4.1.2009 | 20:41
Sprungurnar dýpka og verða sýnilegar
Sprungurnar í sambandi stjórnarflokkanna verða æ meira áberandi. Hvernig eiga þessir flokkar að starfa áfram saman ef landsfundur Sjálfstæðismanna hafnar því að hefja aðildarviðræður að ESB? Ef það gerist er ljóst að flokkarnir stefna ekki í sömu átt. Það var því eðlilegt að Ingibjörg Sólrún segði það á mannamáli í útvarpsþætti nú fyrir jól að undir slíkum kringumstæðum væri kominn tími á kosningar.
Nú hefur Geir stungið upp á því að þjóðin kjósi um hvort fara eigi í aðildarviðræður. Mér virðist sú uppástunga vera tilkomin til að flokkurinn geti lifað án þess að taka formlega afstöðu til málsins. Þá þarf Geir ekki heldur að gera upp hug sinn.
Þessi leið er að mínu viti arfavitlaus, það nægir að kjósa um inngöngu í ESB þegar þar að kemur. Ef endilega þarf að kjósa um hvort við eigum hefja aðildarviðræður þá er eins gott að kjósa nýtt þing og nýja ríkisstjórn sem hafi þá óskorað umboð til að hefja þessa vegferð............eða gera eitthvað allt annað ef úrslit kosninganna verði á þann veg.
Það er þá sjálfsögð krafa okkar kjósenda að fá að vita hvað þetta eitthvað allt annað sé. Það hefur Geir enn ekki sagt okkur hvaða aðrir valkostir séu í boði. Það er ekki valkostur að gera ekki neitt.
Nú ætlar Sjálfstæðisflokkurinn með vandlætingu að segja okkur að samstarfsflokkurinn hafi stillt sér upp við vegg.
Fyrirgefið, Sjálfstæðisflokkurinn stillir sér þar sjálfur. Fórnarlambshlutverkið fer þessum flokki illa, hann hefur stjórnað alltof miklu, alltof lengi. Samfylkingin hefur verið ósýnileg og sofandi lagt blessun sína yfir gerðir Sjálfstæðisflokksins. Eða spilað viljug með? Veit ekki hvort er verra.
Nú er mál að linni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2009 | 22:01
Annáll ársins
Árið 2008 var mér persónulega gott og ánægjulegt. Árið byrjaði ég með fjölskyldunni í skíðaþorpinu Selva á Ítalíu. Ég hóf að stunda svigskíði eftir að ég komst á fertugsaldurinn og nýt þess því að vera enn í framför. Ég þyki reyndar stundum vera glannaleg í bröttustu brekkunum en Ítalirnir verða bara að læra að forða sér.
Ég er alin upp á algerri jafnsléttu og því ættu gönguskíði að vera meira við mitt hæfi enda fjárfesti ég í slíku græjusetti í mars 2008. Þessa hugdettu fékk ég þegar Ásdís vinkona mín var í sömu hugleiðingum og áttum við saman nokkrar góðar stundir á gönguskíðum á vormánuðum. Vonandi tekst okkur að taka upp gönguskíðaþráðinn fljótlega á nýju ári.
Gönguferðir fór ég nokkrar á árinu. Helstar vil ég telja dagsgöngur á Skessuhorn á sumardaginn fyrsta undir leiðsögn íslenskra fjallaleiðsögumanna og í félagsskap eiginmanns og Ásdísar vinkonu minnar og Ágústar mannsins hennar. Um hvítasunnuna fór ég á Þverártindseggjar í Suðursveit aftur undir leiðsögn íslenskra fjallaleiðsögumanna. Þessi ferð var skipulögð af TKS (Trimmklúbbi Seltjarnarness) og heppnaðist vel þrátt fyrir að skyggnið krefjist þess að við förum þarna upp aftur síðar. Á 17. júní fór ég aftur í göngu á Skessuhorn en nú einnig á Heiðarhorn og á Skarðshyrnu. Þessi ferð var farin með vinkonu okkar og hlaupafélaga, Betu ásamt vinnufélögum hennar. Góð ferð en myndavélin mín var batteríslaus og því fátt um staðfestingu á þessari frábæru ferð.
Ég fór í þrjár lengri ferðir í sumar sem leið. Fyrst fór ég með TKS í 6 daga göngu um Gerpissvæðið, úttekt á þeirri ferð er hér. Stuttu síðar fórum við hjónin með vinum okkar, göngu og hlaupafélögum Þóru og Palla í þriggja daga ferð í kringum Langasjó. Sú ferð var farin í döpru skyggni, dagleiðir voru heldur langar en að öðru leyti ánægjuleg ferð. Um verslunarmannahelgi fórum við Darri og Rán með vinum okkar Finni, Þórdísi, Sveini og Arndísi í þriggja daga ferð upp með Djúpá. Það var heldur léttari ferð en hinar og mjög ánægjulegt að fara svona fjölskylduferð.
Af persónulegum málum bar hæst að Rán dóttir mín tók grunnskólapróf sl vor og stóð sig vel. Það var mjög ánægjulegt og veit ég vel að það er langt í frá sjálfgefinn hlutur. Skólaganga Ránar hefur sannarlega ekki verið beinn og breiður vegur og er hennar árangur enn ánægjulegri í því ljósi. Rán hóf svo nám við MR í haust og líkar vel. MR er námslega séð mjög strangur skóli en það hefur komið mér ánægjulega á óvart hversu mannlegt og persónulegt umhverfið er.
Sindri sonur minn er í námi í húsasmíði. Hann fór á samning hjá meistara í maí og er enn í því prógrammi. Hann lenti í bílslysi í lok maí. Grafa keyrði í veg fyrir hann og endaði drengurinn þá ökuferð á slysadeild með aðstoð sjúkrabíls. Hann var í 100% rétti en þar sem hann handarbrotnaði og fékk hálsáverka þá þurfti hann að vera mánuð frá vinnu. Fjölskyldan hafði ekki reiknað með sameiginlegu sumarfríi en þetta bjargaði því og fórum við saman nokkra daga til Kaupmannahafnar. Síðar á árinu tók Sindri nýliðapróf björgunarsveitanna og gekk það vel. Hann verður bráðlega fullgildur félagi og er óhætt að segja að ég sé mjög stolt af þessu áhugamáli hans. Sjálfboðavinna meðlima björgunarsveitanna er íslensku þjóðlífi ómetanleg og að eiga son meðal þessara hetja fyllir mig stolti.
Ættarmót settu óneitanlega svip sinn á sumarið. Í júní var eitt ættarmót í tengda fjölskyldunni. Aðra helgi í ágúst var ættarmót systkina móður minna og afkomenda þeirra. Helgina eftir það var svo ættarmót systkina föður míns og afkomenda þeirra. Svona ættarmót eru skemmtileg að tvennu leyti. Maður hittir ættingja sem maður alla jafna er ekki í miklu sambandi við, einnig er gjarnan rifjað upp ýmislegt úr lífi forfeðranna sem er okkur nútímafólkinu svo framandi að við eigum erfitt með að gera okkur grein fyrir hvernið forfeðurnir lifðu lífinu. Þetta er okkur hins vegar mjög miklivægt til að ná tengingu við upprunann. Öll þessi ættarmót vörpuðu ljósi á lífskjör liðinna kynslóða.
Um miðjan nóvember boðaði Laufey systir svo til sveitabrúðkaups. Hún og Þröstur bændur að Stakkhamri giftu sig og slógu upp veislu. Það var einnig ánægjuleg stund.
Hrun bankakerfisins hefur óneitanlega sett stórt mark sitt á íslenskt þjóðlíf seinustu mánuði. Eins og lesendur þessarar síðu hafa vafalaust tekið eftir þá stendur mér ekki á sama um þá atburðarrás. Ég tel grundvallaratriði að íslensk stjórnmál og viðskiptalíf komist út úr því umhverfi sem lítið samfélag óneitanlega skapar, þar sem allir þekkja alla, og mestu máli skiptir hver sé vinur hvers, hæfi einstaklinga skipti minna máli. Það er forgangsverkefni í íslensku samfélagi að taka á hvers kyns spillingu vegna þessara tengsla.
Kæru vinir nær og fjær, bestu þakkir fyrir allt á nýliðnu ári, megi nýtt ár bera betri tíma í för með sér. Ég óska lesendum mínum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.12.2008 | 21:07
Jól
Jólin eru fyrst og fremst hátíð hefðanna. Það sem okkur finnst jólalegt er einfaldlega það sem við erum vön að gera á þessum tíma. Að gera sömu hluti á sama hátt ár eftir ár.
Seinustu jól var ég í skíðaferð með fjölskyldunni á Ítalíu. Þá voru allar hefðir rofnar og þetta voru fyrst og fremst öðruvísi jól.
Nú munum við reyna að rifja upp okkar hefðir, muna hvar skrautið á að vera og stilla því upp á sína hefðbundnu staði.
Ég óska lesendum mínum nær og fjær, ættingjum, vinum og öðrum sem villast hér inn, gleðilegra jóla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.12.2008 | 17:38
Vonbrigði og þreyta
Seinustu mánuðir hafa einkennst af miklu tilfinningaflóði.
Ég hef verið sorgmædd yfir þeim missi sem þjóðin hefur orðið fyrir vegna þess að við höfum verið rænd.
Ég hef verið öskureið út í þá sem gerðu okkur þetta.
Ég hef verið hrædd því ég veit ekki hvað tekur við.
Ég hef lagt mig fram við það að fylgjast með því sem er í gangi, á köflum verið fréttasjúk. Ég vildi ekki trúa að þetta væri að gerast, ekki heldur að þrátt fyrir ótrúlega atburðarás væri enginn sem kannaðist við að hafa gert neitt rangt. Enginn hefur sagt af sér, enginn hefur kannast við að hafa gert mistök. Algerlega vanhæfur seðlabankastjóri situr í skjóli ríkisstjórnar sem þumbast við og lætur yfir sig ganga ótrúlegar fullyrðingar. Fjármálaeftirlitið virðist hafa lagt blessun sína á gjörninga sem það hefði átt að stoppa. Grunur um að aðilar í stjórnkerfinu hafi eitthvað að fela, læðist að fólki.
Þetta er ekki einleikið.
Ég trúði því að það að þúsundir löghlýðinna borgara mættu viku eftir viku í miðbæ Reykjavíkur og sýndu óánægju sína á friðsaman og kurteisan hátt myndi hafa einhver áhrif.
Það reyndist rangt.
Til viðbótar við sorg, reiði og hræðslu þá finn ég fyrir vonbrigðum með viðbrögð stjórnvalda, þau hafa verið ótrúlega máttlaus.
Getur verið að.....................manni dettur svo margt í hug og getur bara vonað að ímyndunaraflið hlaupi með mann í vitlausar áttir.
Það hrjáir mig bloggþreyta. Biðst forláts.
Annars bara hress og kát................
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2008 | 21:38
Skúrkar, tortryggnisrófur og nytsamir sakleysingjar
Hér kemur sálgreining leikmanns á manngerðum í íslensku samfélagi þessa dagana:
Ég tel að hér séu þrjár manngerðir: Skúrkar, tortryggnisrófur og nytsamir sakleysingjar.
Skúrkarnir eru þeir sem ekki eru með hreinan skjöld. Þar á ég ekki eingöngu við lögleysur, ekki síður það sem flokkast undir siðleysi. Bæði gerendur og þá sem staðið hafa aðgerðarlausir til hliðar vitandi hvað var í gangi.
Tortryggnisrófurnar eru þeir sem sjá eitthvað gruggugt í hverju horni og eru tilbúnir að trúa öllu misjöfnu og dæma jafnvel áður en rannsókn hefur farið fram.
Nytsömu sakleysingjarnir eru þeir sem trúa ekki að nokkuð misjafnt hafi farið fram. Vilja ekki grípa inn í nokkurt ferli áður en að sekt sé sönnuð.
Skúrkarnir eru auðvitað mestu skaðvaldarnir, tortryggnisrófurnar geta einnig valdið skaða ef þær ganga of langt.
En hlutur nytsömu sakleysingjanna hefur held ég verið stórlega vanmetinn. Í skjóli hrekkleysis þeirra hafa skúrkarnir komist upp með ýmislegt.
Bilið á milli nytsömu sakleysingjanna og skúrkanna minnkar stöðugt, það styttist í að sakleysingjarnir viljandi loka augunum og líta í hina áttina, vitandi innst inni að eitthvað misjafnt gangi á.
"Auðvitað verður okkur á mistök" hafa ráðamenn sagt um viðbrögð seinustu vikna. Með þessu hugarfari sigla þeir hraðbyri inn í skúrkaliðið, hafi þeir ekki þá þegar átt heima þar.
Venjulegur almenningur fellur líklega einnig undir nytsömu sakleysingjana. Með því að loka augunum fyrir því sem er að gera er stutt í að hann falli undir skúrkaskilgreininguna.
Því segi ég: Setjið upp efasemdargleraugun og byrjið að spyrja spurninga. Ekki bíða eftir að aðrir geri það. Dæmin um undarlegt siðferði eru of mörg til að við höfum efni á að bíða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.12.2008 | 17:54
Borgarafundir - Hver er tilgangur þeirra?
Ég hef mætt á tvo seinustu borgarafundi, báðir voru í Háskólabíó. Á þeim fyrri var ríkisstjórnin í pallborði, þeim síðari forsvarsmenn stéttafélaga og lífeyrissjóða.
Ég hef velt fyrir mér tilgangi þessara funda.
Er hann sá að almenningur fái útrás fyrir reiði sína og aðilar í pallborði standi frammi fyrir fólki sem fær útrás?
Eða, er tilgangurinn að upplýsa fólk?
Ef tilgangurinn er að fólk fái útrás fyrir reiði sína þá er tilganginum náð. Hvort svo útrásin beinist að réttum aðilum er svo annað mál. Sannarlega er það góðs viti að fjöldi fólks standi upp frá sjónvarpinu og sýni samfélagsmálefnum áhuga en gangrýnin verður að vera réttmæt og byggð á því að fólk hafi fengið upplýsingar.
Þar komum við að atriði númer tvö, eru fundirnir upplýsandi? Nei ekki á nokkurn hátt. Erindin sem flutt hafa verið hafa verið tilfinningaþrungin og nokkuð einhliða, ef undanskilin er framsaga Gylfa Arnbjörnssonar í gærkvöld.
Dæmin um að aðilar í pallborði hafi þurft að svara mörgum flóknum spurningum og haft til þess einungis tvær mínútur eru of mörg. Það getur ekki verið tilgangurinn að upplýsa fólk ef ekki er gefinn meiri tími til að svara, lágmarkið væri tvær mínútur á hvert svar, en ekki tvær mínútur á hvern svaranda.
Viðskiptaráðherra fékk í gær vel orðaða spurningu um ábyrgð. Ráðherra byrjaði á að svara annarri spurningu sem hann fékk en þegar hann var rétt byrjaður á spurningunni um ábyrgð var tíminn búinn og henni var aldrei svarað. Ég hefði viljað heyra svarið.
Fundargestir á Borgarafundinum í gærkvöld virtust hafa þörf fyrir að sýna forsvarsmönnum stéttafélaganna andúð sína, eins og atburðir liðinna vikna væru á einhvern hátt á þeirra ábyrgð.
Mín upplifun af starfi innan stéttafélags og eins það sem ég hef séð til annarra félaga, er ekki að þau hafi sofið á verðinum. Hinn almenni félagsmaður hefur hins vegar gert það. Það er reynsla flestra stéttafélaga að stéttavitund fólks nú seinustu ár hafi verið af afar skornum skammti. Vilji til að fylgjast með því sem er að gerast hjá félögunum hefur verið afar daufur. Forysta félaganna er aldrei sterkari en fólkið sem stendur á bak við þau.
Á fundum stéttafélaga er oft verið að upplýsa fólk um réttindi þess og kjör. Einnig er reynt að fá fram vilja félagsmanna á áherslur í kjarasamningum. Mæting á þessa fundi er yfirleitt dræm. Ég hef setið í stjórn stéttafélags, mætt á fundi félagsins og séð þetta með eigin augum.
Þess ber þó að geta að engin hreyfing er yfir gagnrýni hafin, það er brýn nauðsyn á að veita forystu stéttafélaga aðhald, á öllum tímum, ekki bara þegar kreppa steðjar að. Því verður fólk að mæta á fundi sinna félaga og fá þar réttar upplýsingar og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Það er hins vegar miklu minna spennandi að fá upplýsingar um veruleikann en að fá útrás fyrir tilfinningar sínar.
Þess vegna er mæting á borgarafundina miklu betri en mæting á fundi stéttafélaga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
7.12.2008 | 23:04
Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands
Vinstri grænir héldu flokksráðsfund um helgina. Ég var svo barnaleg að trúa því að frá þeim kæmu hugmyndir um leiðir út úr þeim ógöngum sem við erum í.
Víst er að ég er ekki ósammála því sem birt er á eyjan.is sem helstu verkefni framundan. Flest miðar þetta að auknum ríkisútgjöldum og það er erfitt að vera ósammála átaki í velferðarmálum eins og málin standa í dag.
Spurningin sem stendur eftir hjá mér er einfaldlega: Hvernig?
Við því fékk ég ekki svar. Í flokknum um efnahags- og ríkisfjármál stendur þó:
Efnahags- og ríkisfjármál: Dreifa þarf skattbyrðinni á réttlátari hátt og skera um leið niður ríkisútgjöld, m.a. með sparnaði í rekstri stofnana, með því að skera niður hernaðarútgjöld og utanríkisþjónustu og með því að lækka laun æðstu ráðamanna og fella úr gildi eftirlaunalög byggð á sérréttindum. Breikka þarf tekjustofna sveitarfélaganna til að efla sjálfstæði þeirra og sjálfsforræði. Ganga þarf út frá því að halli á ríkissjóði og sveitarfélögum sé óhjákvæmilegur á meðan á kreppunni stendur. Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.
Þessu öllu er ég fullkomlega sammála nema hvað mér þótti sérkennilegt að stinga upp á niðurskurði ríkisútgjalda í þessum lið en allir aðrir punktar miðuðu að aukningu. Ég trúi hins vegar ekki að launalækkun æðstu ráðamanna vegi þungt, slíkt er miklu frekar táknræn aðgerð.
Hvað varðar seinustu setninguna:
Komast verður að niðurstöðu um framtíðargjaldmiðil Íslands.
Tja, þarna fannst mér bara vanta töluvert í viðbót, eins og ekki væri búið að vinna heimavinnuna, nánast eins og að mæta ólesinn í próf og skila auðu.
Já kæru vinir í VG, varðandi þessa fullyrðingu er ég ykkur fullkomlega sammála, en hvað leggið þið til?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2008 | 14:43
Gæðastjórnun í Seðlabanka
Ég starfa í vottuðu gæðakerfi. Í slíku umhverfi er nauðsynlegt að allt sé skráð og kvittað fyrir.
Ef ekki er skráð að vinnuborð hafi verið þrifin þá lítur kerfið svo á að engin þrif hafi átt sér stað.
Ef ekki er skráð að vikulegt eftirlit með tæki hafi verði gert, þá er ekki hægt að sýna fram á við úttekt að þetta eftirlit hafi farið fram og úttektaraðilar líta svo á að það hafi ekki verið gert.
Alla fundi skal skrá og einnig hvað var ákveðið sem og hvaða starfsmaður ber ábyrgð á að fylgja þeim ákvörðunum eftir.
Í Seðlabanka Íslands virðist engin svona skráning fara fram. Bankastjórinn segist hafa varað við bankahruninu munnlega á fundum sem enginn kannast við að hafa verið á, eða í símtali við forsætisráðherra. Engin skráning er til á þessu.
Í vottuðu gæðakerfi er einfalt að skera úr um svona atriði: Ef engin skráning er til á þessari viðvörun þá var hún aldrei gerð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.12.2008 | 22:29
Skortur á vitrænni umræðu
Í kjölfar hruns bankakerfisins og krónunnar hef ég smám saman komið út úr skápnum sem stuðngingsmaður þess að við hefjum aðildarviðræður við ESB. Því miður hefur skort vitræna umræðu um kosti aðildar og er íslenskur almenningur því illa upplýstur um þetta. Þar er ég sjálf engin undantekning.
Ég hef því undanfarið lagt eyrun við þegar þessi mál ber á góma en því miður finnst mér umræðan bera keim af upphrópunum. Helstu varnaglar sem ég hef heyrt tengjast sjávarútvegi og vissulega er það eitthvað sem skiptir okkur verulegu máli.
Í tvígang nú á seinustu vikum hef ég séð og heyrt það fullyrt að önnur aðildarríki muni miðað við núverandi skipulag innan ESB ekki fá að veiða svo mikið sem eitt kílógramm úr fiskistofnum sem einvörðungu eru innan íslenskrar lögsögu.
Fyrst heyrði ég þetta í viðtali við Aðalstein Leifsson í þættinum Á Sprengisandi á Bylgjunni þann 2. nóvember sl. (ef þið smellið á linkinn þá er þetta allra aftast í þættinum). Aftur sá ég þessa fullyrðingu í færslu hjá Árna Snævar í gær:
miðað við núverandi reglur hefur engin þjóð rétt á fiskveiðikvótum í íslenskri lögsögu, Íslendingar myndu sjálfir semja tillögur um skiptingu kvóta og sjá um fiskveiðieftirlit, þó vissulega þyrfti ráðherraráðið að gefa endanlegt grænt ljós.
Þrátt fyrir þetta fullyrða margir og þar á meðal forsvarsmenn LÍÚ, að með aðild að ESB myndum við afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlind sjávar.
Ég fer fram á vitræna umræðu um þetta. Þetta hlýtur að vera einfalt atriði að skera úr um og ljóst hvernig núverandi reglur eru. Það er ólíðandi að andstæðingar aðildar fari fram með staðlausar fullyrðingar og drepi þannig vitrænni umræðu á dreif.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.12.2008 | 21:36
Davíð fyrir viðskiptanefnd Alþingis
Á fimmtudag fyrir viku var Davíð Oddsson seðlabankastjóri kallaður fyrir viðskiptanefnd Alþingis og átti hann að skýra út fyrir nefndinni hvað hann átti við þegar hann sagði að hann vissi hvers vegna Bretar beittu hryðjuverkalögum á okkur.
Öll þjóðin beið í ofvæni eftir að fá að heyra hvað þetta gæti verið. En, nei höfðinginn var eitthvað vant viðlátinn og mátti ekki vera að því að hitta nefndina.
Og hvað svo?
Enginn fjölmiðill hefur svo ég hafi tekið eftir, sagt frá því að karlinn hafi verið kallaður aftur fyrir.
Er málið bara dautt af því að seðlabankastjóri mátti ekki vera að þessu og lítilsvirti nefndina?
Eða..............hefur nefndinni verið tjáð hver ástæðan var og sannleikurinn er þess eðlis að við megum ekki vita?
Eða..............var þetta bara show, þ.e. ætlaði nefndarformaðurinn bara að nýta augnablikið og vera svalur og bjóða Davíð birginn?
Eða.............hefur nefndin ekki það vald að geta skikkað Davíð til að koma og skýra frá þessu?
Eða............eitthvað allt annað sem ég hef ekki hugmyndaflug í að giska á?
Hver sem ástæðan er þá er full ástæða til að fjölmiðlar fylgi þessu eftir. Mér vitanlega hefur það ekki verið gert, gæti þó hafa misst af því og væri þakklát fyrir ef einhver benti mér á ef svo er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)