Ferð um gömlu Sovét 5. kafli

Þetta er framhald af ferðasögu minni um gömlu Sovétríkin. Hér má sjá 1. kafla, 2. kafla, 3. kafla og 4. kafla.

Eftir viðburðaríka dvöl í Kiev, var komið að því að skoða Odessa. Sú borg kom mér mun meira aðlaðandi fyrir sjónir en sérstaklega Leningrad sem var verulega fátækleg en einnig var Kiev frekar grá. Í Odessa voru kaffihús og lifandi mannlíf á götum. Rússneska leiðsögukonan skýrði þetta með því að mun meiri matvælaframleiðsla væri þarna sunnar, nauðþurftir bárust illa norður til Leningrad og skýrði það mun meiri fátækt fólksins þar. Vörurýrnun í flutningum var verulegt vandamál og spilling í öllu kerfi var grasserandi.

Frá Odessa lá leiðin til Moskvu. Moskvu minnist ég helst vegna mikillar mengunar, öll föt urðu strax grá af sóti. Einnig er mér Rauða torgið minnisstætt og ekki síst grafhýsi Leníns, þar lá karlinn smurður og fínn, sá það með eigin augum.

Frá Moskvu flugum við svo til baka til Kaupmannahafnar. Við Sigrún vorum örlítið spenntar að vita hvort við myndum lenda í einhverri athugun eða yfirheyrslu vegna pappírsins sem festur var við landvistaleyfið hennar og bókstafsins sem skrifaður var á mitt. Svo reyndist ekki vera.

Flugið var seint á föstudagskvöldi. Í vélinni fór ég að finna fyrir miklum magaverkjum og vott af ógleði. Maturinn sem við fengum í Sovét var ekki það mest kræsilega sem ég hef fengið um dagana. Allt drykkjarvatn var soðið og við drukkum mikið te. Mig grunaði að þessir verkir tengdust matnum eða drykkjarföngum.

Á Kastrup tóku ættingjar Sigrúnar á móti okkur en við fengum að gista hjá frænku hennar sem bjó í Kaupmannahöfn. Við ætluðum að dvelja þarna í nokkra daga og skoða okkur um, heimferð var áætluð á miðvikudegi, á fimmtudegi var 1. september og þá átti ég að mæta í fyrsta skipti á nýjan vinnustað, Blóðbankann.

Á Laugardeginum fórum við í ferð að einhverjum kastala og um kvöldið í Tivoli. Ég var alltaf með þessa magaverki og ætlaði ekki að komast heim með lestinni um kvöldið, gat varla gengið. Sigrún er hið mesta hörkutól og var augljóst að henni fannst ég fullaum. Á sunnudagsmorgun var ég algerlega að farast, frænkan gaf mér gammel dansk en allt kom fyrir ekki. Þar kom að Sigrún yfirheyrði mig um verkina og kom þá í ljós að þeir voru mestir í botnlangastað. Ég var flutt á spítala og skorin upp um kvöldið við botnlangabólgu.

Ég get enn þann dag í dag ekki hugsað þá hugsun til enda hvað hefði gerst ef þetta botnlangakast mitt hefði orðið tveim dögum fyrr, í Moskvu.

Sigrún var á þessum tíma í námi í sjúkraþjálfun og var hún dugleg að koma mér fram úr rúminu strax á mánudag, ég þurfti að verða ferðafær á miðvikudag. Ég man að ég var aum eftir uppskurðinn og gat varla gengið.

Frænkan hjálpaði Sigrúnu að panta hjólastól á Kastrup þannig að ég þyrfti ekki að ganga alla flugstöðina. Við mættum tímanlega á flugvöllinn en þegar þangað kom var þar enginn hjólastóll. Við tékkuðum farangurinn inn og biðum........og biðum. Á skjá mátti sjá að farið var að hleypa inn í flugvélina. Þolinmæði okkar var á þrotum og á endanum fékkst stóll. Starfskona á vellinum keyrði stólinn og Sigrún fylgdi með. Á leiðinni að vélinni sást á skjá: "Gate closed" fyrir okkar vél. Svitinn bogaði af Sigrúnu því hún var með þungar töskur í handfarangri. SAS konan sem keyrði stólinn minn var ekki ánægð með þá þjónustu sem við höfðum fengið.

Þegar við komum að vélinni var beðið eftir okkur þar sem farangurinn var þegar kominn. Enn og aftur slapp ég með skrekkinn.

Þegar til Keflavíkur kom var ég fær um að ganga með því að liggja framá töskugrindina. Ég man eftir tortryggnissvip tollvarðanna þegar ég gekk þar framhjá, náföl og liggjandi fram á grindina.

"Nei, ekki taka mig, ég nenni þessu ekki", hugsaði ég. Það dugði, þeir hleyptu mér í gegn.

Ég hafði þurft að hringja heim og biðja systur mína um að hringja í nýju yfirmenn mína og tilkynna að ég myndi ekki mæta í vinnu fyrsta vinnudaginn minn. Það leit ekki vel út að byrja í nýrri vinnu með því að tilkynna veikindi.

Þessi ferðasaga hófst með því að ég keypti mér tvo vinstrifótarskó. Ferðin sjálf var bráðskemmtileg en það má segja að hver vinstrifótaruppákoman hafi rekið aðra. Því segi ég það að hendi það mig aftur að kaupa tvo vinstrifótarskó þá ætla ég að halda mig í rúminu í nokkra daga.

Kveikjan að því að ég settist niður til að skrifa þessar minningar var að nú í september eru 20 ár síðan ég byrjaði að vinna í Blóðbankanum, þegar ég minntist þess rifjaðist þessi ferð upp fyrir mér. Ég er enn að vinna í Blóðbankanum, þó ekki samfellt allan tíman þar sem ég var fjögur og hálft ár á öðrum vinnustað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

EN fékk eiginmaðurinn lykilinn að bílnum?

Bryndís (IP-tala skráð) 25.9.2008 kl. 19:51

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Nei, hann beið bara á flugvellinum á meðan ég var í ferðinni!

Nei grín, hann fékk lykilinn, reyndar kom flugfreyja til mín í vélinni áður en hún fór í loftið og spurði hvort ég væri með bíllykilinn. Darri var búinn að átta sig á að ég væri með lykilinn og bað um að ég væri rukkuð um hann. Ég sagði flugfreyjunni að ég hefði beðið starfsmann fyrir lykilinn og hann komst til skila

Kristjana Bjarnadóttir, 25.9.2008 kl. 21:10

3 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Vó,  þvílíkt ferðalag. 

Anna Einarsdóttir, 25.9.2008 kl. 23:16

4 identicon

Ég er nú að treina mér að lesa þetta, mikið að gera hjá manni og svona, en langaði bar a að láta vita að ég skrifaði líka framhaldssögu á mitt blogg hér um árið.

Sú epíska saga heitir "Harmleikur í Húsasmiðju" og segir frá viðskiptum mínum við Húsasmiðjuna, varstu búin að skoða það? Var fært inn í desember 2004...

http://yfirzetor.blogspot.com/2004_12_01_archive.html

Mundi (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 10:52

5 identicon

Þetta er helvíti hressandi og skemmtileg saga

Andri Valur (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 13:38

6 identicon

Það hellist bara yfir mann tómleikatilfinning þegar "The End" birtist á skjánum eins gott að það er Saumó framundan:)

Ásdís (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 18:36

7 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Anna, það er ekki laust við að ég sé til í að verða ung aftur þegar ég rifja þessa sögu upp, þetta yndislega kæruleysi, ferðast ótryggður um Sovét (ég gleymdi líklega að taka það fram að ég var ekki með neina tryggingu, úps). Svoleiðis gerir maður ekki á gamals aldri.

Mundi, jamm Húsasmiðjan........ekkert mál! eða þannig. Ég á eina svipaða sögu um Tryggingastofnun. Hún er frá því í sumar, hef ekki viljað þreyta lesendur mína á þeirri dellu.

Takk Andri.........þetta var líka skemmtilega ferð.........sérstaklega eftirá.

Ásdís, sjáumst í saumó, því miður held ég að ég eigi ekki neina meira krassandi ferðasögu í pokahorninu.

Það er óneitanlega gaman að rifja svona upp, sannarlega er bloggið ákveðið tæki til þess, ég myndi aldrei nenna að skrifa þetta bara svona inn í tölvuna til að geyma. Mest sé ég eftir að hafa ekki skrifað meira um ferðina sjálfa á sínum tíma því það var margt merkilegt sem við sáum og upplifðum. Því miður er ég búin að gleyma mörgu af því. Já maður ætti og hefði átt að halda dagbók, í raun þá lifum við öll alveg stórmerkilegu lífi. Við gerum okkur bara ekki grein fyrir því svona dagsdaglega.

Ekki satt?

Kristjana Bjarnadóttir, 26.9.2008 kl. 22:04

8 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Jú..... hvert og eitt okkar á sér sína sögu og hver saga ólík annarri. 

OG Kristjana !  Þú ERT ung ennþá. 

Anna Einarsdóttir, 29.9.2008 kl. 23:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband