Þetta reyndist vera meira en andlegur farartálmi því þar sem við hugðumst fara yfir veginn yfir Vatnaleiðina reyndist vera vegrið báðum megin vegarins þar sem hann lá yfir gil sem heitir Þvergil. Það kostaði því smá umhugsun hvernig takast skyldi á við þennan óvenjulega farartálma bakpokaferðalangsins.

IMG_9283

Nú var stefnan tekin milli Urðarmúla og Baulárvallavatns. Tindar þessa dags voru Elliðatindar og þangað skyldi haldið. Valið stóð á milli þess að halda hæð vesta Urðarmúla að upptökum Vallnár. Líklega hefði það verið skynsamlegast. Í staðinn þá afréðum við að hækka okkur skáhalt upp í hlíðina í átt að opi Hamardals í Elliðahamri. Í hlíðinni voru mun fleiri gil en ég mundi eftir eða sáust á kortum. Því reyndist þetta meira puð en ráð var fyrir gert og alger óþarfi svona með bakpokana.

IMG_9292

Ofarlega í hlíðinni, mun ofar en við hefðum þurft, skildum við pokana eftir og skunduðum upp í Hamardal. Maður verður ótrúlega léttur á sér svona pokalaus.

IMG_9293

Elliðatindar eru ekki erfiðir uppgöngu og greinilega lítt gengnir. Efst er viðkvæmur mosi og var greinilegt að hann fær að vera í friði að mestu. Kannski eins gott en útsýni þarna uppi er frábært og er þetta eitt af þeim fjöllum sem er lítt þekkt en tiltölulega auðfarið á.

IMG_9316

Útsýni af Elliðatindum svíkur ekki og má með sanni segja að göngumenn hafi fengið ríkulega útborgað. Að lokinni myndatöku og lotningu yfir fegurðinni sem við blasti var haldið niður á við. Við fundum pokana okkar auðveldlega aftur, öxluðum þá og héldum niður á vegarslóðann þar sem bíllinn beið okkar.

Þriggja daga útlegð á Snæfellsnesfjallgarði var lokið. Það er sannarlega óhætt að mæla með þessari göngu og satt að segja undrast ég að ferðafélögin skuli ekki hafa neitt þessu líkt á sinni dagskrá. Reyndar man ég eftir að hafa séð þessa leið á dagskrá FÍ fyrir nokkrum árum en veit ekki hvernig það gekk. Ekki hef ég heldur heyrt af mörgum sem hafa gengið þetta á þennan hátt, þó veit ég að frændi minn Halldór frá Dal gekk hluta leiðarinnar fyrr í sumar. Myndir sem hann sendi mér nýttust mér vel við skipulagningu þessarar ferðar.

Auðvelt er að skipuleggja 6 daga ferð sem hefði þá annað hvort upphaf eða endi við Hreðavatn og lægi þá einnig um Langavatn, Hítarvatn og Hlíðarvatn.

Ég vil hiklaust hvetja fólk til að ganga um þetta svæði og fullyrði að þetta er ein af mörgum óuppgötvuðum náttúruperlum landsins. Þeir sem lesa þetta og áhuga hafa eru hvattir til að hafa samband og mun ég veita allar þær upplýsingar og leiðbeiningar sem ég get um leiðarval. Einnig má skoða fleiri myndir hér.

Netfang: bubot.kristjana@gmail.com


Hvar skal tryggja?

Við höfum undanfarna mánuði fengið í misstórum skömmtum ótrúlegar fréttir af viðskiptum sem tíðkast hafa hér á landi.

Margar þessar fréttir eru þess eðlis að hefðu þessi viðskipti verið kynnt í skáldsögu hefðum við afskrifað skáldsöguna vegna þess hve allt væri ótrúverðugt.

Raunveruleikinn er lygilegri en skáldsaga.

Ein af þessum furðufréttum var um að Sigurður Einarsson fyrrum bankastjóri Kaupþings hefði fengið háar upphæðir að láni hjá VÍS vegna byggingar á sumarhöll sinni í Borgarfirði, sjá hér.

"Er það hægt, er VÍS lánastofnun?" spurði ég mig í vetur og fór enn einu sinni hamförum yfir fréttum dagsins.

Þar sem allar tryggingar okkar hjóna eru hjá VÍS varð ég algalin yfir þessum fréttum og hótaði að segja viðskiptum mínum upp hjá þessu siðlausa tryggingafélagi.

"Og hvert hafðir þú hugsað þér að flytja þig?" spurði þá eiginmaður minn sem öllu jafna hugsar einum leik lengra.

Það var nú það.

Er einhver með hugmynd?


Sofandi hrun flugeldahagfræði

Atburðir liðinna mánaða hafa gert mig einbeitingarlausa. Hugurinn hefur verið rótlaus og ég hef ekki náð sæmilegri einbeitingu við lestur góðra bóka eins og ég annars hef stundum dundað mér við. Fyrirsagnir dagblaða og síðan skautað yfir helstu fréttir með mismunandi hröðum yfirlestri, ásamt lestri ýmissa pistla á netinu er það sem einbeiting mín hefur ráðið við.

Nú nýverið hef ég þó hesthúsað þrjár bækur. Skyldu þær fjalla um "kreppuna"? Ójá.

Sofandi að feigðarósi
Hrunið
Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendur.

Það skemmtilega við þessar bækur er að nálgunin á efnið er mjög mismunandi.

Sofandi að feigðarósi

Þessi bók kom fyrst út. Hún ber þess líka merki að vera unnin hratt. Töluvert er um langar tilvitnanir í fréttir, skýrslur eða annan texta. Þennan texta hefði vel mátt stytta. Bókin er örlítið grautarleg og svolítið vaðið úr einu í annað og sömu atriði tekin fyrir oftar en einu sinni.

Textinn rennur hins vegar vel og það heldur manni við efnið. Fyrir mig kom ekkert nýtt fram í bókinni enda hef ég fylgst þokkalega vel með atburðum liðinna mánaða. Höfundur kemur með sína sýn og skýringar á atburðarásinni og það kom mér skemmtilega á óvart hversu sú sýn er samhljóma minni eigin.

Í stuttu máli þá telur höfundur aðkomu og aðgerðaleysi bankastjórnar Seðlabankans hafa haft mikið að segja um það sem gerðist. Það er óhætt að segja að Davíð Oddsson fari ekki vel út úr umfjöllun bókarinnar.

Bókin er fljótlesin en skilur í sjálfu sér ekki mikið eftir fyrir þá sem hafa fylgst vel með atburðum seinustu mánaða, skýringar höfundar eru áhugaverðar en hafa ber í huga að þær eru hans sýn á atburðina.

Hrunið

Hrunið er mesta heimildaritið. Höfundur er að lýsa atburðum og raðar í tímaröð. Inn á milli eru kaflar sem lýsa tíðarandanum og varpa betri yfirsýn á umhverfi þessara atburða. Höfundur kemur þó með eigin sýn og skýringar á bakgrunninum en sú sýn er dempuð og án sterkra lýsinga.

Þessi bók mun lifa lengst. Það getur verið áhugavert að glugga í þessa bók að tíu eða tuttugu árum liðnum og rifja upp atburðina.

Fyrir mig sem hef fylgst vel með fréttum kom fátt nýtt fram. Þó man ég eftir tveim atriðum.

Í bókinni kemur fram að Árni Matthiesen hafi staðið frammi fyrir því að verða að hafna eða samþykkja gerðardóm í Icesave málinu. Hann reyndi að ná í Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu en náði ekki. Hann samþykkti gerðardóminn. Stuttu síðar náðist í Ingibjörgu sem var ekki par hrifin og tókst að segja okkur frá gerðardóminum. Þetta vissi ég ekki.

Í bókinni kemur einnig fram að það hafi verið eiginmaður Álfheiðar Ingadóttur sem borgaði Hauk, bónusfánapiltinn út úr varðhaldi í nóvember. Þetta vissi ég ekki heldur.

Bókin lýsir atburðum í Búsáhaldabyltingunni. Þar er sagt frá því að miðvikudaginn 21. hafi mótmælendur flutt sig af Austurvelli yfir að stjórnarráðshúsinu af tillitssemi vegna yfirstandandi jarðarfarar.

.....meira að segja trúleysingjarnir í liði anarkista - sýndu kirkjugestum þá háttvísi að trufla ekki athöfnina.

Þetta fannst mér sérkennileg athugasemd. Ég þekki bæði trúað fólk og trúleysingja. Ég hef ekki séð að tillitssemi eða tillitsleysi sé bundin við annan hópinn umfram hinn. Fannst mér bókina setja töluvert niður við þessa óþörfu athugasemd.

Hrunið gerir ekki tilraun til að finna sökudólga eða skyggnast á bakvið atburðina og finna skýringar eða orsakir, þetta er meira lýsing á atburðum. Sem slík er þetta ágætlega vönduð bók, heldur seinlesnari en hinar.

Íslenska efnahagsundrið - flugeldahagfræði fyrir byrjendur

Af þessum þremur bókum er þessi mest djúsí. Þetta er ekki sagnfræði en þarna er gerð tilraun til að lýsa ótrúlegum viðskiptaháttum fyrir sauðsvörtum almúganum. Viðskiptum og lífi sem við máttum vita að ætti sér stað en kusum að vita ekki af.

Einnig er tengslum manna lýst og eftir lesturinn áttar maður sig betur á hve hættulega lítið þjóðfélag okkar er. Kunningja- og ættartengslin eru víða.

Í bókinni eru lýsingar á mönnum og vel getur verið að höfundur eigi erfitt með að standa við allt sem sagt er. Þessar lýsingar eru samt áhugaverðar og þó settir séu örlitlir fyrirvarar þá þær þá verður heildarmyndin skýrari fyrir vikið.

Einkavæðingarferlið er sett fram, krosseignartengsl skýrð út, tengsl bankamanna, stjórnmálamanna og lífeyrissjóða sett í samhengi. Einnig hvernig þær aðgerðir sem gripið var til seinustu mánuði fyrir hrun urðu til þess að tap almennings í gegnum lífeyrissjóði,  peningamarkaðsreikninga og lána Seðlabankans, varð miklu meira en það hefði þurft að verða. Þetta var vegna þess að menn sem áttu að gæta hags almennings voru of nákomnir stærstu eigendum og stjórnendum bankanna og aðgerðir þeirra miðuðust meira við hagsmuni stærri eigenda frekar en umbjóðenda sinna.

Þessi bók setti hlutina í betra samhengi fyrir mig þó í raun hafi ég ekki séð margt nýtt. Hún er mjög fljótlesin.

Ég get eftir þennan lestur mælt með öllum þessum bókum. Líklega er bókin "Sofandi að feigðarósi" síst. Hrunið er mesta ritið og á vafalaust eftir að lifa lengst. Íslenska efnahagsundrið er samt áhugaverðust en krefst þess jafnframt að maður sé í þokkalegu andlegu jafnvægi því það er auðvelt að verða fjúkandi reiður við lesturinn.


Til Parísar

Ég hef aldrei talið mig fátæka, ég hef alltaf átt nóg fyrir mat og húsnæði. En ég hef þurft að velta fyrir mér hverri krónu, stunda miklar æfingar í deilingu í búðum til að finna út einingarverð vöru til þess að finna hagstæðustu kaupin.

Þetta var á menntaskólaárum mínum, þá lét ég sumarhýruna duga veturinn, drýgði hana reyndar með vinnu hjá félagsþjónustu Reykjavíkur og síðar vinnu í sjoppu. Þetta dugði fyrir húsaleigu og fæði. Ég fékk að vísu sent að heiman úr sveitinni, slátur og ýmsan innmat úr kálfum sem ekkert fékkst fyrir í sláturhúsinu. Mamma sótti þetta í sláturhúsið, frekar en láta sláturhúsið taka þetta og fá ekkert fyrir. Þetta sendi hún mér síðan. Kálfalifrar, kálfahjörtu og hakkaðar þindar og hálsæðar voru mínir bónusar fyrir velunnin sumarstörf.

Ég var í skólanum í 8 mánuði á ári, því með góðri ástundun tókst mér yfirleitt að sleppa vorprófum. Að hausti tók ég sumarhýruna og deildi með 8. Lagði allt inn á bók og borgaði mér mánaðarlega það sem kom út úr deilingunni.

Þetta var á miklum verðbólgutíma en eftir áramótin kom dreifbýlisstyrkur fyrir þá nemendur sem sóttu skóla fjarri heimahögum. Dreifbýlisstyrkurinn var fyrir mér eins konar verðbætur þannig að hann jafnaði út þá rýrnun sem varð vegna verðbólgu á mánaðarlegri útborgun minni eftir áramót.

Mér er enn minnisstæð öfund samnemenda minna þegar við "utanaflandi" nemarnir fengum dreifbýlisstyrkinn. Þau voru þá flest búin með sína sumarhýru og litu þannig á að við værum heppin mjög að fá þessa peninga. Þessir nemar bjuggu flest áhyggjulaus hjá foreldrum og þeirra flestra beið heitur matur á kvöldin sem þau þurftu ekki að hafa áhyggjur af hvað kostaði. 

Ég man líka eftir kveini þeirra þegar þau voru blönk og sögðust ekki komast á skólaböllin þar sem þau ættu engan pening. Einhverra hluta vegna þá mættu þau þar flest eigi að síður.

Ég man líka eftir kveini sumra stúlknanna yfir fataleysi en einhvern veginn tókst þeim nú samt að komast yfir nýjan kjól fyrir árshátíðina.

Best man ég hvað mér sjálfri fannst um þetta blankheitakvein þeirra. Ég hugsaði svo sannarlega mitt án þess að geta orðað hugsanir mínar upphátt því ég vissi að minn veruleiki var þeim svo framandi að það hafði enga þýðingu að setja hugsanir mínar í orð. Þau hefðu ekki skilið það, því valdi ég þá leið að fela peningaleysi mitt og barlómur var mér víðsfjarri en ég hugsaði mitt.

Nú hefur skotið upp umræðu um að lausn á skuldavanda okkar Íslendinga sé að sækja inngöngu í klúbb nokkurn sem kenndur er við París. Slíkt hljómar ágætlega í fyrstu. Þar ku vera hægt að fá einhverja niðurfellingu skulda og semja um greiðslukjör á lánum.

Þegar betur er að gáð reynist þetta vera sérúrræði fyrir allra fátækustu ríki heims. Ríki sem eru svo fátæk að þau geta ekki boðið þegnum sínum upp á lágmarks heilbrigðisþjónustu eða menntun. Ólæsi landlægt semog barnadauði.

Við þessar fréttir verður mér hugsað til þess hvað mér fannst um blankheitavæl skólafélaga minna.

Hvað skyldu þessi allra fátækustu ríki hugsa um okkur þegar við sækjum um inngöngu í Parísarklúbbinn?

Og okkur hefur dottið í hug að sækja þar um.......til að geta áfram haft ein betu lífssgæði í öllum heiminum.

Að bera stöðu okkar saman við stöðu í þessum löndum er veruleikafirring og stjórnmálamenn sem gera sig seka um það þurfa svo sannarlega að hugsa sinn gang.

Umfjöllun um erindi okkar í Parísarklúbbinn má sjá hér og hér.


Frekur krakki - óábyrgir stjórnmálamenn

Í Húsafelli er notaleg sundlaug. Þangað lá leið mín nýverið. Í hópnum voru börn á öllum aldri sem voru staðráðin í að skemmta sér vel og höfðum við með okkur vatnsbyssur og skemmtum okkur við að sprauta hvert á annað.

Svo kom að því að okkur leiddist vatnsslagurinn og vatnsbyssurnar lágu á bakkanum á litlum heitum potti. Ég sat í makindum í pottinum. Þangað kom lítill gutti og vildi prófa byssurnar. Ég leyfði það. Sýndi honum hvernig þær virkuðu og sagði að hann mætti prófa þær þarna í pottinum en ekki fara með þær annað.

Drengurinn sinnti þessu engu. Tók eina byssuna traustataki og æddi í burtu. Maður verður einhvern veginn svo vandræðalegur gagnvart svona frekju. Stutt í hugsunina "aumingja barnið langar svo að leika með þetta dót, hvað get ég verið að banna honum það". En ég var búin að setja reglur. Við þær á að standa. Ég stóð upp og æddi á eftir barninu.

"Viltu koma með byssuna og láta mig fá hana, þú máttir prófa hana í pottinum en ekki fara með hana", þrumaði ég yfir alla laugina. Ég gerði mér vel grein fyrir að þetta var fáránlegt, 45 ára kona að rífa vatnsbyssu af litlu barni.

Móðirin lá í potti stutt frá, sagði ekkert. Barnið reyndi hvað það gat að sleppa frá mér en bæði Sigrún systir mín og Signý frænka mín komu og studdu kröfu mína. Þrjár kerlingar á móti barni. Allt til að fá vatnsbyssuna til baka.

Við höfðum sigur, fengum byssuna til baka.

Þá kom að því að móðirin fékk málið: "Hann hélt að sundlaugin ætti byssurnar". Enga tilraun gerði konan til að komast að því fyrir barnið á meðan á rifrildinu stóð hver ætti byssurnar eða að gera barninu ljóst að það megi ekki ganga svona í annarra dót.

Þegar ég horfði á málflutning Bjarna Ben í þinginu í dag um Icesave samninginn rifjaðist þessi saga upp fyrir mér.

Það var búið að setja reglur um innistæður. Landsbankinn auglýsti ábyrgð íslenska ríkisins meðan það hentaði. Stjórnvöld staðfestu sl haust að þau myndu greiða innistæðurnar upp að ákveðinni upphæð.

Nú reynir stjórnarandstaðan að loka eyrunum og túlka reglurnar að sinni vild. Reglurnar gilda ekki um okkur af því að við erum svo fá, höfum ekki efni á þessu.

Fjármálaeftirlitið sinnti engri eftirlitsskyldu, gekk ekki í málið meðan enn var lag og stoppa Landsbankann af í söfnun innistæðna. Setti bankanum ekki stólinn fyrir dyrnar og gerði honum grein fyrir alvöru málsins.

Vitandi af reglunum og undirskrift íslenskra stjórnvalda frá í haust hafa Bretar og Hollendingar sterka samningsstöðu. Önnur lönd í Evrópu standa með þeim, jafnvel Norðurlöndin líka.

Við hljótum að játa okkur sigruð, eins og drengurinn í Húsafelli.

Vatnsbyssan var aldrei okkar, þó okkur langaði ofboðslega til að hafa hana og viljum alls ekki láta þessi freku stóru lönd hafa hana.


Skemmtileg sumarmynd

Þessi mynd var tekin í Húsafelli í morgun, þar var ég í tveggja nátta útilegu í yndislegu veðri og góðum félagsskap.

Sumarfrí á Íslandi er góður kostur.

IMG_8572

Þetta er Sigrún systir mín með Finnbjörn, uppáhaldsfrænda minn.


Ég skil ekki Sjálfstæðismenn

Afstaða Sjálfstæðismanna til Icesave samkomulagsins vekur sífellt meiri furðu mína.

Ef Íslendingar töldu vitlegt og fært að fara með málið fyrir dómsstóla þá átti að gera það strax eftir hrun. Þáverandi stjórnvöld fullvissuðu Breta og Hollendinga fyrir hrun að innistæðurnar væru tryggðar. Eftir hrun skrifuðu íslensk stjórnvöld undir að við ætluðum að standa við það og semja um þetta. Um þetta virtust Sjálfstæðismenn á þessum tíma sannfærðir.

Ég var strax í haust með hroll yfir þessu máli. Engan vegin viss um hvað bæri að gera.

En yfirlýsingar og undirskriftir frá því í haust setja okkur ákveðnar skorður. Við hlaupumst ekki svo auðveldlega frá þeim.

Nú hefur Gauti Eggertsson rifjað upp frétt á BBC frá því 4. október að því að mér sýnist. Þar er viðtal við Tryggva Þór Herbertsson þáverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar...........nú þingmann Sjálfstæðisflokksins. Í frétt BBC kemur þetta fram:

The first 20,000 euros of that comes from the Icelandic compensation scheme, with the balance coming from the scheme in the UK.

Tryggvi Herbertsson said, despite its economic problems, the Icelandic government would honour that commitment if a bank did get into trouble.

"We are not in that kind of difficulty.

"We are part of the European directive on deposit insurance and we are bound by international law."

Svo mörg voru þau orð efnahagsráðgjafa forsætisráðherra.

Hefur þingmaðurinn eitthvað allt annað um þetta mál að segja nú?

Enn og aftur, ég fer fram á að stjórnmálamenn séu sjálfum sér og fyrri yfirlýsingum samkvæmir.

Afstaða Vinstri Grænna er skiljanleg, þeir voru strax í haust mótfallnir því að við sem þjóð bærum ábyrgð á þessu. Afstaða Steingríms J. er einnig skiljanleg, hann var mótfallinn þessu í haust en skilur að við hlaupumst ekki svo glatt frá yfirlýsingum fyrri ríkisstjórnar.

Ég skil ekki Sjálfstæðismenn.


Vantraust og óþol

Þessa dagana treysti ég litlu af því sem sagt er.

Einn segir Icesave stórvarasamt framsal á fullveldi......

Annar segir að ákvæði samningsins séu alvanaleg í slíkum lánasamningum.....

Maður skyldi ætla að það sé ekki flókið að skera úr um slíkt, að menn eigi ekki að halda því fram að þarna sé um óeðlilegar veðsetningar að ræða, mögulegt framsal á þjóðargersemum, ef alþjóðasamningar komi í veg fyrir að svo sé.

Ég óttast að populistar Íslands notfæri sér ástandið til að þeyta upp moldviðri til að veikja ríkisstjórnina. Notfæri sér þessa ömurlegu stöðu sem fyrri stjórnvöld, gráðugir bankamenn og vanhæfar eftirlitsstofnanir komu okkur í, til að æsa fólk upp. Gera út á tilfinningasemi fólks, skapa ólgu.

Það er alltaf nauðsynlegt að veita málefnalega stjórnarandstöðu. En að skapa ólgu meðal fólks bara til að gera stjórnvöldum erfitt fyrir á ekkert skylt við málefni.

Hvaða stjórnmálaflokkur var við völd þegar Íslendingar skrifuðu undir að við ætluðum að leysa þetta Icesave með samningum?

Hvað veldur sinnaskiptum þessa flokks?

Er bara hægt að hlaupast undan slíkri undirskrift og láta eins og hún komi okkur ekki við?

Ég þoli ekki Sjálfstæðisflokkinn...........kom það einhverjum á óvart?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband